Landnámabók/65. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
65. kafli

Friðleifur hét maður, gauskur að föðurkyni, en Bryngerður hét móðir hans, og var hún flæmsk. Friðleifur nam Sléttahlíð alla og Friðleifsdal milli Friðleifsdalsár og Stafár og bjó í Holti. Hans son var Þjóðar, faðir Ara og Bryngerðar, móður Tungu-Steins.

Flóki son Vilgerðar Hörða-Káradóttur fór til Íslands og nam Flókadal milli Flókadalsár og Reykjarhóls; hann bjó á Mói. Flóki átti Gró, systur Þórðar frá Höfða. Þeirra son var Oddleifur stafur, er bjó á Stafshóli og deildi við Hjaltasonu. Dóttir Flóka var Þjóðgerður, móðir Koðráns, föður Þjóðgerðar, móður Koðráns, föður Kárs í Vatnsdal.

Þórður knappur hét maður sygnskur, son Bjarnar að Haugi, annar hét Nafar-Helgi; þeir fóru samskipa til Íslands og komu við Haganes. Þórður nam land upp frá Stíflu til Tunguár og bjó á Knappsstöðum; hann átti Æsu dóttur Ljótólfs goða. Þeirra son var Hafur, er átti Þuríði, dóttur Þorkels úr Guðdölum; þeirra son var Þórarinn, faðir Ófeigs.

Nafar-Helgi nam land fyrir austan upp frá Haganesi til Flókadalsár fyrir neðan Barð og upp til Tunguár og bjó á Grindli; hann átti Gró hina (snar)skyggnu. Þeirra börn voru þau Þórólfur og Arnór, er barðist við Friðleif á Stafshóli, og Þorgerður, er átti Geirmundur Sæmundarson, og Úlfhildur, er átti Arnór Skefilsson í Gönguskarði. Þeirra son var Þorgeir ofláti, er vó Blót-Má að Móbergi: Þórunn blákinn var ein.

Bárður suðureyingur nam land upp frá Stíflu til Mjóvadalsár; hans son var Hallur Mjódælingur, faðir Þuríðar, er átti Arnór kerlingarnef.

Brúni hinn hvíti hét maður ágætur, son Háreks Upplendingajarls; hann fór til Íslands af fýsi sinni og nam land á milli Mjóvadalsár og Úlfsdala; hann bjó á Brúnastöðum. Hann átti Arnóru, dóttur Þorgeirs hins óða, Ljótólfssonar goða; þeirra synir voru þeir Ketill og Úlfheðinn og Þórður, er Barðverjar eru frá komnir.

Úlfur víkingur og Óláfur bekkur fóru samskipa til Íslands. Úlfur nam Úlfsdali og bjó þar. Óláfur bekkur var son Karls úr Bjarkey af Hálogalandi; hann vó Þóri hinn svarta og varð fyrir það útlægur.

Óláfur nam alla dali fyrir vestan og Óláfsfjörð sunnan til móts við Þormóð og bjó að Kvíabekki. Hans synir voru þeir Steinmóður, faðir Bjarnar, og Grímólfur og Arnoddur, faðir Vilborgar, móður Karls hins rauða.

Þormóður hinn rammi hét maður; hann vó Gyrð, móðurföður Skjálgs á Jaðri, og varð fyrir það landflótti og fór til Íslands. Hann kom skipi sínu í Siglufjörð og sigldi inn að Þormóðseyri og kallaði af því Siglufjörð; hann nam Siglufjörð allan á milli Úlfsdala (og Hvanndala) og bjó á Siglunesi. Hann deildi um Hvanndali við Óláf bekk og varð sextán manna bani, áður þeir sættust, en þá skyldi sitt sumar hvor hafa.

Þormóður var son Haralds víkings, en hann átti Arngerði, systur Skíða úr Skíðadal. Þeirra synir voru þeir Arngeir hinn hvassi og Narfi, faðir Þrándar, föður Hríseyjar-Narfa, og Alrekur, er barðist í Sléttahlíð við Knör Þórðarson.

Gunnólfur hinn gamli, son Þorbjarnar þjóta úr Sogni, hann vó Végeir, föður Vébjarnar Sygnakappa, og fór síðan til Íslands; hann nam Óláfsfjörð fyrir austan upp til Reykjaár og út til Vomúla og bjó á Gunnólfsá. Hann átti Gró, dóttur Þorvarðs frá Urðum; þeirra synir voru þeir Steinólfur, Þórir og Þorgrímur.