Fara í innihald

Landnámabók/46. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
46. kafli

Kolli Hróaldsson nam Kollafjörð og Kvígandanes og Kvígandafjörð; hann seldi ýmsum mönnum landnám sitt.

Knjúkur hét son Þórólfs sparrar, er út kom með Örlygi; hann var kallaður Nesja-Knjúkur. Hann nam nes öll til Barðastrandar frá Kvígandafirði og bjó... Annar son Knjúks var Einar, faðir Steinólfs, föður Salgerðar, móður Bárðar svarta. Þóra hét dóttir Knjúks, er átti Þorvaldur son Þórðar Víkingssonar. Þeirra son var Mýra-Knjúkur, faðir Þorgauts, föður Steinólfs, föður Höllu, móður Steinunnar, móður Hrafns á Eyri.

Knjúkur átti Eyju dóttur Ingjalds Helgasonar magra; þeirra son var Eyjólfur faðir Þorgríms Kötlusonar. Glúmur átti fyrr Kötlu, og var þeirra dóttir Þorbjörg kolbrún, er Þormóður orti um. Steingrímur hét son Þorgríms, faðir Yngvildar, er átti Úlfheðinn á Víðimýri.

Geirsteinn kjálki nam Kjálkafjörð og Hjarðarnes með ráði Knjúks. Hans son var Þorgils, er átti Þóru, dóttur Vestars af Eyri. Þeirra son var Steinn hinn danski; hann átti Hallgerði Örnólfsdóttur, Ármóðssonar hins rauða. Örnólfur átti Vigdísi dóttur... Vigdís hét dóttir Steins hins danska og Hallgerðar, er átti Illugi Steinbjarnarson. Þeirra dóttir var Þórunn, móðir Þorgeirs langhöfða.

Geirleifur son Eiríks Högnasonar hins hvíta nam Barðaströnd milli Vatnsfjarðar og Berghlíða; hann var faðir þeirra Oddleifs og Helga skarfs.

Oddleifur var faðir Gests hins spaka og Þorsteins og Æsu, er átti Þorgils son Gríms úr Grímsnesi. Þeirra synir voru þeir Jörundur í Miðengi og Þórarinn að Búrfelli. Gestur átti.... voru þeirra börn Þórður og Halla, er Snorri Dala-Álfsson átti. Þorgils var son þeirra. Önnur dóttir Gests var Þórey, er Þorgils átti. Þórarinn var son þeirra, faðir Jódísar, móður Illuga, föður Birnu, móður Illuga og Arnórs og Eyvindar.

Helgi skarfur var faðir Þorbjargar kötlu, er átti Þorsteinn Sölmundarson, þeirra synir Refur í Brynjudal og Þórður, faðir Illuga, föður Hróðnýjar, er Þorgrímur sviði átti. Þórdís hét önnur dóttir Helga skarfs, er átti Þorsteinn Ásbjarnarson úr Kirkjubæ austari. Þeirra son var Surtur, faðir Sighvats lögsögumanns.

Geirleifur átti Jóru Helgadóttur. Þorfinnur hét hinn þriðji son Geirleifs; hann átti Guðrúnu Ásólfsdóttur. Ásmundur hét son þeirra; hann átti Hallkötlu, dóttur Bjarnar Mássonar, Ásmundarsonar. Hlenni hét son þeirra; hann átti Ægileifu dóttur Þorsteins Kröflusonar. Þorfiður var son þeirra, faðir Þorgeirs langhöfða. Þorsteinn Oddleifsson var faðir Ísgerðar, er átti Bölverkur, son Eyjólfs hins grá, þeirra son Gellir lögsögumaður. Véný var enn dóttir Þorsteins, móðir Þórðar krákunefs; þaðan eru Krákneflingar komnir.