Landnámabók/76. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
76. kafli

Þorsteinn torfi og Lýtingur bræður fóru til Íslands. Lýtingur nam Vopnafjarðarströnd alla hina eystri, Böðvarsdal og Fagradal, og bjó í Krossavík; frá honum eru Vopnfirðingar komnir.

Þorfiður hét maður, er fyrst bjó á Skeggjastöðum að ráði Þórðar hálma. Hans son var Þorsteinn fagri, er vó Einar, son Þóris Graut-Atlasonar, og bræður hans tveir, Þorkell og Heðinn, er vógu Þorgils, föður Brodd-Helga.

Þorsteinn torfi nam Hlíð alla utan frá Ósfjöllum og upp til Hvannár og bjó á Fossvelli. Hans son var Þorvaldur, faðir Þorgeirs, föður Hallgeirs, föður Hrapps á Fossvelli.

Hákon hét maður, er nam Jökulsdal allan fyrir vestan Jökulsá og fyrir ofan Teigará og bjó á Hákonarstöðum. Hans dóttir var Þorbjörg, er áttu synir Brynjólfs hins gamla, Gunnbjörn og Hallgrímur.

Teigur lá ónuminn millum Þorsteins torfa og Hákonar; þann lögðu þeir til hofs, og heitir sá nú Hofsteigur.

Skjöldólfur Vémundarson, bróðir Berðlu-Kára, nam Jökulsdal fyrir austan Jökulsá upp frá Knefilsdalsá og bjó á Skjöldólfsstöðum. Hans börn voru þau Þorsteinn, er átti Fastnýju Brynjólfsdóttur, og Sigríður, móðir Bersa Össurarsonar.

Þórður hét maður, son Þórólfs hálma, bróðir Helga bunhauss; hann nam Tungulönd öll á milli Lagarfljóts og Jökulsár fyrir utan Rangá. Hans son var Þórólfur hálmi, er átti Guðríði Brynjólfsdóttur. Þeirra son var Þórður þvari, faðir Þórodds, föður Brands, föður Steinunnar, móður Rannveigar, móður Sæhildar, er Gissur átti.

Össur slagakollur nam land milli Ormsár og Rangár; hann átti Guðnýju Brynjólfsdóttur; þeirra son var Ásmundur, faðir Marðar.

Ketill og Graut-Atli, synir Þóris þiðranda, fóru úr Veradal til Íslands og námu land í Fljótsdal, fyrr en Brynjólfur kom út. Ketill nam Lagarfljótsstrandir báðar fyrir vestan Fljót á milli Hengifossár og Ormsár.

Ketill fór utan og var með Véþormi syni Vémundar hins gamla; þá keypti hann að Véþormi Arneiði, dóttur Ásbjarnar jarls skerjablesa, er Hólmfastur son Véþorms hafði hertekið, þá er þeir Grímur systurson Véþorms drápu Ásbjörn jarl. Ketill keypti Arneiði dóttur Ásbjarnar tveim hlutum dýrra en Véþormur mat hana í fyrstu.

En er kaupið var orðið, þá gerði Ketill brúðkaup til Arneiðar. Eftir það fann hún grafsilfur mikið undir viðarrótum. Þá bauð Ketill að flytja hana til frænda sinna, en hún kaus þá honum að fylgja.

Þau fóru út og bjuggu á Arneiðarstöðum; þeirra son var Þiðrandi faðir Ketils í Njarðvík.