Fara í innihald

Landnámabók/18. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
18. kafli

Úlfur hét maður, son Brunda-Bjálfa og Hallberu, dóttur Úlfs hins óarga úr Hrafnistu. Úlfur átti Salbjörgu, dóttur Berðlu-Kára; hann var kallaður Kveld-Úlfur. Þórólfur og Skalla-Grímur voru synir þeirra.

Haraldur konungur hárfagri lét drepa Þórólf norður í Álöst á Sandnesi af rógi Hildiríðarsona; það vildi Haraldur konungur eigi bæta.

Þá bjuggu þeir Grímur og Kveld-Úlfur kaupskip og ætluðu til Íslands, því að þeir höfðu þar spurt til Ingólfs vinar síns. Þeir lágu til hafs í Sólundum. Þar tóku þeir knörr þann, er Haraldur konungur lét taka fyrir Þórólfi, þá er menn hans voru nýkomnir af Englandi, og drápu þar Hallvarð harðfara og Sigtrygg snarfara, er því höfðu valdið. Þar drápu þeir og sonu Guttorms Sigurðarsonar hjartar, bræðrunga konungs, og alla skipshöfn þeirra nema tvo menn, er þeir létu segja konungi tíðendin. Þeir bjuggu hvorttveggja skipið til Íslands og þrjá tigu manna á hvoru; stýrði Kveld-Úlfur því, er þá var fengið.

Grímur hinn háleyski Þórisson, Gunnlaugssonar, Hrólfssonar, Ketilssonar kjölfara, var forráðamaður með Kveld-Úlfi á því skipi, er hann stýrði. Þeir vissust jafnan til í hafinu.

Og er mjög sóttist hafið, þá tók Kveld-Úlfur sótt. Hann bað þess, að kistu skyldi gera að líki hans, ef hann dæi, og bað svo segja Grími syni sínum, að hann tæki skammt þaðan bústað á Íslandi, er kista hans kæmi á land, ef þess yrði auðið. Eftir það andaðist Kveld-Úlfur, og var skotið fyrir borð kistu hans.

Þeir Grímur héldu suður um landið, því að þeir höfðu spurt, að Ingólfur byggði sunnan á landinu. Sigldu þeir vestur fyrir Reykjanes og stefndu þar inn á fjörðinn. Skildi þá með þeim, svo að hvorigir vissu til annarra. Sigldu þeir Grímur hinn háleyski allt inn á fjörðinn, þar til er þraut sker öll, og köstuðu þá akkerum sínum. En er flóð gerði, fluttust þeir upp í árós einn og leiddu þar upp skipið sem gekk; sú á heitir nú Gufá. Báru þeir þar á land föng sín.

En er þeir könnuðu landið, þá höfðu þeir skammt gengið út frá skipinu, áður þeir fundu kistu Kveld-Úlfs rekna í vík eina; þeir báru hana á það nes, er þar var, og hlóðu að grjóti.