Landnámabók/12. kafli
Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum. (Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.
Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.
Hann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.
Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.
Örlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba.
Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.