Fara í innihald

Norsk æfintýri/Kongsdæturnar þrjár í berginu blá

Úr Wikiheimild
Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Kongsdæturnar þrjár í berginu blá

Kongsdæturnar þrjár í berginu blá

Kónginum leiddist....

Það var einu sinni konungur og drotning, sem áttu engin börn, og þau tóku þetta svo nærri sjer, að þau litu varla glaðan dag. Einn dag stóð konungurinn úti á svölunum á höllinni sinni, og leit yfir alt sitt mikla land, og alt sem hann átti. Það var nógu mikið og rúmlega það, en honum fannst hann ekki hafa neina ánægju af því, þegar hann vissi ekki hvað myndi verða af því öllu eftir sinn dag. Og meðan hann stóð þarna hugsandi, kom gömul förukona, sem flakkaði og bað um smágjafir í guðsnafni. Hún heilsaði og hneigði sig og spurði, hvað gengi að konunginum, fyrst hann væri svona sorgmæddur á svipinn. „Þú getur ekkert gert við því, kona góð“, sagði konungurinn, „það þýðir ekkert að segja þjer frá því“. „Það gæti nú samt verið“, sagði betlikerlingin, „það þarf oft lítið til, þegar lukkan vill. Konungurinn er að hugsa um það, að hann eigi engan erfingja, til þess að taka við löndum og ríki, en út af því þarf hann ekki að hafa áhyggjur“, sagði hún, og bætti við, að konungurinn myndi eignast þrjár dætur með drotningu sinni, en hann yrði að gæta þeirra vel, svo að þær kæmu ekki undir bert loft fyrr en þær væru orðnar fimtán ára gamlar því annars kæmi snjóský og tæki þær.

Fyrsta kóngsdóttirin.

Þegar þar að kom, eignaðist drotningin fallegt stúlkubarn. Árið eftir fór á sömu leið, og eins það þriðja. Konungurinn og drotningin urðu svo glöð, að því er ekki hægt að lýsa, en þó konungur væri glaður, mundi hann eftir að setja vörð við dyrnar, svo dætur hans kæmust ekki út. — Þegar litlu prinsessurnar uxu upp, urðu þær bæði fallegar og vænar, og vel leið þeim á allan hátt. Það eina sem var að, var það, að þær fengu ekki að fara út til að leika sjer eins og önnur börn, en hvað mikið sem þær báðu foreldra sína, og reyndu að leika á varðmennina, þá kom það ekki að neinu gagni, því að ekki máttu þær fara út, fyrr en þær voru orðnar 15 ára.

„Góði varðmaður, lofaðu okkur út.“

Svo var það einn dag, ekki löngu áður en yngsta kóngsdóttirin átti fimtán ára afmæli. Konungurinn og drotningin voru úti að aka í vagni sínum í góða veðrinu, en kóngsdæturnar stóðu við gluggann og horfðu út. Sólin skein, og alt var svo fagurt og grænt, að þeim fanst, að þær mættu til að komast út, — það yrði þá að fara eins og fara vildi. Svo grátbáðu þær allar varðmanninn að leyfa sjer út í garðinn; hann gæti sjálfur sjeð, hvað hlýtt og fallegt væri úti, — það gæti aldrei komið snjóský og vetrarveður á slíkum degi. Ja, varðmanninum fanst nú satt að segja ekki vera miklar líkur til þess, og ef þær endilega vildu og yrðu að fara út, þá skyldu þær fá það, sagði hann, en það mætti ekki vera nema örstutta stund og sjálfur ætlaði hann að fara með þeim og gæta þeirra. Þegar þau komu niður í garðinn, brugðu stúlkurnar á leik, hlupu og stukku, og tíndu fult fangið af blómum. Loksins gátu þær ekki borið meira, en þegar þær ætluðu inn aftur, sáu þær stóra rós, sem óx í hinu horninu í garðinum. Hún var miklu fallegri en öll hin blómin, sem þær höfðu fundið, svo hana máttu þær til með að ná í. En um leið og þær beygðu sig niður og ætluðu að taka rósina, kom snjóský og tók þær, og bar þær burt með sjer.

Nú varð sorg og söknuður um alt landið, og konungurinn ljet tilkynna við hverja kirkju, að sá sem gæti frelsað dætur hans, skyldi fá hálft ríkið og gullkórónuna hans, og hverja af prinsessunum fyrir konu, sem hann vildi. Og það var nóg af mönnum til, sem vildu vinna til helmingsins af ríkinu og prinsessu í viðbót, ekki vantaði það, og bæði fátækir og ríkir úr öllu landinu lögðu af stað til þess að leita. En enginn gat fundið kóngsdæturnar, ekki einu sinni fengið neitt að vita um það, hvar þær væru niðurkomnar.

Og þegar nú allir þeir æðstu og tignustu í landinu höfðu farið að leita, þá voru tveir liðsforingjar, kapteinn og undirforingi, sem ætluðu að reyna. O, já, kóngurinn ljet þá svo sem hafa nóg silfur og gull til ferðarinnar, og óskaði svo að þeim gengi vel í viðbót.

En svo var það hermaður, sem átti heima í litlu húsi nálægt kóngshöllínni, bjó þar með móður sinni. Hann dreymdi nú eina nóttina, að hann ætti líka að fara og leita að kóngsdætrunum. Og um morguninn mundi hann enn, hvað hann hafði dreymt og talaði um það við móður sína. „Þetta eru einhver ósköp með þig, góði minn“, sagði hún. „Og þig verður að dreyma það sama þrjár nætur í röð, annars er það ekkert að marka. En það fór alveg eins tvær næstu nætur, hann dreymdi sama drauminn, honum fanst hann mega til með að fara. Svo þvoði hann sjer, fór í hermannabúninginn sinn og fór til konungshallar og barði að eldhúsdyrunum. Þetta var daginn eftir, að hinir tveir höfðu farið af stað.

„Far þú heim aftur“, sagði kóngurinn. „Kóngsdæturnar eru alt of hátt takmark fyrir þig, og svo er jeg búinn að borga þessi kynstur af ferðapeningum og er orðinn vita auralaus í bráðina. Það er betra fyrir þig að koma seinna“.

„Ef að jeg fer nokkuð, þá fer jeg í dag“, sagði hermaðurinn. „Ferðapeninga þarf jeg ekki, jeg vil ekki annað en sopa á flösku og bita í tösku“, sagði hann, en þá var honum gefið eins mikið af kjöti og fleski, eins og hann gat borið. — Já, það gat hann fengið, úr því það var alt sem hann vildi.

Svo lagði hann af stað, og hafði ekki gengið lengi, þegar hann náði liðsforingjunum.

„Hvert ætlar þú“, sagði kapteinninn, þegar hann sá einkennisbúning hermannsins.

„Jeg ætlaði að reyna að finna kongsdæturnar“, svaraði hermaðurinn.

„Það ætlum við líka“, sagði kapteinninn, „og fyrst þú ert í sömu erindagerðum, þá mátt þú koma með okkur, því ef við finnum þær ekki, þá gerir þú það ekki heldur, piltur minn“, sagði hann.

Þegar þeir höfðu gengið nokkurn spöl, fór hermaðurinn af þjóðveginum og beygði inn á stíg, sem lá inn í skóginn.

„Nei, hvert ætlar þú?“ spurði kapteinninn. „Það er best að fara eftir þjóðveginum“, bætti hann við.

„Það getur vel verið“, sagði hermaðurinn, „en þessa götu ætla jeg nú að fara“.

Hann hjelt áfram eftir götuslóðanum, og þegar hinir sáu það, komu þeir á eftir. Þeir gengu svo langar leiðir, yfir mýrar og móa og gegnum þrönga afdali, og altaf var skógurinn jafn þjettur. Loksins birti þó, og þeir komust út úr skóginum, og þá tók við langt einstigi, sem þeir urðu að fara eftir, og á einstiginu stóð bjarndýr mikið á verði, það reis upp á afturfæturna og kom á móti þeim, eins og það ætlaði að jeta þá.

„Hvað eigum við nú að gera?“ sagði kapteinninn.

„Þeir segja, að bjarndýrum þyki gott kjöt“, sagði hermaðurinn og kastaði til dýrsins vænum bita. Svo komust þeir fram hjá birninum. En við hinn endann á einstiginu stóð ljón og það öskraði og kom á móti þeim með gapandi ginið, eins og það ætlaði að gleypa þá.

„Nú er víst best að snáfa heim aftur, hjer komumst við aldrei lifandi fram hjá“, sagði kapteinninn.

„O, ætli þetta ljón sje svo hættulegt“, sagði hermaðurinn. „Jeg hefi heyrt, að ljóninu þyki dæmalaust gott flesk, og jeg hef hjerna hálfan grís í malnum mínum“, sagði hann. Svo kastaði hann stóru fleskstykki til ljónsins, það byrjaði að naga og naga fleskið, og svo komust þeir fram hjá því.

Um kvöldið komu þeir að stórum og miklum bæ. Þar var hvert hús öðru stærra, og alstaðar var kveikt á ótal ljósum. En á því varð nú enginn saddur, víst er um það. Kapteinninn og undirforinginn hringluðu í peningunum sínum, og vildu svo fegnir hafa keypt sjer mat, en engan mann hittu þeir á þessum bæ, og ekki sáu þeir heldur nokkurn matarbita. Þá bauð hermaðurinn þeim kjöt og flesk úr malnum sínum. Þá voru þeir ekki lengur neinir gikkir, en gerðu sjer það til góða, sem þeim var boðið, og borðuðu eins og þeir hefðu aldrei smakkað mat.

Daginn eftir sagði kapteinninn að best væri að fara á veiðar, til þess að hafa eitthvað að lifa á, þegar maturinn hermannsins væri búinn. Rjett hjá þessum undarlega bæ, sem þeir voru staddir á, var stór og mikill skógur, og í honum var nóg af hjerum og fuglum. Undirforinginn átti að verða eftir heima og gæta húsa og sjóða það sem eftir var af nestinu. Hinir fóru á veiðar og skutu svo mikið af veiðidýrum, að það var rjett með herkjubrögðum, að þeir gátu borið bráðina heim. En þegar þeir komu heim í hlað, þá var eitthvað að undirforingjanum, svo hann komst varla til þess að ljúka upp fyrir þeim.

„Hvað gengur að þjer?“ spurði kapteinninn.

Jú, það var nú ekki skemtileg saga, sem undirforinginn hafði að segja, strax og þeir voru farnir, kom til hans agnarlítill karl með sítt skegg; hann gekk við hækjur og bað svo vel og fallega um að gefa sjer einn skilding, en strax og hann var búinn að fá peninginn, þá misti karlinn hann á gólfið og hvernig sem hann reyndi að ná honum aftur, þá gat hann það ekki, svo hrumur var karlinn og skakkur. „Jeg kendi í brjósti um karlræfilinn“, sagði undirforinginn, „og svo beygði jeg mig og ætlaði að taka upp fyrir hann peninginn, en þá var hann hvorki hrumur nje skakkur lengur. Hann barði mig svoleiðis með hækjunum, að jeg er ekki nærri búinn að ná mjer enn“.

„Þú ættir að skammast þín, kóngsins stríðsmaður, að láta gamlan kryppling berja þig svona, og enn meira fyrir að segja nokkrum frá því“, sagði kapteinninn. „Svei, á morgun skal jeg verða eftir hjer heima, og þá skal nú eitthvað annað spyrjast“.

Jæja. Daginn eftir var nú kapteinninn á verði heima, en undirforinginn og hermaðurinn fóru á veiðar. átti kapteinninn að elda mat og gæta hússins.

Karlinn lúskrar á kapteininum.

Þegar leið á daginn, kom karlinn og bað um skilding, en ef þá fór ekki ver, þá fór að minsta kosti ekki betur en daginn áður. Hann misti peninginn um leið og hann fjekk hann, og gat ekki fundið hann aftur. Svo bað hann kapteininn að hjálpa sjer að finna hann, og kapteinninn mundi ekki betur eftir því sem gerðist daginn áður, en að hann laut niður til að leita. En ekki hafði hann fyrr byrjað að leita, en krypplingurinn fór að lemja á honum með hækjunum, og í hvert skifti þegar kapteinninn ætlaði að rjetta úr sjer, fjekk hann bilmings högg, og það voru nú engin smáhögg, hann sá eldglæringar við hvert einasta af þeim. Þegar hinir tveir komu heim um kvöldið lá hann enn á gólfinu og gat varla hreyft legg nje lið.

Þriðja daginn átti svo hermaðurinn að vera heima, en hinir tveir fóru að veiða. Kapteinninn sagði að hann skyldi vara sig, „því þig drepur nú karlinn, vinur minn“, sagði hann. „Eitthvað væri maður nú aumur, ef svona skröggur gerði út af við mann“, sagði hermaðurinn.

Þeir voru varla komnir í hvarf, kapteinninn og undirforinginn, þegar karlinn kom og bað um skilding.

„Peninga hefi jeg aldrei átt“, sagði hermaðurinn, „en mat skaltu fá, þegar jeg er búinn að sjóða. En ef þú vilt fá matinn, þá verðurðu að höggva við í eldinn.

„Það kann jeg ekki“, sagði karlinn.

„Þótt þú kunnir það ekki, þá geturðu lært það“, sagði hermaðurinn. „Jeg skal ekki vera lengi að kenna þjer, komdu bara með mjer út í eldiviðarskálann“.

Þegar þeir komu út í skálann, dró hermaðurinn fram stóreflis viðardrumb, hjó í hann skarð og rak þar í fleyg, svo djúp rifa kom í trjeð. „Nú verður þú að leggjast niður og gá ofan í þessa rifu, þá skalt þú fljótt kunna að höggva við“, sagði hermaðurinn, „en á meðan þú horfir á, skal jeg höggva“.

Jú, gamli maðurinn ljet ekki segja sjer þetta tvisvar, lagðist niður og rýndi í rifuna, þegar hermaðurinn sá að skeggið á karlinum var komið langt niður í rifuna, tók hann fleyginn úr trjenu, svo karlinn varð fastur á skegginu. Svo lúbarði hann karlinn með öxarskallanum, og hótaði að kljúfa á honum hausinn, ef hann segði sjer ekki strax, hvar kóngsdæturnar væru niðurkomnar.

„Gef mjer líf, gef mjer líf, þá skal jeg segja þjer það“, veinaði karlinn. „Fyrir austan bæinn er stór hóll“, sagði hann svo. „Efst á hólnum skaltu rista upp ferhyrnda torfu, og þá kemurðu niður á stóra hellu, og undir henni er djúp gjóta. Niður í þessa gjótu skaltu fara, og þá kemur þú í annan heim, og þar eru kóngsdæturnar hjá bergþursunum. En leiðin niður er löng og dimm, og bæði þarf að fara gegnum vatn og eld.“

Þegar hermaðurinn hafði fengið að vita það sem hann vildi, leysti hann karlinn úr prísundinni, og sá gamli var ekki seinn að kveðja og hypja sig burtu.

Þegar nú kapteinninn og undirforinginn komu heim, undruðust þeir að hermaðurin var lifandi. Jú, hann sagði þeim, hvernig það hefði gengið til, og líka hvar kóngsdæturnar voru niður komnar, og hvernig hægt væri að finna þær. Hinir urðu eins glaðir eins og þeir væru búnir að finna þær, og þegar búið var að borða, tóku þeir með sjer nestiskörfu og öll reipi og snæri, sem þeir gátu fundið, og fóru allir þrír út á hólinn. Þar ristu þeir fyrst upp torfuna, eins og karlinn hafði sagt, og fundu þar undir stóreflis hellustein, sem þeir rjett með herkjum gátu lyft. Svo fóru þeir að mæla, hve djúpt væri niður. Þeir mældu oft og mörgum sinnum, en fundu ekki frekar botn síðast en fyrst. Að lokum urðu þeir að binda saman alt sem þeir höfðu, bæði digur reipi og mjó snæri, og þá fundu þeir að þetta náði í botn.

Auðvitað vildi kapteininn fara fyrst niður, „en ef jeg kippi í snærið, verðið þið að flýta ykkur að draga mig upp aftur“, sagði hann. Það var bæði kalt og dimt niðri, en hann hjelt að það væri þolanlegt, ef það bara versnaði ekki. En alt í einu bunaði framan í hann ískalt vatn. Við það varð hann hræddur og fór að kippa í reipið. Jú, svo vildi undirforinginn reyna, en ekki gekk honum mikið betur. Þegar hann var kominn gegnum vatnsflauminn, sá hann rauðan logann fyrir neðan sig, og varð hræddur og ljet draga sig upp aftur.

Þá fór nú hermaðurinn af stað, og hann hjelt áfram, bæði gegnum vatn og eld, alveg þangað til hann kom til botns. Þar niðri var þreifandi myrkur, svo hann sá ekki handa skil. Ekki þorði hann heldur að sleppa körfunni, en gekk í kring og fálmaði fyrir sjer. Jú, svo kom hann auga á svolitla skímu, langt, langt í burtu, eins og vottaði fyrir dögun, og í þá átt gekk hann. Þegar hann hafði gengið nokkurn spöl, fór að birta í kringum hann, og svo leið ekki á löngu, fyr en gullsól kom upp á himininn, og svo varð bjart og fallegt. Fyrst sá hermaðurinn miklar hjarðir á beit, þar voru feitar og fallegar kýr, og þar eftir kom hann að stórri og mikilli höll. Þar gekk hann gegnum marga sali, án þess að hitta nokkurn mann. — Loksins heyrði hann rokkhljóð, og þegar hann kom þar inn, sem verið var að spinna, þá sat elsta kóngsdóttirin þar og spann kopargarn, og bæði stofan og alt sem í henni var, var úr gljáfægðum kopar.

„Hvað er nú þetta, koma hingað kristnir menn?“, sagði kóngsdóttirin. „Hamingjan hjálpi þjer, hvað viltu hingað?“

„Jeg ætla að frelsa þig úr berginu“, sagði hermaðurinn.

„Farðu góði vinur, farðu! Ef tröllið kemur heim, þá gerir það út af við þig undir eins, — hann er þríhöfðaður, þursinn“.

„Mjer væri alveg sama, þó hann væri fjórhöfðaður“, sagði hermaðurinn. „Fyrst jeg er kominn hingað, þá verð jeg hjer kyr“.

„Jæja, fyrst þú ert svona ákafur, þá verð jeg víst að reyna að hjálpa þjer“, sagði kóngsdóttirin. Svo sagði hún að hermaðurinn skyldi skríða bak við stóra bruggkerið, sem stóð í anddyrinu, en hún skyldi taka á móti tröllkarlinum og greiða hár hans, uns hann sofnaði; „en þegar jeg fer út og kalla á hænsnin, að þau komi og tíni það, sem fellur úr höfði honum, þá skalt þú flýta þjer að koma“, sagði hún. „En farðu nú fyrst og vittu hvort þú getur valdið sverðinu, sem liggur þarna á borðinu“. — Nei, ekki gekk það, sverðið var svo þungt, að hermaðurinn gat ekki einu sinni hreyft það. Þá varð hann að fá sjer sopa úr horni með töfradrykk, og eftir það gat hann rjett lyft sverðinu, svo fjekk hann sjer annan sopa, og þá gat hann lyft því svolítið hærra, en svo fjekk hann sjer stóran sopa úr horninu, og þá gat hann sveiflað sverðinu eins og hann vildi.

En einmitt þá heyrðist bergrisinn koma þrammandi, svo öll höllin skalf.

„Svei, svei, hjer er mannaþefur í húsum“, sagði risinn.

„Hrafn flaug hjer yfir“, sagði kóngsdóttirin. „Hann hafði mannsbein í nefinu og misti það niður í reykháfinn. Jeg kastaði því út og sópaði vel og lengi, en það er víst lykt ennþá“.

„O, jeg finn það nú líklega“, sagði tröllið.

„En komdu nú, nú skal jeg greiða þjer,“ sagði kóngsdóttirin, „þessi lykt verður svo farin, þegar þú vaknar“.

Þetta þótti risanum vel mælt, og ekki leið á löngu, þangað til hann var steinsofnaður og farinn að hrjóta. Þegar kóngsdóttirin fann, að hann var steinsofnaður, setti hún stóla og dýnur undir höfuðin á honum, og fór að kalla á hænsnin. Þá læddist hermaðurinn inn með sverið og hjó alla þrjá hausana af risanum í einu höggi.

Kóngsdóttirin varð mjög kát og glöð, og fylgdi nú hermanninum til systra sinna, svo hann gæti líka frelsað þær úr berginu. Fyrst gengu þau yfir húsagarð og svo gegnum mörg og stór herbergi, þangað til þau komu að stórum dyrum. „Jæja, hjer verðurðu að fara inn“, sagði kóngsdóttirin, „hjerna er það“. Þegar hermaðurinn opnaði dyrnar, sá hann inn í stóran sal, þar sem alt var úr skíru silfri, þar sat næstelsta kóngsdóttirin og spann á silfurrokk.

„Hamingjan góða“, sagði hún við hermanninn. „Hvað vilt þú þingað?“

„Ó, góði farðu burtu“, sagði kóngsdóttirin. „Ef risinn verður var við þig hjer, gerir hann út af við þig“.

„Ja, ef jeg geri þá ekki út af við hann“, sagði hermaðurinn.

„Nú, ef þú vilt endilega vera hjer“, sagði hún, „þá skaltu skríða bak við stóra kerið í anddyrinu. En þú verður að flýta þjer að koma, strax og þú heyrir mig kalla á hænsnin“. En fyrst varð hann að reyna, hvort hann var maður til þess að sveifla sverði risans, sem lá á borði þar; það var miklu stærra og þyngra en hið fyrra, svo hann gat ekki nema rjett lyft því. Svo fekk hann sjer þrjá sopa úr horninu, þá gat hann vel valdið því, og þegar hann var búinn að fá sjer þrjá sopa í viðbót, gat hann farið með sverðið eins og það væri borðhnífur.

Rjett á eftir tók að heyrast brak og brestir, og alt ljek á reiðiskjálfi, og svo kom inn þursi með sex höfuð.

„Svei, svei,“ sagði hann um leið og hann rak nefin inn ur dyrnar. „Hjer er mannaþefur inni!“

„Já, að hugsa sjer“, sagði kóngsdóttirin. „Rjett áðan kom hrafn fljúgandi með lærlegg af manni í nefinu, og misti hann niður um reykháfinn. Jeg henti beininu út, og hrafninn henti því inn aftur. Loksins kom jeg því burtu og flýtti mjer að opna alla glugga, svo lyktin ryki út, en hún fer nú ekki alveg á stundinni samt“, sagði hún.

„Nei, það get jeg ekki ímyndað mjer“, sagði þursinn. En hann var þreyttur og lagði höfuðin í kjöltu kóngsdóttur, og hún greiddi honum, þangað til hann var steinsofnaður, svo kallaði hún á hænsnin, en þá kom hermaðurinn og hjó öll sex höfuðin af í einu höggi, svo vel beit sverðið.

Og hún var ekki minna glöð, þessi kóngsdóttir, heldur en systir hennar hafði verið, það getur maður nú skilið, en þegar þær voru að dansa og syngja af kæti systurnar, þá varð þeim alt í einu hugsað til yngstu systur sinnar, og svo fóru þær með hermanninn yfir stóran garð og gegnum mörg, mörg herbergi, þangað til hann kom inn í gullsalinn til þriðju kóngsdótturinnar. Hún sat og spann gullþráð á gullrokk, og það gljáði á alt frá lofti til gólfs, og það svo, að manni gat orðið ilt í augunum.

„Hamingjan hjálpi okkurbáðum“, sagði yngsta kóngsdóttirin. „Hvað vilt þú hingað? Blessaður komdu þjer burtu, annars drepur þursinn okkur bæði“.

„Það er eins gott að jeg sje hjerna hjá þjer, eins og þú sjert ein“, sagði hermaðurinn. Kóngsdóttirin grjet og bað hann að fara, en það hafði engin áhrif. Hann vildi vera kyr, og hann skyldi vera kyr. Jæja, þá var ekki um annað að gera fyrir hann, en að reyna, hvort hann gæti notað sverðið tröllkarlsins á borðinu úti í anddyrinu. En það var rjett svo að hann gat hreyft það, — það var miklu stærra og þyngra en hin sverðin. Þessvegna varð hann að ná í hornið, sem hjekk á veggnum, og fá sjer sopa úr því. Hann fjekk sjer þrjá, en samt gat hann ekki meira en rjett tekið sverðið upp. Þegar hann hafði fengið sjer þrjá sopa í viðbót, gat hann ráðið sæmilega við sverðið, og eftir þrjá sopa enn, gat hann sveiflað því eins og fisi. Þá sagði kóngsdóttirin hermanninum það sama og hinar höfðu gert, að þegar risinn væri sofnaður, skyldi hún kalla á hænsnin, og þá skyldi hann flýta sjer að koma og gera út af við hann.

Alt í einu heyrðust dunur og dynkir, eins og höllin ætlaði að hrynja í rúst.

„Svei, svei. Hjer er mannaþefur inni“, sagði tröllið, og lyktaði með öllum níu nefunum sínum.

„Já, þú hefðir bara átt að sjá til hrafnsins, sem flaug hjer yfir rjett áðan og misti mannsbein niður um reykháfinn. Jeg kastaði því út, og aftur kom hann með það, svo það er engin furða, þó lyktin finnist, en loksins gat jeg grafið það niður, og svo er jeg bæði búin að sópa og þvo, og samt getur lyktin varla verið alveg farin“.

„Nú, það má nú finna minna“, sagði bergrisinn.

„Komdu nú hjerna til mín, þá skal jeg greiða þjer,“ sagði kóngsdóttir, „þá verður lyktin rokin burt, þegar þú vaknar aftur“.

Þetta ljet þursinn sjer vel líka og þegar hann var farinn að hrjóta, sem hæst, setti kóngsdóttir dýnur og kodda undir hausana á honum, skaut sjer svo undan og tók til að kalla á hænsnin. Þá kom hermaðurinn á sokkaleistunum og hjó til risans, svo átta höfuðin fuku af í einu, — sverðið var of stutt til að ná því níunda, sem vaknaði og öskraði: „Svei, hjer er mannaþefur“. „Já, hjer er sá, sem lyktin er af“, sagði hermaðurinn, og áður en tröllið gat risið upp og gert nokkuð, hjó hermaðurinn af því síðasta höfuðið.

Kóngsdæturnar urðu nu mjög glaðar, þær vissu ekki hvað þær áttu að gera fyrir þann, sem hafði frelsað þær, og yngsta kóngsdóttirin tók af sjer gullhringinn sinn, og hnýtti hann í hár hermannsins. Svo tóku þau með sjer eins mikið af silfri og gulli, eins og þeim fanst þau geta borið, og lögðu af stað heimleiðis. Þau kiptu í bandið og þá drógu kapteinninn og liðsforinginn kóngsdæturnar strax upp, hverja á eftir annari. En þegar þær voru komnar upp, hugsaði hermaðurinn með sjer, að þetta hefði verið heimska af sjer að fara ekki upp á undan stúlkunum, vegna þess að hann trúði ekki fjelögum sínum sem best. Nú ætlaði hann að reyna þá og setti stóreflis gullhnullung í körfuna og kipti í. Þegar karfan var komin um hálfa leið upp hjuggu þeir á reipið, svo karfan slóst í bergið, og gullmolarnir hrundu niður yfir höfuðið á hermanninum. „Nú erum við lausir við hann“, sögðu þeir uppi. Svo hótuðu þeir kóngsdætrunum illum dauða, ef þær ekki segðu að þeir hefðu bjargað þeim frá tröllunum. Þeim var þetta þvernauðugt, og þó sjerstaklega þeirri yngstu, en þær voru nú ungar og vildu ekki deyja, svo þeir, sem valdið höfðu urðu að ráða.

Þegar nú kapteinninn og liðsforinginn komu heim með kóngsdæturnar, þá varð engin smávegis gleði í kóngsgarði. Kóngurinn varð svo hrifinn, að hann vissi varla hvernig hann átti að láta; hann tók út úr skápnum sínum flösku með besta víni sem hann átti til, og drakk þeim til og bauð þá velkomna báða tvo, og hafi þeir aldrei verið heiðraðir fyr, þá voru þeir það nú, enginn efast um það. Og þeir rigsuðu um stoltir og strembnir eins og herramenn, frá morgni til kvölls, þó það nú væri, þegar þeir voru í þann veginn að eignast kónginn sjálfan fyrir tengdaföður, því það var ákveðið að þeir ættu hvor að fá sína kóngsdóttur fyrir konu, og skifta milli sín helmingnum af ríkinu. — Báðir vildu þeir fá yngstu kóngsdótturina, en hvernig sem þeir báðu hana og ógnuðu henni, þá þýddi það ekki neitt, hún vildi hvorki heyra þá nje sjá. Svo töluðu þeir við kónginn og spurðu, hvort ekki mætti setja um hana tólf manna vörð, hún væri svo þunglynd síðan hún hefði verið í berginu, að þeir væru hræddir um að hún gæti tekið upp á einhverju voðalegu. „Jú, ætli það ekki“, sagði kóngurinn, og sagði varðsveitinni sjálfur, að hún yrði að gæta stúlkunnar vel, og missa aldrei sjónar af henni. — Svo var farið að bjóða gestum til brúðkaupsins, og var nú bruggað og bakað, það átti svei mjer að verða veisla, svo að slíka hefði aldrei fyr frjettst um, og svo var tappað vín og slátrað og soðið, eins og það ætlaði aldrei að enda.

En á meðan var hermaðurinn á rölti niðri í undirheimum. Honum fanst það hart, að hann skyldi hvorki eiga að fá að sjá menn eða dagsljósið framar en eitthvað yrði hann samt að gera, hugsaði hann með sjer, og svo gekk hann um tröllahallirnar, sal úr sal, í marga daga, og opnaði alla skápa og skúffur, sem hann fann. Líka leit hann upp á allar hillur, og fann þar margt fallegt. Eftir að hafa verið að þessu lengi, rakst hann á borðskúffu, dró hana út, og sá að í henni lá gulllykill. Svo reyndi hann þenna lykil í allar þær læsingar, sem hann fann, en hann gekk ekki að neinni, fyr en hann kom að litlum veggskáp yfir rúminu, og inni í honum fann hann gamla ryðgaða hljóðpípu. „Það gæti verið gaman að reyna hvort nokkuð heyrðist í henni“, sagði hermaðurinn við sjálfan sig og bljes í pípuna. En þá vissi hann ekki fyrri til en mikill vængjaþytur heyrðist, og alt varð krökt af fuglum kringum hann, eins og allir skógfuglar og mófuglar væru komnir.

„Hvað vill herra vor í dag?“ spurðu þeir. „Nú, ef jeg er herra ykkar“, sagði hermaðurinn, „þá þætti mjer gaman að vita, hvort þið gætuð ekki gefið mjer ráð til þess að komast upp á jörðina aftur“. — Ónei, enginn gat það nú, „en mamma er ekki enn komin“, sögðu fuglarnir, „og ef hún getur ekki hjálpað þjer, þá getur enginn það“. Svo bljes hermaðurinn einu sinni enn í pípuna, og eftir stutta stund heyrði hann vængjaþyt langt í burtu, og það var nú ekki neinn smáþytur. Það kom svo mikill stormur um leið, að hermaðurinn hefði fokið, ef hann hefði ekki náð sjer í skíðgarðinn umhverfis höllina. Og svo kom til hans örn, svo stór, að hermanninum varð ekki um að sjá hann.

„Það er naumast ferð á þjer“, sagði hermaðurinn.

„Jeg kem þegar þú blæst í pípuna“, sagði örnin.

Svo spurði hann, hvort hún kynni ráð til þess að komast aftur upp úr þessum heimi, sem þau voru í.

„Enginn, sem ekki getur flogið, kemst hjeðan“, sagði örnin. „En ef þú vilt slátra tólf uxum handa mjer, svo jeg geti borðað mig vel sadda, þá skal jeg reyna að hjálpa þjer. Hefirðu hníf?“ „Nei, en jeg hefi sverð“, sagði hann.

Þegar örnin hafði jetið uxana tólf, bað hún hermanninn að slátra einum enn og hafa hann með í nestið. „Í hvert skifti sem jeg geispa, þá verður þú að vera til með kjötstykki handa mjer“, sagði hún, „annars kemst jeg ekki upp með þig“. Já, hann gerði eins og hún bað um, og hengdi tvo stóra kjötpoka um hálsinn á henni, en sjálfur skreið hann inn milli fjaðranna. Þá hristi örnin vængina, og svo flaug hún upp eins og vindur, svo dundi í loftinu. Hermaðurinn hafði nóg að gera að halda sjer föstum. Það var rjett aðeins að hann gat gætt þess að kasta upp í örnina kjötstykkjunum, þegar hún geispaði. Loksins fór að bláma fyrir degi yfir þeim, og þá var örnin rjett komin að því að gefast upp á fluginu, og barði vængjunum, en hermaðurinn var viðbúinn og greip síðasta kjötbitann, heilt læri, og kastaði til hennar. Þá náði hún sjer aftur og komst upp með hann, og þegar hún hafði setið um stund og hvílt sig í stóru trje, fór hún aftur af stað með hann og sást þá bæði land og sjór. Rjett hjá kóngshóllinni skildu þau, og örnin flaug heim aftur, en sagði honum fyrst, að ef hún gæti eitthvað gert fyrir hann, þá skyldi hann bara blása í hljóðpípuna, þá kæmi hún strax.

En á meðan var lokið umstanginu í kóngsgarði, og leið að þeim tíma, þegar veislan átti að standa, þegar kapteinninn og liðsforinginn giftust báðum eldri kóngsdæturnar. En þær voru ekki glaðari en yngsta systir þeirra, og því nær sem brúðkaupsdagurinn kom, þess hryggari urðu þær. Loksins spurði kóngurinn hvað væri að þeim; honum fanst það svo einkennilegt, að þær væru ekki kátar og glaðar, nú þegar þær væru aftur komnar heim og lausar úr tröllahöndum, og ættu að giftast svona góðum mönnum. Eitthvað urðu þær að segja við þessu, og þá sagði sú elsta, að þær litu aldrei glaðan dag framar, nema þær fengju eins fallegt manntafl, eins og þær sáu í berginu blá.

Kóngurinn hjelt að það væri nú hægt að útvega þeim það, og sendi hann boð til allra bestu og listfengustu gullsmiða í landinu, að þeir skyldu smíða gulltafl handa dætrum hans. En hvernig sem þeir reyndu, þá var enginn, sem gat smíðað svoleiðis tafl. Loksins var ekki nema einn gullsmiður eftir, og það var eldgamall karl, sem ekkert hafði fengist við smíðar í mörg ár, að minsta kosti ekki gullsmíðar, en var að fikta svolítið við að smíða silfur, og rjett svo að hann gat haft ofan af fyrir sjer. Til hans fór nú hermaðurinn og bað hann að kenna sjer, og karlinum þótti svo vænt um að fá lærisvein, — því nemanda hafði hann ekki haft árum saman, — að hann náði í vínflösku neðan af kistubotni og fór að drekka með hermanninum. Það leið ekki á löngu, þangað til vínið steig karlinum til höfuðs, og þegar hermaðurinn varð þess var, fór hann að tala um það við karlinn, að hann skyldi fara og segjast geta smíðað taflið handa kóngsdætrunum. Það gerði karlinn þegar í stað. Hann hefði nú gert ýmislegt sem meira var, meðan hann var ungur og ern, sagði hann.

Þegar kóngur heyrði að það væri kominn maður, sem gæti smíðað tafl, sem dætrum hans myndi þykja nógu gott, var hann ekki lengi að koma út.

„Er það satt, sem þjer segið, að þjer getið smíðað tafl, eins og dætur mínar vilja fá“, spurði hann.

„Já, það er engin lygi“, sagði smiðurinn, og það stóð hann við.

„Það er gott“, sagði konungur, „hjer er handa þjer gull að smíða það úr, en getir þú það ekki, þá skaltu engu fyrir týna, nema lífinu, fyrst þú býður þig svona fram“, og eftir þrjá daga átti taflið að vera tilbúið.

Morguninn eftir, þegar gullsmiðurinn hafði sofið úr sjer, var hann ekki alveg eins rogginn. Hann bæði grjet og barmaði sjer, og skammaði lærisvein sinn, sem hafði komið honum til þess að hlaupa á sig, þegar hann var fullur. Nú væri víst best að hann stytti sjer aldur strax, því ekki var að spyrja um það, að hann hjeldi lífi, úr því bestu og fínustu gullsmiðir gátu ekki smíðað slíkt tafl, þá var ekki líklegt, að hann gæti það.

„Vertu ekki að súta þetta“, en komdu með gullið“, sagði hermaðurinn. „Jeg skal búa til taflið. En jeg vil fá herbergi út af fyrir mig að vinna í“, sagði hann. Það fjekk hann strax og meira að segja þakkir í viðbót.

En það drógst að taflið kæmi. Hermaðurinn gerði ekki neitt, annað en að slæpast, og gullsmiðurinn var altaf hálfskælandi, af því að ekki var byrjað á verkinu. „Skiftu þjer ekki af þessu“, sagði hermaðurinn, „fresturinn er langur. Ef þú ert ekki ánægður með það sem jeg hef lofað, geturðu sjálfur búið til taflið“. — Og það sat við sama, bæði þenna dag og þann næsta, og þegar smiðurinn hvorki heyrði í hamri eða þjöl úr herberginu hermannsins allan síðasta daginn, þá fór hann að hágráta, því nú var engin von fyrir hann að bjarga lífinu lengur, hugsaði hann.

En þegar líða tók á nótt, opnaði hermaðurinn gluggann og bljes í pípu sína. Þá kom örnin og spurði hvað hann vildi.

„Jeg hefi uxaskrokka handa þjer ...“

„Jeg vil fá gulltaflið, sem kóngsdæturnar höfðu í berginu blá“, sagði hermaðurinn, „en þú þarft líklega eitthvað að borða fyrst? Jeg hefi nú hjerna úti í skemmunni tvo uxaskrokka handa þjer, og þá geturðu fengið“, sagði hann. Þegar örnin hafði jetið uxaskrokkana, var hún ekki sein á sjer, og löngu fyrir sólarupprás var hún komin aftur með taflið. Hermaðurinn setti það undir rúmið sitt og fór svo að sofa.

Snemma um morguninn kom gullsmiðurinn og barði á dyr hjá honum. „Hverslags óðagot er í þjer“, sagði hermaðurinn. „Allan daginn lætur þú eins og þú sjert óður, og nú fær maður heldur ekki svefnfrið, það er meira ólánið að vera nemandi hjer“. En gullsmiðurinn linti ekki látum, fyr en hann komst inn, en þá voru líka sorgir hans á enda.

En kóngsdæturnar urðu enn glaðari en hann var, þegar hann kom með taflið til kóngshallar, en glöðust af öllum varð þó sú yngsta.

„Hefir þú smíðað þetta tafl sjálfur?“ spurði hún gullsmiðinn.

„Nei, ef satt skal segja, þá hefi jeg ekki gert það, heldur nemandi sem er hjá mjer“, sagði hann.

„Hann hefði jeg gaman af að sjá“, sagði kóngsdóttirin. Já, þær vildu endilega sjá hann, allar þrjár, og ef hann vildi fá að njóta lífsins, þá skyldi hann koma.

Þegar hermaðurinn fjekk þessi skilaboð, þá sagðist hann hvorki vera smeikur við kvenfólk nje stórmenni, og ef slíku fólki þætti gaman að sjá garmana hans, þá mætti það gjarnan skemta sjer við það.

„Þakka þjer fyrir síðast“

En yngsta kóngsdóttirin þekti hann undir eins, hún ýtti varðmanninum til hliðar, hljóp til hermannsins, tók í höndina á honum og sagði: „Komdu sæll og þakka þjer fyrir síðast. Hjer er sá, sem bjargaði okkur frá tröllunum í berginu blá“, sagði hún við kónginn föður sinn. „Hann vil jeg fá fyrir mann“. Og svo tók hún af honum húfuna og sýndi hringinn, sem hún hafði bundið í hár hans.

Já, svo var nú farið að segja frá því, hvernig kapteinninn og liðsforinginn hefðu hagað sjer, og þeir urðu að láta lífið fyrir tiltækið; það varð endirinn á mikillæti þeirra. En hermaðurinn fjekk gullkórónuna og hálft konungsríkið með, og hjelt brúðkaup og giftist yngstu kóngsdótturinni. Og þá var slegið upp veislu, og allir gátu etið og drukkuð, þó þeir gætu ekki bjargað kóngsdætrunum; og ef veislufólkið er ekki búið með allan mat og drykk, þá situr það enn og drekkur og gerir sjer glaðan dag.