Landnámabók/2. kafli
Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill; hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar úr er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi; þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni.
Með Flóka var á skipi bóndi sá, er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður, er þar var á skipi.
Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið.
En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnföll stór“.
Síðan er það kallaður Faxaóss.
Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið.
Þeir Flóki ætluðu brutt um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs.
Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.