Landnámabók/95. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Landnámabók: V. hluti höfundur óþekktur

Ráðormur og Jólgeir bræður komu vestan um haf til Íslands; þeir námu land milli Þjórsár og Rangár.

Ráðormur eignaðist land fyrir austan Rauðalæk og bjó í Vétleifsholti. Hans dóttir var Arnbjörg, er átti Svertingur Hrolleifsson. Þeirra börn voru þau Grímur lögsögumaður og Jórunn. Síðar átti Arnbjörgu Gnúpur Molda-Gnúpsson, og voru þeirra börn Hallsteinn á Hjalla og Rannveig, móðir Skafta lög(sögu)manns, og Geirný, móðir Skáld-Hrafns.

Jólgeir eignaðist land fyrir utan Rauðalæk og til Steinslækjar; hann bjó á Jólgeirsstöðum.

Áskell hnokkan, son Dufþaks Dufníalssonar, Kjarvalssonar Írakonungs, hann nam (land) milli Steinslækjar og Þjórsár og bjó í Áskelshöfða. Hans son var Ásmundur, faðir Ásgauts, föður Skeggja, föður Þorvalds, föður Þorlaugar, móður Þorgerðar, móður Jóns byskups hins helga.

Þorkell bjálfi, fóstbróðir Ráðorms, eignaðist lönd öll milli Rangár og Þjórsár og bjó í Háfi; hann átti Þórunni eyversku. Þeirra dóttir var Þórdís, móðir Skeggja, föður Þorvalds í Ási. Þaðan hafði Hjalti mágur hans reiðskjóta til alþingis og þeir tólf, þá er hann var út kominn með kristni, en engi treystist annar fyrir ofríki Rúnólfs Úlfssonar, er sektan hafði Hjalta um goðgá.

Nú eru ritaðir þeir menn, er lönd hafa numið í landnámi Ketils hængs.

Loftur son Orms Fróða(sonar) kom af Gaulum til Íslands ungur að aldri og nam fyrir utan Þjórsá milli Rauðár og Þjórsár og upp til Skúfslækjar og Breiðamýri hina eystri upp til Súluholts og bjó í Gaulverjabæ og Oddný móðir harms, dóttir Þorbjarnar gaulverska.

Loftur fór utan hið þriðja hvert sumar fyrir hönd þeirra Flosa beggja, móðurbróður síns, að blóta að hofi því, er Þorbjörn móðurfaðir hans hafði varðveitt. Frá Lofti er margt stórmenni komið, Þorlákur hinn helgi, Páll og Brandur.

Þorviður son Úlfars, bróðir Hildar, fór af Vörs til Íslands, en Loftur frændi hans gaf honum land á Breiðamýri, og bjó hann í Vörsabæ. Hans börn voru þau Hrafn og Hallveig, er átti Össur hinn hvíti, þeirra son Þorgrímur kampi.

Þórarinn hét maður, sonur Þorkels úr Alviðru Hallbjarnarsonar Hörðakappa; hann kom skipi sínu í Þjórsárós og hafði þjórshöfuð á stafni, og er þar áin við kennd. Þórarinn nam land fyrir ofan Skúfslæk til Rauðár með Þjórsá. Hans dóttir var Heimlaug, er Loftur gekk að eiga sextögur.