Landnámabók/61. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
61. kafli

Eiríkur hét maður ágætur; hann fór af Noregi til Íslands; hann var son Hróalds Geirmundarsonar, Eiríkssonar örðigskeggja. Eiríkur nam land frá Gilá um Goðdali alla og ofan til Norðurár; hann bjó að Hofi í Goðdölum. Eiríkur átti Þuríði, dóttur Þórðar skeggja, systur Helgu, er Ketilbjörn átti hinn gamli að Mosfelli. Börn þeirra Eiríks voru þau Þorkell og Hróaldur, Þorgeir og Hólmgöngu-Starri og Gunnhildur. Þorgeir Eiríksson átti Yngvildi Þorgeirsdóttur, þeirra dóttir Rannveig, er átti Bjarni Brodd-Helgason. Gunnhildi Eiríksdóttur átti Véfröður Ævarsson.

Vékell hinn hamrammi hét maður, er land nam ofan frá Gilá til Mælifellsár og bjó að Mælifelli.

Hann spurði til ferða Roðreks. Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar; hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur.

En er þetta spurði Eiríkur í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rönguður; fór hann enn í landaleitan. Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri, er fellur fyrir vestan Hvinverjadal og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar og kom þar á manns spor og skildi, að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða.

Þaðan fór hann aftur, og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína, og þaðan af tókust ferðir um fjallið milli Sunnlendinga fjórðungs og Norðlendinga.

Kráku-Hreiðar hét maður, en Ófeigur lafskegg faðir hans, son Yxna-Þóris. Þeir feðgar bjuggu skip sitt til Íslands, en er þeir komu í landsýn, gekk Hreiðar til siglu og sagðist eigi mundu kasta öndvegissúlum fyrir borð, kveðst það þykja ómerkiligt að gera ráð sitt eftir því, kveðst heldur mundu heita á Þór, að hann vísaði honum til landa, og kveðst þar mundu berjast til landa, ef áður væri numið. En hann kom í Skagafjörð og sigldi upp á Borgarsand til brots. Hávarður hegri kom til hans og bauð honum til sín, og þar var hann um veturinn í Hegranesi.

Um vorið spurði Hávarður, hvað hann vildi ráða sinna, en hann kveðst ætla að berjast við Sæmund til landa. En Hávarður latti þess og kvað það illa gefist hafa, bað hann fara á fund Eiríks í Guðdölum og taka ráð af honum, „því (að) hann er vitrastur maður í héraði þessu“. Hreiðar gerði svo.

En er hann (fann) Eirík, latti hann þessa ófriðar og kvað það óhent, að menn deildi, meðan svo væri mannfátt á landi, kveðst heldur vilja gefa honum tunguna alla niður frá Skálamýri, kvað þangað Þór hafa vísað honum og þar stafn á horft, þá er hann sigldi upp á Borgarsand, kvað honum ærið það landnám og hans sonum.

Þenna kost þekkist Hreiðar og bjó á Steinsstöðum; hann kaus að deyja í Mælifell. Son hans var Ófeigur þunnskeggur, faðir Bjarnar, föður Tungu-Steins.