Landnámabók/17. kafli
Beigan hét maður, er land nam í landnámi Ketils frá Berjadalsá til Aurriðaár og bjó að Beigansstöðum.
Fiður hinn auðgi Halldórsson Högnasonar, hann nam land fyrir sunnan Laxá og til Kalmansár og bjó að Miðfelli; hans son var Þorgeir, faðir Jósteins, föður Þórunnar, móður Guðrúnar, móður Sæmundar, föður Brands byskups.
Hafnar-Ormur nam lönd um Melahverfi út til Aurriðaár og Laxár og inn til Andakílsár og bjó í Höfn; hans son var Þorgeir höggvinkinni, faðir Þórunnar, móður Þórunnar, móður Jósteins, föður Sigurðar, föður Bjarnhéðins.
Þorgeir höggvinkinni var hirðmaður Hákonar konungs Aðalsteinsfóstra; hann fékk á Fitjum kinnarsár og orð gott.
Bræður tveir bjuggu í landnámi þeirra Finns og Orms, Hróðgeir hinn spaki í Saurbæ, en Oddgeir að Leirá: en þeir Finnur og Ormur keyptu þá brutt, því að þeim þótti þar þrönglent.
Þeir Hróðgeir bræður námu síðan lönd í Flóa, Hraungerðingahrepp; bjó Hróðgeir í Hraungerði, en Oddgeir í Oddgeirshólum; hann átti dóttur Ketils gufu.