Fara í innihald

Landnámabók/1. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
1. kafli

Þá er Ísland fannst og byggðist af Noregi, var Adríánus páfi í Róma og Jóhannes eftir hann, sá er hinn fimmti var með því nafni í postuligu sæti, en Hlöðver Hlöðversson keisari fyrir norðan fjall, en Leó og Alexander son hans yfir Miklagarði; þá var Haraldur hárfagri konungur yfir Noregi, en Eiríkur Eymundarson í Svíþjóð og Björn son hans, en Gormur hinn gamli að Danmörk, en Elfráður hinn ríki í Englandi og Játvarður son hans, en Kjarvalur að Dyflinni, Sigurður jarl hinn ríki í Orkneyjum.

Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Staði sé sjö dægra sigling í vestur til Horns á Íslandi austanverðu, en frá Snæfellsnesi, þar er skemmst er, er fjögurra dægra haf í vestur til Grænlands. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgyn rétt í vestur til Hvarfsins á Grænlandi, að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er fimm dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi (í suður; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er) fjögurra dægra haf norður til Svalbarða í hafsbotn.

Svo er sagt, að menn skyldu fara úr Noregi til Færeyja; nefna sumir til Naddodd víking; en þá rak vestur í haf og fundu þar land mikið. Þeir gengu upp í Austfjörðum á fjall eitt hátt og sáust um víða, ef þeir sæju reyki eða nokkur líkindi til þess, að landið væri byggt, og sáu þeir það ekki.

Þeir fóru aftur um haustið til Færeyja; og er þeir sigldu af landinu, féll snær mikill á fjöll, og fyrir það kölluðu þeir landið Snæland. Þeir lofuðu mjög landið.

Þar heitir nú Reyðarfjall í Austfjörðum, er þeir höfðu að komið. Svo sagði Sæmundur prestur hinn fróði.

Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt; hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús.

Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.

Garðar fór þá til Noregs og lofaði mjög landið. Hann var faðir Una, föður Hróars Tungugoða. Eftir það var landið kallað Garðarshólmur, og var þá skógur milli fjalls og fjöru.