Landnámabók/53. kafli

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Önundur tréfótur son Ófeigs burlufótar, Ívarssonar beytils, Önundur var í móti Haraldi konungi í Hafursfirði og lét þar fót sinn. Eftir það fór hann til Íslands og nam land frá Kleifum til Ófæru, Kaldbaksvík, Kolbeinsvík, Byrgisvík, og bjó í Kaldbak til elli. Hann var bróðir Guðbjargar, móður Guðbrands kúlu, föður Ástu, móður Óláfs konungs. Önundur átti fjóra sonu; einn hét Grettir, annar Þorgeir flöskubak, þriðji Ásgeir æðikollur, faðir Kálfs og Hrefnu, er Kjartan átti, og Þuríðar, er Þorkell kuggi átti, en síðar Steinþór Óláfsson; hinn fjórði var Þorgrímur hærukollur, faðir Ásmundar, föður Grettis hins sterka.

Björn hét maður, er nam Bjarnarfjörð; hann átti Ljúfu; þeirra son var Svanur, er bjó á Svanshóli.

Steingrímur nam Steingrímsfjörð allan og bjó í Tröllatungu. Hans son var Þórir, faðir Halldórs, föður Þorvalds aurgoða, föður Bitru-Odda, föður Steindórs, föður Odds, föður Há-Snorra, föður Odds munks og Þórólfs og Þórarins rosta.

Kolli hét maður, er nam Kollafjörð og Skriðinsenni og bjó undir Felli, meðan hann lifði.

Þorbjörn bitra hét maður; hann var víkingur og illmenni. Hann fór til Íslands með skuldalið sitt; hann nam fjörð þann, er nú heitir Bitra, og bjó þar.

Nokkuru síðar braut Guðlaugur bróðir Gils skeiðarnefs skip sitt þar út við höfða þann, er nú heitir Guðlaugshöfði. Guðlaugur komst á land og kona hans og dóttir, en aðrir menn týndust. Þá kom til Þorbjörn bitra og myrti þau bæði, en tók meyna og fæddi upp. En er þessa varð var Gils skeiðarnef, fór hann til og hefndi bróður síns; hann drap Þorbjörn bitru og enn fleiri menn.

Við Guðlaug er kennd Guðlaugsvík.

Bálki hét maður Blæingsson, Sótasonar af Sótanesi; hann var á mót Haraldi konungi í Hafursfirði. Eftir það fór hann til Íslands og nam Hrútafjörð allan; hann bjó á Bálkastöðum hvorumtveggjum, en síðast í Bæ og dó þar.

Hans son var Bersi goðlauss, er fyrst bjó á Bersastöðum í Hrútafirði, en síðan nam hann Langavatnsdal og átti þar annað bú, áður hann fékk Þórdísar, dóttur Þórhadds úr Hítardal, og tók með Hólmsland. Þeirra son var Arngeir, faðir Bjarnar Hítdælakappa. Geirbjörg var dóttir Bálka, móðir Véleifs hins gamla.

Arndís hin auðga, dóttir Steinólfs hins lága, nam síðan land í Hrútafirði út frá Borðeyri; hún bjó í Bæ. Hennar son var Þórður, er bjó fyrr í Múla í Saurbæ.