Fara í innihald

Landnámabók/78. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
78. kafli

Uni son Garðars, er fyrst fann Ísland, fór til Íslands með ráði Haralds konungs hárfagra og ætlaði að leggja undir sig landið, en síðan hafði konungur heitið honum að gera hann jarl sinn.

Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós, og húsaði þar; hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar.

En er landsmenn vissu ætlan hans, tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir, og mátti hann eigi þar haldast. Uni fór í Álftafjörð hinn syðra; hann náði þar eigi að staðfestast.

Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi; hann tók við þeim. Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs, og var hún með barni um vorið. Þá vildi Uni hlaupast á braut með sína menn, en Leiðólfur reið eftir honum, og fundust þeir hjá Flangastöðum og börðust þar, því að Uni vildi eigi aftur fara með Leiðólfi; þar féllu nokkurir menn af Una, en hann fór aftur nauðigur, því að Leiðólfur vildi, að hann fengi konunnar og staðfestist og tæki arf eftir hann.

Nokkuru síðar hljóp Uni á braut, þá er Leiðólfur var eigi heima, en Leiðólfur reið eftir honum, þá er hann vissi, og fundust þeir hjá Kálfagröfum; var hann þá svo reiður, að hann drap Una og förunauta hans alla.

Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði; hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti dóttur Hámundar, systur Gunnars frá Hlíðarenda; þeirra son var Hámundur hinn halti, er var hinn mesti vígamaður.

Tjörvi hinn háðsami og Gunnar voru (systur)synir Hróars. Tjörvi bað Ástríðar manvitsbrekku Móðólfsdóttur, en bræður hennar, Ketill og Hrólfur, synjuðu honum konunnar, en þeir gáfu hana Þóri Ketilssyni. Þá dró Tjörvi líkneski þeirra á kamarsvegg, og hvert kveld, er þeir Hróar gengu til kamars, þá hrækti hann í andlit líkneski Þóris, en kyssti hennar líkneski, áður Hróar skóf af. Eftir það skar Tjörvi þau á knífsskefti sínu og kvað þetta:

Vér höfum þar sem Þóri,
þat vas sett við glettu,
auðar unga brúði
áðr á vegg of fáða.
Nú hefk, rastkarns, ristna
réðk mart við Syn bjarta,
hauka, skofts, á hefti
Hlín ölbækis mínu.

Hér af gerðust víg þeirra Hróars og systursona hans.

Þorkell fullspakur hét maður, er nam Njarðvík alla og bjó þar. Hans dóttir var Þjóðhildur, er átti Ævar hinn gamli, og var þeirra dóttir Yngvildur, móðir Ketils í Njarðvík Þiðrandasonar.

Veturliði hét maður, son Arnbjarnar Óláfssonar langháls, bróðir þeirra Lýtings, Þorsteins torfa og Þorbjarnar í Arnarholti. Óláfur langháls var son Bjarnar reyðarsíðu. Veturliði nam Borgarfjörð og bjó þar.

Þórir lína hét maður, er nam Breiðavík og bjó þar; hans synir voru þeir Sveinungur og Gunnsteinn.

Nú hefir Kolskeggur fyrir sagt héðan frá um landnám.