Landnámabók/44. kafli
Hallsteinn son Þórólfs Mostrarskeggs nam Þorskafjörð og bjó á Hallsteinsnesi; hann blótaði þar til þess, að Þór sendi honum öndvegissúlur. Eftir það kom tré á land hans, það er var sextigi og þriggja álna og tveggja faðma digurt; það var haft til öndvegissúlna, og eru þar af görvar öndvegissúlur nær á hverjum bæ um þverfjörðuna. Þar heitir nú Grenitrésnes, er tréið kom á land.
Hallsteinn hafði herjað á Skotland og tók þar þræla þá, er hann hafði út; þá sendi hann til saltgörðar í Svefneyjar; þar höfðu þeir Hallsteins þræla hag fram.
Hallsteinn átti Ósku dóttur Þorsteins (rauðs). Þeirra son var Þorsteinn (surtur), er fann sumarauka. Þorsteinn surtur átti. .. Þeirra son var Þórarinn, en dóttir Þórdís, er átti Þorkell trefill, og Ósk, er átti Steinn mjögsiglandi; Þorsteinn hvíti hét son þeirra. Sámur hét son Þorsteins surts óskilgetinn; hann deildi um arf Þorsteins við Trefil, því að hann vildi halda í hendur börnum Þórarins.
Þorbjörn loki hét maður, son Böðmóðs úr skut; hann fór til Íslands og nam Djúpafjörð og Grónes til Gufufjarðar. Hans son var Þorgils á Þorgilsstöðum í Djúpafirði, faðir Kolls, er átti Þuríði Þórisdóttur, Hallaðarsonar jarls, Rögnvaldssonar Mærajarls. Þorgils var son þeirra; hann átti Otkötlu, dóttur Jörundar Atlasonar hins rauða; þeirra son var Jörundur; hann átti Hallveigu dóttur Odda Yrarsonar og Ketils gufu. Snorri var Jörundarson; hann átti Ásnýju, dóttur Víga-Sturlu. Þeirra son var Gils, er átti Þórdísi Guðlaugsdóttur og dóttur Þorkötlu Halldórsdóttur, Snorrasonar goða, en son Gils var Þórður; hann átti Vigdísi Svertingsdóttur. Þeirra son var Sturla í Hvammi.