Landnámabók/3. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
3. kafli

Björnólfur hét maður, en annar Hróaldur; þeir voru synir Hrómundar Gripssonar; þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Sonur Björnólfs var Örn, faðir þeirra Ingólfs og Helgu, en Hróalds son var Hróðmar, faðir Leifs.

Þeir Ingólfur og Leifur fóstbræður fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, og er þeir komu heim, mæltu þeir til samfara með sér annað sumar.

En um veturinn gerðu þeir fóstbræður veislu sonum jarlsins. Að þeirri veislu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, en Leifur roðnaði á að sjá, og varð fátt um með þeim Hólmsteini, er þeir skildu þar að boðinu.