Fara í innihald

Landnámabók/49. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
49. kafli

Ingjaldur Brúnason nam Ingjaldssand milli Hjallaness og Ófæru; hann var faðir Harðrefs, föður Þorgríms, föður þeirra Ljóts hins spaka, sem áður var ritað.

Ljótur hinn spaki bjó að Ingjaldssandi, son Þorgríms Harðrefssonar, en móðir hans var Rannveig, dóttir Grjótgarðs jarls. Þorgrímur gagar var son Ljóts. Halldísi systur Ljóts átti Þorbjörn Þjóðreksson, en Ásdísi, aðra systur Ljóts, nam Óspakur Ósvífursson; um þá sök sótti Ljótur Óspak til sektar. Úlfur hét son þeirra; þann fæddi Ljótur.

Grímur kögur bjó á Brekku; hans synir voru þeir Sigurður og Þorkell, litlir menn og smáir. Þórarinn hét fósturson Ljóts. Ljótur kaupir slátur að Grími til tuttugu hundraða og galt læk, er féll meðal landa þeirra; sá hét Ósómi. Grímur veitti hann á eng sína og gróf land Ljóts, en hann gaf sök á því, og var fátt með þeim.

Ljótur tók við austmanni í Vaðli; sá lagði hug á Ásdísi.

Gestur Oddleifsson sótti haustboð til Ljóts; þá kom þar Egill Völu-Steinsson og bað Gest, að hann legði ráð til, að föður hans bættist helstríð, er hann bar um Ögmund, son sinn. Gestur orti upphaf að Ögmundardrápu. Ljótur spurði Gest, hvað manna Þorgrímur gagar mundi verða. Gestur kvað Þórarin fóstra hans, frægra mundu verða og bað Þórarin við sjá, að eigi vefðist hár það um höfuð honum, er lá á tungu hans. Óvirðing þótti Ljóti þetta og spurði um morguninn, hvað fyrir Þorgrími lægi. Gestur kvað Úlf systurson hans mundu frægra verða.

Þá varð Ljótur reiður og reið þó á leið með Gesti og spurði: „Hvað mun mér að bana verða?“

Gestur kvaðst eigi sjá örlög hans, en bað hann vera vel við nábúa sína.

Ljótur spurði: „Munu jarðlýsnar, synir Gríms kögurs, verða mér að bana?“

„Sárt bítur soltin lús,“ kvað Gestur.

„Hvar mun það verða?“ kvað Ljótur.

„Héðra nær,“ kvað Gestur.

Austmaður reiddi Gest á heiði upp og studdi Gest á baki, er hestur rasaði undir honum.

Þá mælti Gestur: „Happ sótti þig nú, en brátt mun annað; gættu, að þér verði það eigi að óhappi.“

Austmaðurinn fann grafsilfur, er hann fór heim. Og tók af tuttugu penninga og ætlaði, að hann mundi feta til síðar; en er hann leitaði, fann hann eigi; en Ljótur fékk tekið hann, er hann var að grefti, og gerði af honum þrjú hundruð fyrir hvern penning.

Það haust var veginn Þorbjörn Þjóðreksson.

Um vorið sat Ljótur að þrælum sínum á hæð einni; hann var í kápu, og var höttrinn lerkaður um hálsinn og ein ermur á. Þeir Kögurssynir hljópu á hæðina og hjöggu til hans báðir senn; eftir það snaraði Þorkell höttinn að höfði honum. Ljótur bað þá láta gott í búsifjum sínum, og hröpuðu þeir af hæðinni á götu þá, er Gestur hafði riðið; þar dó Ljótur. Þeir Grímssynir fóru til Hávarðar halta. Eyjólfur grái veitti þeim öllum og Steingrímur son hans.