Landnámabók/4. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
4. kafli

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við sonu Atla jarls. Þeir fundust við Hísargafl, og lögðu þeir Hólmsteinn bræður þegar til orustu við þá Leif. En er þeir höfðu barist um hríð, kom að þeim Ölmóður hinn gamli, son Hörða-Kára, frændi Leifs, og veitti þeim Ingólfi. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði.

Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.

En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs