Landnámabók/30. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
30. kafli

Ormur hinn mjóvi hét maður, er kom skipi sínu í Fróðárós og bjó á Brimilsvöllum um hríð. Hann rak á brutt Óláf belg og nam Víkina gömlu milli Ennis og Höfða og bjó þá að Fróðá. Hans son var Þorbjörn hinn digri; hann átti fyrr Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi, og voru þeirra börn Ketill kappi, Hallsteinn og Gunnlaugur og Þorgerður, er átti Önundur sjóni. Þorbjörn átti síðar Þuríði, dóttur Barkar hins digra og Þórdísar Súrsdóttur.

Þorbjörn hinn digri stefndi Geirríði Bægifótsdóttur um fjölkynngi, eftir það er Gunnlaugur, son hans, dó af meini því, er hann tók, þá er hann fór að nema fróðleik að Geirríði. Hún var móðir Þórarins í Mávahlíð. Um þá sök var Arnkell goði kvaddur tólftarkvöð, og bar hann af, því að Þórarinn vann eið að stallahring og hratt svo málinu.

En eftir það hurfu Þorbirni stóðhross á fjalli. Það kenndi hann Þórarni og fór í Mávahlíð og setti duradóm. Þeir voru tólf, en þeir Þórarinn voru sjö fyrir: Álfgeir Suðureyingur og Nagli og Björn austmaður og húskarlar þrír. Þeir hleyptu upp dóminum og börðust þar í túninu. Auður, kona Þórarins, hét á konur að skilja þá. Einn maður féll af Þórarni, en tveir af Þorbirni. Þeir Þorbjörn fóru á brutt og bundu sár sín hjá stakkgarði upp með vogum. Hönd Auðar fannst í túni; því fór Þórarinn eftir þeim og fann þá hjá garðinum. Nagli hljóp grátandi um þá og í fjall upp. Þar vó Þórarinn Þorbjörn og særði Hallstein til ólífis. Fimm menn féllu þar af Þorbirni.

Þeir Arnkell og Vermundur veittu Þórarni og höfðu setu að Arnkels. Snorri goði mælti eftir Þorbjörn og sekti þá alla, er að vígum höfðu verið, á Þórsnesþingi. Eftir það brenndi hann skip þeirra Álfgeirs í Salteyrarósi. Arnkell keypti þeim skip í Dögurðarnesi og fylgdi þeim út um eyjar. Af þessu gerðist fjándskapur þeirra Arnkels og Snorra goða. Ketill kappi var þá utan; hann var faðir Hróðnýjar, er átti Þorsteinn, son Víga-Styrs.

Sigurður svínhöfði var kappi mikill; hann bjó á Kvernvogaströnd. Herjólfur son hans var þá átta vetra, er hann drap skógbjörn fyrir það, er hann hafði bitið geit fyrir honum; þar um (er) þetta kveðið:

Bersi brunninrazi
beit geit fyrir Herjólfi,
en Herjólfr hokinrazi
hefndi geitr á bersa.

Þá var Herjólfur tólf vetra, er hann hefndi föður síns; hann var hinn mesti afreksmaður.

Herjólfur fór til Íslands í elli sinni og nam land milli Búlandshöfða og Kirkjufjarðar. Hans son var Þorsteinn kolskeggur, faðir Þórólfs, föður Þórarins hins svarta Máhlíðings og Guðnýjar, er átti Vermundur hinn mjóvi; þeirra son Brandur hinn örvi.

Vestar, son Þórólfs blöðruskalla, átti Svönu Herröðardóttur; þeirra son var Ásgeir. Vestar fór til Íslands með föður sinn afgamlan og nam Eyrarlönd og Kirkjufjörð; hann bjó á öndurðri Eyri. Þeir Þórólfur feðgar eru heygðir að Skallanesi báðir.

Ásgeir Vestarsson átti Helgu Kjallaksdóttur; þeirra son var Þorlákur, hans son Steinþór og þeirra Þuríðar, dóttur Auðunar stota, og Þórður blígur, er átti Otkötlu Þorvaldsdóttur, Þormóðssonar goða; þriðji var Þormóður, er átti Þorgerði, dóttur Þorbrands úr Álftafirði, fjórði Bergþór, er féll á Vigrafirði; dóttir þeirra Helga, er átti Ásmundur Þorgestsson. Steinþór átti Þuríði, dóttur Þorgils Arasonar; Gunnlaugur var son þeirra, er átti Þuríði hina spöku, dóttur Snorra goða.