Fara í innihald

Landnámabók/77. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
77. kafli

Graut-Atli nam hina eystri strönd Lagarfljóts allt á milli Giljár og Vallaness fyrir vestan Öxnalæk. Hans synir voru þeir Þorbjörn og Þórir, er átti Ásvöru Brynjólfsdóttur.

Þorgeir Vestarsson hét maður göfugur; hann átti þrjá sonu; var einn Brynjólfur hinn gamli, annar Ævar hinn gamli, þriðji Herjólfur. Þeir fóru allir til Íslands á sínu skipi hver þeirra.

Brynjólfur kom skipi sínu í Eskifjörð og nam land fyrir ofan fjall, Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá fyrir austan, Skriðudal allan, og svo Völluna út til Eyvindarár og tók mikið af landnámi Una Garðarssonar og byggði þar frændum sínum og mágum. Hann átti þá tíu börn, en síðan fékk hann Helgu, er átt hafði Herjólfur bróðir hans, og áttu þau þrjú börn. Þeirra son var Össur, faðir Bersa, föður Hólmsteins, föður Órækju, föður Hólmsteins, föður Helgu, móður Hólmsteins, föður Hallgerðar, móður Þorbjargar, er átti Loftur byskupsson.

Ævar hinn gamli bróðir Brynjólfs kom út í Reyðarfirði og fór upp um fjall; honum gaf Brynjólfur Skriðudal allan fyrir ofan Gilsá; hann bjó á Arnaldsstöðum; hann átti tvo sonu og dætur þrjár.

Ásröður hét maður, er fékk Ásvarar Herjólfsdóttur, bróðurdóttur Brynjólfs og stjúpdóttur; henni fylgdu heiman öll lönd milli Gilsár og Eyvindarár; þau bjuggu á Ketilsstöðum. Þeirra son var Þorvaldur holbarki, faðir Þorbergs, föður Hafljóts, föður Þórhadds skálar. Dóttir Holbarka var Þórunn, er átti Þorbjörn Graut-Atlason, önnur Ástríður, móðir Ásbjarnar loðinhöfða, föður Þórarins í Seyðarfirði, föður Ásbjarnar, föður Kolskeggs hins fróða og Ingileifar, móður Halls, föður Finns lögsögumanns.

Hrafnkell hét maður Hrafnsson; hann kom út síð landnámatíðar. Hann var hinn fyrsta vetur í Breiðdal. En um vorið fór hann upp um fjall.

Hann áði í Skriðudal og sofnaði; þá dreymdi hann, að maður kom að honum og bað hann upp standa og fara braut sem skjótast; hann vaknaði og fór brutt. En er hann var skammt kominn, þá hljóp ofan fjallið allt, og varð undir göltur og griðungur, er hann átti.

Síðan nam Hrafnkell Hrafnkelsdal og bjó á Steinröðarstöðum. Hans son var Ásbjörn, faðir Helga, og Þórir, faðir Hrafnkels goða, föður Sveinbjarnar.