Landnámabók/47. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
47. kafli

Ármóður hinn rauði Þorbjarnarson, fóstbróðir Geirleifs, nam Rauðasand; hans synir voru þeir Örnólfur og Þorbjörn, faðir Hrólfs hins rauðsenska.

Þórólfur spör kom út með Örlygi og nam Patreksfjörð fyrir vestan og víkur fyrir vestan Barð nema Kollsvík; þar bjó Kollur fóstbróðir Örlygs. Þórólfur nam og Keflavík fyrir sunnan Barð og bjó að Hvallátrum. Þeir Nesja-Knjúkur og Ingólfur hinn sterki og Geirþjófur voru synir Þórólfs sparrar. Þórarna var dóttir Ingólfs, er Þorsteinn Öddleifsson (átti).

Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma, synir Böðvars blöðruskalla, komu út með Örlygi; þeir námu Patreksfjörð hálfan og Tálknafjörð allan til Kópaness.

Ketill ilbreiður, son Þorbjarnar tálkna, nam dali alla frá Kópanesi til Dufansdals; hann gaf Þórörnu dóttur sína Hergilsi hnapprass; réðst hann þá suður í Breiðafjörð og nam Berufjörð hjá Reykjanesi.

Örn hét maður ágætur; hann var frændi Geirmundar heljarskinns; hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði svo vítt sem hann vildi; hann sat um veturinn á Tjaldanesi, því að þar gekk eigi sól af um skammdegi.

Ánn rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og son Helgu dóttur Ánar bogsveigis, varð missáttur við Harald konung hinn hárfagra og fór því úr landi í vesturvíking; hann herjaði á Írland og fékk þar Grélaðar dóttur Bjartmars jarls. Þau fóru til Íslands og komu í Arnarfjörð vetri síðar en Örn. Ánn var hinn fyrsta vetur í Dufansdal; þar þótti Grélöðu illa ilmað úr jörðu.

Örn spurði til Hámundar heljarskinns frænda síns norður í Eyjafirði, og fýstist hann þangað; því seldi hann Áni rauðfeld lönd öll milli Langaness og Stapa. Ánn gerði bú á Eyri; þar þótti Grélöðu hunangsilmur úr grasi.

Dufann var leysingi Ánar; hann bjó eftir í Dufansdal.

Bjartmar var son Ánar, faðir Végesta tveggja og Helga, föður Þuríðar arnkötlu, er átti Hergils; þeirra dóttir var Þuríður arnkatla, er átti Helgi Eyþjófsson. Þórhildur var dóttir Bjartmars, er átti Vésteinn Végeirsson. Vésteinn og Auður voru börn þeirra. Hjallkár var leysingi Ánar; hans son var Björn þræll Bjartmars. Hann gaf Birni frelsi. Þá græddi hann fé, en Végestur vandaði um og lagði hann spjóti í gegnum, en Björn laust hann með grefi til bana.

Geirþjófur Valþjófsson nam land í Arnarfirði, Fossfjörð, Reykjarfjörð, Trostansfjörð, Geirþjófsfjörð, og bjó í Geirþjófsfirði; hann átti Valgerði, dóttur Úlfs hins skjálga. Þeirra son var Högni; hann átti Auði, dóttur Óláfs jafnakolls og Þóru Gunnsteinsdóttur. Atli var son þeirra; hann átti Þuríði Þorleifsdóttur, Eyvindarsonar knés og Þuríðar rymgyltu. Þorleifur átti Gró dóttur Þórólfs brækis. Höskuldur var son Atla, faðir (Atla, föður) Bárðar hins svarta.