Landnámabók/99. kafli

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar; hann átti Helgu, dóttur Þórðar skeggja.

Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá; hann hafði skip það, er Elliði hét; hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði. Hann var hinn fyrsta vetur með Þórði skeggja, mági sínum.

Um vorið fór hann upp um heiði að leita sér landskosta. Þeir höfðu náttból og gerðu sér skála; þar heitir nú Skálabrekka. En er þeir fóru þaðan, komu þeir að á þeirri, er þeir kölluðu Öxará; þeir týndu þar (í) öxi sinni. Þeir áttu dvöl undir fjallsmúla þeim, er þeir nefndu Reyðarmúla; þar lágu þeim eftir áreyðar þær, er þeir tóku í ánni.

Ketilbjörn nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Byskupstungu upp til Stakksár og bjó að Mosfelli. Börn þeirra voru þau Teitur og Þormóður, Þorleifur, Ketill, Þorkatla, Oddleif, Þorgerður, Þuríður. Skæringur hét einn son Ketilbjarnar, laungetinn.

Ketilbjörn var svo auðigur að lausafé, að hann bauð sonum sínum að slá þvertré af silfri í hofið, það er þeir létu gera; þeir vildu það eigi. Þá ók hann silfrið upp á fjallið á tveimur yxnum og Haki þræll hans og Bót ambátt hans; þau fálu féið, svo að eigi finnst. Síðan drap hann Haka í Hakaskarði, en Bót í Bótarskarði.

Teitur átti Álöfu, dóttur Böðvars af Vörs Víkinga-Kárasonar. Þeirra son var Gissur hvíti, faðir Ísleifs byskups, föður Gissurar byskups. Annar son Teits var Ketilbjörn, faðir Kolls, föður Þorkels, föður Kolls Víkverjabyskups. Margt stórmenni er frá Ketilbirni komið.

Ásgeir hét maður Úlfsson; honum gaf Ketilbjörn Þorgerði dóttur sína og lét henni heiman fylgja Hlíðarlönd öll fyrir ofan Hagagarð; hann bjó í Hlíð hinni ytri. Þeirra son var Geir goði og Þorgeir faðir Bárðar að Mosfelli.

Eilífur auðgi, son Önundar bílds, fékk Þorkötlu Ketilbjarnardóttur, og fylgdu (henni) heiman Höfðalönd; þar bjuggu þau. Þeirra son var Þórir faðir Þórarins sælings.

Véþormur, son Vémundar hins gamla, var hersir ríkur; hann stökk fyrir Haraldi konungi austur á Jamtaland og ruddi þar merkur til byggðar.

Hólmfastur hét son hans, en Grímur hét systurson hans. Þeir voru í vesturvíking og drápu í Suðureyjum Ásbjörn jarl skerjablesa og tóku þar að herfangi Álöfu konu hans og Arneiði dóttur hans, og hlaut Hólmfastur hana og seldi hana í hendur föður sínum og lét vera ambátt. Grímur fékk Álöfar, dóttur Þórðar vaggagða, er jarl hafði átta.

Grímur fór til Íslands og nam Grímsnes allt upp til Svínavatns og bjó í Öndurðunesi fjóra vetur, en síðan að Búrfelli. Hans son var Þorgils, er Æsu, systur Gests, átti. Þeirra synir voru þeir Þórarinn að Búrfelli og Jörundur í Miðengi.

Hallkell, bróðir Ketilbjarnar sammæddur, kom til Íslands og var með Ketilbirni hinn fyrsta vetur. Ketilbjörn bauð að gefa honum land. Hallkatli þótti lítilmannligt að þiggja land og skoraði á Grím til landa eða hólmgöngu. Grímur gekk á hólm við Hallkel undir Hallkelshólum og féll þar, en Hallkell bjó þar síðan.

Hans synir voru þeir Otkell, er Gunnar Hámundarson vó, og Oddur að Kiðjabergi, faðir Hallbjarnar, er veginn var við Hallbjarnarvörður, og Hallkels, föður Hallvarðs, föður Þorsteins, er Einar Hjaltlendingur vó. Son Hallkels Oddssonar var Bjarni, faðir Halls, föður Orms, föður Bárðar, föður Valgerðar, móður Halldóru, er Magnús byskup Gissurarson átti.

Nú er komið að landnámi Ingólfs. En þeir menn, er nú eru taldir, hafa byggt í hans landnámi.