Jónsbók (2004)/Framfærslubálkur
Höfundur: óþekktur
Framfærslubálkur
Hér hefur upp hinn sjaunda hlut lögbókar er heitir framfærslubálkur og hefst hann fyrst með því að segir hverir ómaga eiga fram að færa og hversu mikið fé er þeir skulu eiga fyrir sjálfa sig og ómaga sína
1.
Hver maður á fram að færa föður sinn og móður, hvort sem hann er skilgetinn eður frilluborinn, og svo börn sín. Nú á hann eigi svo fé að hann megi annast þau, þá skal hann þó til leggja allt slíkt sem hann þarf eigi til matar sér og klæða, og sé þau færð með þessu tillagi þeim á hendur er þá er næstur arfi og forlagseyri á til. Ef maður á sér tveggja missera björg, og þeim er áður eru á fénu, þá skal hann framfæra systkin sín ef hann á og fyrir þau tveggja missera björg er þá bjóðast á féið, ef þau eru hans arfar eður hann þeirra arfi. Frá þessum ómögum skal maður eigi seljast arfsali og öngum þeim er áður eru komnir á féið eður hann er arftökumaður eftir, eða þeir hans, og sé þeir þá ómagar. En þó að hann selist, þá skal það eigi haldast, og segja lög það arfsal laust. En þá er tveggja missera björg, er hálft fjórða hundrað er ætlað karlmanni en hálft þriðja hundrað konu, hvort sem maður er ungur eður gamall. Þegar skal honum fullan forlagseyri ætla er hann má eigi vinna sér fulla fæðu, þó að hann megi nökkuð til gagns vinna þeim sem hann er með. En ef ómagar eru firnari, þá skal sá framfæra er arfi er næstur, ef hann á forlagseyri til. Nú þarf sá maður framfærslu er óskyldri er en fyrr segir eða þrímenningur og þar í milli, þá skal ætla honum fjögurra missera björg. En ef ómagi er óskyldari en þrímenningur, þá skal ætla honum sex missera björg. En ef ómagi er fjórmenningur, þá skal ætla honum átta missera björg, svo mikið á hverjum tólf mánuðum sem fyrr segir, bæði þeim er fyrir eru á fénu og svo þeim er þá kemur á féið. Skal allt til virða utan búsgögn og verkfæri og einföld klæði bæði dag og nátt. Nú er nökkur þessarra arfi annars hvors sín í milli, þá skal eigi meiri forlagseyrir fyrir þeim standa áður hann er skyldur þann fram að færa en fjögurra missera björg, þar minni sem fyrr segir. Nú minnkar forlagseyri fyrir manni síðan ómagi kemur á hendur honum, þá hverfi ómagar af fé hans eftir réttri tiltölu, þeir fyrst sem óskyldastir eru. Eigi skal ómaga telja framar en á fé þess hjóna sem ómaginn er skyldur, og hverfi af fénu þegar hann er sextán vetra ef hann er heill og verkfær.
2. Hér segir hversu hjón skulu hafa hvort fyrir öðru og um þrot
Skylt er hvort hjóna annað fram að færa á fé sínu. Hvort hjóna sem það er að framfærslu þarf, verður ótt eður fær annan krankleika. En ef þau hafa meður minna fé saman komið en þá væri til þriggja hundraða, og aldri urðu þau svo rík að þau ætti konungi skatt að gjalda, þá sé hvort annars handbjargarómagi eður flytist með hrossi ef þau fá eigi fyrir unnist. Og þeirra börn skulu eigi á hreppa segjast, æ meðan þau fá flutt með fyrra skilorði. Þar skal þrot heita sem ómaginn er þá er sá andast frá er með handbjörg sinni átti fram að færa eða fyrr sögðum flutningi. Nú sækir þrot bónda í héraði, þá skal skipta ómögum þeirra eftir því sem félag þeirra var gjört. Skal móðir færa ómaga sína á hendur frændum sínum, þeim er arfi eru næstir, ef þeir eigu fé eða forlagseyri til svo mikinn sem fyrr skilur. En ef af gengur forlagseyrir af því fé, þá skal hann taka ómaga svo marga sem hann á forlagseyri til. En þeir sem umfram eru fari þeim á hendur sem arfi eru næstir, ef þeir eigu forlagseyri til. En ef sá á eigi forlagseyri til, þá skulu ómagar fara fram í ætt til þess er á forlagseyri hittir. Með sama hætti skal og skipta þeim ómögum er feðrunum fylgja. Svo skal og fara um þá ómaga er fyrri talaði um, að þeir skulu fara fram í ætt. Nú festir maður ómaga í vist, þá skal það haldast. En ef hann vísar honum úr vist og lætur hann ganga á fátæki bæja í milli, þá skal hann gjalda konungi sex aura og varðveiti þó ómaga sem mælt er. Svo skal og hver gjalda sá maður er ganga lætur sinn ómaga á fátæki bæja í milli sem nú var skilt. En eigi er maður skyldur að fæða eður fúlgu fyrir að inna fyrr en hann veit að hann er hans ómagi. Svo skal og ómögum í ættir skipta ef annað hvort hjúna er andað.
3. Hér segir hversu menn skulu skipta félausum ómögum
Nú skipta menn félausum ómögum sín í milli hvar sem þeir skipta og hluta síðan, þá skal það skipti haldast þeirra í milli síðan, með hvorum sem andast, þá skal það þess nyt. Svo og þó að meiri ómagar verði en þá er skipt var, þá ábyrgist sá það er hlaut. Þeir skulu örfum fylgja ef sá er ómagi er fé á.
4. Hér segir hversu gamall maður á fjárhald sitt
Ef maður kemur í ómagaskipti þá er hann er úr ómegð og er hann þá tuttugu vetra gamall, og á að taka við fé sínu og fá fjárhald sitt hverjum er hann vill, ef hann kann eigi sjálfur fyrir að sjá, og svo öll önnur forræði fjár síns. En ef karlmaður kvongast yngri en tvítögur fyrir utan frænda sinna ráð, hafi fyrirgert landsskyldum sínum og ávexti fjár síns við erfingja eður fjárhaldsmann. Nú kemur sá ómagi á hendur manni er hann á eigi að varðveita, þá skal hann þeim heim stefna er varðveita á. Svo skulu vottar hans mæla: Hér er sá ómagi er þú átt að annast en eigi sá er hingað færði, þá skal hann fela honum á hendi ábyrgð þess ómaga. Eigi skal þurfa að lögbjóða ómaga fleirum en einum, utan sá sýni meður skilríki í lögligan stefnudag að nökkur standi jafnfram honum, þeirra sem fullan forlagseyri eiga. Skal þá ekki dæmast framar á hann en eftir réttri tiltölu. Nú kemur ómagi á hendur manni utan lögmanns úrskurð eður þingmanna dóm, gjöri hvort er vill. Láti fara aftur á hæl ella til þings, og meti þingmenn hvert færa skal. En ef á hæl færir, þá flyti aftur að sömum náttstöðum sem þangað fór til hans. Sekur er hver eyri við konung er eigi vill við taka. Nú sá er eigi vill við taka, bæti eftir lagadómi fullar bætur, og svo þegn ef hinn deyr af bjargleysi. Ef maður rangfærir ómaga, gjaldi þeim fullan kostnað er til var færður allan slíkan sem hann hafði fyrir. Nú eigu menn ómögum að skipta og vill annar skipta en annar eigi, þá skal sá er skipta vill stefna hinum til ómagaskiptis, og ef hann kemur þar þá er vel. En ef hann kemur eigi, þá leiði hinn votta sína að hann hefir honum þangað stefnt á þann dag. Síðan skipti sex skynsamir menn þeim ómögum og leggi hluti á, og hafi hann sinn hlut í brott en ábyrgi hinum sinn hlut er eigi kom.
5. Hér segir hvað sá maður skal taka er framfærir þann ómaga er annar er erfingi hans ef hann á fé eftir
Ef maður færir fram þann ómaga er hann er skyldur til fyrir laga sakir, þó að annar sé erfingi, og beri síðan arf eður réttarfar undir þann ómaga eða með hverjum hætti honum aflast fé. Og ef sá á fé eftir sem fram er færður þá er hann andast, þá skal sá er ómagann færði fram eða þess erfingi taka ávaxtalaust slíkt sem hann lagði fyrir hann en erfingi slíkt sem auk er. Nú veitir maður manni fyrir guðs sakir þeim er hann er fyrir laga sakir eigi skyldur fram að færa, þá skal guð það ömbuna honum en koma eigi fé fyrir, hvorki við hann né við hans erfingja.
6. Hér segir hversu gera skal ráð fyrir börnum útlendra manna hér á landi
Ef sá maður á barn ómaga frilluborinn út hér, er hann er norrænn eða hjaltlenskur, orkneyskur eða færeyskur, og hvaðan sem hann er úr Noregs konungs ríki, og ef barn er fætt áður hann fer í brott, eða veitir hann viðgöngu að hann er faðir þess barns, þó að það sé síðar fætt, þá skal hann leggja eftir peninga svo að barnið hafi fulla hjálp sér til fósturs næstu tólf mánaði. Nú fæðist barn síðan hann er í brottu og hefir hann áður ekki ráð fyrir gjört, þá skal rita í þann kaupstað er sá maður sigldi af er það barn á og skal sýslumaður, ráðsmaður eður gjaldkeri í þeim kaupstað senda peninga í móti því barni, og svo fyrir þann kostnað er áður hefir fyrir því hafður verið af sjálfs hans fé, og svo í móti því barni er áður var fætt. Það er staðfest í lögum að allir þeir fátækir menn sem með vonarvöl ganga og þiggja ölmusu eru skyldir að leiða börn sín eða annan veg að flytja eftir því sem skynsamir menn sjá að þau fá orkað, og svo föður sinn og móður, utan son eður dóttir vinni sér áður tveggja missera björg, þá eru þau eigi skyld að ganga á fátæki meður föður eða móður.
7. Hér segir um flutning fátækra manna
Fátæka menn þá alla sem frændur þeirra hafa eigi forlagseyri fyrir þá að leggja og sjálfir eiga eigi fé fyrir sig að leggja og eigi eru færir til að flytja sig, þá er hver bóndi skyldur að flytja þá og fæða eftir því sem hreppstjórnarmenn gjöra ráð fyrir. Einvirki er skyldur að flytja sem fullur bóndi. Svo þarf fátækur maður guðs sem hinn er meira á og flyti eftir boðburð allir úr bæ, sá fyrst er fremstur situr á boðleið, og flyti til næsta bæjar. Sekur er hver eyri við konung ef hann flytur eigi svo. Nú flytur hann í auðn eður þagað sem hinn fátæki deyr af hans fylgd eður skynsömum mönnum virðist af hans völdum orðið hafa, og svo ef hann vísar fátækum manni frá sér og vill eigi herbergja hann, og deyr hann af því. Sá er að slíku verður vitnisfastur, sem guð láti öngvan verða, þá skal hann bæta þann mann fullum bótum erfingjum hins dauða eftir dómi skynsamra manna eftir atvikum, og svo konungi þegn. Og akti þeir er dæma innvirðuliga dóm sinn þar um, að slíkar óvenjur megi eigi of mjög í vanda dragast. Nú vill hinn eigi við taka er fyrir situr eður inn láta leiða, þá nefni sá vitni til er flutti og ábyrgi hinum síðan er við skyldi taka, þá er hann við laus. En ef hinum fátæka manni verður síðan annað hvort, að hann deyr af frosti eður bíta dýr eða hundar til bana, þá er það þess bónda ábyrgð er hann lét úti liggja. Eigi skal fátæka menn flytja síðan sólu er sett. Sól skal um sumarsdag ráða en dagur um vetur. En þeir sem flytja sig sjálfir hafi hús heimil á veturinn þá er hálfrökkvið er. Sekur er hver tveimur aurum við konung er synjar, nema hinn fátæki deyi úti, þá sé undir lagadómi, nema sjálfur hafi í fyrstu vísað sínum ómaga af hendi sér, þá ábyrgist hann ef hann hefir fullan forlagseyri fyrir hann að leggja. Það er og einkanliga boðið ef fátækur maður verður sjúkur og beiðist prestsfundar, þá er bóndi skyldur að fara eftir presti og flytja eigi hinn sjúka úr húsum sínum fyrr en prestur kemur til hans. Sekur er bóndi þrimur aurum við konung ef hann fer eigi eftir presti, nema nauðsyn banni. En ef prestur vill eigi fara, þá ábyrgi hann honum með vitnum. Nú skal fátæka menn herbergja um nætur en reka eigi út síðan sólu er sett. En ef nökkur rýfur þessa skipan um fátæka menn, þá er sá slíku sekur sem áður vottar og gangi til skrifta og bæti við guð er hann vildi eigi hjálpa kristnum manni.
8. Hér segir hversu arfsalskaup skal gera eftir lögum
Engi maður skal kaupa arfvon að öðrum, því að oftast verður það nökkurum vælakaup. En þó að nökkur kaupi, þá skal eigi haldast nema sjálfur leysi sinn arf til þess að ættleiða frænda sinn, því að þann arf á hver að hafa sem guð vill að hann verði erfingi að. Seljast má maður arfsali ef hann vill ef enginn er sá ómagi er hann á fram að færa, eður fær þeim áður staðfestu meður því móti að sex skynsamir menn gjöri það kaup með honum, og þeim er við tekur, svo að þeim þikki eigi arfsvik gjör við erfingja. Og svo þó að aðrir gjöri eigi það kaup með þeim ef erfingi lofar, og sé hann fulltíða maður og kaupum sínum ráðandi. En sá er arfsali vill seljast skal fyrst bjóðast hinum nánustum frændum sínum við vitni við sér að taka, þeim sem fullar vörslur hefir, nema hann vili gefast í klaustur eða til byskupsstóla, þá má hann það gjöra þó að hann bjóðist eigi frændum ef hann staðfestir ómaga sína áður.
9. Hér segir hversu löghreppar skulu vera og framfæri manna
Löghreppar skulu vera svo sem að fornu hafa verið. Eigi færi bændur í hrepp en tuttugu. Skal engi þeirra eiga minna fé en tíu hundruð. Rétt er að skipta hreppum smæra til tíunda og matgjafa ef þeir vilja. Fimm menn þá er best þikkja til fallnir skal nefna til að hafa stjórn og forsjá fyrir því er hreppinum varðar, og að skipta tíundum öllum og matgjöfum þeim er fátækir menn eiga, og af heilagra daga veiðum. Þeim mönnum skal fyrst tíundir ætla er öngva eigu framfærslumenn og eru þó þar hreppsmenn. Síðan þeim er þeim þikkir mest þörf ef betur vinnst. En þeir eru þar hreppsmenn sem þar hafa uppfæðst eður þar sem erfingi hans er vistfastur, þrímenningur eður nánari. En ef þeir ómagar eru framfærslulausir sem öngvan eiga þrímenning eður nánara þann sem vistfastur er, þeir eiga jafnheimilan flutning sem fyrr segir í öllum hreppum þar sem þeim þikkir sér mest hjálpar von. Ef ómagi er færður á hendur manni eða settur niður í hrepp að ólögum, og hvert annað mál er maður þikkist þings við þurfa, þá skal sá þingi ráða er þings er þörf, þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum. En sá er fellir, sekur eyri við konung. Ef fátækir menn skjóta niður börnum sínum aflögliga, þá er rétt hreppstjóra þeim sem næstur er og bóndum með honum að taka þann mann og binda ef þarf, og færa aftur og binda barn á bak honum og láta hann sjálfan bera brott af hreppinum. Þeir menn sem eigi vilja halda það sem hreppstjórar skipa lögliga, gjaldi hálfa mörk, hálft konungi en hálft hreppstjórnarmönnum, og leggist þær tólf álnar til fátækra manna.
10. Hér segir hversu boð skal bera réttliga
Sá skal boð bera bæja í milli er hyggja kann fyrir orði og eiði. Bónda skal boð í hendur fá ef hann er heima. En húsfreyju hans ef hann er eigi heima. Syni hans ef hann er fulltíða maður. Dóttur hans ef hon er vaxin. Þar næst brytja eða hinum besta manni er í bæ er staddur. En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli. En ef hann má eigi inn komast, þá skal boð binda yfir miðjar dyr svo að hver megi sjá er inn gengur. En sá bóndi á að ganga til þeirra manna er boð báru honum og spyrja þá hvað boð segir, og bera síðan til næsta granna á boðleið. Héraðsmenn skulu reiða náttstaði að boði. Þangað skal boð bera fyrstan dag sem rétt er og svo annan og hinn þriðja, og eigi seinna upp skera en boð megi vel náttstað ná. Sá maður sem boð fellir svari sekt fyrir alla þá sem á þeirri boðslóð kom eigi boð til forfallalaust. Nú skal sá sem fyrir situr vita hvern tíma dags boð kemur til hans, með vitnum ef til eru. En ef eigi eru vitni til, þá skal sá synja meður lýritareiði er þangað bar. Nú kallast maður borið hafa boð til granna síns en hinn kveður nei við er fyrir situr, þá skal sá er þangað bar sanna meður lýritareiði að hann bar boð eigi seinna en hann átti að lögum að bera, þá skal sá gjalda boðfall er fyrir situr. Ef maður fellir boð það er stefnt er þing að heyra konungsbréf, manndrápsþing eður manntalsþing til jafnaðar á vorið, eður hreppstjórnarþing á haust, sekur tveimur aurum við konung fyrir hvert. Nú er þegar boðfall er eigi sækir boð náttstað og það annað ef eigi verður borið. Það hið þriðja ef maður fær í hendur ómaga, yngra en sextán vetra. Ef maður flytur hús sín af fornum tóftum og á þær tóftir sínar er honum hagar betur innan garðs, þá skal til þeirra húsa boð bera og fátæka menn flytja. En ef firr setur niður, ábyrgist sjálfir að öllu. Engi skal boð bera á hönd öðrum síðan sólu er sett um sumar en degi um vetur, og svo um fátæka menn hið sama.
11. Hér segir hversu fara skal um boðburð á eyðijörðum
Hvervetna þar sem maður slær eður sær eyðijörð sína og eru hús á þau sem menn mega í vera, þá skal hann halda upp boðburð öllum. Nú vill sá eigi boð bera eða fátæka menn flytja er eyðijörð á, þá flyti sá sem næstur býr eyðijörðinni þangað sem menn eru fyrir og hafi að heimilu lóð hálfa nema hinn komi öðru kaupi við. En ef fleiri menn búa á einni jörðu, þá skulu þeir skipta að jafnaði sín í milli eftir bónda ráði, bæði boðburð og förumannafærslu eftir því sem hver hefir af jörðu. En á nýlendum öllum innan hrepps beiði sá bændur boðgreiðslu á þingi er jörð á eða umboðsmaður hans.
12. Hér segir hver þing einvirkjar eiga að sækja að lögum
Nú skulu bændur allir til þings fara þegar boð kemur til húss nema einvirkjar einir. Þeir skulu fjögur þing skyldir að sækja. Það þing sem konungsbréf skal upplesa og manndrápsþing og manntalsþing til jafnaðar, og það þing er hreppstjórn heyrir til. En öll önnur þing skulu einvirkjar heima sitja ef þeir vilja. Sá er einvirki er honum fylgir yngri maður til verks en sextán vetra, hvort sem hann er son hans eða annars manns. Ekkja og ófær bóndi skulu því aðeins til þings fara ef þau vilja, en allir bændur aðrir skulu fara til þings þegar boð kemur til bæjar, ella gjaldi þingvíti eftir lögum. Nú ef boð kemur svo síðarla til bónda og er svo löng leið til þings að bóndi má eigi til þings koma að miðjum degi, og hefir hann til þess tvau löglig vitni, þá má hann heima sitja að ósekju. En ef fleiri menn verða fyrir einni sök en einn um þingvíti, þá má boð stefna þeim þing er áður eru á lagðir fyrir vottum. Rétt er að bóndi bjóði um öðrum manni þá er tíundaskiptisfundur skal vera, að hann man gegna slíku sem menn verða þar ásáttir ef honum er óhent að fara, og skal hann segja á hversu mörg hundruð þangað er að skipta manneldi ef menn vilja vista eður fæða fátæka menn, og svo fyrir hversu marga menn þar skal matgjöf gefa, og hversu mikil þar er tíund. Skyld er ekkja og ófær bóndi að segja umboðsmanni sínum hversu mikil tíund og matgjöf þar er þá er tíundaskiptisfundur skal vera. Svo skulu hreppstjórnarmenn skipta manneldi að þar verði jafnmikil gisting þeirra manna er þar eru hreppsmenn, nótt á hverjum tíu hundruðum þar til að er hundrað hundraða. En síðan nótt á hverjum tuttugu hundruðum þar til sem eru tvau hundruð hundraða. En þó að fé sé meira þá eykst það ekki til manneldis nema hreppstjórnarmönnum sýnist annað sannara. Þá menn skal svo ala er þar eru hreppsmenn og öngvan eiga frænda þann er forlagseyri haf til að færa hann fram svo að menn viti, ella fari til frænda. Búlausir menn ef penga eiga, svari manneldi og öllum hreppsnauðsynjum að jafnaði sem hreppstjórnarmenn gjöra ráð fyrir.
13. Hér segir hver skrúðklæði menn eiga að bera
Það er öllum mönnum kunnigt um þann mikla ósið er menn hafa hér meir í óvenju dregið í þessu landi en öngu öðru svo fátæku um skrúðklæða búnað, svo sem margir hafa raun af meður stórum fjárskuldum, og missa margir menn þar fyrir marga aðra þarfliga hluti. En hinn fátæki þarfnast sinna hjálpa og fyrir það liggur margur til dauðs úti frosinn. Því gjörum vær öllum mönnum kunnigt að hver sá maður sem hann á tuttugu hundruð fjár og eigi minna, hvort sem hann er kvongaður eður eigi, má bera eina treyju með kaprúni af skrúði. En sá sem á fjóra tigi hundraða má þar með bera einn skrúðkyrtil. Sá sem á átta tigi hundraða má bera þar með ólpu eður kápu tvídregna fyrir utan gráskinn. En sá sem á hundrað hundraða, hann má að frjálsu bera þessi klæði öll. Lærðir menn megu bera þau klæði sem þeir vilja og þeir handgengnir menn sem sér eiga skyldarvopn. Svo og þeim mönnum sem utan hafa farið er lofað að bera þau klæði er þeir flytja sjálfir út meðan þau vinnast þó að þeir eigi minna fé en fyrr skilur. En eigi skulu þeir kaupa hér á landi sér til burðar framar en fyrr segir. Nú ef nökkur ber skrúðklæði sá er minna fé á eður öðruvíss tilkomin en hér vottar, þá er sá sekur tveimur aurum fyrir hvert við konung utan honum sé gefin, nema konur beri.