Norsk æfintýri/Skipið, sem sigldi á landi og skrítnu karlarnir sex

Úr Wikiheimild
Norsk æfintýri  (1943)  höfundur Peter Christen Asbjörnsen, þýðing Jens Steindór Benediktsson
Skipið, sem sigldi á landi og skrítnu karlarnir sex

Skipið, sem sigldi á landi og skrítnu karlarnir sex

Einu sinni var kóngur og hann hafði heyrt um að til væri skip, sem sigldi jafn á landi og á vatni, og þá vildi hann auðvitað eignast svoleiðis skip, og lofaði þeim, sem gæti bygt það, dóttur sinni og hálfu ríkinu, og þessa yfirlýsingu ljet hann lesa upp við hverja kirkju í öllu landinu. Það var nú líklegt, að margir reyndu þetta, því það var ekki amalegt að fá hálft ríkið, og ekki verra að fá kóngsdóttur í viðbót, en þeim gekk ekki vel að smíða skipið, veslingunum.

En svo voru þrír bræður, sem áttu heima í sveit, þar sem var mikill skógur. Sá elsti hjet Pjetur, annar Páll, en þriðji Ásbjörn og var kallaður Ásbjörn í öskustónni, vegna þess að hann sat ialtaf í stónni og rótaði öskunni. En sunnudaginn þann, sem lýst var eftir skipinu, sem kóngur vildi fá, vildi svo til að hann var líka við kirkju. Þegar hann kom heim og sagði frá þessu, þá bað Pjetur, bróðir hans, móður sína um nesti og nýja skó, því hann ætlaði að leggja af stað og reyna, hvort hann gæti ekki smíðað skipið og fengið kóngsdóttur og hálft ríkið. Þegar hann hafði fengið nestið, lagði hann af stað. Á leiðínni mætti hann gömlum manni, sem var orðinn kengboginn af elli og skelfing aumingjalegur.

„Hvert ætlar þú?“ spurði karlinn. „Jeg ætla út í skóginn og smíða trog handa föður mínum, hann vill ekki borða með okkur úr sama troginu“, sagði Pjetur. „Trog skal það verða“, sagði karlinn. — „Hvað hefir þú í pokanum þínum?“ spurði karlinn svo. „Skít“, sagði Pjetur. „Skítur skal það vera!“ sagði karlinn. Svo fór Pjetur út í skóginn og hjó trje og smíðaði af öllum kröftum, en alt hvað hann smíðaði og hjó, þá gat hann aldrei búið til annað en trog og trog. Þegar leið að hádegi, fór hann að verða svangur og tók malinn sinn. En það var alt annað en matur í malnum hans. Og fyrst hann hafði ekkert að borða og gat ekkert smíðað nema trog, þá fór hann bara heim til mömmu sinnar aftur.

Svo vildi nú Páll fara og vita hvort honum hepnaðist ekki að byggja skip og fá kóngsdótturina og hálft ríkið. Hann bað móður sína um nesti, og þegar hann hafði fengið það, tók hann malinn sinn og lagði af stað út í skóginn. Á leiðinni mætti hann gömlum manni, sem var ósköp lotinn og aumingjalegur. „Hvert ætlar þú“ spurði hann Pál. „O, jeg ætla út í skóg að smíða trog handa litla grísnum okkar“, sagði Páll. „Verði það þá svínatrog“, sagði karlinn. — „Hvað hefirðu í malpokanum þínum“, spurði karlinn. „Skítur er það“, sagði Páll. — „Og skítur verði það“, sagði karlinn. Svo fór Páll að höggva trje og smíða í skóginum, en hvernig sem hann fór að, þá gat hann ekkert búið til nema svínatrog. —

En hann gafst ekki upp, hjelt áfram að smíða langt fram á dag, áður en hann hugsaði um mat, en svo varð hann alt í einu glorhungraður, svo að hann varð að grípa til malsins síns, en þegar hann opnaði hann, þá var það nú eitthvað annað en matur, sem í honum var. — Þá reiddist Páll svo, að hann hvolfdi úr malnum, henti honum svo langar leiðir, tók öxi sína og fór rakleiðis heim.

Þegar Páll var kominn heim, vildi Ásbjörn fara úr öskustónni og reyna líka, og bað hann móður sína um nesti. „Kannske jeg gæti bygt skipið og fengið kóngsdóttur og hálft ríkið“, sagði hann.

„Mikil ósköp eru að heyra“, sagði móðir hans. „Þáð er nú líklegt að þú vinnir kóngsdóttur og hálft ríkið, þú sem aldrei gerir annað en að róta í öskunni. Nei, þú færð ekkert nesti“, sagði hún. En Ásbjörn gafst ekki upp fyrir því, hann bað svo lengi um að fá að fara, að honum var loksins leyft það. En nesti fekk hann ekki, ekki að tala um, en hann laumaði inn á sig tveim hafrakökum og ölslatta í flösku og lagði af stað.

Þegar hann hafði gengið góða stund, mætti hann sama gamla farlama karlinum, sem bræður hans höfðu hitt.

„Hvert ætlar þú?“ sagði karlinn. „O, jeg ætlaði nú hjerna út í skóginn og byggja skip, sem siglir bæði á sjó og landi“, sagði Ásbjörn í öskustónni, „því að kóngurinn hefir sagt, að hver sem byggi slíkt skip, skuli fá dóttur sína og hálft ríkið“, sagði hann. — „Hvað hefir þú meðferðis“, spurði karlinn. „O, það á nú víst að heita nesti, en er nú ekki mikið nje gott“, sagði Ásbjörn. „Ef þú gefur mjer af nestinu þínu“, sagði karlinn, „þá skal jeg hjálpa þjer“. „Þáð skal jeg gera“, sagði Ásbjörn, „en jeg hefi ekki annað en tvær hafrakökur og svolítinn slatta af gömlu öli“. Karlinn sagði, að það væri sama, bara ef hann fengi bita, þá skildi hann hjálpa honum.

Þegar þeir komu að gamalli eik í skóginum, sagði karlinn við Ásbjörn, „Nú skaltu höggva þjer flís og setja hana svo aftur þar sem hún var, og þegar það er búið, þá skaltu leggjast til svefns.“ — Jú, Ásbjörn fór að eins og honum var sagt, en í svefni heyrðist honum altaf einhver vera að höggva og saga, en vaknað gat hann ekki, fyr en karlinn hristi hann, og þar stóð skipið tilbúið hjá eikinni. „Nú skaltu stíga á skip, og taka alla með þjer, sem þú hittir á leiðinni“, sagði hann. — Jú, Ásbjörn í öskustónni þakkaði fyrir skipið, sigldi af stað, og sagði að þetta skyldi hann gera.

Og skipið sigldi á landi

Þegar Ásbjörn hafði ekki lengi siglt, hitti hann stóran, horaðan slána, sem lá þar í klettum og át grástein. „Hverskonar náungi ert þú, sem liggur hjer og jetur grástein“, spurði Ásbjörn. Jú, sláninn var svo gráðugur í kjöt, að hann fjekk aldrei nóg af því, svo hann varð að jeta grjót á milli, og svo bað hann um að fá að sigla með á skipinu. — „Jú, það máttu“, sagði Ásbjörn. Svo steig sláninn á skip og tók með sjer nokkra steina í nestið.

Þegar þeir höfðu siglt nokkuð, komu þeir þar sem maður lá í brekku á móti sól, og saug krana. „Hver ert þú, og hvað á þetta að þýða að sjúga þenna krana?“ spurði Ásbjörn. „O, fyrst maður hefir enga tunnu til að setja krana í og láta ölið renna gegnum, þá verður maður að láta sjer nægja kranann einan, jeg er altaf svo þyrstur, að jeg fæ aldrei nóg af öli og víni“, sagði hann, og bað svo um að fá að stíga á skip. Hann fjekk það strax en tók kranann með sjer svo hann dæi ekki af þorsta.

Þegar þeir höfðu enn siglt nokkuð, sáu þeir mann, sem lá með annað eyrað fast við jörðina, eins og hann væri að hlusta. „Hver ert þú, og hvað á að þýða að liggja svona úti á víðavangi og vera að hlusta“, sagði Ásbjörn í öskustónni.

„Jeg er að hlusta á grasið, því jeg heyri svo vel, að jeg heyri það vaxa“, sagði hann, og svo bað hann um að fá að vera með á skipinu. „Já, flýttu þjer að koma“, sagði Ásbjörn, og hann gerði það strax. Þegar þeir höfðu enn siglt nokkuð, komu þeir að manni, sem stóð og miðaði og miðaði. „Hver ert þú, og hvað á þetta að þýða?“ spurði Ásbjörn í öskustónni. „Jeg hefi svo góða sjón og er svo mikil skytta“, sagði maðurinn, „að jeg gæti hitt það sem væri á heimsenda“, og svo bað hann um að fá að stíga á skip. Honum var sagt, að það væri heimilt, og svo gerði hann það.

Eftir að hafa siglt nokkuð enn, sáu þeir mann, sem hoppaði á öðrum fæti, en hafði sjö þung lóð bundin við hinn. „Hver ert þú?“ sagði Ásbjörn, „og hvað á þetta tiltæki að þýða?“ — „Jeg er svo góður að fljúga“, sagði maðurinn, „að ef jeg gengi á báðum fótum, væri jeg kominn á heimsenda eftir fimm mínútur“, og svo bað hann um að fá að vera með þeim á skipinu. — Það var honum leyft og hann steig á skip.

Þegar þeir höfðu enn siglt nokkuð, sáu þeir mann, sem stóð og hjelt fyrir munninn á sjer. „Af hverju gerir þú þetta, maður minn?“ sagði Ásbjörn í öskustónni. — „O, jeg hefi 7 sumur og 15 vetur í maganum“, sagði náungi þessi, „svo það er, eins gott að jeg haldi fyrir munninn, því ef þau kæmust öll út þá yrði heimsendir með það sama“, sagði hann og bað svo um að fá að koma með.

„Ef þú vilt koma með okkur, þá stígðu á skip“, sagði Ásbjörn, og maðurinn gerði svo.

Þegar þeir höfðu siglt góða stund, komu þeir til kóngshallarinnar, og Ásbjörn fór beint inn til kóngsins og sagði að nú stæði skipið tilbúið niðri í tröðunum, og nú vildi hann fá kóngsdóttur, eins og kóngur hafði lofað. —

Kóngi leist ekki á blikuna, því pilturinn úr öskustónni var síst glæsilegur ásýndum, svartur og sótugur, og hann vildi helst ekki gefa svona ljótum manni dóttur sína, og svo sagði hann, að piltur skyldi bíða svolítið, hann gæti ekki fengið dóttur sína, fyrri en hann hefði tæmt kjötskemmu, sem í voru 300 tunnur af kjöti. „Ef þú verður búinn að því um þetta leyti á morgun, skaltu fá hana“, sagði kóngur.

„Jeg skal reyna“, sagði Ásbjörn, „en jeg verð að fá að hafa með mjer einn af fjelögum mínum?“

„Jú, þú mátt það, og meira að segja máttu hafa þá alla sex með þjer“, sagði kóngur, því hann hjelt að það væri ómögulegt að jeta alt kjötið, þótt piltur hefði sex hundruð menn. — En Ásbjörn fór bara með þann, sem lá og át grágrýtið, og sem altaf gat jetið kjöt, og þegar þeir komu inn í skemmuna daginn eftir, þá var ekki biti af kjöti nokkursstaðar, aðeins svolítil flís handa hverjum hinna fjelaganna. Svo þaut Ásbjörn inn til kóngsins, og sagði að nú væri skemman tóm, og nú yrði hann að fá kóngsdóttur.

Kóngur fór út í skemmuna, og tóm var hún, ekki var að efast um það, en Ásbjörn var bæði svartur og sótugur, og kónginum bauð enn við að gefa honum dóttur sína. Svo sagði hann, að hann ætti kjallara fullan af öli og gömlu víni, þrjú hundruð tunnur af hvoru, sem hann vildi láta drekka, áður en piltur fengi dóttur hans. „Og ef þú ert maður til þess að drekka upp úr kjallaranum og vera búinn um þetta leyti á morgun, þá skaltu fá hana,“ sagði kóngur.

„Jeg verð að reyna“, sagði Ásbjörn, „en jeg má líklega hafa einn af fjelögum mínum með mjer?“

„Já, blessaður vertu“, sagði kóngur. „Það er víst nóg af víni handa ykkur öllum sjö“!

Ásbjörn tók þann með sjer, sem altaf saug kranann, og sem altaf var svo þyrstur, og svo læsti kóngur þá inni í kjallaranum. Þar slepti náunginn krananum og drakk tunnu eftir tunnu og leyfði bara nokkrum pottum handa fjelögum sínum. Um morguninn var kjallarinn opnaður og um leið þaut Ásbjörn inn til kóngsins og sagði, að hann væri búinn með ölið og vínið, og nú fengi hann kóngsdóttur, eins og búið væri að lofa.

„Ja, fyrst verð jeg að fara niður og gá að“, sagði kóngur, því að hann trúði þessu hreint ekki, en þegar hann kom í kjallarann, voru þar allar tunnur tómar. En enn fanst kóngi ómögulegt að eignast svona svartan og sótugan tengdason, og sagði að ef hann gæti útvegað vatn í teið prinsessunnar, alla leið af heimsenda á 10 mínútum, þá skyldi hann bæði fá stúlkuna og hálft ríkið, því það hjelt kóngur að væri gersamlega ómögulegt.

„Jeg verð að reyna“, sagði Ásbjörn. Svo náði hann í náungann, sem haltraði á öðrum fæti, og hafði sjö þung lóð bundin við hinn, og sagði honum, að hann yrði að taka af sjer lóðin, og flýta sjer eins og hann gæti, því hann þyrfti að fá vatn af heimsenda eftir 10 mínútur.

Hljóp eftir vatni á heimsenda.

Náunginn reif af sjer lóðin, fjekk fötu og stökk af stað, en það drógst að hann kæmi aftur, og að lokum voru ekki eftir nema þrjár mínútur, þangað til tíminn var liðinn, og kóngurinn var svo glaður, að honum lá við að dansa. En þá kallaði Ásbjörn á þann, sem heyrði grasið gróa, og fjekk hann til að hlusta eftir, hvað orðið hefði um þann, sem átti að sækja vatnið.

Hinn hlustað og hlustaði og sagði svo: „Hann er sofnaður við brunninn á heimsenda, jeg heyri hann hrjóta, og tröllið er að raula við hann“. Þá hrópaði Ásbjörn á þann, sem gat skotið alt á heimsenda, og bað hann að skjóta tröllið. Jú, það gerði hann, skaut það beint í augað, svo það rak upp ógurlegt öskur, og við það vaknaði náunginn, sem átti að sækja vatnið, og þegar hann kom með það var enn ein mínúta eftir af hinum tíu.

Ásbjörn hljóp nú inn til kóngsins og sagði, að hjer væri vatnið komið, og nú þyrfti hann ekki að bíða með að fá dóttur hans lengur, hann vildi giftast henni strax. En kónginum fanst Ásbjörn ekkert hafa fríkkað, og langaði ekki til þess að fá hann fyrir tengdason. Svo sagði kóngur, að hann ætti 300 faðma af viði, sem hann ætlaði að þurka korn við, „og ef þú getur brent upp öllum þessum viði, þá skaltu fá dóttur mína, og þá deilum við ekki meira um það“, sagði hann. — „Jeg verð víst að reyna“, sagði Ásbjörn „en má jeg hafa einn fjelaga minn með mjer?“ „Já, það máttu, og þó þú vildir hafa þá alla sex“, sagði köngur.

Ásbjörn tók nú með sjer þann, sem hafði fimtán vetur og sjö sumur í maganum og fóru þeir í eldhúsið um kvöldið. Út gátu þeir ekki komist aftur, því þeir voru ekki fyrr komnir inn, en kóngur setti slagbrand fyrir hurðina. Eldurinn logaði í trjáviðnum, svo þeir ætluðu alveg að stikna. „Þú verður að hleypa út einum sex — sjö vetrum“, sagði Ásbjörn, svo hjer verði mátulega heitt“. Hinn gerði það, og þá var rjett svo að þeir þyldu við, en þegar fór að líða á nóttina, tók þeim heldur að kólna. Þá sagði Ásbjörn, að nú veitti þeim ekki af tveimur sumrum eða svo, og eftir það sváfu þeir langt fram á dag. En þegar þeir heyrðu kónginn vera farinn að eiga við hurðina og losa slagbrandinn, sagði Ásbjörn: „Nú skalt þú sleppa út nokkrum vetrum í viðbót, en hagaðu því svoleiðis, að sá síðasti fari beint framan í kónginn“. Jú, þetta var gert og um leið og kóngur opnaði hurðina, og hjelt að þeir myndu liggja þar brunnir til ösku, þá sátu þeir þar og hríðskulfu af kulda, svo að tennurnar glömruðu í munninum á þeim, og sá sem hafði fimtán vetur í maganum, ljet þann síðasta fara beint í andlitið á kónginum, svo það varð alt rautt og blátt af frostbólgu.

„Fæ jeg nú kóngsdóttur?" spurði Ásbjörn úr öskustónni.

Þeir skutu mjer hingað

„Já, taktu hana og eigðu hana, og svo geturðu fengið ríkið líka“, sagði kóngur, hann þorði nú ekki að neita lengur. Svo var haldið brúðkaup, og mikið um dýrðir og púðurkerlingar sprengdar. Þeir skutu líka úr fallbyssum, og þegar þeir voru að leita að forhlöðum í þær, þá fundu þeir mig, settu mig í eina fallbyssuna með graut á flösku og mjólk í körfu og skutu mjer beint hingað, svo jeg gæti sagt frá því, hvernig þetta gekk til. —