Landnámabók/20. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
20. kafli

Óleifur hjalti hét maður göfugur; hann kom skipi sínu í Borgarfjörð og var hinn fyrsta vetur með Skalla-Grími. Hann nam land að ráði Skalla-Gríms milli Grímsár og Geirsár og bjó að Varmalæk. Hans synir voru þeir Ragi í Laugardal og Þórarinn lögsögumaður er átti Þórdísi, dóttur Óláfs feilans, þeirra dóttir Vigdís, er átti Steinn Þorfinnsson. Son Raga var Guðþormur, faðir Gunnvarar, móður Þórnýjar, móður Þorláks, föður Rúnólfs, föður Þorláks byskups.

Ketill blundur og Geir son hans komu til Íslands og voru með Skalla-Grími hinn fyrsta vetur; þá fékk Geir Þórunnar, dóttur Skalla-Gríms.

Um vorið eftir vísaði Grímur þeim til landa, og námu þeir upp frá Flókadalsá til Reykjadalsár og tungu þá alla upp til Rauðsgils og Flókadal allan fyrir ofan brekkur. Ketill bjó í Þrándarholti; við hann er kennt Blundsvatn, þar bjó hann síðan.

Geir hinn auðgi son hans bjó í Geirshlíð, en átti annað bú að Reykjum hinum efrum; hans synir voru þeir Þorgeir blundur og Blund-Ketill og Svarðkell á Eyri. Dóttir Geirs var Bergdís, er Gnúpur átti Flókason í Hrísum; þeirrar ættar var Þóroddur hrísablundur.

Önundur breiðskeggur var son Úlfars Úlfssonar Fitjumskeggja, Þórissonar hlammanda. Önundur nam tungu alla milli Hvítár og Reykjadalsár og bjó á Breiðabólstað: hann átti Geirlaugu, dóttur Þormóðar á Akranesi, systur Bersa; þeirra son var Tungu-Oddur, en Þórodda hét dóttir þeirra. Hennar fékk Torfi, son Valbrands Valþjófssonar, Örlygssonar frá Esjubergi, og fylgdi henni heiman hálfur Breiðabólstaður og Hálsaland með. Hann gaf Signýju systur sinni Signýjarstaði, og bjó hún þar.

Torfi drap Kroppsmenn tólf saman, og hann réð mest fyrir drápi Hólmsmanna, og hann var á Hellisfitjum og Illugi hinn svarti og Sturla goði, þá er þar voru drepnir átján Hellismenn, en Auðun Smiðkelsson brenndu þeir inni á Þorvarðsstöðum. Sonur Torfa var Þorkell að Skáney.

Tungu-Oddur átti Jórunni Helgadóttur; þeirra börn voru þau Þorvaldur, er réð brennu Blund-Ketils, og Þóroddur, er átti Jófríði Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Húngerður, er átti Svertingur Hafur-Bjarnarson. Dóttir Tungu-Odds (var) Þuríður, er (átti Svarthöfði, og Jófríður, er) Þorfinnur Sel-Þórisson átti, og Hallgerður, er Hallbjörn átti, son Odds frá Kiðjabergi. Kjölvör var móðursystir Tungu-Odds, er bjó á Kjölvararstöðum, móðir Þorleifar, móður Þuríðar, móður þeirra Gunnhildar, er Koli átti, og Glúms, föður Þórarins, föður Glúms að Vatnlausu.