Fara í innihald

Norsk æfintýri/Formálsorð

Úr Wikiheimild
Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Formálsorð

Formálsorð

Þjóðsögur og æfintýri eru bókmentir, sem æskunni geðjast að á öllum tímum. Þeir menn, sem verja æfi sinni til þess að forða slíku frá gleymsku, eiga skildar þakkir kynslóðanna. Vér Íslendingar höfum átt slíka menn, Jón Árnason og Ólafur Davíðsson bera þeirra hæst. En ótal margir aðrir hafa viðað að sér sögum af vörum fólksins, sem það varðveitti frá gleymsku með því að segja þær börnunum, og sem þau lærðu svo vel, að þau sögðu aftur börnum sínum. —

En með breyttum tímum þarf að færa slíkt i letur, annars gleymist það, foreldrarnir mega ekki lengur vera að því að segja börnum sínum sögur, nema þá fáar einar, hraði breyttra tíma sér fyrir því. Börnin verða að lesa þær sjálf, og til þess þarf að vera að þeim gerður greiður aðgangur á prenti.

Margar sögur og einkanlega æfintýri eru svipuð með ýmsum þjóðum, þannig munu í æfintýrum vorum vera til lítið frábrugðnar útgáfur af sumum þeim sögnum, sem birtast í þessari bók. En sögur þessarar bókar eru teknar saman og færðar í letur af manni, sem varði miklu af æfistarfi sínu til þess að varðveita æfintýra- og þjóðsagnaauð Norðmanna frá gleymsku, P. Chr. Asbjörnsen.

Asbjörnsen var fæddur árið 1812, en hann dó 1885. Hann lagði á margt gjörfa hönd um æfina, varð fyrst stúdent, síðan heimiliskennari og þvínæst blaðamaður. Nokkru eftir að hann var orðinn stúdent, byrjaði hann að safna þjóðsögunum og æfintýrunum, ásamt skólabróður sínum, Jörgen Moe. Það var árið 1841, sem fyrsta bindið af æfintýrunum kom út. Halda fróðir menn því fram, að þessi bókmentastarfsemi hafi átt drjúgan þátt í þeirri þjóðernisvakningu, sem yfir Noreg gekk um þessar mundir. Asbjörnsen varð síðar skógræktarstjóri Noregs, en hélt áfram þjóðsagna- og æfintýrasöfnuninni til dauðadags, og var þá safn hans orðið mikið að vöxtum.

..Ég vona að íslenzk æska sé enn ekki orðin svo háð tímum tækni og hraða, að hún geti ekki gefið sér tíma til þess að líta inn í ríki hinna fornu æfintýra, sem draumar kynslóðanna hafa skapað, og sem þær mega ekki missa. Því það hverfur margt ómissandi úr lífi hvers barns, hvers manns, ef ímyndunaraflið þver.

Þýðandinn.