Landnámabók/100. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Landnámabók: V. hluti höfundur óþekktur

Þorgrímur bíldur, bróðir Önundar bílds, nam lönd öll fyrir ofan Þverá og bjó að Bíldsfelli. Hans leysingi var Steinröður, son Melpatrix af Írlandi; hann eignaðist öll Vatnslönd og bjó á Steinröðarstöðum.

Steinröður var manna vænstur. Hans son var Þormóður, faðir Kárs, föður Þormóðar, föður Brands, föður Þóris, er átti Helgu Jónsdóttur.

Ormur hinn gamli, son Eyvindar jarls, Arnmóðssonar jarls, Nereiðssonar jarls hins gamla; Ormur nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi. Hans son var Darri, faðir Arnar.

Eyvindur jarl var með Kjötva auðga mót Haraldi konungi í Hafrsfirði.

Álfur hinn egski stökk fyrir Haraldi konungi af Ögðum úr Noregi; hann fór til Íslands og kom skipi sínu í ós þann, er við hann er kenndur og Álfsóss heitir; hann nam lönd öll fyrir utan Varmá og bjó að Gnúpum.

Þorgrímur Grímólfsson var bróðurson Álfs; hann fór út með honum og tók arf eftir hann, því að Álfur átti ekki barn. Sonur Þorgríms var Eyvindur, faðir Þórodds goða og Össurar, er átti Beru, dóttur Egils Skalla-Grímssonar. Móðir Þorgríms var Kormlöð, dóttir Kjarvals Írakonungs.