Fara í innihald

Norsk æfintýri/Smiðurinn, sem kölski þorði ekki að hýsa

Úr Wikiheimild
Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Smiðurinn, sem kölski þorði ekki að hýsa

Smiðurinn, sem kölski þorði ekki að hýsa

Einu sinni á þeim dögum, þegar Drottinn og Sankti Pjetur gengu um kring niðri á jörðunni, komu þeir til járnsmiðs nokkurs. Þessi smiður hafði samið um það við kölska, að hann ætti hann eftir sjö ár, ef hann væri allan þann tíma leiknastur af öllum smiðum í iðninni, og bæði smiðurinn og sá gamli höfðu ritað nöfn sín undir samninginn. Þessvegna hafði smiðurinn látið rita yfir smiðjudyrnar: „Hjer býr meistari allra meistara.“

Þegar Drottinn kom og sá þetta, gekk hann inn.

„Hver ert þú,“ sagði hann við smiðinn.

„Lestu það sem stendur yfir dyrunum,“ svaraði smiðurinn, „en kanske þú kunnir ekki að lesa skrift, og þá verðurðu að bíða, þangað til einhver kemur, sem getur hjálpað þjer“.

Áður en Drottinn hafði svarað, kom maður með hest og bað smiðinn um að járna hann fyrir sig.

„Mætti jeg ekki járna þenna hest?“ spurði Drottinn.

„Reynt geturðu það,“ sagði smiðurinn. „Ekki geturðu gert það verr en svo, að jeg geti lagað það aftur.“

Drottinn gekk þá út og tók einn fótinn af hestinum, lagði hann í eldinn og gerði skeifuna glóandi, því næst hvesti hann naglana, negldi þá í og setti svo fótinn á hestinn aftur, síðan fór hann eins með hina fæturna, uns hann hafði járnað hestinn.

Smiðurinn stóð og horfði á hann. „Þú ert alls ekki svo ljelegur smiður,“ sagði hann.

„Finnst þjer það,“ sagði Drottinn.

Skömmu síðar kom móðir smiðsins í smiðjuna, hún var orðin afgömul, kengbogin af elli, og hrukkótt í framan, og gat rjett staulast áfram.

„Taktu nú eftir því sem þú sjerð,“ sagði Drottinn, hann tók gömlu konuna og lagði hana á eldinn og smíðaði unga yndislega stúlku úr henni.

„Jeg segi aftur, það sem jeg sagði áðan,“ sagði smiðurinn, „þú ert alls ekki svo slakur smiður. „Og þó að yfir dyrunum hjá mjer standi: „Hjer býr meistari allra meistara, — ja maður lærir meðan maður lifir.“ Og með það fór hann heim að borða.

Þegar hann var aftur kominn í smiðjuna, kom maður ríðandi og vildi fá hestinn sinn járnaðan.

„Jeg skal nú ekki vera lengi að því,“ sagði smiðurinn, „Jeg er nýbúinn að læra ágæta aðferð til þess að járna hest fljótt og vel, sú aðferð er góð í skamdeginu, þegar stutt er myrkranna á milli.“ Og svo fór hann að skera, og gat loksins náð öllum fótunum af hestinum, „því ekki veit jeg hvað það á að þýða að vera að fikta við einn og einn í einu“, sagði hann. Fæturna lagði hann á eldinn, eins og hann hafði sjeð Drottinn gjöra, setti mikið af kolum á og bljes duglega með belgnum. En þá fór, eins og við var að búast, fæturnir brunnu upp, og smiðurinn varð að borga hestinn. Honum þótti það nú ekki sem skemtilegast en í sama bili kom gömul förukona framhjá, og svo hugsaði smiðurinn: — ef eitt mistekst, þá tekst annað, tók kerlinguna og lagði hana á eldinn, hún grjet og baðst vægðar, en ekkert dugði, „þú skilur ekki, hvað þjer er fyrir bestu, þó þú sjert svona gömul, nú skaltu aftur verða ung og falleg eftir svolitla stund, og jeg skal ekki taka einn eyri fyrir verkið“, sagði smiðurinn. En það fór ekki betur með veslings gömlu konuna, heldur en hestfæturna.

„Illa var þetta gert“, sagði Drottinn.

„O, það sakna hennar nú ekki margir“ svaraði smiðurinn; „en þetta er skömm af kölska, hvað hann heldur illa samninginn, nú er það ekki lengur satt, sem yfir dyrunum stendur“.

„Ef jeg gæti nú veitt þjer þrjár óskir“, sagði Drottinn. „Hvers myndirðu þá óska þjer?“

„Reyndu mig“, sagði smiðurinn, „og þá færðu að víta það“.

Drottinn veitti honum þá þrjár óskir.

„Þá óska jeg fyrst og fremst, að hver sem jeg bið um að klifra upp í perutrjeð, sem stendur hjer við smiðjuvegginn, verði að sita þar, þangað til jeg bið hann sjálfur að koma niður aftur“, sagði smiðurinn, „og í öðru lagi óska jeg þess, að hver, sem jeg bið að setjast hjer í hægindastólinn inni í smiðjunni, verði að sitja þar kyrr, uns jeg vil að hann standi upp, og í þriðja lagi óska jeg þess, að hver sem jeg bið um að skríða inn í þessa peningapyngju úr stálhlekkjum, sem jeg hefi, verði að vera þar kyrr, þangað til jeg leyfi honum að skríða út aftur“.

„Þú óskaðir sem vondur maður“, sagði Sankti Pjetur, „fyrst og fremst hefðir þú átt að óska þjer kærleika Guðs og náðar“.

„Jeg þorði ekki að biðja um svo mikið“, sagði smiðurinn. Því næst kvöddu þeir hann, Drottinn og Sankti Pjetur, og hjeldu sína leið.

Það leið og beið, og þegar tíminn kom, kom kölski, eins og í slamningnum stóð, og ætlaði að sækja smiðinn.

„Ertu tilbúinn núna?“ spurði hann og stakk trýninu inn um smiðjudyrnar.

„Ó, jeg hefði endilega þurft að hnoða haus á naglann þann arna“, sagði smiðurinn. „Klifraðu þarna upp í perutrjeð á meðan og fáðu þjer peru að naga, því þú hlýtur að vera svangur og þyrstur eftir langa göngu.“

Fjandinn þakkaði gott boð og klifraði upp í trjeð.

„Ja, þegar jeg hugsa mig vel um“, sagði smiðurinn, „þá get jeg alls ekki hnoðað höfuð á þennan nagla á fjórum árum, því þetta járn er svo hart. En niður skalt þú ekki komast þann tíma, svo þú verður að sitja og hvíla þig á meðan“.

„Þetta er ágætur stóll“.

Skolli bað og barmaði sjer. Hann vildi endilega fá að komast niður aftur, en ekkert dugði. Að lokum varð hann svo að lofa, að hann skyldi ekki koma aftur fyr en þessi fjögur ár væru liðin, eins og smiðurinn hafði sagt.

„Jæja, þá geturðu komið niður aftur“, sagði smiðurinn.

Og þegar þessi fjögur ár voru liðin, kom kölski aftur að sækja smiðinn.

„Nú ertu þó líklega tilbúinn“, sagði hann. „Að minstakosti finst mjer þú nú geta verið búinn að hnoða hausinn á þenna naglaræfil!“

„Jú, hausinn er kominn“, svaraði smiðurinn, „en samt komstu svolítið of snemma, því oddinn er jeg ekki enn búinn að hvessa. Þetta er eins og jeg sagði, svo skolli hart járn, jeg hefi aldrei smíðað úr öðru eins. En meðan jeg slæ odd á naglann, þá geturðu sett þig þarna í hægindastólinn minn og hvílt þig, því þreyttur hlýtur þú að vera“.

„Þakka þjer fyrir það“, sagði kölski og settist í stólinn, en hann var ekki fyr setstur, en smiðurinn sagði, að þegar hann hugsaði sig vel um, þá sæi hann, að hann yrði alls ekki búinn með oddinn á naglanum fyr en eftir fjögur ár. Fyrst bað sá gamli fallega um að fá að sleppa úr stólnum, en svo reiddist hann og fór að hóta smiðnum öllu illu, en smiðurinn afsakaði sig eins vel og hann gat, sagði að þetta væri alt vegna þess, hve járnið væri hart, og svo huggaði hann fjandann með því, að hann hefði svo þægilegt sæti þarna í stólnum, að hann munaði ekki mikið um að sitja þar í fjögur ár, og þá skyldi hann líka sleppa á stundinni, þegar þau væru liðin. Að lokum fór svo, að skolli varð að lofa, að hann skyldi ekki sækja smiðinn fyr en eftir fjögur ár, og svo sagði smiðurinn: „Jæja, nú geturðu staðið upp aftur“, og fjandinn af stað, eins fljótt og hann gat.

Eftir fjögur ár kom kölski enn að sækja smiðinn.

„Nú ertu þó líklega tilbúinn“, sagði hann um leið og hann gægðist inn um smiðjudyrnar.

„Já alveg tilbúinn“, sagði smiðurinn, „nú getum við lagt af stað þegar þú vilt. — En, heyrðu mjer — það er eitt sem jeg hefi hugsað mikið um, og sem jeg ætla að spyrja þig um: er það satt það sem sagt er, að þú getir gert þig eins lítinn og þjer sýnist?“

„Víst er það satt“, sagði kölski.

„Æ, þá gætirðu gert mjer þann greiða að skríða niður í þessa pyngju hjerna og gá hvort hún er heil“, sagði smiðurinn. „Jeg er svo hræddur um að jeg týni ferðapeningunum mínum“.

„Það skal jeg gjarnan gera“, sagði skolli. Hann gerði sig agnarlítinn og skreið niður í pyngjuna. En ekki var hann fyr kominn ofan í, en smiðurinn lokaði pyngjunni.

„Jú, hún er alsstaðar heil, og hvergi gat“, sagði fjandinn í pyngjunni.

„Ja, þú segir það laxi“, sagði smiðurinn, „en mjer finst betra að hafa allan vara á um það, jeg ætla að sjóða hlekkina svolítið til frekari fullvissu“, með það lagði hann pyngjuna á eldinn og hún varð fljótt glóandi.

„Æ, æ, æ“, skrækti fjandinn í pyngjunni. „Ertu vitlaus, veistu ekki að jeg er í pyngjunni?“

„Ja, ekki get jeg hjálpað þjer, það er sagt að maður eigi að hamra járnið meðan það er heitt“, sagði smiðurinn, og með það tók hann stóru sleggjuna sína, lagði pyngjuna á steðjann, og barði á hana eins fast og hann hafði krafta til.

„Ó, ó, ó,“ æpti skolli í pyngjunni. „Góði vinur, ef þú lofar mjer út, skal jeg aldrei koma aftur“.

„Ja, nú held jeg að hlekkirnir bili ekki“, sagði smiðurinn, „og nú getur þú komist út“. Svo opnaði hann pyngjuna og skrattinn af stað, svo fljótt að hann leit ekki einu sinni við á hlaupunum.

En eftir nokkurn tíma datt smiðnum það í hug, að það hefði kanske verið heimskulegt af sjer að gera kölska reiðan við sig. „Því ef jeg kæmist nú ekki inn í himnaríki“, hugsaði hann, þá gæti svo farið, að jeg yrði yfirleitt húsnæðislaus í eilífðinni, fyrst jeg er búinn að reita karl þann til reiði, sem ræður húsum á neðri bygðinni. Svo hugsaði smiðurinn að hann yrði að reyna að athuga í hvorn staðinn maður gæti komist, til þess að hafa tímann fyrir sjer, svo hann tók sleggjuna sína og hjelt af stað.

Þegar hann hafði farið nokkra leið, kom hann að krossgötum, þar sem vegurinn til himnaríkis liggur frá þeim sem til heljar má snúa. Þarna náði smiðurinn skraddara einum, sem hraðaði sjer áfram með pressujárnið sitt í hendinni. „Góðan daginn“, sagði smiðurinn. „Hvert ætlar þú?“

„Til himnaríkis og reyna hvort jeg fæ ekki inni þar“, sagði skraddarinn. „En hvert ferð þú?“

„O, við eigum þá ekki langa samleið“, sagði smiðurinn. „Jeg hefi nú hugsað mjer að reyna í víti fyrst, af því að jeg þekki húsbóndann þar lítilsháttar“.

Svo kvöddust þeir og hvor fór sína leið, en smiðurinn var sterkur maður og göngugarpur hinn mesti og gekk langtum hraðar en skraddarinn, og ekki hafði hann lengi gengið áður en hann kom að hliðum vítis. Hann ljet vörðinn segja frá komu sinni, og segja að hann vildi gjarnan segja nokkur orð við húsbóndann. Fjandinn bað varðmanninn að spyrja, hver komumaður væri.

„Skilaðu kveðju til kölska og segðu, að kominn sje smiðurinn, sem átti pyngjuna, og sem hann muni sjálfsagt eftir, og biddu hann blessaðann að lofa mjer inn strax, því jeg hefi smíðað fram til hádegis, og síðan hefi jeg gengið langa leið“.

Þegar skolli fjekk þessi skilaboð, skipaði hann varðmanninum að læsa hliðum helvítis með níu lásum, „og settu meira að segja einn í viðbót, því ef hann kemst inn, verður allt vitlaust í mínum húsum!“

„Hjer er þá ekkert athvarf að fá“, sagði smiðurinn við sjálfan sig, er hann sá, að þeir lokuðu hliðunum, „þá verð jeg víst að reyna himnaríki“. Og svo sneri hann við, og skálmaði stórum, þar til hann kom á krossgöturnar, þar sem hann hafði hitt skraddarann, og svo fór hann sama veg og skraddarinn hafði farið, en af því, að hann hafði farið svo langa leið til einskis gagns, tók hann nú að gerast í meira lagi langstígur, svo að hann kom að hliðum himnaríkis, um leið og Sankti Pjetur hleypti skraddaranum inn fyrir hurðina.

Smiðurinn var þá ein sex eða sjö skref frá hliðinu. — Hjer þarf skjótra ráða, hugsaði hann, greip sleggjuna og kastaði henni milli stafs og hurðar um leið og skraddarinn smaug inn. En hafi smiðurinn ekki komist inn með hjálp sleggjunnar, þá veit jeg ekki hvað hefir orðið af honum.