Landnámabók/97. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
97. kafli

Össur hvíti hét maður, son Þorleifs úr Sogni. Össur vó víg í véum á Upplöndum, þá er hann var í brúðför með Sigurði hrísa; fyrir það varð hann landflótti til Íslands og nam fyrst öll Holtalönd milli Þjórsár og Hraunslækjar; þá var hann sautján vetra, er hann vó vígið. Hann fékk Hallveigar Þorviðardóttur. Þeirra son var Þorgrímur kampi, faðir Össurar, föður Þorbjarnar, föður Þórarins, föður Gríms Tófusonar.

Össur bjó í Kampaholti; hans leysingi var Böðvar, er bjó í Böðvarstóftum við Víðiskóg. Honum gaf Össur hlut í skóginum og skildi sér eftir hann barnlausan. Örn úr Vælugerði, er fyrr er getið, stefndi Böðvari um sauðatöku. Því handsalaði Böðvar Atla Hásteinssyni fé sitt, en hann ónýtti mál fyrir Erni. Össur andaðist, þá er Þorgrímur var ungur; þá tók Hrafn Þorviðarson við fjárvarðveislu Þorgríms.

Eftir andlát Böðvars taldi Hrafn til Víðiskógs og bannaði Atla, en Atli þóttist eiga. Þeir Atli fjórir fóru eftir viði; Leiðólfur var með honum. Smalamaður sagði Hrafni það, en hann reið eftir honum við átta mann; þeir fundust í Orustudal og börðust þar. Húskarlar Hrafns féllu tveir; hann varð sár. Einn féll af Atla, en (hann) varð sár banasárum og reið heim. Önundur bíldur skildi þá og bauð Atla til sín.

Þórður dofni, son Atla, var þá níu vetra. En þá er hann var fimmtán vetra, reið Hrafn í Einarshöfn til skips; hann var í blárri kápu og reið heim um nótt. Þórður sat einn fyrir honum hjá Haugavaði skammt frá Traðarholti og vó hann þar með spjóti. Þar er Hrafnshaugur fyrir austan götuna, en fyrir vestan Hásteinshaugur og Atlahaugur og Ölvis. Vígin féllust í faðma.

Þórður hófst af þessu; hann fékk þá Þórunnar, dóttur Ásgeirs austmannaskelfis, er drap skipshöfn austmanna í Grímsárósi fyrir rán, það er hann var ræntur austur.

Þórður hafði þá tvo vetur og tuttugu, er hann keypti skip í Knarrarsundi og vildi heimta arf sinn; þá fal hann fé mikið; því vildi Þórunn eigi fara og tók þá með löndum. Þorgils son Þórðar var þá tvævetur. Skip Þórðar hvarf.

Vetri síðar kom Þorgrímur örrabeinn til ráða með Þórunni, son Þormóðar og Þuríðar Ketilbjarnardóttur; hann fékk Þórunnar, og var þeirra son Hæringur.

Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli.

Óláfur átti Áshildi, og var þeirra son Helgi trausti og Þórir drífa, faðir Þorkels gullkárs, föður Orms, föður Helgu móður Odds Hallvarðssonar. Vaði var hinn þriðji son Óláfs, faðir Gerðar.

Þorgrímur (örrabeinn) lagði hug á Áshildi, þá er Óláfur var dauður, en Helgi vandaði um; hann sat fyrir Þorgrími við gatnamót fyrir neðan Áshildarmýri. Helgi bað hann láta af komum. Þorgrímur lést eigi hafa barna skap. Þeir börðust; þar féll Þorgrímur. Áshildur spurði, hvar Helgi hefði verið; hann kvað vísu:

Vask, þars fell til Fyllar,
fram sótti vinr dróttar,
Örrabeinn, en unnar
ítrtungur hátt sungu.
Ásmóðar gafk Óðni
arfa þróttar djarfan.
Guldum galga valdi
Gauts tafn, en ná hrafni.

Áshildur kvað hann hafa höggvið sér höfuðsbana. Helgi tók sér far í Einarshöfn.

Hæringur son Þorgríms var þá sextán vetra, er hann reið í Höfða að finna Teit Gissurarson með þriðja mann. Þeir Teitur riðu fimmtán að banna Helga far. Þeir fundust í Merkurhrauni upp frá Mörk við Helgahvol; þeir Helgi voru þrír saman, komnir af Eyrum. Þar féll Helgi og maður með honum og einn af þeim Teiti; í faðma féllust víg þau.

Sonur Helga var Sigurður hinn landverski og Skefill hinn haukdælski, faðir Helga dýrs, er barðist við Sigurð, son Ljóts löngubaks, í Öxarárhólma á alþingi. Um það orti Helgi þetta:

Band's á hægri hendi,
hlautk sár af Tý báru,
lýg ek eigi þat, leygjar,
linnvengis Bil, minni.

Hrafn var annar son Skefils, faðir Gríms, föður Ásgeirs, föður Helga.