Landnámabók/98. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
98. kafli

Þrándur mjögsiglandi Bjarnarson, bróðir Eyvindar austmanns, er fyrr er getið, hann var í Hafursfirði mót Haraldi konungi og varð síðan landflótti og kom til Íslands síð landnámatíðar; hann nam land milli Þjórsár og Laxár og upp til Kálfár og til Sandlækjar; hann bjó í Þrándarholti. Hans dóttir var Helga, er Þormóður skafti átti.

Ölvir barnakarl hét maður ágætur í Noregi; hann var víkingur mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaður. Hans synir voru þeir Steinólfur, faðir Unu, er átti Þorbjörn laxakarl, og Einar, faðir Ófeigs grettis og Óleifs breiðs, föður Þormóðar skafta. Steinmóður var hinn þriðji son Ölvis barnakarls, faðir Konáls, föður Álfdísar hinnar barreysku, er Óleifur feilan átti. Son Konáls var Steinmóður faðir Halldóru, er átti Eilífur, son Ketils einhenda.

Þeir frændur, Ófeigur grettir og Þormóður skafti, fóru til Íslands og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli mági sínum. En um vorið gaf hann þeim Gnúpverjahrepp, Ófeigi hinn ytra hlut milli Þverár og Kálfár, og bjó (hann) á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti, en Þormóði gaf hann hinn eystra hlut, og bjó hann í Skaftaholti.

Dætur Þormóðar voru þær Þórvör, móðir Þórodds goða, föður Lög-Skafta, og Þórvé, móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka. Ófeigur féll fyrir Þorbirni jarlakappa í Grettisgeil hjá Hæli.

Dóttir Ófeigs var Aldís, móðir Valla-Brands.

Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og Gnúpverjahrepp allan ofan til Kálfár og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. Hann hafði þrjár vetursetur, áður hann kom í Haga; þar bjó hann til dauðadags. Hans synir voru þeir Otkell í Þjórsárdal og Þorkell trandill og Þorgils, faðir Otkötlu, móður Þorkötlu, móður Þorvalds, föður Döllu, móður Gissurar byskups.

Þorbjörn jarlakappi hét maður norrænn að kyni; hann fór úr Orkneyjum til Íslands. Hann keypti land í Hrunamannahrepp að Mávi Naddoddssyni, allt fyrir neðan Selslæk á milli Laxár og bjó að Hólum. Hans synir voru þeir Sölmundur, faðir Sviðu-Kára, og Þormóður, faðir Finnu, er átti Þórormur í Karlafirði. Þeirra dóttir var Álfgerður, móðir Gests, föður Valgerðar, móður Þorleifs beiskalda.

Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar, dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslands snemma landsbyggðar; þeir námu Hrunamannahrepp, svo vítt sem vötn deila.

Bröndólfur bjó að Berghyl. Hans synir voru þeir Þorleifur, faðir Bröndólfs, föður Þorkels skotakolls, föður Þórarins, föður Halls í Haukadal og Þorláks, föður Rúnólfs, föður Þorláks byskups.

Már bjó á Másstöðum. Hans son var Beinir, faðir Kolgrímu, móður Skeggja, föður Hjalta.

Þorbrandur, son Þorbjarnar hins óarga, og Ásbrandur son hans komu til Íslands síð landnámatíðar, og vísaði Ketilbjörn þeim til landnáms fyrir ofan múla þann, er fram gengur hjá Stakksá, og til Kaldakvíslar, og bjuggu í Haukadal.

Þeim þóttu þau lönd of lítil, er tungan eystri var þá byggð; þá jóku þeir landnám sitt og námu hinn efra hlut Hrunamannahrepps sjónhending úr Múla í Ingjaldsgnúp fyrir ofan Gyldarhaga. Börn Ásbrands voru Vébrandur og Arngerður.

Eyfröður hinn gamli nam tunguna eystri milli Kaldakvíslar og Hvítár og bjó í Tungu; með honum kom út Drumb-Oddur, er bjó á Drumb-Oddsstöðum.