Landnámabók/21. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
21. kafli

Rauður hét maður, er nam land (hið syðra) upp frá Rauðsgili til Gilja og bjó að Rauðsgili; hans synir voru þeir Úlfur á Úlfsstöðum og Auður á Auðsstöðum fyrir norðan á, er Hörður vó. Þar hefst (af) saga Harðar Grímkelssonar og Geirs.

Grímur hét maður, er nam land hið syðra upp frá Giljum til Grímsgils og bjó við Grímsgil; hans synir voru þeir Þorgils auga á Augastöðum og Hrani á Hranastöðum, faðir Gríms, er kallaður var Stafngrímur. Hann bjó á Stafngrímsstöðum; þar heitir nú á Sigmundarstöðum. Þar gagnvart fyrir norðan Hvítá við sjálfa ána er haugur hans; þar var hann veginn.

Þorkell kornamúli nam Ás hinn syðra upp frá Kollslæk til Deildargils og bjó í Ási. Hans son var Þorbergur kornamúli, er átti Álöfu elliðaskjöld, dóttur Ófeigs og Ásgerðar, systur Þorgeirs gollnis. Börn þeirra voru þau Eysteinn og Hafþóra, er átti Eiður Skeggjason, er síðan bjó í Ási. Þar dó Miðfjarðar-Skeggi, og er þar haugur hans fyrir neðan garð. Annar son Skeggja var Kollur, er bjó að Kollslæk. Synir Eiðs (voru) Eysteinn og Illugi.

Úlfur, son Gríms hins háleyska og Svanlaugar, dóttur Þormóðar af Akranesi, systur Bersa, hann nam land milli Hvítár og suðurjökla og bjó í Geitlandi.

Hans synir voru þeir Hrólfur hinn auðgi, faðir Halldóru, er átti Gissur hvíti, þeirra dóttir Vilborg, er átti Hjalti Skeggjason.

Annar son hans var Hróaldur, faðir Hrólfs hins yngra, er átti Þuríði Valþjófsdóttur, Örlygssonar hins gamla; þeirra börn voru þau Kjallakur að Lundi í Syðradal, faðir Kolls, föður Bergþórs. Annar var Sölvi í Geitlandi, faðir Þórðar í Reykjaholti, föður Sölva, föður Þórðar, föður Magnúss, föður Þórðar, föður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Þriðji son Hrólfs var Illugi hinn rauði, er fyrst bjó í Hraunsási; hann átti þá Sigríði, dóttur Þórarins hins illa, systur Músa-Bölverks. Þann bústað gaf Illugi Bölverki, en Illugi fór þá að búa á Hofstöðum í Reykjadal, því að Geitlendingar áttu að halda upp hofi því að helmingi við Tungu-Odd. Síðarst bjó Illugi að Hólmi innra á Akranesi, því að hann keypti við Hólm-Starra bæði löndum og konum og fé öllu. Þá fékk Illugi Jórunnar, dóttur Þormóðar Þjóstarssonar af Álftanesi, en Sigríður hengdi sig í hofinu, því að hún vildi eigi mannakaupið.

Hrólfur hinn yngri gaf Þorlaugu gyðju dóttur sína Oddi Ýrarsyni. Því réðst Hrólfur vestur til Ballarár og bjó þar lengi síðan og var kallaður Hrólfur að Ballará.