Fara í innihald

Norsk æfintýri/Umli litli úr gæsaregginu

Úr Wikiheimild
Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Umli litli úr gæsaregginu

Umli litli úr gæsaregginu

Einu sinni voru fimm kerlingar, sem voru úti á akri að skera upp korn. Allar voru þær barnlausar, og allar óskuðu þær að eiga barn. Alt í einu sáu þær einkennilega stórt gæsaregg, næstum því eins stórt og mannshöfuð. „Jeg sá það fyrst“, æpti ein þeirra. „Jeg sá það jafnsnemma og þú“, skrækti önnur. „Jeg vil fá eggið, því það var jeg, sem sá það fyrst“, sagði sú þriðja. Svona hjeldu þær áfram og rifust svo mikið um eggið, að þeim lá við áflogum.

En svo komu þær sjer saman um að þær skyldu eiga það saman allar fimm, og að þær skyldu liggja á því, eins og gæsin gerir, og unga því út. Sú fyrsta lá á egginu í heila viku og gerði ekki nokkurn hlut, en hinar urðu að þræla fyrir matnum, bæði handa sjer og henni. Og svo fór ein hinna að skamma hana fyrir þetta.

„Þú komst heldur ekki úr egginu, fyr en þú gatst skríkt“, sagði sú, sem lá á, „en jeg held nú að verði meira úr því, sem er í þéssu eggi, heldur en þjer, því mjer heyrist það umla eitthvað um síld og graut og mjólk. En nú getur þú legið á í viku, og þá getum við hinar þrælað fyrir matnum handa þjer“.

Þegar sú fimta var líka búin að liggja á í viku, heyrði hún vel, að það var umlað í egginu um síld og graut og mjólk, og svo braut hún gat á eggið, en í stað gæsarunga kom út barn og það var svo ljótt, með stórt höfuð og lítinn skrokk, og það fyrsta, sem það umlaði um, þegar það kom í dagsljósið, var um síld og graut og mjólk. Því kölluðu þær barnið Umla litla úr gæsaregginu.

Þótt krakkinn væri ljótur, þótti þeim þó vænt um hann, en það leið ekki á löngu þangað til hann varð svo gráðugur, að hann át upp allan mat, sem þær höfðu. Þegar þær suðu sjer graut, jafnvel heilan pott, sem þær hjeldu að væri nógur handa þeim öllum sex, þá hámaði Umli það alt í sig. Svo vildu þær ekki hafa hann lengur. „Jeg hefi bara aldrei fengið nóg að borða, síðan þessi umskiftingur skreið úr egginu“, sagði ein þeirra, og þegar Umli heyrði að þær voru þessu allar samþykkar, sagði hann að hann gæti svo sem farið, ef þær þyrftu sín ekki með, þá þyrfti hann þeirra heldur ekki, og með það hljóp hann á burtu.

Eftir að hafa gengið lengi, kom hann að bóndabæ, sem stóð á hrjóstrugu svæði, og bað um atvinnu, — jú, þeir þurftu þar vinnumann og sögðu honum að tína grjót af akrinum. Þetta gerði Umli og hann tók bæði stóra stein og smáa og hve stórir sem þeir voru, stakk hann þeim í vasa sinn. Það leið ekki á löngu áður en hann hafði lokið þessu verki, og svo vildi hann fá að vita, hvað hann ætti að gera meira.

„Þú verður að taka alla steinana af akrinum“, sagði bóndinn, „það er ómögulegt að þú sjert búinn“.

En Umli tók þá steinana úr vösum sínum, og kastaði þeim öllum í eina hrúgu, og það varð nú engin smáhrúga. Þegar bóndinn sá, hve stór hún var, varð hann alveg steinhissa á, hve nýi vinnumaðurinn var sterkur, og bauð honum að koma inn og fá að borða. Það fanst Umla þjóðráð og hann át alt, sem búið hafði verið til af mat, bæði handa húsbændum og hjúum, og fjekk samt ekki í sig hálfan.

Já, hann var enginn letingi piltur sá, hvorki að vinna nje að jeta, það stóð alt á botni í honum, hugsaði bóndi. „Svona vinnumaður jetur hvern bónda út á gaddinn“, sagði hann. — „Þú verður að fara eitthvað annað, drengur minn, jeg hefi engin efni á að fæða svona átvagl!“

En þá fór Umli til kóngsins og fjekk þar strax vinnu, og hjá konungi var nóg bæði um mat og vinnu. Hann átti að vera þar vikadrengur og hjálpa stúlkunum að bera vatn og ýmislegt smávegis.

Svo spurði hann, hvað hann ætti að gera fyrst.

„Það er best að þú höggvir svolítinn við í eldinn“, sögðu þær.

Jú, Umli fór að höggva eldivið og hjó svo, að spænirnir fuku kringum hann, og það leið ekki á löngu áður en hann var búinn að höggva upp allan við, sem til var, jafnvel stóreflis trje, og þegar hann var búinn, kom hann og spurði, hvað hann ætti nú að gera.

„Þú getur haldið áfram að höggva“, sagði ráðsmaðurinn.

„Onei, það get jeg ekki, jeg er búinn með allan viðinn“, sagði Umli.

Eitthvað væri það nú skrítið, hugsaði ráðsmaðurinn, og fór svo að gæta að. Ójú, alt var upphöggvið, og svo skipaði ráðsmaðurinn Umla að fara út í skóg og fella jafnmikið af trjám, eins og viðurinn væri mikill, sem hann hefði höggvið í eldinn.

Umli fór nú út í smiðju og fjekk smiðinn til þess að smíða handa sjer öxi úr átta vættum af járni, svo fór hann út í skóginn og fór að höggva, hann var nú ekki að velja úr trjánum drengurinn sá, hann hjó alt sem fyrir var, bæði í skóginum, sem kóngur átti og í skógi nágrannans, og hann ljet trjen liggja þar sem þau voru komin, svo skógurinn leit út eins og eftir fellibyl. Svo setti hann heldur mikið af viði á sleðann, sem hann var með, og marga hesta fyrir, en þeir hreyfðu ekki sleðann. Þá tók hann í hausana á hestunum og ætlaði að draga þá áfram, en þá fór hvorki betur nje ver en svo, að hausarnir fóru af hestunum. Umli velti þá skrokkunum burtu og dró sleðann sjálfur heim.

Þegar hann kom heim til hallarinnar, stóð kóngur og timburmeistari hans úti, og tóku á móti honum, og skömmuðu hann fyrir það, hve illa hann hefði farið með skóginn, það hafði timburmeistarinn sjeð. — En þegar Umli kom með hálfan skóginn, varð kóngur bæði hræddur og reiður, og hugsaði sjer, að best væri að fara varlega að þessum vinnumanni, fyrst hann væri svo sterkur.

„Þú ert meiri vinnuþjarkurinn“, sagði kóngur, „en hve mikið borðar þú í einu“, bætti hann svo við, „því þú ert víst svangur?“

„Ef jeg á að fá almennilegan graut, þá þarf í hann tólf tunnur af mjöli“, sagði Umli úr gæsaregginu, „en ef þetta er gert, þá verð jeg saddur þó nokkra stund“.

Það tók nú tíma að búa til svo mikið af graut, og á meðan átti Umli að bera inn við handa eldamanninum að sjóða við. Þá setti Umli allan hauginn af eldiviði á sleða, en þegar hann ætlaði með hann inn gegnum eldhúsdyrnar, fór heldur að versna, hann tók svo fast á, að húsið skekktist alt á grunninum, og brakaði og brast í öllu, það lá við sjálft að öll kóngshöllin hryndi. Þegar leið að því að maturinn væri tilbúinn, var honum sagt að kalla á fólkið að borða, það var út á akri að vinna. Og hann hrópaði svo hátt að undir tók í öllum hæðum og fjöllum, en þegar honum fanst það ekki koma nógu fljótt, þá reiddist hann svo, að hann sló tólf vinnumenn í rot, þegar þeir komu.

„Hann rotaði tólf“, sagði kóngurinn, „og hann jetur á við mörgum sinnum tólf, en á við hvað marga geturðu unnið?“

„Á við mörgum sinnum tólf líka“, svaraði Umli.

Þegar Umli hafði fengið að borða, átti hann að fara út í hlöðu og þreskja. Þá gerði hann sjer lítið fyrir og tók mæniásinn úr hlöðunni, og þreksti með honum. En af því þakið fór heldur að síga, þegar undan var mænirásinn, tók Umli heilt grenitrje með greinum og öllu saman og setti það fyrir mænirás, og svo lamdi hann alt í einu, korn og hey og hálm. Það urðu ekki góð vinnubrögð, því alt fór í einn graut, og rykið stóð í mekki kringum alla kóngshöllina.

Þegar Umli var næstum búinn að þreskja, frjettist það að það væri að koma stríð, og her sækti inn í landið. Þá sagði konungur honum, að hann yrði að taka með sjer menn, fara móti óvinunum og stríða við þá, því hann bjóst við að þá yrði Umli drepinn. Onei, Umli sagðist ekki vilja hafa með sjer menn, til þess eins að þeir yrðu drepnir. „Jeg skal berjast einn“, sagði hann.

Því betra, þess fyr losna jeg við hann, hugsaði kóngur.

En sæmilega kylfu varð hann að hafa.

Þá var sent eftir smið, og hann smíðaði fimm vætta kylfu. „Þessi væri nú góð til þess að brjóta hnetur með“ sagði Umli. Svo var smíðuð ein fimtán vætta þung, og Umli sagði að hún væri ágæt til þess að negla litla nagla. Ja, stærri kylfu gat smiðurinn ekki smíðað með sínum mönnum. Þá fór Umli sjálfur í smiðju og bjó til kylfu, sem var 15 skippund á þyngd, og það þurfti hundrað menn til þess að snúa henni á steðjanum. Þessi kylfa hjelt Umli að myndi duga. En svo varð hann nú aðeins að hafa með sjer nesti, þá var búinn til malpoki úr 15 nautshúðum, og troðinn fullur af mat, og svo labbaði Umli af stað með kylfuna um öxl og pokann á bakinu.

Þegar Umli kom svo langt, að hann sá óvinaherinn, sendu þeir til hans mann, sem spurði hann, hvort hann ætti að berjast við þá.

„Bíðið þið bara, þangað til jeg er búinn að jeta“, sagði Umli úr gæsaregginu, lagðist niður og fór að jeta á bak við malpokann sinn.

En þeir vildu ekki aldeilis bíða, heldur fóru að skjóta á hann straks, og það rigndi yfir hann riffilkúlunum.

„Svona krækiber er mjer nú sama um,“ sagði Umli, og hjelt áfram að jeta, það beit hvorki á hann blý nje járn, og matarpokinn stóð fyrir framan hann eins og veggur og tók við mörgum kúlunum.

Svo fóru hinir að kasta sprengjum og skjóta úr fallbyssum. Umli glotti svolítið við hvert skeyti sem í hann kom.

„Ekki dugir þetta, piltar,“ kallaði hann. En svo hrökk ofaní hann sprengikúla.

„Svei“ sagði Umli og spýtti henni út úr sjer, en um leið kom önnur kúla og sundraði fyrir honum smjöröskjunum, og ein tók kjötstykkið sem hann var að borða og fleygði því langar leiðir.

Þá reiddist Umli, stóð upp, tók kylfuna og lamdi henni í jörðina og spurði hvort þeir ætluðu ekki að láta hann hafa matfrið fyrir þessum bláberjum, sem þeir bljesu á hann úr þessum ljótu járnhólkum sínum. Svo sló hann nokkur högg í viðbót svo fjöll og ásar hristust og skulfu, og óvinirnir þeyttust í allar áttir, og svo var það stríðið búið.

En þegar hann kom heim aftur, og vildi fá meira að gera, varð kóngur fár við, því hann hjelt, að nú væri hann laus við Umla. Og nú vissi hann engin önnur ráð, en að senda hann til helvítis.

„Til fjandans verður þú að fara, og rukka hann um landsskuldina,“ sagði hann. Umli af stað með malinn á bakinu og kylfuna um öxl, hann var ekki lengi á leiðinni, en þegar hann kom til vítis, var skolli að yfirheyra glataðar sálir. Enginn var annar heima en amma hans og hún sagði að hún hefði aldrei heyrt neina landsskuld nefnda og bað hann koma aftur seinna.

„Ekkert slúður,“ sagði hann. „Fyrst jeg er kominn hingað þá verð jeg hjer þangað til jeg fæ landskuldina og ekki hefi jeg mikinn tíma til að bíða, því mjer liggur á.“ En þegar hann var búinn með nestið, fór honum að finnast tíminn lengi að líða, fór aftur að nauða við ömmu gamla karlsins um landskuldina, og sagði, að nú yrði að borga hana.

„Nei, ekki aldeilis,“ sagði hún. „Það læt jeg mig ekki með, það er eins víst eins og að gamla furan stendur þarna fyrir utan hliðið.“ Þessi fura fyrir utan hlið vítis var svo stór, að fimtán menn náðu ekki utan um hana, þótt þeir hjeldu saman höndum. En Umli klifraði upp í trjeð og sneri upp á digrustu greinarnar, eins og þær væru smákvistar, og spurði svo ömmu ljóta karlsins hvort hún vildi nú borga landskuldina.

Jú, þá þorði gamla frúin ekki annað, og smalaði saman svo miklu af peningum, að Umli gat rjett borið það í malnum sínum. Svo lagði hann af stað með landskuldina og rjett eftir að hann var farinn, kom fjandinn heim. Þegar hann heyrði að Umli hafði farið úr hans heimkynnum með fullan poka af peningum, skammaði hann ömmu sína fyrst, og elti svo Umla. Og hann náði honum líka, því hann hafði ekkert að bera og var vængjaður að auki, en Umli varð að halda sjer við jörðina með þunga pokann sinn, en þegar kölski fór að nálgast hann, flýtti Umli sjer allt hann orkaði, og hjelt kylfunni fyrir aftan sig, til þess að verjast þeim gamla. Og svona gekk það, Umli hjelt í skaftið óg kölski reyndi að ná í kylfuna, svo komu þeir að djúpum dal, og yfir hann stökk Umli, fjallanna á milli og kölski var svo óður í að ná í hann að hann rauk á eftir, rakst á kylfuna og datt niður í dalinn, og við það meiddi hann sig í fætinum, og gat ekki elt Umla lengur.

„Þarna er landskuldin,“ sagði Umli, þegar hann kom til kongsins, og kastaði til hans peningapokanum, svo brakaði og brast í öllu. Kóngur þakkaði og ljet sem sjer líkaði þetta mjög vel, lofaði honum góðum launum, og heimferðarleyfi, ef hann vildi, en Umli vildi bara vinna meira.

„Hvað á jeg nú að gera?“ spurði hann.

Jú, þegar kóngur var búinn að hugsa sig um, sagði hann að hann yrði að fara til risans, sem hefði stolið dýrmætu sverði, sem kóngur hefði erft eftir afa sinn, og ná sverðinu af honum. En þessi risi átti heima í höll einni niður við sjó, og þorði einginn að heimsækja hann.

Umli fjekk nú aftur fullan stóra malinn sinn af mat í nestið og lagði svo af stað aftur. Hann fór langar leiðir yfir fjöll og drungalegar heiðar, þangað til að hann kom að björgum nokkrum, og þar átti nú þursi sá að vera, sem tekið hafði sverðið kóngsins, sem afi hans hafði átt.

En tröllið var ekki úti við, og bergið var lokað, svo Umli gat ekki komist inn.

Svo slóst hann í för með nokkrum mönnum sem hjeldu sig á bæ nærri björgunum og unnu að því að höggva grjót. Þeir höfðu aldrei þekkt annan eins vinnugarp eins og Umla, því hann sló bara á bjargið með kylfunni sinni, og þá rigndi grjótinu niður, og sumir steinarnir voru eins stórir og hús, en þegar hann ætlaði að hvíla sig um miðdegið, og fá sjer bita, þá var búið að jeta helminginn úr stóra malnum hans.

„Jeg hefi nú venjulega sæmilega matarlyst sjálfur,“ sagði Umli, „en sá sem hjer hefir verið að verki hefir verið enn gráðugri, því hann hefir jetið beinin líka.“

Svona fór það fyrsta daginn, og ekki betur þann næsta því þá var aftur jetinn helmingurinn af matnum. Þriðja daginn tók Umli með sjer það sem eftir var af matnum en þá lagðist hann niður hjá matarpokanum og ljet sem hann svæfi.

Þá kom út úr berginu ógurlegur þursi með 7 hausa og fór að smakka á matnum hans, og sá smakkaði nú duglega.

„Nú er maturínn til reiðu, nú skal maður jeta,“ kjamsaði risinn.

„Við skulum nú sjá, hvernig það gengur,“ sagði Umli rauk upp og sló með kylfunni, svo hausarnir fuku af tröllinu í allar áttir.

Svo fór hann inn í fjallið, sem risinn hafði skilið eftir opið, og þar inni stóð hestur og át úr tunnu með eldsglóðum í, en fyrir aftan hann stóð heypoki.

„Hversvegna jetur þú ekki úr heypokanum?“ spurði Umli.

„Af því að jeg get ekki snúið mjer við,“ sagði hesturinn.

„Jeg skal snúa þjer,“ sagði Umli.

„Höggðu heldur af mjer höfuðið,“ sagði hesturinn.

Umli gerði það, og þá varð hesturinn að fallegasta pilti, hann sagði að þursinn hefði breytt sjer í hest, og svo hjálpaði hann Umla að finna sverðið, sem þursinn hafði falið í fleti sínu, en í rúminu lá langamma risans og hraut hástöfum.

Svo fengu þeir sjer bát og fóru sjóleiðis heim, en þegar þeir voru komnir af stað, vaknaði tröllkerlingin og kom á eftir þeim, en þegar hún sá, að hún næði þeim ekki, fór hún að drekka sjóinn, og drakk svo mikið, að það sást glögt að hann minkaði, en þá sprakk hún.

Þegar þeir komu í land, sendi Umli boð til kóngsins, að hann kæmi og sækti sverðið. Hann sendi fjóra hesta og þeir hreyfðu það ekki, hann sendi átta og hann sendi tólf, en ekki gátu þeir hreyft sverðið, en þá tók Umli það einn og bar það heim til kóngshallar.

Kóngur trúði ekki sínum eigin augum, þegar hann sá Umla aftur, en hann ljest vera hinn glaðasti og lofaði honum gulli og grænum skógum, og þegar Umli vildi fá meira að gera, sagði kóngur, að hann gæti farið til galdrahallar einnar, sem hann átti, þar sem einginn þyrði að búa, ef hann gæti haldist þar við, skyldi hann vinna að því, að byggja brú yfir sundið, svo fólk gæti komist þangað; gæti Umli það, skyldi hann launa honum vel, já gjarna gefa honum dóttur sína, sagði hann.

„Jú, ætli jeg geti þetta ekki,“ sagði Umli.

Aldrei hafði nokkur maður komist lífs af úr galdrahöllinni, og kóngur hjelt að nú væri víst, að hann sæi Umla aldrei framar, fyrst hann hafði sent hann þangað.

En Umli lagði af stað, hann tók með sjer nestismalinn sinn, og hæfilega stóra kylfu, viðaröxi og nokkuð fleira af smíðatólum, og fjekk sjer til fylgdar piltkorn nokkurt, sem var niðursetningur hjá kónginum.

Umli spilar við Kölska

Þegar þeir komu að sundinu, var það fullt af íshröngli og straumurinn þar að auki stríður eins og í fljóti, en hann óð bara yfir, eins og þetta væri smálækur.

Svo komst hann í höllina, kveikti upp eld og fór að orna sjer og matreiða, og lagðist síðan til svefns. En hann fjekk ekki lengi frið til þess að sofa, því brátt heyrðist svo mikið brak og brestir, að það var eins og allri höllinni væri snúið við. Dyrnar skullu upp á gátt, og Umli sá ekki annað en eitt gapandi gin í öllum dyrunum.

„Ef þig langar í bita, þá færðu hann hjer,“ sagði Umli og kastaði heilu nautslæri upp í ginið í dyrunum. „Lof mjer svo að sjá, hver þú ert, kanske jeg kannist við þig?“

Ójú, ekki vantaði það, því að þetta var enginn annar en kölski sjálfur sem var á ferðinni. Þeir fóru nú að spila, því sá gamli satan ætlaði að reyna að græða eitthvað af landskuldinni aftur af Umla. En hvernig sem spilað var, græddi Umli altaf, því hann gerði krossmark á hæstu spilin, og þegar Umli var búinn að græða allt sem fjandinn hafði á sjer, varð sá gamli að grípa til gulls og silfurs, sem hann átti geymt í höllinni.

Allt í einu slokknaði eldurinn fyrir þeim, og það varð svo dimmt, að þeir sáu ekki lengur á spilin.

„Nú verðum við að höggva okkur í eldinn,“ sagði Umli, og hjó viðaröxinni í trjedrumb, og rak í fleyg en drumburinn vildi ekki klofna straks, hvernig sem Umli reyndi að ná honum í sundur. „Þeir segja að þú sjert sterkur,“ sagði Umli við kölska. „Spýttu nú í lófana og reyndu að kljúfa drumbinn, svo við getum fengið eld og haldið áfram að spila.“

Þetta gjörði sá gamli, fór með báðar hendur í sprunguna í drumbnum og togaði allt hvað af tók, en um leið sló Umli fleyginn úr, svo skratti var fastur, og síðan reyndi Umli öxarhamarinn á bakinu á honum. Kölski bað sem best hann kunni, um að fá að losna, en það vildi Umli ekki heyra nefnt, áður en sá gamli lofaði að hann skyldi ekki koma í höllina framar og gera þar brak og braml, og svo varð hann líka að lofa að byggja brú yfir sundið, og sú brú átti að vera svo vönduð, að menn gætu gengið þar yfir allann ársins hring, og hún átti að vera fullgerð, þegar ísinn væri leystur af sundinu.

„Þetta eru hörð kjör“, sagði kölski.

En það þýddi ekki að tala um það, ef hann vildi losna, varð hann að lofa þessu. En hann bað um það, að hann fengi sálina úr fyrstu manneskjunni, sem færi yfir brúna. Það átti að vera brúartollurinn.

Umli sagði að það gæti hann fengið, sleppti honum svo og var hann þá ekki lengi að fara heim til sín. En Umli fór að sofa og svaf það sem eftir var nætur, og langt fram á dag.

Þegar kóngur svo kom í gandreið, — því hann kunni nú sitt af hverju, gamli maðurinn, — þá varð hann ekki lítið hissa, þegar hann þurfti að vaða í peningum að rúminu hans Umla, og þar lá hann og steinsvaf. Og kóngi brá í brún, því hann hjelt, að ekkert væri eftir af Umla, og svo tautaði hann: „Hjálpi mjer og dóttir minni nú allir heilagir,“ sagði hann, þegar hann sá að Umli var ljóslifandi. Jú allt hafði hann gert sem hann átti að gera, því var ekki hægt að neita, en ekki er nú vert að tala um brúðkaup, fyrr en brúin er búin, sagði hann.

En einn góðan veðurdag var brúin fullgerð, og kölski stóð á henni og vildi fá brúartollinn.

Umli vildi fá kónginn með sjer að reyna brúna, en kóngi leist ekki á þá ferð. Þá steig Umli á bak sterkasta hestinum í kóngsgarði, setti eldabusku kóngsins á bak fyrir framan sig, hún leit út nærri því eins og digur trjedrumbur, — og svo reið hann út á brúna, svo glumdi í henni.

„Hvar er brúartollurinn?“ spurði fjandinn, og var farið að síga í hann. „Hvar er sálin, sem þú lofaðir mjer?“

„Hún er nú í þessum drumb, ef þú vilt fá hana,“ sagði Umli.

„Nei, þakka þjer fyrir,“ sagði skolli. „Jeg er hræddur við hana þessa. Þú hefir einu sinni komið mjer í klípu, og jeg kæri mig ekki um aðra.“ Og svo rauk sá gamli burtu, og sást þar ekki meir.

En Umli fór heim til kóngshallar, og vildi fá þau laun sem kóngur hafði heitið honum, og þegar kóngurinn fór að koma með undanbrögð, og ætlaði að fara að svíkja Umla, þá sagði Umli að það væri best, að hann byggi sjer út nestispoka, þá skyldi hann sjálfur sækja sín laun. Kóngur varð dauðfeginn, og bjó sjálfur út nestið en þegar malurinn var tilbúinn, greip Umli hann í aðra hendina og kónginn í hina, og henti þeim báðum upp í loftið, malnum á eftir, svo kóngur yrði ekki matarlaus, og ef hann er ekki kominn niður, þá svífur hann einhversstaðar mílli himins og jarðar með malpokan sinn, enn í dag.