Landnámabók/11. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
11. kafli

Hallur goðlauss hét maður; hann var son Helga goðlauss. Þeir feðgar vildu ekki blóta og trúðu á mátt sinn.

Hallur fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár. Son Halls var Helgi, er átti Þuríði Ketilbjarnardóttur; þeirra son var Þórður í Álfsnesi, er átti Guðnýju Hrafnkelsdóttur. Hallur bjó í Múla.

Haraldur hinn hárfagri herjaði vestur um haf, sem ritað er í sögu hans. Hann lagði undir sig allar Suðureyjar svo langt vestur, að engi hefir síðan lengra eignast.

En er hann fór vestan, slógust í eyjarnar víkingar og Skotar og Írar og herjuðu og rændu víða.

Og er það spurði Haraldur konungur, sendi hann vestur Ketil flatnef, son Bjarnar bunu, að vinna aftur eyjarnar. Ketill átti Yngvildi, dóttur Ketils veðurs hersis af Hringaríki; þeirra synir voru þeir Björn hinn austræni og Helgi bjóla. Auður hin djúpauðga og Þórunn hyrna voru dætur þeirra.

Ketill fór vestur, en setti eftir Björn son sinn; hann lagði undir sig allar Suðureyjar og gerðist höfðingi yfir, en galt öngva skatta konungi, sem ætlað var. Tók þá konungur undir sig eignir hans og rak á brutt Björn son hans.

Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með hans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi. Hans son var Víga-Hrappur og Kollsveinn, faðir Eyvindar hjalta, föður Kollsveins, föður Þorgerðar, móður Þóru, móður Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga.