Fara í innihald

Jónsbók (2004)/Kvennagiftingar

Úr Wikiheimild

Hér hefur upp hinn fimmta hlut lögbókar og segir fyrst um kvennagiftingar og hver giftingarmaður þeirra skal vera

1.

Faðir og móðir skulu ráða giftingum dætra sinna ef þau eru til. En ef þeirra missir, þá skulu föðurfrændur og móður hinir nánustu giftingum ráða. Nú eru bræður nánastir og skilur þá á, þá skal sá ráða sem hennar ráði fylgir ef það þikir jafnræði og svo skal hvervetna þar sem fleiri eru jafnkomnir til. Giftingarmaður skal skilja heimanfylgju og tilgjöf fyrir frændkonu sína, svo sem þeim kemur ásamt, þeir skulu og þá eindaga nær brullaup skal vera. Eigi skal hér á landi gefast meiri tilgjöf mey eður konu en til sextíu hundraða þó að menn sé ríkir og hvergi meira en fjórðungur úr fé hans. En ef maður gefur í bestu eign sinni þá skulu erfingjar hans leysa til sín ef þeir vilja. Nú ef þá skilur á um máldaga, þá láti festarmaður bera tveggja manna vitni um heimanfylgju hvað mælt var þeirra er hjá voru. En ef þá skilur á um tilgjöf, þá njóti giftingarmaður tveggja votta með fyrra skilorði. Eigi skal í klæðum meira heiman gefast en þriðjungur, en það sem meira gefur giftingarmaður þá skal vera í þarflegum peningum að það megi verða þeim til þarfa eður afla er konu fær. En önga heimanfylgju má arfi giftingarmanns rjúfa þá er svo er gjör sem nú var skilt. En ef kona eður mær, utan ekkja, giftist fyrir utan ráð föður og móður eður bróður síns, eður þess er giftingarmaður er fyrir ráði hennar, hafi fyrirgjört arfi eftir giftingarmann þann sem hún stóð til nema hann vili meiri miskunn á gjöra, utan giftingarmaður vili firra hana jafnræði, þá má hún giftast með annarra skynsamra frænda sinna ráði ef þeim líst jafnræði eður betur og megu þeir með eiði sínum sanna, og á þó að leita þessa áður við giftingarmann. En giftingarmaður er faðir eður bróðir samfæddur, þar næst móðir skilfengin ef hún er til, þá er karlmaður tvítugur eður ellri sá sem næstur er erfðum eftir þá konu er giftist. En sá sem slíks dirfist gjaldi fullrétti giftingarmanni eftir tólf manna dómi eða fari útlægur af þeim fjórðungi, nema öðrum frændum virðist jafnræði vera. Ekkja má gifta sig sjálf hverjum sem hún vill með nokkurs frænda ráði. En konur þær sem ljást til þess að lokka til slíks eður annars saurlífis börn manna eður frændkonur og verður það vitnisfast, þá bæti eftir tólf manna dómi peningum sú sem fé hefur til en hin hafi refsing eftir dómi.

2. Hér segir um kvenna fé

Ef dætur verða föður síns arfar, móður eða bróður, eður hverskis arfar þær verða, sumar giftar en sumar ógiftar, þá skulu þær sem ógiftar eru taka svo mikið fé af óskiptum arfi sem þær höfðu er heiman voru giftar. En þó allar sé heiman giftar og er eigi skipt heimanfylgju til jafnaðar þeirra í millum, þá taki þær af óskiptum arfi jafnmikið sem sú er mest hafði heiman æ meðan fé vinnst til. En ef fé eður arfur vinnst eigi, leggi aftur til jafnaðar nema eigi væri meira heiman gefið en slíkt kæmi þá á hverrar hlut. Gripir þeir allir sem lénir eru til heimanfylgju og eru metnir og myndir í hendur þeim sem konu fær og á hann þá jafnheimila sem faðir eður móðir léti heiman fylgja. En ef hinn segir að hann léði eigi til þess þeirra gripa, þá sveri hann einseiði, karlmaður sem kona, og sæki til jafnmikils giftingarmann konunnar og skerði það tilgjöf hennar eftir réttri tiltölu. Engi mær skal hafa forræði fjár síns fyrr en hún er tuttugu vetra gömul þó að undir hana hafi borið, nema hún sé gift með frænda ráði, og á sá er hennar þá fær bæði forræði fyrir henni og peningum hennar. Hver sem giftingarmaður er réttur að konu láti allt heimilt vera í heimanfylgju hennar. En allt það er sækja þarf með lögsóknum þá skal engin koma tilgjöf á móti og gjaldist það sem skerðist tilgjöf hennar af fé þess er heimanfylgju hélt. En ef ekkja giftir sig sjálf heiman og lætur hún meta annarra manna fé í heimanfylgju sína og lét hinn til er átti, þá á sá er hennar fær það jafnheimilt sem það er ekkjan átti. En ef maður segist eigi til þess léð hafa, þá syni með einseiði. En heimanfylgja hennar því minni. Hvar sem maður fær mey eður konu að guðs lögum og lands, og eru honum léðir peningar eður í borgan gengið fyrir hann að hann á svo mikla peninga sem þá eru taldir og á nefndir, þá skal á þá leið fara sem bók vottar um það sem konu var léð. En ef hann vanrækir, þá sæki giftingarmaður eður umboðsmaður konunnar út henni til handa og taki þar af fyrir sinn starfa svo að hann sé vel haldinn af.

3. Hér segir hvert félag leggja má hjóna millum

Fé konu sinnar skal engi maður færa af landi brutt nema hún vili. Ráða skal hann fé þeirra öllu til þarfa þeim. Hvorki þeirra skal fyrirmæla né fyrirgjöra annars fé. Engi maður skal selja eigur konu sinnar eður þær sem þau eiga bæði saman utan samþykki hennar, nema nauðsyn full gangi til og þá þó með skynsamra manna ráði. Slíkan rétt á hver maður á konu sinni sem á sjálfum sér ef henni verður með öfund misþyrmt. Eigi á kona að synja bónda sínum félags. En með því megu þau leggja félag sín í milli að hvort þeirra leggi til félags allt það sem þá á eður eigandi verður með erfðum eður öðrum hlutum, en ef síðar falla ómagar til annars hvors þá skal það jafnt beggja þeirra kostnaður þó öngvir komi á annars fé. En ef misdauði þeirra verður, þá skulu ómagar þeirra hverfa þeim á hendur sem þá á fyrir laga sakir fram að færa, en það hjóna sem meira lagði til félags skal meira upp taka eður þess erfingi, síðan sé skipt í helminga þó að eyðst hafi. En ef aflast hefir þá skal karlmaður eður hans erfingi taka tvo hluti afla en kona þriðjung. Þurfa þau öngvan mann að þessu félagi að spyrja, en ef þau leggja á annan veg, þá skal það eigi haldast þó að erfingi kunni eður vili eigi það félag rjúfa. Rétt er að frændur gjöri kaupmála sín í milli og helmingsfélag eftir því sem þeim semur. Nú er eigi félag hjóna í millum, þá skal sú tilgjöf konu heimil sem til hennar var gefin og vottar vitu og lýst var á giftingardegi ef hún lifir lengur. Lýsa skal giftingum kvenna og tilgjöfum sinn á hverjum tíu vetrum og lýsa í fjölda á þingi eða við kirkju. En ef hann missir hennar við þá taki arfar hennar heimanfylgju hennar en tilgjöf fellur niður. Nú þó að mær hafi fjárhald bróður síns, þá skal hún eigi taka af fé hans sér til heimanfylgju. En ef arfi gefur þá sök þá er hann er fulltíða að giftingarmaður hafi gefið fé hans með systur hans, þá standi sá fyrir eineiði er sú sök kemur á hendur. En ef hann verður sannur að því, reiði slíkt upp sveininum sem hann gaf hans og heiti drengur að verri.

4. Hér segir um fjárskipti ef misdauði hjóna verður

Nú ef annað tveggja hjóna missir annars við og þrýtur brullaupsvitni, þá skal það hjóna sem lengur lifir leggja fram fé og skipti svo í sundur sem það vill svara fyrir guði, að rétt er eftir því sem í gifting þeirra kom og hvorki er þá vanhaldið af öðru, og sveri að fullan eið og tveir skilríkir menn meður því. Ef maður kaupir jörð með gripum eður lausafé eður búfé konu sinnar og lifir hún honum lengur, þá skal hún það eitt hafa úr jörðu af arfi hans sem hún hafði heiman og það eina meira er erfingi vill. En ef hún tekur fé í erfð síðan þau komu saman og verður það fé fyrir jörð greitt, þá skal sú jörð hennar. Nú ef öreigar tveir koma saman að landslögum réttum og aukast þeim fé, þá hafi það tvo hluti sem lengur lifir í landi og lausum eyri ef við útarfa er að skipta, en helming ef við börn þeirra er að skipta.

5. Hér segir ef kona leggst með manni undir bónda sinn

Ef kona leggst með manni undir bónda sinn eður skilur hún viður hann saklaust móti guðs lögum, þá hefur hún fyrirgjört tilgjöf sinni. En ef bóndi býður henni samvist en hún vill eigi, þá skal bóndinn varðveita öllum fjárhlutum þeirra meðan hún lifir, en síðan hún er dauð taki sá heimanfylgju hennar sem arfi er næstur og öngva tilgjöf. En ef þau sættast á málin sín og tekur hann með henni, þá fari það sem mál þeirra væri óspellað. En ef henni verður sá glæpur oftar fyrir, þá skal hann varðveita fjárhlutum hennar meðan hún lifir þó að hann vili ekki oftar við henni taka, en síðan fari eftir því sem fyrr segir. En ef hún hefur eigi fyrri við þann glæp kennd verið og heitir hún yfirbót við guð og bónda sinn og býður hún bónda sínum samvistu. En ef hann vill eigi eiga hana, þá hafi hún heimanfylgju sína en öngva tilgjöf. En ef bóndi hennar vill firra hana heimanfylgju sinni og segir að hana hafi fyrr meir sá glæpur hent og var sú sakargift eigi fyrri af hans hendi við hana svo að mönnum væri það kunnigt, þá standi hún fyrir eineiði og hafi hún heimanfylgju sína ef hann vill eigi viður henni taka, en eigi tilgjöf sína. Nú ef gjöld koma á hendur öðru hvoru hjóna, þá á það með sínu fé að bæta misverka sína sem gjört hefur. Og ef þau hafa lagt félag sín í milli, þá á það þeirra sem eigi hafa gjöldin á hendur borist hafa jafna aura af óskiptu ávaxtalaust, eður þess erfingjar, þann tíma er misdauði þeirra verður eður þau skiljast löglega. Nú kemur legorðssök á þá konu sem maður hefur sér festa eður handselda, það legorð sem fyrr gjörðist, og ef hann fær þeirrar konu þá á hann ráðspell en giftingarmaður réttinn. En ef síðan er lagst með henni, en hann handselst sér eður festir, og ef hann fær hennar þá á hann bæði rétt og ráðspell. En ef hann fær hennar eigi þá á sá karlmaður sem fyrr skilur. Ef maður gengur í sæng til konu og vill koma legorði á hana, og þó að hann komi eigi vilja sínum fram þá bæti hann eftir tólf manna dómi.

6. Hér segir ef meinleiki sundrar hjónasamvist

Ef meinleiki sundrar samvist hjóna, með þess ráði sem ráða á að guðs lögum, þá hafi hvort þeirra sitt fé. En ef þau skiljast fyrir þann sifskap að karlmannsvöld hafi til komið og vissi hann það þá hann festi konu og leynir hann því, þá bæti hann fyrir svik sín eftir tólf manna dómi, hafi konan hálft en giftingarmaður hálft, en fyrir hvern annan meinleika sem þau skiljast þá fari sem fyrr segir. En ef maður fær konu með landslögum réttum og gefur í móti henni tilgjöf og fellur frá síðan, þá skulu henni lúkast síðan þing sín og heimanfylgja af sjálfs hans fé meðan það vinnst til. En ef það fé vinnst eigi til, þá skulu erfingjar ekki lúka af sínu fé, því að enginn skal sér konu kaupa með annars fé.