Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar/Formáli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar höfundur Oddur Gottskálksson
Þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu.

Það væri nú réttast og tilheyrilegast það þessi bók útgengi án nokkurs formála eða undir nokkru annarlegu nafni, en færði heldur sitt heiti og eiginlega orðræðu. Því að fyrir margháttaðar útskýringar og ýmislegar fortölur eru kristinna manna hugskot nú þangað dreifð að nálegana vita menn eigi lengur hvað evangelion eða lögmál, nýtt eður gamalt testamentum kallast. Af því krefur nauðsyn til að samsetja einn formála og undirvísan á að gjöra, hvar með það hinn einfaldi mann mætti undirvísan fá og frá leiðast sínum fornum óvana á réttan stig og hvað hann skal halda af þessari bók, svo að hann leitaði þar öngra boðorða né lögmáls er hann skyldi leita evangelia og Guðs fyrirheita.

Þá er í fyrstu það vel vitanlegt að sá vani eður meining er af takandi að eigi sé utan fjögur evangelia og fjórir guðsspjallamenn, en það er með öllu fyrirbjóðanda að nokkrir skipti nýja testaments bókum í legales, historiales, prophetales og sapientiales, það er í lagabækur, sögubækur, í spádóms og vísinda bækur, meina þar meður (eg veit eigi að hverninn) að samlíkja hið nýja hinu gamla testamento. Heldur er það fastlega haldandi að líka svo sem hið gamla testament er ein bók, hvar Guðs lögmál og boðorð og einninn þeir gjörningar, bæði þeir sem þeir héldu og eigi héldu, eru innskrifaðir, líka svo er hið nýja testament ein bók, þar eð evangelium og Guðs fyrirheit og einninn þeirra gjörningar, sem þar á trúa og eigi trúa, eru innskrifaðir, svo að vér séum nú og fullvísir í að þar er eigi meir en eitt evangelion líka svo sem að þar er eigi meir en ein bók hins nýja testamentis, ein trúa og einn sá Guð sem fyrirheitið til segir.

Því að evangelium er eitt girskt orð og þýðist á norrænu gleðilegur boðskapur, góður gróði, ný ljúfleg tíðindi, eitt æskilegt siguróp, um hvert að vér ættum að syngja, segja og fagna, líka svo sem þá er Davíð yfirvann hinn mikla Golíant, kom eitt æskilegt siguróp og ný huggunartíðindi á meðal Íraels sona af því að þeirra hinn ógurlegi fjandmann varð yfirstiginn, en þeir til frelsis og fagnaðar leystir og skikkaðir, af hverju þeir sungu, dönsuðu og næsta fegnir urðu. Líka svo er nú þetta Guðs evangelion og nýja testament einn góður gróði og siguróp, hvert er fyrir postulanna framburð hljóðar um allan heim af einum réttferðugum Davíð, sá er við syndir, dauða og djöfulinn barðist og yfirvann, sá sem að þar með hefir alla þá, sem í syndum voru herteknir, með dauðanum plagaðir og af djöflinum yfirbugaðir (án þeirra verðleiks), endurleyst, réttlætt, lífgað og farsællega gjört, svo og til friðar skikkað og Guði heimfært, hvar fyrir þeir syngja og Guði þakkir gjöra, fagna og að eilífu lofa, ef þeir trúa annars örugglega og staðfastir blífa í trúnni. Þvílíkt siguróp og huggunargróði eða evangelísk og guðleg ný tíðindi kallast og eitt nýtt testamentum af því að líka svo sem eitt testament er það, nær að banvænn maður tilgreinir sitt góss það sem eftir hans dauða skal af tileinkuðum örfum útskiptast, líka svo hefir Kristur fyrir sitt líflát bífalað og tilgreint slíkt evangelium eftir sinn dauða út að kalla um allan heim og þar meður öllum þeim er trúa til eignar gefið allt sitt góss, það er sitt líf, með hverju hann dauðanum mýgði, sitt réttlæti, hvar meður hann syndirnar afmáði, og sína farsælu, þar hann eilífa fyrirdæming með yfirvann. Nú fær sá hinn volaði maður, sem í syndum, dauða og helvíti er reyrður, ekkert ljúflegar heyrt en slíkan dýrlegan huggunarboðskap af Kristi. Því má hans hjarta af innstu rót fagna og við gleðjast ef hann trúir annars að það sé sannindi.

Nú hefir Guð slíkri trú til styrktar þetta sitt evangelium og nýja testament margfaldlega fyrirheitið í hinu gamla testamento fyrir munn sinna spámanna eftir því sem Páll postuli segir, Róm. i. kap.: Eg em útlesinn til að predika Guðs evangelium, hverju hann hefir áður fyrirheitið fyrir sína spámenn í heilagri skrift, af sínum syni sem fæddur er af Davíðs sæði og etc. Og það vér útskýrum nokkrar þær greinir og hann hafði í fyrstu fyrirheitið eftir því sem hann sagði til höggormsins, Gen. iii. kap.: Eg mun fjandskap setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis, það sama skal þitt höfuð í sundur merja, og þú munt þess hælbeini umsát veita. Kristur er það sæði þessarar konu, sá er djöfulsins höfuð (það er syndin, dauðinn, helvíti og allan hans kraft) hefir sundur marið. Því að án þessa sæðis fær enginn manna syndina, dauðann né helvíti forðast. Item Gen. xxii., sagði hann til Abrahams: Í þínu sæði skulu allar kynkvíslir á jörðu blessaðar verða. Kristur er það Abrahams sæði, segir Páll postuli, Galatas iii., hver eð blessað hefur allan heim meður þessu evangelio. Því hvar sem Kristur er eigi, þar er enn sú bölvan sem féll yfir Adam og öll börn hans þá er hann hafði syndgast því að allir hljóta síðan syndum, dauða og helvíti eiginlegir og sekir að vera. En í gegn þessari bölvan blessar nú þetta hið dýrmæta evangelium alla veröld með því að það opinbarlega kallar: Hver hann trúir á þetta Abrahams sæði, sá skal blessaður vera, það er af syndum, dauða og helvíti kvittaður, blífandi svo eilíflega réttlátur, sæll og lifandi svo sem sjálfur Kristur segir, Jóhannes xi.: Hver hann trúir á mig, sá mun aldregi deyja.

Item svo sagði hann það Davíð til, ii. Regum xii. þá er hann sagði: Eg mun upp vekja þitt sæði eftir þig, það skal mér upp byggja eitt hús, og eg mun að eilífu hans ríki staðfesta. Eg vil hans faðir vera, en hann skal minn sonur vera etc. Það er nú það ríki Krists sem þetta evangelion af segir, hvert að er eitt eilíft ríki, eitt ríki réttlætisins, sáluhjálparinnar og lífsins. Þangað koma og (úr hertekju syndarinnar og dauðans) allir þeir er rétt trúa. Þvílík fyrirheit og Guðs evangelion finnast enn víðara hjá spámönnum svo sem Míkeas v. kap. segir: Og þú Betlehem ert eigi hin minnsta bland þúsundir Júda. Út af þér skal mér koma einn hertogi míns lýðs Íraels. Item, Hósee xiii.: Eg vil þá leysa úr dauðans hendi, frá dauðanum vil eg þá frelsa. Af því megu vær nú sjá að þar er eigi meir en eitt evangelion, líka svo sem að eigi er meir en einn Kristur. Fyrir því er evangelium eigi annað, né vera kann, en ein predikan af Kristi, Guðs og Davíðs syni, sem er sannur Guð og mann, sá er fyrir oss hefur með sínum dauða og upprisu allra manna syndir, dauða og helvíti yfirstigið, þeirra sem á hann trúa, nú þó að evangelium kunni að vera stutt eður löng orðræða eða kunni einn að skrifa langort, en annar fáort. Sá skrifar langort sem orð Krists og margar gjörðir útskrifar, svo sem að gjöra fjórir guðsspjallamenn. En sá skrifar það stutt og fáort sem ekki talar um verkin eða gjörðir Krists, heldur stuttlegana tilteiknandi hverninn að hann hefur fyrir sinn dauða og upprisu, syndir, dauða og helvíti yfirunnið fyrir þá sem á hann trúa svo sem postularnir Pétur og Páll útskýra.

Af því athuga það vandlega að þú gjör eigi Krist að Moysen, né af evangelio eina lögmáls eður setninga bók, sem hingað til skeð hefur og enn heyrist í nokkrum formálum hins helga Jeronimi. Því að evangelium krefur eiginlega eigi vorra verka það vér verðum þar fyrir frómir og farsælir, heldur fordæmir það slík vor verk, en krefur réttrar trúar á Kristum, að hann sjálfur hafi fyrir oss syndir, dauða og helvíti yfirunnið og hefur svo (eigi fyrir vorra verka sakir, heldur fyrir sínar eignar gjörðir sem er dauði og pína) gjört oss fróma, lifandi og farsæla svo að vér megum oss tilreikna hans dauða og sigursæld, líka sem að það væri vor eiginn tilverknaður.

En þó að Kristur í evangelio, líka og einninn þeir Pétur og Páll, gefi mörg boðorð og kenningar, útleggjandi svo lögmálið, þá skulu vær það þó að jöfnu reikna öllum öðrum verkum og velgjörðum Krists. Og líka sem það er að vita hans verk og gjörðir, er enn eigi að vita hið rétta evangelion því að þar með veist þú enn eigi að hann hafi synd, dauða og djöfulinn yfirunnið. Svo er og enn eigi réttlega skilið það evangelion þótt þú vitir þvílík boðorð og kenningar fyrr en röddin kemur, sú er segir að Kristur sé þinn eiginn meður sínu líferni, lærdómi, verkum, lífláti, upprisu og allt það hann er, hefir, gjörir og formá.

Svo sjáu vér nú að eigi þrengir hann, heldur hýrlega til sín laðar þar hann segir: Sælir eru þér volaðir. En postularnir tíðka og þessi orð: Eg áminni, eg bið og beiði yður, það er fyrir guðs sakir eður nokkurs konar annars að biðja. Það megu vær alls staðar vel sjá að evangelion er engin lögmálsbók, heldur ein eiginleg predikan af Krists velgerningum, sú oss kunngerist og til eignar er gefin ef vér trúum. En Moyses í sínum bókum þjár, þrengir, slær, skelfir og ógurlega straffar því að hann er lögmálsskrifari og þjáningarmaður. Þaðan kemur og það að réttferðugum er ekkert lögmál sett eftir því sem Páll postuli segir (í Tímóti) af því að hann er fyrir trúna réttlættur, lífgaður og farsæll gjörður, þurfi eigi annars við en að auglýsa slíka trú með nytsamlegum verkum. Nú hvar eð slík trúa er, þá fær hún sig eigi fólgið, heldur auglýsir hún sig, út sprettandi með góðum verkum, játar og viðurkennir þetta evangelion fyrir alþýðu, hættandi sínu lífi þar út fyrir. Og allt hvað hann stundar eður gjörir, þá sveigir hann allt til náungsins nytsemdar og honum til hjálpar, eigi einasta í því að koma honum til þvílíkrar náðar, heldur jafnvel styrkjandi hann meður góss, líf og æru, líka sem að hann sér að Kristur hefir viður sig gjört, eftirfylgjandi svo dæmum Krists. Það var og Krists meining þann tíð hann gaf oss í skilnað ekkert annað boðorð en kærleikann, hvar af að vér skyldum þekkja hverjir hans lærisveinar og rétttrúaðir væri. Því að þar sem verkin og kærleikurinn út fljóta eigi, þá er þar engin rétt trúa, þar hremmir og evangelion enn ei, þar er og Kristur enn eigi réttlega játaður. Því sjá nú til að þú haga þér svo í þessum nýja testaments bókum að þú kunnir þær að lesa á þennan hátt.


Hverjar eð eru hinar réttustu og dýrmætustu bækur hins nýja testamentis[breyta]

Af þessu öllu þá kannt þú (á meðal allra bóka) rétt að órskurða og eina grein af að taka hverjar að bestar eru, því einkanlega eru Jóhannis evangelia og s. Páls pistlar (sérdeilis sá sem er til Rómverja og hinn fyrri Péturs pistill) réttur kjarni og takmark á meðal allra annarra bóka, hverjar með réttu ættu fyrstar að standa. Því væri hverjum kristnum manni það ráð upp takanda að hann læsi þær sömu bækur yfir sem fyrst og tíðast, gerandi sér þær fyrir daglegan lesning svo alkunnar sem sitt annað daglegt brauð. Því að í þeim finnur þú eigi mörg verk né jarteiknagjörðir Krists upp skráðar, heldur finnur þú í þeim næsta meistarlegana útbreitt það að trúa á Kristum yfirvinni synd, dauða og helvíti og gefi oss líf, réttlæti og farsæld, hver að er hin sanna art Guðs evangelia, sem þú hefir áður heyrt.

Því ef að eg skyldi annars hvors við missa, verka Krists eður predikunar, þá vildi eg ljúfar verkanna á miss fara en predikunarinnar. Því að verkin stoða eigi, en hans orð gefa mér eilíft líf eftir því sem sjálfur hann segir. Og af því að Jóhannes skrifar fátt af Krists verkum, en margt um hans predikan, en hinir þrír evangelistar skrifa margt hans verka, en fátt hans orða, því er Jóhannis evangelion þau einka og skæru, réttu höfuðguðsspjöll sem langt yfir þá aðra þrjá eru fram takandi, stundandi og hærra upp hefjandi. Líka svo ganga og s. Páls og Péturs pistlar langt fram og upp yfir þau þrjú evangelia sem Matteus, Markús og Lúkas skrifa.

En alls þá eru s. Jóhannis evangelion og hans hinn fyrsti pistill og s. Páls pistlar, einkanlega sá er til Rómverja og til Galatos og Efesiomanna, svo og s. Péturs pistill hinn fyrri, þær bækur sem þér vísa á Kristum og kenna allt það er þér er farsæld og þörf á að vita þó að þú sæir aldri aðrar bækur né heyrðir aðrar kenningar en þeirra. Af því er s. Jakobs pistill einn staurgresis pistill hjá þeim því að hann hefur nær öngva evangelíska art meður sér sem síðar mun greint verða í öðrum formála.

Þessar eru bækur hins nýja testamenti

 1. S. Matteus guðsspjöll
 2. S. Markús guðsspjöll
 3. S. Lúkas guðsspjöll
 4. S. Jóhannis guðsspjöll
 5. Postulagjörningar skrifaðir af s. Lúkas
 6. S. Páls pistill til Rómverja
 7. Hinn fyrri s. Páls pistill til Korintios
 8. Annar s. Páls pistill til Korintios
 9. S. Páls pistill til Galatas
 10. S. Páls pistill til Efesios
 11. S. Páls pistill til Filippensis
 12. S. Páls pistill til Kolossenses
 13. Hinn fyrri s. Páls pistill til Þessalonikenses
 14. Annar pistill s. Páls til Þessalonia
 15. Hinn fyrri s. Páls pistill til Tímóteo
 16. Annar s. Páls pistill til Tímóteo
 17. S. Páls pistill til Títum
 18. S. Páls pistill til Fílemonem
 19. Pistillinn til Ebreos
 20. S. Jakobs pistill
 21. Hinn fyrri pistill s. Petrus
 22. Annar pistill s. Petrus
 23. Hinn fyrsti s. Jóhannis pistill
 24. Annar s. Jóhannis pistill
 25. Þriðji s. Jóhannis pistill
 26. Pistill hins heilaga Júde
 27. Opinberingar sankti Jóhannis.