Landnámabók/50. kafli
Önundur Víkingsson, bróðir Þórðar í Alviðru, nam Önundar(fjörð allan) og bjó á Eyri.
Hallvarður súgandi var í orustu móti Haraldi konungi í Hafursfirði; hann fór af þeim ófriði til Íslands og nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga og bjó þar.
Þuríður sundafyllir og Völu-Steinn son hennar fór af Hálogalandi til Íslands og nam Bolungarvík, og bjuggu í Vatnsnesi. Hún var því kölluð sundafyllir, að hún seiddi til þess í hallæri á Hálogalandi, að hvert sund var fullt af fiskum. Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði. Synir Völu-Steins voru þeir Ögmundur og Egill.
Helgi hét son Hrólfs úr Gnúpufelli; hann var getinn austur og upplenskur að móðurætt. Helgi fór til Íslands að vitja frænda sinna; hann kom í Eyjafjörð, og var þar þá albyggt. Eftir það vildi hann utan og varð afturreka í Súgandafjörð. Hann var um veturinn með Hallvarði, en um vorið fór hann að leita sér bústaðar. Hann fann fjörð einn og hitti þar skutil í flæðarmáli; það kallaði hann Skutilsfjörð; þar byggði hann síðan.
Hans son var Þorsteinn ógæfa; hann fór utan og vó hirðmann Hákonar jarls Grjótgarðssonar, en Eyvindur ráðgjafi jarlsins sendi Þorstein til handa Vébirni Sygnatrausta. Hann tók við honum, en Védís systir hans latti þess. Fyrir það seldi Vébjörn eignir sínar og fór til Íslands, er hann treystist eigi að halda manninn.
Þórólfur brækir nam sunnan Skutilsfjörð og Skálavík og bjó þar.
Eyvindur kné fór af Ögðum til Íslands og Þuríður rúmgylta kona hans; þau námu Álftafjörð og Seyðisfjörð og bjuggu þar. Þeirra son var Þorleifur, er fyrr var getið, og Valbrandur faðir Hallgríms og Gunnars og Bjargeyjar, er átti Hávarður halti. Þeirra son var Óláfur.
Geir hét maður ágætur í Sogni; hann var kallaður Végeir, því að hann var blótmaður mikill; hann átti mörg börn. Vébjörn Sygnakappi var elstur sona hans og Vésteinn, Véþormur, Vémundur, Végestur og Véþorn, en Védís dóttir. Eftir andlát Végeirs varð Vébjörn ósáttur við Hákon jarl, sem fyrr var getið; því fóru þau systkin til Íslands. Þau höfðu útivist harða og langa.
Þau tóku um haustið Hlöðuvík fyrir vestan Horn; þá gekk Vébjörn að blóti miklu; hann kvað Hákon þann dag blóta þeim til óþurftar. En er hann var að blótinu, eggjuðu bræður hans hann til brautfarar, og gáði hann eigi blótsins, og létu þeir út. Þeir brutu þann dag skip sitt undir hömrum miklum í illviðri; þar komust þau nauðuglega upp, og gekk Vébjörn fyrir; það er nú kölluð Sygnakleif.
En um veturinn tók við þeim öllum Atli í Fljóti, þræll Geirmundar heljarskinns. En er Geirmundur vissi úrlausn Atla, þá gaf hann honum frelsi og bú það, er hann varðveitti; hann varð síðan mikilmenni.
Vébjörn nam um vorið eftir land milli Skötufjarðar og Hestfjarðar, svo vítt sem hann gengi um á dag og því meir, sem hann kallaði Folafót.
Vébjörn var vígamaður mikill, og er saga mikil frá honum. Hann gaf Védísi Grímólfi í Unaðsdal; þeir urðu missáttir, og vó Vébjörn hann hjá Grímólfsvötnum. Fyrir það var Vébjörn veginn á fjórðungsþingi á Þórsnesi og þrír menn aðrir.
Gunnsteinn og Halldór hétu synir Gunnbjarnar Úlfssonar kráku, er Gunnbjarnarsker eru við kennd; þeir námu Skötufjörð og Laugardal og Ögurvík til Mjóvafjarðar. Bersi var son Halldórs, faðir Þormóðar Kolbrúnarskálds. Þar í Laugardal bjó síðan Þorbjörn Þjóðreksson, er vó Óláf, son Hávarðar halta og Bjargeyjar Valbrandsdóttur; þar af gerðist saga Ísfirðinga og víg Þorbjarnar.