Fara í innihald

Norsk æfintýri/Villiendurnar tólf

Úr Wikiheimild
Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Villiendurnar tólf

Villiendurnar tólf

Einu sinni var drotning sem fór út að aka í sleðanum sínum, þegar nýlega var fallin mjöll á jörð. Þegar hún var komin nokkuð áleiðis, fjekk hún blóðnasir og varð að stíga af sleðanum. Meðan hún stóð þar upp við limgirðingu og horfði á rautt blóðið og hvítan snjóinn, fór hún að hugsa um það, að hún ætti tólf syni og enga dóttur, og svo sagði hún við sjálfa sig: Ef jeg ætti dóttur, sem væri hvít sem mjöll og rjóð sem blóð, þá væri mjer sama um synina mína. Hún hafði varla slept orðinu, fyrr en til hennar kom galdrakerling. „Dóttur skalt þú eignast“ sagði hún „og hvít skal hún verða sem mjöllin og rjóð eins og blóð, en þá vil jeg líka fá syni þína, en þú mátt hafa þá hjá þjer þar til dóttir þín verður skírð“.

Þegar þar að kom, eignaðist drotningin dóttur, og hún var hvít eins og mjöll og rjóð sem blóð, eins og galdrakerlingin hafði lofað, og þess vegna var hún líka kölluð Mjallhvít Rósrjóð. Það varð mikill fögnuður í konungsgarði, og drottningin var frá sjer numin af gleði, en þegar hún mintist þess sem hún hafði lofað galdranorninni, ljet hún silfursmið smíða tólf silfurskeiðar, eina handa hverjum sona sinna, og svo ljet hún smíða eina í viðbót, og hana gaf hún Mjallhvít Rósrjóð. En um leið og kóngsdóttir var skírð, ummynduðust kóngssynir og urðu að tólf villiöndum, er flugu burt og sáust ekki meir.

Tólf villiendur flugu burt.

En prinsessan óx og dafnaði, varð bæði stór og falleg, en hún var oft svo undarleg í skapi og sorgmædd, og enginn gat komist að því, hvað að henni gekk. En svo var það eitt kvöld, að drotningin var líka í þungu skapi, því margt undarlegt flaug henni oft í hug, þegar hún hugsaði um syni sína, þá sagði hún við Mjallhvíti Rósrjóðu: „Hvers vegna ertu svona sorgmædd, dóttir góð. Ef þig langar til einhvers, þá skaltu fá það“.

„Ó, mjer finst jeg vera svo einmana“, sagði Mjallhvít Rósrjóð, „öll önnur börn eiga systkini, en jeg er altaf ein, jeg á engan bróður og enga systur, þess vegna liggur svo illa á mjer“.

„Þú hefir líka átt systkini, dóttir mín“, sagði drotningin. „Jeg hefi átt tólf syni, sem voru bræður þínir, en jeg ljet þá alla fara, aðeins til að fá þig“, sagði hún, og svo skýrði hún dóttur sinni frá öllu saman, eins og það hafði gerst.

Þegar kóngsdóttir heyrði þetta, hafði hún engan frið nje ró lengur, og hve mikið sem móðir hennar grjet og barmaði sjer, þá kom það ekki að haldi, hún vildi leggja af stað til þess að finna bræður sína, því henni fanst þetta alt vera sjer að kenna, og að lokum fór hún að heiman. Hún gekk lengi út í heiminn, svo langt að maður skyldi ekki hafa trúað, að svona fín kóngsdóttir hefði getað gengið svo langt.

Einu sinni hafði hún gengið lengi í stórum skógi, þá kom svo, að hún varð þreytt og settist á þúfu og þar sofnaði hún. Þá dreymdi hana, að hún gengi enn lengra inn í skóginn og kæmi að litlum timburkofa, og að bræður hennar væru þar, en um leið vaknaði hún, og beint fyrir framan sig sá hún troðning í mosanum og sá götuslóði lá lengra inn í skóginn. Hún gekk eftir þessum stíg, og eftir langa ferð kom hún að litlum kofa, sem var alveg eins og sá, sem hún hafði sjeð í drauminum.

Þegar hún kom inn, var þar ekki nokkur lifandi maður, en þar stóðu tólf rúm og tólf stólar, tólf skeiðar og tólf hlutir af hverju og einu, sem til var. Og þegar hún sá það, varð hún himinlifandi, svo glöð, að hún hafði ekki verið glaðari árum saman, því hún sá strax, að bræður hennar myndu búa þarna, og að það væru þeir, sem ættu rúmin og skeiðarnar og stólana. Og hún fór að elda handa þeim og leggja í ofninn og kappkostaði að gera alt eins vel og hún gat, og þegar hún var búin að elda handa þeim öllum, þá borðaði hún sjálf, en hún gleymdi skeiðinni sinni á borðinu. Svo skreið hún undir rúmið yngsta bróðurins og fór að sofa.

En ekki var hún fyrr lögst til hvílu, en hún heyrði þyt í lofti, og svo komu allar villiendurnar tólf inn, en um leið og þær komu yfir þröskuldinn, urðu þær strax að kongssonum. „En hvað er gott og hlýtt hjerna“, sögðu þeir. „Guð blessi þann, sem hefir lagt svona vel í ofninn og búið til svona góðan mat handa okkur“. Og svo tóku þeir hver sína silfurskeið og fóru að borða. En þó hver tæki sína, varð samt ein eftir, og hún var svo lík hinum, að þeir þektu hana ekki frá þeim. Svo litu þeir hissa hver á annan. „Þetta er skeiðin hennar systur okkar“, sögðu þeir, „og fyrst skeiðin er hjer, getur hún ekki verið langt í burtu“.

„Ef þetta er skeiðin hennar systur okkar, og hún er hjer nærri, þá skulum við refsa henni, því henni er alt að kenna það illa, sem við verðum að þola“, sagði elsti bróðirinn, og þetta hlustaði hún á undir rúminu. „Nei“, sagði sá yngsti, „það væri synd að gera henni nokkuð ilt. Hún getur ekkert gert að því, sem við verðum að þola. Ef nokkur á sök á því, þá er það móðir okkar“.

Síðan fóru þeir að leita að henni, bæði hátt og lágt, og að lokum leituðu þeir undir öllum rúmunum, og þegar þeir komu að rúmi yngsta kongssonarins, fundu þeir hana og drógu hana fram. Elsti prinsinn vildi nú aftur að henni yrði refsað, en hún bað sjer griða svo fallega: „Æ, góðu vinir, gerið það ekki“, sagði hún. „Jeg hefi leitað að ykkur í mörg ár, og ef jeg gæti frelsað ykkur, skyldi jeg gjarna gefa líf mitt fyrir ykkur“. — „Já, ef þú vilt frelsa okkur“, sögðu þeir, „þá skulum við ekkert gera þjer, því ef þú vilt gera það, þá geturðu það sjálfsagt“.

„Já, segið mjer bara, hvernig jeg get frelsað ykkur“, sagði Mjallhvít Rósrjóð, „þá skal jeg gera það; hvað sem það er“.

„Þú átt að tína fífu“, sögðu bræður hennar. „Og svo skaltu kemba, spinna og vefa vef úr fífunni, og þegar þú ert búin að því þá verður þú að sauma handa okkur tólf húfur, tólf skyrtur og tólf trefla, eitt af hverju handa hverjum okkar, og meðan þú ert að þessu, máttu hvorki tala, hlæja nje gráta; getir þú það, þá er okkur borgið.“

„En hvar á jeg að fá alla þessa fífu?“ spurði Mjallhvít Rósrjóð.

„Það skulum við sýna þjer“, sögðu þeir og svo fóru þeir með hana út á stóra mýri, þar sem fífan stóð í stórum breiðum og vaggaði í golunni og glampaði á hvítu kollana hennar í sólinni, svo það lýsti af breiðunum langar leiðir. Aldrei hafði kóngsdóttir sjeð svona mikið af fífu áður, og hún fór strax að tína eins fljótt og hún gat, og þegar hún kom heim um kvöldið, fór hún að kemba og spinna úr fífunni. Þannig gekk nú bæði lengi og vel. Hún safnaði fífu, kembdi og spann, og þess á milli hugsaði hún fyrir því, að bræður hennar hefðu góðan mat og bjó um rúmin þeirra, og á kvöldin komu þeir fljúgandi heim og voru þá villiendur, á nóttunni voru þeir aftur á móti konungssynir, en svo á morgana þutu þeir af stað og voru villiendur allan daginn.

En svo kom það fyrir einu sinni, þegar hún var að tína fífu, — ef mjer skjátlast ekki, þá var það í síðasta sinn, sem hún þurfti að tína, — að ungi konungurinn, sem rjeði þessu ríki, var á veiðum, og kom ríðandi yfir mýrina og sá hana. Hann nam staðar og furðaði sig á hver þessi yndislega unga stúlka gæti verið, sem væri að tína fífu þarna úti í mýrinni, og hann spurði hana líka um það en hún svaraði honum engu, og þá varð hann enn meira hissa og honum leist líka svo vel á hana, að hann vildi fara með hana heim í höll sína og eiga hana fyrir konu. Svo sagði hann þjónum sínum, að þeir skyldu taka hana og setja hana á hestinn fyrir framan hann, en Mjallhvít Rósrjóð benti á pokana, sem hún hafði tínt fulla af fífu og mændi til þeirra biðjandi augum, og þar sem kónginum virtist að hún vildi að pokarnir yrðu teknir með, sagði hann þjónunum að taka þá líka. Þegar þeir höfðu gert það, varð kóngsdóttir smásaman rólegri, því að konungur var bæði góður og fallegur maður, og hann var líka svo vingjarnlegur og nærgætinn við hana. En þegar þau komu heim til kóngshallarinnnar, og gamla drottningin, sem var stjúpmóðir hans, sá Mallhvít Rósrjóð, varð hún svo ill í skapi og öfundsjúk yfir því að hún var svo falleg, að hún sagði við kónginn: „Sjerðu það ekki að þessi stúlka, sem þú hefir komið með og sem þú ætlar að eiga, hún er galdranorn, hún hvorki hlær, talar nje grætur?“

Kóngurinn kærði sig kollóttan um hvað hún sagði, en hjelt brúðkaup og gekk að eiga Mjallhvít Rósrjóð og þau lifðu í mikilli sælu og gleði, en hún gleymdi ekki að sauma skyrturnar handa bræðrum sínum fyrir því.

Áður en árið var liðið, eignaðist Mjallhvít Rósrjóð lítinn son, og vegna þess varð gamla drottningin enn öfundsjúkari, og þegar leið á nótt, læddist hún inn til Mjallhvítar Rósrjóðar, meðan hún svaf, tók barnið frá henni og kastaði því í ormagarðinn; svo skar hún hana í fingurinn og smurði blóðinu á varir hennar, fór svo til kóngsins og sagði: „Komdu nú og sjáðu“, sagði hún, „hverskonar manneskja það er, sem þú hefir tekið þjer fyrir drottningu; nú er hún búin að tortíma sinu eigin barni“. Þá brá konunginum, og hann sagði: „Já, það hlýtur að vera satt, úr því jeg sje það með mínum eigin augum, en hún gerir það víst ekki oftar og í þetta sinn hlífi jeg henni“.

Áður en ár var liðið, eignuðust konungshjónin aftur son, og það fór alveg eins með hann og þann fyrri. Stjúpmóðir kóngsins varð enn reiðari og öfundsjúkari, og læddist inn til drotningarinnar meðan hún svaf, tók drenginn og kastaði honum í ormagarðinn, skar drottninguna í fingurinn og smurði blóðinu á munninn á henni, og svo sagði hún konunginum, að konan hans hefði líka fyrirfarið þessu barni. Þá varð konungur hryggur, svo hryggur, að enginn trúir því, og sagði: „Já, það hlýtur að vera satt, úr því jeg sje það með mínum eigin augum, en hún gerir það víst ekki oftar og jeg ætla að hlífa henni einu sinni enn“.

Áður en árið var liðið, átti Mjallhvít Rósrjóð dóttur og hana tók gamla drotningin líka og kastaði í ormagarðinn, skar drotninguna í fingurinn, bar blóðið á varir hennar og fór svo til kóngsins og sagði: „Nú geturðu komið og sjeð hvort það er ekki satt, sem jeg segi, að hún sje galdranorn, því nú hefir hún líka gert út af við þriðja barnið sitt“. Þá varð kóngur svo harmþrunginn, að engin orð fá lýst því, því þá gat hann ekki hlíft henni lengur, en varð að skipa svo fyrir, að það skyldi brenna hana á báli. Þegar búið var að kveikja í bálkestinum, benti hún að taka skyldi tólf fjalir og leggja þær í kring um bálið, og á fjalirnar lagði hún föt bræðra sinna, en vinstri ermina vantaði í skyrtu yngsta bróðurins, hana hafði hún ekki getað lokið við. Ekki hafði hún fyr gert þetta, en þytur heyrðist í lofti og tólf villiendur komu fljúgandi út úr skóginum, og hver þeirra tók sín föt í nefið og flaug burt með þau.

„Sjer þú nú?“ sagði vonda drotningin við kónginn. „Nú geturðu fyrst sjeð, að hún er regluleg galdranorn, og flýttu þjer nú að láta brenna hana, áður en bálkösturinn er allur brunninn“,

„O, við höfum nógan við“, sagði kóngurinn. „Jeg ætla að bíða svolítið og sjá hvernig þetta fer“. — Í sama bili komu kóngssynirnir tólf ríðandi, svo laglegir og vel vaxnir, að enginn hafði sjeð annað eins, en yngsti bróðurinn hafði andarvæng í staðinn fyrir vinstra handlegginn.

„Hvað gengur hjer á?“ spurðu kóngssynirnir.

„Það á að brenna drotninguna mína, vegna þess að hún er galdranorn og hefir tortímt börnunum sínum“, svaraði konungur.

„Það hefir hún ekki gert“, sögðu bræðurnir. „Talaðu nú systir góð, nú ertu búin að frelsa okkur, frelsaðu nú sjálfa þig“. — Þá talaði Mjallhvít Rósrjóð, og sagði frá hvernig alt hafði farið, hvernig drotningin gamla, stjúpmóðir kóngsins, hafði tekið börnin frá henni um nótt, skorið hana í fingurinn og roðið blóðinu á varir hennar og kringum munninn, og bræðurnir fóru með kónginn út að ormagarðinum, þar lágu börnin þrjú og ljeku sjer við orma og eiturkvikindi, og fallegri börn var ekki hægt að finna. Þau tók nú konungur úr ormagarðinum og bar þau til stjúpu sinnar og spurði hana, hvaða refsingu sá ætti skilið, sem hefði svikið saklausa drotningu hans og þessi þrjú blessuðu börn. „Þeir sem það hafa gert, ættu að vera rifnir sundur af tólf viltum hestum“, sagði gamla drotningin.

Þau ljeku sjer við orma

„Sjálf hefir þú kveðið upp dóminn, og sjálf skaltu fá að þola hann“, sagði konungurinn og svo var gamla vonda drotningin slitin sundur af tólf ótemjum. En Mjallhvít Rósrjóð lagði í ferðalag með bræður sína, mann og börnin þrjú heim til foreldra sinna, og sagði þeim alt sem gerst hafði, og þá urðu fagnaðarfundir og mikil gleði um alt ríkið, því kóngsdóttir var endurheimt og hafði líka bjargað bræðrunum sínum tólf.