Fara í innihald

Landnámabók/16. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
16. kafli

Ásólfur hét maður. Hann var frændi Jörundar í Görðum; hann kom út austur í Ósum. Hann var kristinn vel og vildi ekki eiga við heiðna menn og eigi vildi hann þiggja mat að þeim.

Hann gerði sér skála undir EyjafjöIlum, þar sem nú heitir að Ásólfsskála hinum austasta; hann fann ekki menn. Þá var um forvitnast, hvað hann hafði til fæðslu, og sáu menn í skálanum á fiska marga. En er menn gengu til lækjar þess, er féll hjá skálanum, var hann fullur af fiskum, svo að slík undur þóttust menn eigi séð hafa. En er héraðsmenn urðu þessa varir, ráku þeir hann á brutt og vildu eigi, að hann nyti gæða þessa. Þá færði Ásólfur byggð sína til Miðskála og var þar. Þá hvarf á brutt veiði öll úr læknum, er menn skyldu til taka. En er komið var til Ásólfs, þá var vatnfall það fullt af fiskum, er féll hjá skála hans. Var hann þá enn brutt rekinn. Fór hann þá til hins vestasta Ásólfsskála, og fór enn allt á sömu leið. En er hann fór þaðan á brutt, fór hann á fund Jörundar frænda síns, og bauð hann Ásólfi að vera með sér; en hann lést ekki vilja vera hjá öðrum mönnum.

Þá lét Jörundur gera honum hús að Hólmi hinum innra og færði honum þangað fæðslu, og var hann þar, meðan hann lifði, og þar var hann grafinn. Stendur þar nú kirkja, sem leiði hans er, og er hann hinn helgasti maður kallaður.