Landnámabók/39. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
39. kafli

(Kollur nam Laxárdal allan og) allt til Haukadalsár; hann var kallaður Dala-Kollur; hann átti Þorgerði dóttur Þorsteins rauðs. Börn þeirra voru þau Höskuldur og Gróa, er átti Véleifur hinn gamli, og Þorkatla, er Þorgeir goði átti, Höskuldur átti Hallfríði, dóttur Þorbjarnar frá Vatni; Þorleikur var son þeirra; hann átti Þuríði, dóttur Arnbjarnar Sleitu-Bjarnarsonar; þeirra son var Bolli.

Höskuldur keypti Melkorku, dóttur Mýrkjartans Írakonungs; þeirra son var Óláfur pá og Helgi; dætur Höskulds Þuríður og Þorgerður og Hallgerður snúinbrók. Óláfur átti Þorgerði, dóttur Egils Skalla-Grímssonar, þeirra son Kjartan og Halldór, Steinþór og Þorbergur, dætur Óláfs Þuríður, Þorbjörg digra og Bergþóra. Kjartan átti Hrefnu dóttur Ásgeirs æðikolls, þeirra son Ásgeir og Skúmur.

Herjólfur son Eyvindar elds fékk síðar (Þorgerðar) dóttur Þorsteins rauðs; Hrútur var son þeirra. Honum galt Höskuldur í móðurarf sinn Kambsnessland milli Haukadalsár og hryggjar þess, er gengur úr fjalli ofan í sjó.

Hrútur bjó á Hrútsstöðum; hann átti Hallveigu dóttur Þorgríms úr Þykkvaskógi, systur Ármóðs hins gamla; þau áttu mörg börn. Þeirra son var Þórhallur, faðir Halldóru, móður Guðlaugs, föður Þórdísar, móður Þórðar, föður Sturlu í Hvammi. Grímur var og sonur Hrúts og Már, Eindriði og Steinn, Þorljótur og Jörundur, Þorkell, Steingrímur, Þorbergur, Atli, Arnór, Ívar, Kár, Kúgaldi, en dætur Bergþóra, Steinunn, Rjúpa, Finna, Ástríður.

Auður gaf dóttur Þorsteins rauðs, Þórhildi, Eysteini meinfret syni Álfs úr Ostu; þeirra son var Þórður, faðir Kolbeins, föður Þórðar skálds, og Álfur í Dölum. Hann átti Halldísi, dóttur Erps; þeirra son var Snorri, faðir Þorgils Höllusonar. Dætur Álfs í Dölum voru þær Þorgerður, er átti Ari Másson, og Þórelfur, er átti Hávar, son Einars Kleppssonar, þeirra son Þorgeir. Þórólfur refur var og son Eysteins, er féll á Þingnessþingi úr liði Þórðar gellis, þá er þeir Tungu-Oddur börðust. Hrappur hét hinn fjórði Eysteins son.

Auður gaf Ósk dóttur Þorsteins Hallsteini goða; þeirra son var Þorsteinn surtur. Vigdísi Þorsteinsdóttur gaf Auður Kampa-Grími, þeirra dóttir Arnbjörg, er Ásólfur flosi átti í Höfða, þeirra börn Oddur og Vigdís, er átti Þorgeir Kaðalsson.