Landnámabók/43. kafli
Þórarinn krókur nam Króksfjörð til Hafrafells frá Króksfjarðarnesi. Hann deildi um Steinólfsdal við Steinólf hinn lága og röri eftir honum með tíunda mann, er hann fór úr seli með sjöunda mann. Þeir börðust við Fagradalsárós á eyrinni; þá komu menn til frá húsi að hjálpa Steinólfi. Þar féll Þórarinn krókur og þeir fjórir, en sjö menn af Steinólfi; þar eru kuml þeirra.
Ketill ilbreiður nam Berufjörð, son Þorbjarnar tálkna. Hans dóttir var Þórarna, er átti Hergils hnapprass son Þrándar mjóbeins; Ingjaldur hét son þeirra; hann var faðir Þórarins, er átti Þorgerði dóttur Glúms Geirasonar; þeirra son var Helgu-Steinar. Þrándur mjóbeinn átti dóttur Gils skeiðarnefs; þeirra dóttir var Þórarna, er átti Hrólfur son Helga hins magra. Þorbjörg knarrarbringa var önnur dóttir Gils skeiðarnefs. Herfiður hét son hans, er bjó í Króksfirði.
Úlfur hinn skjálgi son Högna hins hvíta nam Reykjanes allt milli Þorskafjarðar og Hafrafells; hann átti Björgu dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra. Þeirra son var Atli (hinn) rauði, er átti Þorbjörgu systur Steinólfs (hins) lága. Þeirra son var Már á Hólum; hann átti Þorkötlu dóttur Hergils hnapprass; þeirra son var Ari.
Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; það kalla sumir Írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá Írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á Írlandi.
Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn (jarl) í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður.
Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.
Jörundur hét son Úlfs hins skjálga; hann átti Þorbjörgu knarrarbringu. Þeirra dóttir var Þjóðhildur, er átti Eiríkur rauði, þeirra son Leifur hinn heppni á Grænlandi. Jörundur hét son Atla hins rauða; hann átti Þórdísi dóttur Þorgeirs suðu; þeirra dóttir var Otkatla, er átti Þorgils Kollsson. Jörundur var og faðir Snorra.