Landnámabók/42. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
42. kafli

Steinólfur hinn lági son Hrólfs hersis af Ögðum nam land inn frá Klofasteinum til Grjótvallarmúla og bjó í Fagradal á Steinólfshjalla. Hann gekk þar inn á fjallið og sá fyrir innan dal mikinn og vaxinn allan viði. Hann sá eitt rjóður í dal þeim; þar lét hann bæ gera og kallaði Saurbæ, því að þar var mýrlent mjög, og svo kallaði hann allan dalinn. Það heitir nú Torfnes, er bærinn var gör.

Steinólfur átti Eirnýju Þiðrandadóttur. Þorsteinn búandi var son þeirra, en Arndís hin auðga var dóttir þeirra, móðir Þórðar, föður Þorgerðar, er Oddur átti; þeirra son var Hrafn Hlymreksfari, er átti Vigdísi dóttur Þórarins fylsennis; þeirra son var Snörtur, faðir Jódísar, er átti Eyjólfur Hallbjarnarson, þeirra dóttir Halla, er átti Atli Tannason, þeirra dóttir Yngvildur, er átti Snorri Húnbogason.

Steinólfi hurfu svín þrjú; þau fundust tveim vetrum síðar í Svínadal, og voru þau þá þrír tigir svína.

Steinólfur nam og Steinólfsdal í Króksfirði.

Sléttu-Björn hét maður; hann átti Þuríði dóttur Steinólfs hins lága; hann nam með ráði Steinólfs hinn vestra dal í Saurbæ; hann bjó á Sléttu-Bjarnarstöðum upp frá Þverfelli. Hans son var Þjóðrekur, er átti Arngerði, dóttur Þorbjarnar Skjalda-Bjarnarsonar; þeirra son var Víga-Sturla, er bæinn reisti á Staðarhóli, og Knöttur faðir Ásgeirs og Þorbjörn og Þjóðrekur, er borgin er við kennd á Kollafjarðarheiði.

Þjóðreki Sléttu-Bjarnarsyni þótti of þrönglent í Saurbæ; því réðst hann til Ísafjarðar; þar gerðist saga þeirra Þorbjarnar og Hávarðar hins halta.

Óláfur belgur, er Ormur hinn mjóvi rak á brutt úr Óláfsvík, nam Belgsdal og bjó á Belgsstöðum, áður þeir Þjóðrekur ráku hann á brutt; síðan nam hann inn frá Grjótvallarmúla og bjó í Óláfsdal. Hans son var Þorvaldur, sá er sauðatöku sök seldi á hendur Þórarni gjallanda Ögmundi Völu-Steinssyni; fyrir það vó hann Ögmund á Þorskafjarðarþingi.

Gils skeiðarnef nam Gilsfjörð milli Óláfsdals og Króksfjarðarmúla; hann bjó á Kleifum. Hans son var Heðinn, faðir Halldórs Garpsdalsgoða, föður Þorvalds í Garpsdal, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur.