Piltur og stúlka/5

Úr Wikiheimild

Nú er þar til máls að taka, sem áður var frá horfið, sem Indriði Jónsson situr heima að Hóli og harmar Sigríði, og var það lengi, að hann sinnti ekki störfum. Þótti föður hans og frændum það illt og báðu hann hyggja af Sigríði og leita sér annars kvonfangs; sögðu þeir, að ekki mundi hann lengi þurfa að krjúpa fyrir knjám bændadætra þeirra, er þar voru í héraðinu. Indriði tók því þunglega, en ekki hitti hann Sigríði þann vetur, er næstur var eftir samtal þeirra Ingibjargar og Ingveldar, og hafði hann það fyrir satt, sem Ingveldur hafði sagt, að Sigríður hefði ekki huga til hans felldan; og er það fréttist, að Sigríður ætlaði að eiga Guðmund Hölluson, virtust honum öll tvímæli af um það mál. Indriði var smiður góður á járn og tré, svo að þjóðhaga mátti kalla, og var hann alkenndur fyrir smíðar sínar þar eystra og víða í Norðurlandi. Maður hét Snorri, hann bjó á Barði, það er í Þingeyjaþingi; hann var ríkur maður og búsýslumaður mikill. Hann gjörði Indriða orð að koma norður og smíða fyrir sig stofu. Foreldrar Indriða hvöttu hann mjög þessarar ferðar, er þau hugðu, að þannig mætti helst af honum létta, ef hann tækist starfa nokkurn mikinn á hendur; og réðst Indriði að Barði; það var mjög jafnsnemma sem lýsingar fóru fram með þeim Guðmundi og Sigríði. Indriði var þar um veturinn og fram á vorið, og á þeim vetri breyttist svo skapferli hans, að hann var nú jafnan fremur glaðlegur og ræðinn, er hann talaði við menn, en það þóttust menn finna, að hann byggi yfir einhverjum duldum harmi. Að lokinni stofusmíðinni sneri hann aftur heim að Hóli og kom þar skömmu eftir það, að Sigríður var suður farin. Frétti hann þá, hvernig farið hafði um skilnað þeirra Sigríðar og Guðmundar, og þóttu honum það mikil tíðindi. Fór hann þá að gruna margt, og álasar hann nú sjálfum sér fyrir það, að hann hafi ekki sjálfur talað við Sigríði, og vill nú fyrir hvern mun ná hennar fundi. Foreldrar hans töldu Sigríði sloppna úr greipnm hans, er hún væri suður komin. Indriði lét ekki letjast og bjóst suður til Reykjavíkur seint á engjaslætti; og segir ekki af ferðum hans, fyrr en hann kemur í Borgarfjörð; þar hitti hann mann sunnlenskan, er verið hafði í kaupavinnu fyrir norðan um sumarið; verða þeir Indriði samferða. Sunnlendingurinn var kunnugur veginum, en Indriði hafði ekki farið þar um áður, og varð Indriði honum feginn; og þótt hann væri mjög áhyggjufullur og óglaður, hafði hann þó mikla skemmtun af honum, því hann var kátur maður og vissi jafnan að finna eitthvað gleðiefni til að hafa af fyrir Indriða, þegar hann þóttist finna, að eitthvað lægi illa á honum. Segir nú ekki af ferðum þeirra, fyrr en þeir koma í Gullbringusýslu; þá var það einhvern tíma, að þeir riðu út úr túninu á bæ nokkrum, sem þeir höfðu farið heim á; og tekur Indriði til máls og segir:

Er nú langt eftir til Reykjavíkur, Sigurður minn?

Sástu það ekki á mjólkinni, sem við fengum að drekka?

Nei, ég skil heldur ekki í, hvernig slíkt má af mjólkinni ráða.

Ójú, hún þynnist, góðurinn minn, eins og íslenskan, eftir því sem sunnar dregur, og svo hefur mér reynst það, og hef ég þó nokkrum sinnum farið hérna um.

Þá skal þetta síðar marka, sagði Indriði. Ríða þeir nú sem leiðir liggja niður um Mosfellssveit, og gjörist Indriði enn móður af reiðinni og vill skreppa heim á einhvern bæ og fá sér að drekka.

Láttu það bíða fyrst, sagði Sigurður, því nú erum við rétt við Hellisárnar.

Er það bær? sagði Indriði.

Nei, það eru kýr.

Kýr?

Já, kýrnar okkar ferðamannanna, sem aldrei verða geldar; og nú held ég hvort sem heldur er, að mjólkin og íslenskan séu nokkurn veginn svo þunnar sem þeim verður auðið, og hérna eru Hellisárnar.

Stíga þeir þá af baki og leggjast niður að drekka; sýpur Sigurður stórum og stendur seint upp, en bregður síðan hendinni fyrir brjóstið, eins og hann ætli að æla.

Þú hefur belgt of mikið af vatninu, lagsmaður, sagði Indriði.

Annað er verra, sagði Sigurður, mér fannst einhver stór skepna fara ofan í mig, og býst ég við, að það hafi verið lax.

Jæja, láttu þér það vel líka, ef svo er, sagði Indriði hálfbrosandi; það er sjaldan, að guðsblessun kemur úr sjónum upp í munninn á mönnum fyrirhafnarlaust.

Hlæðu ekki að ósköpunum! Veistu, hver átti fiskinn? Kóngurinn átti fiskinn, og það er bágt að giska á það, hvað stjórnin segir um það, því maður á aldrei að gjöra neitt, nema maður viti áður, hvernig kónginum muni líka það; en svei mér, ef ég gat gjört að því.

Eftir þetta stíga þeir Indriði á bak aftur, og er þá farið að rökkva af degi; ríða þeir nú ofan melana, en ekki tók Sigurður aftur gleði sína, en hafði aftur og aftur fyrir munni sér: Sér er nú hvað! Hefði ég bara verið búinn að skrifa stjórninni til um það, hvort fiskurinn mætti fara ofan í mig. - Þó var hann alltaf á undan og réði ferðinni þegjandi, þangað til Indriði segir við hann:

Hvar ætlar þú okkur að hafa náttstað, lagsmaður?

Við ríðum heim að Rauðará og verðum þar í nótt, því ég vil ekki koma æði seint í Víkina.

Hver býr á Rauðará?

Ekki veit ég, hvað hann heitir; ég kalla hvern, sem þar býr, Eirek, þó þar verði húsbóndaskipti á hverju ári.

Og hvað ber til þess?

Það, að hann alltaf rekur hesta, og lasta ég ekki manninn fyrir það.

Þeir ríða heim að Rauðará; enginn var þar úti, og knýja þeir á dyr, og kemur þar út kona ein, og kveðja þeir hana og spyrja um bónda, en hún kvað hann vera að hestum.

Skjótt er frá erindum að segja, sagði Sigurður, að við kumpánar ætlum að biðja hér húsaskjóls fyrir oss í nótt, en haga fyrir hesta okkar.

Fáir kunnugir biðja hér gistingar, eða ertu maður svo ókunnugur, að þú vitir ekki, að vér eigi höfum margar sængur hérna á Suðurnesjum? Og hér á bæ er ekki nema ein, og sofum við í henni, heimilisfólkið, og er ekki ábætandi, því við erum fimm og tveir krakkar að auki; en hesta ykkar veit ég, að húsbóndinn hirðir, ef þið hafið höftin, og 4 skildingar eru undir hestinn um daginn.

Vandast tekur nú málið, sagði Sigurður, og ekki vil ég vera þar við níunda mann; en hrossin verðum við að skilja hér eftir, Indriði minn!

Þarna hillir undir bæ út á nesinu, segir Indriði.

Og ekki er það bær, blessaður minn, það er biskupsstofan.

Hvað er annað en ríða þangað, mig langar hvort sem er að koma á biskupssetrið.

Þá mun það skilja félagsskap okkar, því þó ekki virðist langt þangað, þá er það sá annar vegur en Ódáðahraun, að ég vil síst fara á öllu Íslandi í náttmyrkri, og bágt gengur heilögum anda að flytja biskupinn yfir það, þó vegabótafélagið hafi ætlað honum það; við verðum heldur að koma af okkur klárunum og fara svo á göngu til Reykjavíkur.

Indriði kvaðst vilja fylgja hans forsjá; og skilja þeir eftir hesta sína og varnað á Rauðará og ganga til Víkur. Er þá orðið koldimmt og komið undir háttatíma, er þeir koma í bæinn; og er þeir gengu ofan eftir stignum, sem liggur ofan í Víkina fram hjá stiftamtmannshúsinu, hleypa þar fram hjá þeim margir menn og konur og þeysa ofan í bæinn, og sáu þeir Indriði, að það fólk mundi eiga þar heima í bænum, er það fór með glensi miklu og háværni.

Hvaðan ætli þetta fólk komi? sagði Indriði.

Það veit ég ekki; þó þykir mér líkast til, að það hafi riðið í dag sér til skemmtunar, og getur verið, að það komi ofan úr réttum, því það er eitthvað um þetta leyti, sem þeir rétta þar upp í Kollafirðinum, og þangað er það vant að fara að gamni sínu hérna úr Víkinni.

Og mér heyrist það allt tala dönsku, er þá ekki töluð íslenska hérna í bænum?

Það er þó sannast um ykkur Austfirðingana, að þið eruð misvitrir, og hyggnari var Hornfirðingurinn um árið; hann gat þó séð, að það var ekki Hornafjarðartunglið, sem kom upp í kaupstaðnum.

Satt er það, sagði Indriði, vitrari hefur hann verið; en hvert ertu nú að fara með mig, lagsmaður?

Ég ætlaði að fara með þig til hans Staupa-Jóns, ef hann er ekki dauður, svo við gætum fengið okkur þar einhverja hressingu, en ekki hefur hann á boðstólum annað en brennuvín.

Ekki langar mig svo mikið í það; ég vildi helst fá mér rúm og fara að sofa; hér mun vera nóg um gestaherbergi, hugsa ég.

Og heldur en ekki, og nú erum við þegar hjá tveimur, það er hvort sem þú vilt heldur hérna undir skipsíðunni eða við búðargaflinn þarna; þó get ég ekki ábyrgst, að það sé ekki nein óværa í rekkjuvoðunum, af því hér koma svo margir.

Já, ekki ligg ég þar; en án gamans að tala, getum við hvergi fengið að liggja inni?

Ekki er það allra, en hitt er það, að ég á hér einn kunningja, og þar skulum við reyna fyrir okkur.

Sigurður átti kunnugt þar í húsi nokkru ekki langt frá skytningi; þar átti heima íslenskur maður, sem L. hét og var eitthvað riðinn við verslunarstörf. Þangað fóru þeir Indriði og voru þar um nóttina. Ekki voru húsakynni þar stór, og voru gestir látnir sofa í sama herbergi sem þau sváfu í, hjónin, og sváfu þau í rúmi, sem stóð nær gluggunum, en gestir báðir í einu rúmi ekki langt frá dyrum. Um morguninn vaknar Indriði snemma og lítur upp; sér hann þá, að húsmóðir er staðin úr rekkju og situr naumlega hálfklædd við gluggann, sem til strætis vissi, og togaði með annarri hendinni sokkinn upp á hægra fótinn, en með hinni hendinni lyftir hún upp gluggaskýlunni og lítur út. Indriði vildi ekki, að konan yrði vör við, að hann væri vaknaður, meðan hún klæddist, og togaði hægt yfirsængina upp yfir höfuðið á sér; en í sama bili æpir húsfreyja upp yfir sig ámótlega og svo hátt, að nötraði í hverjum rafti, sem var í húsinu. Sigurður svaf fast og vaknaði ekki, en Indriða þótti best ráð að bæla sig betur í fötunum, því hann hugsaði hálfvegis, að sú væri orsökin, að konan mundi hafa orðið vör við, að hann leit upp. Bóndi húsfreyju lá allsber í rúminu og var ekki farinn að hreyfa sér, en vaknaði nú við skrækinn og hrökk með andfælum fram á stokk, en rankaði þó bráðum við sér og gaut augunum á konu sína og mælti:

Guð náði þig, kona! Hvað gengur að þér?

Húsfreyja varpaði mæðilega öndinni og sagði:

Söde L.! Vil du bare se, vilt þú bara sjá!

Hvað á ég að sjá?

Hvorledes det styrter ned, hvernig það sturtar niður.

Guði almáttugum sé lof og dýrð fyrir það! sagði bóndi og fór að hnyssa aftur að sér rúmfötunum, sem hann í fáti hafði kastað ofan af sér, þegar hann tók viðbragðið, en við þau orð, sem honum urðu síðast af munni, brá húsmóður svo, að hún æpir í annað sinn:

Ih! Þú frelsins guð! Tal dog kristelig, menneske! Talaðu þó kristilega, maður! - Þannig mælti hún og lyfti um leið augunum tárvotum upp í loftið, rétt eins og hún vænti þess, að guðs réttlætandi reiði mundi þá og þegar koma í þrumum og eldingum og slysa bóndakindina í rúminu.

Já, já, má ég ekki lofa guð fyrir regnið? sagði bóndi, kemur það ekki frá honum eins og hvert annað veður? Er það ekki betra en harkan og kuldinn? Eða ætli við hérna í henni Vík getum síður verið án þess en aðrar skepnur og kvikindi, sem lifa og skríða á jörðunni? Og eitt veit ég gott, sem því fylgir, og það er, að þú verður þá heima í dag, hjartað mitt, og gjörir við buxurnar mínar.

Buxene þínar! So þú formóðar, at jeg har lejlighed, lélegheit að befatta mig með dem í dag, með þeim í dag?

Já, það er ég að halda, eða á ég lengi að vera að nudda á þér um það, sem þarf að gjöra? Og ætli þú hafir það erindi út núna, að þú þurfir að hlaupa út í ósköpin?

Om jeg har ærende! Hvort ég hef erindi!

Ætli það sé þá ekki erindið!!!

Þú getur þó innséð, að ég verð að móra Stínu lítt með den historie -

Húsmóðirin fékk ekki talað allt, sem hún ætlaði að segja, því bóndi greip fyrr málinu fram í:

Mér er sama, hvern skrattann þú þykist verða að hlaupa með og þvaðra, segir hann og bylti sér um leið við í rúminu; en í sama bili, sem hann sleppti seinasta orðinu, var hurðinni að herberginu snögglega lokið upp, og kemur þar inn kona nokkur; og er þær komu auga hvor á aðra, húsmóðir og aðkomukona, tóku báðar undir sig skeið mikið og hlupu hvor á móti annarri og æptu upp yfir sig og svo jafnsnemma, að ekki mátti annað heyra en að hljóðið kæmi úr einum barka. Bóndi blimskakaði fyrst augunum á gestinn, en stakk síðan undir sig höfðinu og hnipraði sig niður í mitt rúm; en húsmóðir og aðkomukona stóðu þar á gólfinu um hríð og föðmuðu hvor aðra með slíkum vinalátum og fögnuði, eins og að þær hefðu ekki sést í mörg ár, en önnur hvor væri nýkomin af skipbroti. Lengi gat ekki Indriði heyrt nein orðaskil á því, sem þær sögðu, en loksins heyrir hann, að húsmóðir tekur svo til orða:

Gud, Stine! Þú kannt ekki þenkja þér, þú getur ekki þenkt þér, hvað ég lengdist eftir, hvað mig langaði eftir að snakka með þig, tala við þig; þú mátt þó, þú verður þó að heyra þá historíu, þenk bara! Möller er forlofaður.

Það kann þó aldrei vera mögulegt? sagði aðkomukona og tók um leið þvílíkt viðbragð, að hverjum, sem við hefði verið, mundi helst hafa dottið í hug, að hún hefði verið stungin undir síðuna með hnífi.

Jú, það skal þó vera aldeilis víst; ég heyrði það fortalt sem ganski bestemt hos Larsens í gaar, í gær.

Og með hverri?

O! það er fortreffiligt! Með henni Sigríður Bjarnadattir.

Nei, virkilega! Nú kann ég ekki annað en stúðsa! Með barnapíunni hjá henni maddama Á.? Ég kann þó aldrei foristilla mér, að það geti hangið rétt saman!

Ég forsikra þig! Það skal þó vera ganske afgjört, aldeilis afgjört.

Men Gud! Hann má jú vera hreint tossaður! Nú get ég fyrst begripið, hvers vegna hann hefur verið að renna þangað í húsið upp á hvern einasta dag; en hvað segir þú? Trúir þú ekki, að hann er tossaður að forlova sig með soddan einni taus; hún er jú ekki annað en hrein og simpil barnapía?

Það er ogso nokkuð af því besta, sem ég hef heyrt, og teink bara, i gaar, í gær lét hann hende ride paa hann Graane, Grána sín, op í réttene, upp í réttirnar.

So má það þó endilega vera satt, því annars pleiir hann ekki að lána hann Grána sinn til nokkurs; - en hvað þenkirðu, að sú gamla maddame B. vil segja til þetta, trúir þú ekki, að hún skal blíva hreint tossuð?

Dú kannt trúa, Stíne, þú getur trúað það vill móra henni, ha! ha!

Við megum þá endilega til hennar til að fortelja henni þá historíu.

Jú, en veistu hvað? Sýnist þú ekki, að við gjörum best í að ganga til jómfrú Kílsens í forveginn, for hana skulum við þá endilega fá með til den gamle, þeirrar gömlu, því hún kann þá slaðra, svo það er fortreffilegt, ha! ha!

Jú, hana megum við endilega hafa með, ó, það er guðdómlegt!

Þetta var seinasta orðið, sem Indriði heyrði af viðræðum þeirra húsmóður og aðkomukonunnar, því að svo mæltu stukku þær báðar út úr herberginu með miklum ys og fataþyti. Þegar Indriði heyrði nafn Sigríðar nefnt í samræðu þeirra kvennanna, hafði hann þokað dálítið yfirsænginni ofan af höfðinu á sér, svo að hann gæti heyrt betur og komist að umtalsefninu, og þó málfæri þeirra ekki væri allskiljanlegt fyrir þá, sem óvanir eru Reykjavíkurmálinu, komst hann þó að því, að það mundi þá þykja mestum tíðindum sæta þar í Víkinni, að einhver kaupmaður Möller ætlaði sér að eiga einhverja stúlku, sem Sigríður héti Bjarnadóttir; og þó Indriði hefði mátt geta því nærri, að fleiri gætu verið með því nafni þar í Víkinni en Sigríður frá Tungu, varð honum það þó helst fyrir að giska á, að þetta mundi vera hin sama og sú, er hann ætlaði að hitta, og brá honum ei alllítið við þessi tíðindi. Skömmu eftir þetta vaknar Sigurður og vill þegar fara að fara á fætur. Taka þeir Indriði þá að klæðast og svo bóndi. Allir voru þeir kumpánar nokkuð daufir og fátalaðir, og bar sitt til fyrir hverjum. Indriði þóttist hafa orðið áheyrandi þeirra frétta, er hann vildi helst aldrei heyrt hafa; bóndi brá buxunum upp við gluggann, áður en hann fór í þær, og roðnaði við; en Sigurður geispaði og ók sér og sagði, að sig hefði dreymt á þá leið um morguninn, rétt áður en hann vaknaði, að þann vetur mundi ekki aflast þar á Nesjunum annar fiskur en skötur og hámerar. Bóndi sagði við gestina, að svo væri ástatt í kotinu, að ekki yrði neitt greitt fyrir þeim, fyrr en konan sín kæmi aftur heim, og væri þeim best, ef þeir ættu nokkur erindi þar í bænum, að ljúka þeim af og koma þar að stundu liðinni, og skyldi þá verða eitthvað hlynnt að þeim. Gengu þeir Indriði þá út, og var nú regninu upp stytt og komið bjart veður; og stakk Sigurður upp á því, að þeir skyldu ganga upp að Skólavörðu, svo að hann gæti sýnt Indriða landslagið þar syðra; á það féllst Indriði, og gengu þeir norður úr bænum og upp Skólastig; en er þeir voru komnir svo langt upp eftir stignum, að skammt var að vörðunni, sjá þeir ganga spölkorn á undan sér tvo kvenmenn, og leiddi annar barn.

Við skulum ganga ögn hraðara, segir Indriði, svo við komumst fram hjá þessum stúlkum; hún er svo lík á baksvipinn stúlku, sem ég þekkti fyrir austan, þessi sem gengur hérna á vinstri hönd; ég held ég þekki hana.

Ekki held ég, að ég geti verið að elta þær, það er víst einhver hérna úr Víkinni, sagði Sigurður; þó greiddu þeir nú sporið, en af því svo skammt var eftir til vörðunnar, þá stóðst það á, að þær voru gengnar fram hjá vörðunni, þegar þeir Indriði komu þangað.

Þær ganga hér um bráðum aftur, hugsa ég, og þá geturðu séð hana; en nú skulum við litast um hérna upp á vörðunni.

Þeir gengu upp á vörðuna, en Sigurður þegir um hríð og skyggnist í allar áttir, en tekur síðan til orða og segir:

Hingað hefði fjandinn átt að fara með Krist hérna um árið, fyrst hann á annað borð vildi sýna honum öll ríki veraldarinnar og þeirra dýrð; og hingað mun Jörgensen okkar hafa orðið gengið, þegar skollinn hvíslaði því að honum að ryðjast hér til ríkis, taka sér hirð og setjast um Reykjavík og þröngva Dönum til að gefa upp borgina. En ekki veit ég hvað þú ert að gæta að þarna inn á melunum, og tekur svo ekki eftir því, sem ég er að segja þér.

Ójú, Sigurður minn.

Það er nú Keilirinn, sem þú sér þarna, fjallið að tarna til suðurs, uppmjótt, einstakt og strýtumyndað; þú getur reitt þig á það, að á honum er hádegi, hvaðan sem þú sér hann; þetta er Hafnarfjörður, en kaupstaðinn sjálfan sérðu ekki; hraunin skyggja á; og undir hæðinni, sem ég bendi núna á, standa Garðar; og þetta er Álftanesið, sem Álftnesingurinn er á. En ég held þú heyrir ekkert af því, sem ég er að segja þér; þú hefur alltaf augun inn á melum.

Jú, ég tek eftir öllu, Sigurður minn, sem þú segir.

Það eru Bessastaðir, sem þarna standa á eiðinu millum voganna; en Lambhús ber í kirkjuna; og þetta er Grásteinn, mikið merkilegur steinn, á grandanum; þetta er Skerjafjörður, og nú komum við hingað á Seltjarnarnesið, hvernig líst þér á það?

Indriði þagði, en Sigurður horfði framan í hann og sagði:

Ég held ég geti giskað á, hvað þú hugsar, lagsmaður! Þér dettur líkt í hug eins og mér, þegar ég kom hingað í fyrsta sinn; ég sagði við sjálfan mig: Margt hefur guð minn góður smíðað betur en nesið að tarna. En mikil eru verkin mannanna, og heldur en ekki er það staðarlegt að líta yfir Víkina; en ekki get ég sagt þér mikið til húsanna; ég þekki fæst af þeim, nema þetta er dómkirkjan, sem stendur þarna rétt við tjörnina, og garður jarlsins hérna megin við lækinn, og sannast er um það, að margt skipast á mannsævinni; þetta var „tugthús“ í mínu ungdæmi, þá sat Jóhann stríðsmaður og Jóhannes limur þar við lítinn kost, og hélt enginn, að það mundi verða aðsetur landshöfðingjans. Hérna til hægri handar sér þú fyrst móhraukana, sem þeir tönglast og tyggjast um sem gaddhestar um illt fóður; en það eru laugarnar, sem þarna rýkur upp úr; haganlega er þeim fyrir komið, þar getur maður þvegið af íslenskuna; og nú man ég ekki meira að sýna þér hérna megin við fjörðinn nema Laugarnes og Viðey, eyjuna þarna stóru; fjallið að tarna, það er Esjan, hún er enn þá eins og guð hefur gjört hana; og þetta er hann Bárður karlinn Snæfellsás, sem blasir þarna við hafið, en ekki skaltu hneykslast á því, þó hann fari aftan að siðunum og snúi hingað bakinu að höfðingjunum; en settu þig nú niður, lagsmaður, hérna á bekkinn, ég á eftir að segja þér nokkuð, sem ég veit, en þú veist ekki, af því þú ert ókunnugur hérna syðra; settu þig niður!

Æ, segðu mér það einhvern tíma seinna, sagði Indriði og horfði upp eftir melunum og sá, að stúlkurnar, sem þeir höfðu séð áður, voru snúnar aftur og voru þegar komnar að vörðunni; ég vil, að við göngum nú heim aftur og vitum, hvort ekki er búið að bera á borð fyrir okkur morgunverðinn.

Það er og satt, ég er orðinn matlystugur aftur, þó ég gleypti laxinn í gær, sagði Sigurður og stóð upp aftur, en þarna eru stúlkurnar þínar komnar aftur; ég vissi það, að þær mundu fara hér um aftur; en hvaða lafalúði er það, sem kominn er í fylgi með þeim? Láttu mig sjá! Það er líkt honum kaupmanni Möller, já, það er enginn annar en hann!

Nú, er þetta kaupmaður Möller? sagði Indriði og brá nokkuð við, svo að Sigurður tók eftir því og lítur framan í hann og segir:

Þekkir þú kaupmann Möller?

Nei, en ég hef heyrt hans getið, sagði Indriði og leit aftur til þeirra Sigríðar, rétt í því þær gengu fram hjá vörðunni. Indriði þekkti þá glöggt, að annar kvenmaðurinn var Sigríður.

Þekkir þú kvenmanninn, lagsmaður?

Hvernig getur þú hugsað, að ég þekki hana? sagði Indriði. Ég þekki engan mann hérna syðra.

Ég spyr þig að því, af því mér heyrðist þú segja áðan, að hún væri lík stúlku, sem þú hefðir þekkt fyrir austan.

Já, en nú sé ég, að það er ekki sem ég hélt.

Það var líklegra, en hitt sé ég, að kaupmaðurinn þekkir hana. Guð gæfi, að ég væri danskur eins og hann. Sérðu ekki, hvernig hann hoppar og skoppar kringum þær, eins og hann sé á hjólum? Þetta kemur sér nú vel við stúlkurnar, að tarna.

Æ, hvað varðar mig um það, sagði Indriði fremur önuglegur í svari.

Það getur verið, lagsmaður. En hvað kemur til, að mér sýnist þú lítir eins illilega til hans eins og þig sárlangaði til að berja hann?

Hvers vegna ætti mér að geta dottið það í hug? sagði Indriði. Hann hefur ekki gjört mér neitt illt, manntötrið, það ég viti.

Meðan þeir ræddust þetta við, höfðu þeir gengið ofan af vörðunni og héldu nú beina leið heim eftir stignum. Þær stöllur og Möller fóru spölkorn fyrir og þó svo langt, að ekki máttu þeir heyra orðaskil á því, sem þau ræddust við. Sigríður hafði tekið barnið á handlegg sér, því það var orðið þreytt af ganginum; en kaupmaður gekk rétt við hliðina á henni og ræddi við hana, og það sá Indriði, að hún einu sinni leit um öxl, og sýndist honum hún festa snöggvast augun á sér, en leit aftur af honum, og þótti honum sem tillit hennar væri á þann hátt sem þá er menn líta á einhvern, er þeir þykjast þekkja, en geta þó ekki komið fyrir sig. Ekki töluðust þeir félagar meira við, og gengu þeir þannig niður í bæinn, að jafnan voru þær Sigríður góðan kipp á undan. Loks koma þær að húsi einu, og þar fara þær inn, en kaupmaður kveður þær, og sér Indriði, að hann tekur um leið í höndina á Sigríði. Þeir Indriði gengu heim, og var Indriði mjög svo daufur og fátalaður það eftir var dagsins; þóttist hann nú sjálfur hafa séð þess nokkur deili, sem hann af hendingu heyrði um getið um morguninn. Hann vill fyrir hvern mun hitta Sigríði; vissi hann nú og, hvar hún átti heima, og ásetur sér að ganga á fund hennar daginn eftir. En sem hann er að hugsa um þetta mál, dettur honum það í hug, að svo megi fara, að hann annaðhvort ekki hitti Sigríði heima, eða þó að hann finni hana, að hann þá geti ekki talað einslega við hana; virðist honum það því ráðlegast, að hann skrifi henni til bréf og hafi það með sér til vonar og vara, að hann geti skilið það eftir þar í húsinu. Þetta gjörir hann og gengur síðan niður í bæinn og til húss Á. kaupmanns. Litlu fyrr en Indriði kom þar, var maddama Á. farin út. Hún átti kunningjakonu fram á Nesi og var stundum vön að ganga þangað, þegar gott var veður, með börn sín, og þetta sinn var hún þangað farin og Sigríður með henni, og leiddi hún börnin. Kaupmaður Á. var í búð, og var enginn heima nema Guðrún ein. Indriði ber þar að dyrum, og kom Guðrún þegar til dyranna. Indriði var svo klæddur, að hann var á bláum treyjufötum úr vaðmáli; Guðrúnu grunaði helst, að gestur mundi vera einhver útróðrarmaður; henni þótti því réttast að hafa vaðið fyrir neðan sig og lauk stofunni ekki upp nema til hálfs og stóð svo á þrepskildinum og hélt annarri hendinni um snerilinn, eins og hún vildi láta hann skilja, að þess konar menn væru menn vanir að láta afleysa erindi sín fyrir utan stofudyrnar, án þess að þeir væru leiddir í stofu. Indriði heilsar Guðrúnu hæversklega og tekur síðan til orða:

Er ekki hérna í húsinu stúlka, sem Sigríður heitir?

Ójú, sagði Guðrún nokkuð þurrlega, heldur tvær en ein, ég veit ekki, við hvora þeirra þú átt.

Hún, sagði Indriði og þreif af ólíkindalátum hendinni ofan í vestisvasa sinn og tók þar upp bréfið, hún á að vera Bjarnadóttir, trúi ég, já, Bjarnadóttir; viljið þér ekki gjöra svo vel fyrir mig að segja henni, að hér sé maður með bréf til hennar að austan?

Hún er ekki heima sem stendur, en ég skal taka við bréfinu.

Mér hefði þótt vænt um að tala við hana sjálfa, sagði Indriði og roðnaði við, ég var beðinn að skila lítilræði með því.

Þá geturðu komið hingað á morgun; en það er best, að hún fái bréfið sem fljótast; það getur verið, að það sé eitthvað, sem þarf að svara.

Já, það getur verið, sagði Indriði, og segið þér henni fyrir mig, að ég verði ekki lengur hérna í Víkinni en í dag og á morgun, svo hún hafi svarið til, þegar ég kem í fyrramálið.

Ég skal segja henni það; en er nokkuð að frétta að austan?

Indriði ætlaði að fara að svara Guðrúnu einhverju, en í því gengur maður snúðuglega fram hjá honum og kastar blíðlega kveðju á Guðrúnu, en lætur sem hann sjái ekki Indriða. Guðrún tekur vel kveðju komumanns og biður hann inn ganga, en læsir síðan stofunni, og gengur Indriði þá burt. Maður sá, sem heilsaði Guðrúnu, var kaupmaður Möller. Guðrún verður fyrri til máls og segir:

Hér er ofur fámennt heima, eins og þér sjáið, herra Möller. Það er ekki heima, fólkið.

Fólkið! sagði kaupmaður, allténd nokkuð af því, ég hef þó þá ánægju að sjá yður heima.

Já, sagði Guðrún og kinkaði brosandi kollinum framan í Möller, ég á við fólkið, sem þér ætluðuð að finna; það er allt fram á Nesi; ekki eru allar ferðir til fjár, herra Möller!

Nei, ég sé það, að það muni bregðast stundum; en hvaða maður var það, sem þér voruð að tala við áðan?

Það veit ég ekki, hvað hann heitir; það var einhver dónsi að austan, sem kom með bréfið að tarna til hennar Sigríðar og vildi fá að tala við hana; það er líkast til frá henni móður hennar.

Guðrún kastaði bréfinu á borðið þar í stofunni, og leit kaupmaður utan á það og sá, að var á því karlmannshönd; síðan snýr hann því við og starir um stund á lakkið, en segir síðan:

Frá henni móður hennar! Það kvenmannsnafn hef ég aldrei heyrt fyrr, heitir konan Indriði?

Nei, nú get ég ekki að mér gjört að hlæja að yður; hvernig getur yður dottið það í hug, að hún heiti Indriði? Ha! ha! ha! Þér eruð ekki orðinn útlærður í íslenskunni enn þá, herra Möller, ha! ha!

Nú, verið þér ekki að hlæja að mér, jómfrú góð! Gat það ekki vel verið, að hún héti Indriði? Þessi íslensku kvenmannsnöfn enda bæði með „dí og dúr“, og hér stendur á lakkinu Indriði, sjáið þér, In-drí-dí.

Ójú, það er sem þér segið; en þá er annaðhvort um það, að það er ekki frá henni, eða hún hefur lakkað það með signeti einhvers annars. Bíðið þér við, nú dettur mér nokkuð í hug; hver skollinn má vita, nema þetta bréf sé frá einhverjum pilti, herra Möller! Hún hefur stundum verið að segja mér frá einhverjum strák fyrir austan, sem Indriði heitir; það gæti þó ekki verið frá honum, sagði Guðrún og skyggndist um leið inn undir brotið á bréfinu: 'staddur í Reykjavík`, það get ég lesið; þetta er víst eitthvað kátlegt, ég fer að verða forvitin; hver sem nú hefði lykilinn að þessu bréfi.

Hann hef ég, sagði kaupmaður og rétti fram vísifingurinn, þessi karl gengur að hverju bréfi, sýnið þér mér, á ég að ljúka því upp fyrir yður?

Hvaða vitleysa! sagði Guðrún og sló með hendinni á fingurinn á Möller. Það er ljótt að brjóta upp bréf, eða haldið þér, að þér vilduð láta fara svo með bréfin yðar?

Þér eigið víst við, að það sé ljótt, ef manni tekst ekki að læsa því aftur, svo ekki sjáist; sýnið mér bréfgreyið!

Nei, þér fáið ekki að eiga neitt við það.

Nú, ekki skal ég - en þarna skrapp það upp, bréfskömmin, af sjálfu sér.

Hvað á nú þetta, nú rifuð þér það upp, sagði Guðrún og lét sem henni þætti heldur fyrir.

Nei, ég segi yður satt, það skrapp upp sjálft; en nú er ekki annað fyrir, jómfrú góð, en að bera sig að læsa því aftur, sagði kaupmaður og brosti við, við getum þá svarið fyrir að hafa lesið það.

Því verður nú ekki læst aftur, svo það sjáist ekki.

Það læt ég vera, jómfrú góð, eða hvað haldið þér, að hún geti vitað um það, með hvaða signeti því hefur verið læst austur á landi?

Og það er nú satt, sagði Guðrún.

Og hver ætli geti þá séð á því, hvort það hefur verið lesið eða ekki? En ekki er það fyrir það, ekki langar mig til að sjá nema frá hverjum það er.

Það langar mig líka hálfvegis til, og nú er búið að rífa það upp, hvort sem heldur er; látum oss nú sjá, hér stendur 'þínum til dauðans elskandi Indriða Jónssyni`, átti ég ekki kollgátuna; nú held ég maður verði að lesa meira.

Já, en lesið þér nú hægt, svo ég geti vel skilið, en ekki mjög hátt, ef einhver stendur hér í nándinni.

Það er þá fyrst, sagði Guðrún og fór að lesa:

Staddur í Reykjavík

Ástkæra Sigríður mín góð!

Guð gefi þér allar stundir gleðilegar!

Ég skrifa þér þetta bréf í því skyni, að það gæti komist til þín, svo lítið á bæri, ef svo óheppilega tekst til fyrir mér, að ég annaðhvort get ekki fundið þig heima eða ekki fengið að tala við þig einslega um það, sem mig langar til að nefna við þig og er eina erindið mitt hingað suður. En bréfsefnið er það að biðja þig að finna mig, ef þú getur, í dag eða á morgun. Ég á sem stendur heima í húsinu hjá honum L. og verð þar allan daginn í dag og á morgun og bíð þín, því ég vona til þess, Sigríður mín góð, að þú sért ekki svo búin að gleyma því, að við einu sinni vorum málkunnug, að þú veitir mér ekki þá gleði að sjá þig og lofa mér að tala við þig nokkur orð. Og þó það væri satt, sem ég hef heyrt fleygt, síðan ég kom hingað, bið ég þig samt að láta það ekki aftra þér frá að finna mig, því þú veist, að um ekkert hef ég að ásaka þig; og það skaltu vita fyrir víst, Sigríður mín, að aldrei getur mér orðið illa við þig fyrir það, þó svo væri, að ógæfa mín hefði vakið í huga mínum ástæðulausa von; og að vísu þætti mér það léttbærara, að þú sjálf segðir mér, að nú væri það fram komið, sem þú einhvern tíma sagðir við mig, þegar við vorum yngri, að ekki mundi fram koma, að þú gleymdir mér, en sá efi, sem lengi hefur pínt mig, þar sem ég veit ekki, hvort hugsun mín um þig hefur nokkurn tíma verið annað en tilefnislaus hugarburður og ímyndun sjálfs mín.

Vertu alla tíma blessuð og sæl! Og neitaðu ekki um þessa einu bæn

þínum til dauðans elskandi

Indriða Jónssyni.

Eftir að Guðrún var búin að lesa bréfið, sló nokkurri þögn á þau, en síðan tekur kaupmaður til orða og segir:

Nú hefur þetta mál tekið aðra stefnu en ég hugsaði; fáið þér mér þetta bréf, það er best geymt hjá mér; þér sjáið, hvernig í öllu liggur, það vantar ekki mikið á, að þetta sé biðilsbréf, og manninum er annað en gaman; og hver veit hvað úr því má verða, ef hann fær að finna Sigríði, eins og hann ætlast til í bréfinu? En mér er annt um hagi Sigríðar; ég hef einhvern tíma sleppt því við yður í trúnaði, að mér er orðið hlýlegt við hana, og því sýnist mér hún einhvers annars betra verð en að fara í hendurnar á einhverjum óvöldum sveitamanni.

Það er nú ekki svo ónýtt fyrir hana, sagði Guðrún og leit í gaupnir sér, ef þér ætlið yður það með hana, sem sumir hérna eru að geta til.

Hvað er það?

Að þér ætlið yður að eiga hana.

Það eru ekki mín orð; en maður hugsar svo margt, og yður í einlægni að segja, þá hef ég hugsað mér það svona: Sigríður ætti að komast í góðra manna hendur, menntast og lagast; hún er á margan hátt efnileg stúlka; meðan ég er hér á sumrin, get ég ekki verið án þess að hafa einhverja stúlku til þess að þjóna mér og sjá eftir innan húss fyrir mig; ég veit ekki, hvort hún hefði illt af því að fara til mín og vera fyrir framan hjá mér eitt eða tvö missiri fyrst; annað mál er það, að margt getur lagast með tímanum og þegar kringumstæðurnar breytast. En þér ættuð að verða kaupmannskona eða „faktors“-kona hérna í Víkinni.

Ég að verða kaupmannskona, það veit ég ekki, hvernig það ætti til að bera!

Margt hefur eins ólíklegt orðið. Gjörum til að mynda ráð fyrir, að ég yrði leiður á því að vera lengur í þessu blessaða landi og setti hann Kristján, sem hjá mér er, með 7 eða 8 hundruð dala launum fyrir verslunina mína, þá gæti hann nú farið að kvongast.

Já, sagði Guðrún nokkuð undirfurðuleg, ég skil ekki í, að ég væri nær maddömudæminu fyrir það.

Nú, ykkur er líka meinlítið hvort við annað, ef mig grunar rétt, og svo benti maður þá Kristjáni til þess, að hann gæti ekki fengið verslunina nema með því eina skilyrði, að hann ætti þá stúlku, sem maður tiltæki, svo hafa menn stundum verið vanir að koma því í kring.

Þetta er ekki nema gaman fyrir yður, kaupmaður góður, sagði Guðrún og leit hlæjandi framan í kaupmann.

Það er full alvara, sagði kaupmaður og greip um leið höndina á Guðrúnu, full alvara og ásetningur minn; en ekki er vert að láta bera á því; en þegar ég fer héðan alfarinn, þá gildir mig einu, þó það sjáist, hverjir hafa verið vinir mínir og að ég hef munað eftir þeim - en bréfið að tarna verður að fara líkan veg sem önnur þess konar, er villast út af réttri leið.

En heyrið þér, kaupmaður góður! Mannskömmin kemur hingað á morgun í fyrra málið, eins og hann sagði, og hvað á þá að segja um bréfið?

Látið þér mig ráða; menn verða að sjá svo um, að hann gjöri sér engar ferðir að finna hana; og verið þér nú sælar. Þetta fer ekki lengra en millum okkar.

Eftir það gekk kaupmaður burt.

Það er að segja af Indriða, að hann þóttist hafa komið vel ár sinni fyrir borð, er hann hefði getað komið bréfi sínu laglega til Sigríðar, og vænti hann, að Sigríður mundi koma til fundar og viðtals við sig daginn eftir, eins og til var mælst í bréfinu; var honum fremur venju létt í geði, því hann smíðaði sér ýmsar hugmyndir, sem allar lutu að einu, að það gæti ekki verið satt, sem sagt var um Sigríði og kaupmann Möller, því Sigríður væri svo stillt og gætin stúlka, að hún mundi ekki flasa að slíku vandamáli, en verið aðeins skamma stund í Reykjavík; aftur gæti það verið, að kaupmanni litist vel á hana og vildi koma sér í mjúkinn hjá henni, og þetta mætti vera nóg til þess, að það væri fullyrt, sem þó ekki væri. Þannig leið dagurinn, og svaf Indriði af nóttina; en morguninn eftir var hann að venju snemma á ferli og sat við borð, sem var þar í stofunni, og snæddi árbita með húsbónda og Sigurði, og ræddu þeir um hitt og þetta; en sem þeir höfðu matast, kemur þar piltur nokkur í stofuna og spyr, hvort ekki sé þar aðkomumaður nokkur, sem Indriði heiti og að austan. Indriði sagði til sín, en pilturinn fær honum bréf og gengur út síðan. Indriði leit utan á bréfið og sá, að á því var kvenmannshönd. Hann stakk bréfinu á sig og gekk skömmu síðar út. Hann efaðist ekki um það, að bréfið væri frá Sigríði, og vildi því helst lesa það í einrúmi, til þess að enginn skyldi sjá, hvernig honum yrði við, hvort heldur það færði honum gleði- eður sorgarfréttir. Hann gekk út úr bænum og suður með tjörninni að austanverðu, því hann hugsaði, að þar mundi vera minnstar mannaferðir á; leitaði sér síðan uppi grasbala einn ekki langt frá tjörninni, þar sem dálítið barð bar af, svo hann sást ekki úr bænum, og tekur síðan upp bréfið og les það, og var það svona:

Heiðarlegi yngismaður!

Mér brá ekki lítið við að fá bréf frá yður í gær; en meira brá mér þó við að sjá, að það var skrifað hér í Reykjavík. Nú þó að ég gjörði réttast í að svara því ekki, virðist mér samt, að mér sé nauðugur einn kostur að senda yður þenna miða til þess að taka af öll tvímæli. Ég ætla þá ekki að álasa yður fyrir það, að þér hafið verið helst til óaðgætinn, er þér senduð mér þess konar bréf, án þess að þér áður kæmust að því, hvort nú stæði svo á högum mínum, að yður væri til nokkurs að fara því á flot, sem þér hálfvegis minnist á í því, og hefðuð þér þó mátt geta því nærri, að margt má skipast á skemmri tíma en þeim, sem liðinn er, síðan við sáumst síðast. Hitt verð ég að láta yður vita, að kringumstæður mínar eru þannig lagaðar, að það gæti ekki orðið yður til neinnar gleði, að ég talaði við yður, ef það er eina erindið við mig, sem ég þykist ráða af bréfi yðar; sömuleiðis vona ég, að þér sjáið sjálfur, að þarfleysa er að skrifa mér fleiri bréf um þetta efni; og á hinn bóginn gæti slíkt orðið mér að baga, ef þess háttar kæmist í hendur þeim mönnum, sem ég vil ekki hafi verri hugmynd um mig en ég verðskulda. Að endingu óska ég yður allra heilla, og verið sannfærður um, að það mundi vera mér mikil ánægja bráðlega að frétta það, að þér hafið snúið huga yðar til einhverrar annarrar, sem er yðar verðugri en

yðar Sigríður Bjarnadóttir.

Þeir, sem einhvern tíma hafa reynt það að fylgja kærum ástvini til moldar og hafa séð yndi augna sinna og trúfastan leiðtoga allt í einu hverfa ofan í hið myrkva skaut jarðarinnar, þaðan sem hans er aldrei aftur von til þessa lífs, munu geta ímyndað sér, hvernig Indriða varð við, er hann las þetta bréf, sem flutti alla von hans, þenna trúa leiðtoga æskumannsins, til grafarinnar. Indriði sat þegjandi og starði á bréfið og las það oft upp aftur og aftur, eins og hann gæti ekki trúað sjálfum sér, að hann sæi það rétt, sem hann sá og las. Sólin blessuð leið frá austri til suðurs og frá suðri í vesturátt; fuglarnir þutu í loftinu kringum Indriða, þar sem hann sat eins og jarðfastur steinn, og skuggarnir þokuðust upp eftir balanum og upp á fætur honum; en Indriði vissi ekki, hverju fram fór, og tárin, sem eru fylgisveinar harmsins og einverunnar og menn ekki skammast sín fyrir, þegar enginn sér til, styttu honum svo stundir, að hann gáði þess ekki, hvað tímanum leið. Loksins stóð hann upp og ætlaði líkast til að snúa aftur heim til bæjarins; en með því að hugur hans var í einhverri leiðslu og svima, gáði hann ekki að, hvað hann gekk, og stefnir austur með tjörn; þannig gekk hann um hríð, og verður hann þá ekki fyrr var við en slegið er með hendi á herðarnar á honum, og er þar kominn Sigurður félagi hans; hafði hann lengi um daginn leitað hans alls staðar þar, sem honum gat til hugar komið, og nú gengið þenna veg, ef svo líklega sem ólíklega mætti til bera, að Indriði hefði gengið þangað. Indriði hrökk við, þegar slegið var á herðarnar á honum, en Sigurður leit hálfhlæjandi framan í hann og sagði:

Hvað ertu nú að hérvillast, lagsmaður?

Ég gekk hingað að gamni mínu, sagði Indriði, og nú ætlaði ég heim aftur.

Á! Þá þykir mér þú ekki fara skemmstu leiðina, ef þú ætlar að ganga í austur, þangað til þú kemur til vestursins, því hérna er Reykjavík! En hvað er að sjá þig, maður! Það er eins og þú hafir sveitst blóðinu í allan dag; manni getur dottið margt í hug, þegar maður sér þig; skollinn hefur þó, vænti ég, ekki skotið sömu flugunni í munninn á þér sem honum Jörgensen heitnum, að vilja fara að stjórna landinu? Þú hefur tekið þeim stakkaskiptum síðan í gær, að við gengum upp að vörðunni, að ég þekki þig ekki, og svo þykir mér þú orðinn þungur undir brúnina sem þaðan mundi bráðum koma það veður, sem ekki léti neinn stein óhrærðan í þessu landi.

Æ, það getur þú verið óhræddur um, að ekki ætla ég að steypa konungum eða keisurum, enda tek ég það ekki illa upp, þó þú gjörir að gamni þínu; en hitt mátt þú vita, að margt getur aflað manni áhyggju og ógleði, sem maður gefur ekki um að ræða um við alla.

Æ, guði sé lof fyrir, að það eru engin stjórnarumbrot í höfðinu á þér, annars hefði ég sagt, að þér væri hollast að koma heim með mér að borða miðdagsmatinn; því þess háttar menn eru vanir að verða svo hægir og blíðir eins og lamb, undir eins og þeir fá eitthvað gott að kasta á svanginn, þó þeir áður væru sem glefsandi vargar; og látum oss nú ganga heim til vonar og vara, því maturinn bíður okkar.

Því næst gengu þeir heim, og segir nú ekki annað frá Indriða en að hann dvaldi í Reykjavík einn eða tvo daga, en réði ekki aftur til austurferðar; var það og hvorttveggja, að farið var að líða á haust og allra veðra þegar að von, enda hafði harmur sá, er hann nú átti við að þreyta, unnið svo á heilsufar hans, að hann treysti sér ekki til að takast svo langa og örðuga ferð á hendur, og réði hann það af, að hann kom hestum sínum á fóður upp í Mosfellssveit, en fór með Sigurði suður í Garðahverfi og hafðist þar við framan af vetrinum, ýmist við smíðar eða fiskiróðra, og nefndist Þorleifur og kvaðst vera norðlenskur að kyni og bað Sigurð ekki geta þess, hver hann væri.

Af því, sem sagt er hér að undanförnu, mun lesarinn geta ráðið, að nokkur tilhæfa var í því, að kaupmaður Möller legði um þær mundir meiri hug á Sigríði en nokkra aðra stúlku þar í Víkinni; en eins og það er satt, að almannarómurinn styðst oftast nær við einhverja átyllu, eins víst er það, að hann gjörir oft úlfalda úr mýflugunni. Þannig var það og um það, er menn nú töluðu sín á milli í Reykjavík, að þau Sigríður væru þegar trúlofuð, þó lítið ætti á að bera. Möller hafði aldrei enn þá vikið orði að því við Sigríði sjálfa, sem til ásta lyti, enda hafði hann ekki fengið færi á því að tala einslega við hana. Þegar hann kom þar í húsið, var hann jafnan glaðlegur í viðmóti og ræðinn við þær stallsystur. Hann sá það, að lundarfari Sigríðar var svo varið, að glens átti ekki við hana, og því forðaðist hann jafnan allt þess háttar; sjaldan hældi hann Sigríði mikið upp í eyrun, en þegar hann gat hennar við aðra út í frá, talaði hann fremur hlýlega um hana, einkum er hann ræddi við þá, sem hann hugði að mundu flytja henni það aftur. Ekki gaf hann henni stórvægis gjafir, sem margir hylla að sér konur með, en stundum vék hann henni hinu og þessu smávegis, sem lítið var í varið; en hvernig sem á því stóð, hittist jafnan svo á, að það var það, sem Sigríði í þann svipinn vanhagaði mest um.

Af þessu kom það, að Sigríði var fremur þelgott við kaupmann Möller, og var það að líkindum, því á ókenndum stað, þar sem menn ekki eiga frændur eða vini, fá menn jafnan góðan þokka á þeim, er verða til þess heldur að víkja að manni góðu en illu. Nú þótt Sigríði væri hlýlegt við Möller af þessum orsökum, sem nú höfum vér talið, þá er hitt þó víst, að ekki hafði Sigríður enn hneigt ástarhug til Möllers eða nokkurs manns þar syðra. Sigríður var kona stöðuglynd; en svo er varið um þær konur, er svo eru skapi farnar, að hjarta þeirra snýst sjaldan fljótt til ásta, ef þær einhvern tíma hafa lagt hreinan og einlægan huga til einhvers manns, sem þær hljóta á bak að sjá.

Það var einhvern tíma skömmu fyrir jól, að Ormur bróðir Sigríðar kom sem oftar inn til Reykjavíkur að finna systur sína og var þar í Víkinni fram eftir deginum, og varð það kunnugt þar í bænum, að piltar væru þar. Ormur ætlaði með skólabátnum yfir um aftur um kvöldið; beiddi hann þá systur sína að fylgja sér á veg suður á Skildinganesmela, svo að þau gætu því lengur talað og masað saman. Þetta gjörði Sigríður, og hafði kaupmaður Möller einhvern snefil af, er þau fóru suður um bæinn, og skömmu síðar tekur hann hatt og vettlinga og gengur upp í gegnum bæinn, eins og hann ætlaði á þá leið, sem liggur norður úr bænum; en er hann kemur að læknum, skotrar hann til hliðar og yfir Austurvöll og þaðan að tjörninni og gengur með henni og fylgir jafnan börðunum; og er hann þykist vera kominn svo langt, að ekki megi sjá til ferða hans úr bænum, snýr hann upp á Skildinganesmela og litast þar um, en sér ekki til þeirra systkina; heldur hann þá áfram og allt þangað til, er hann kemur að hól þeim, sem er Reykjavíkur megin við mýrina; þaðan, vissi hann, að sjá mátti allar mannaferðir um melana; þar nemur hann staðar og sér þá bráðum, hvar kvenmaður kemur sunnan yfir stillurnar og stefnir til Víkur. Möller stefnir þá ofan af hólnum og í veginn fyrir hana. Sigríður sér manninn og kennir hann þegar, en lætur þó sem hún taki ekki eftir honum og greiðir heldur sporið í því skyni, að hann skuli ekki ná sér; en Möller var drjúgstígari, og nær hann henni góðan kipp frá hæðinni og heilsar henni blíðlega og ávarpar hana þessum orðum:

Vitið þér, jómfrú Sigríður, hvers ég óskaði mér rétt í sama bili sem ég náði yður núna?

Þetta skipti lá vel á Sigríði, og tók hún glaðlega undir ræðu Möllers og sagði:

Hvernig á ég að vita um það? En ætti ég að geta einhvers um það, mundi ég helst geta þess, að þér óskuðuð yður, að ullin yðar og fiskurinn seldist vel í Kaupmannahöfn í vetur, því er það ekki sagt um ykkur kaupmennina: Þar sem yðar fjársjóðir eru, þar eru og yðar hjörtu?

Ekki veit ég það, hvort þessi grein á fremur við okkur kaupmennina en aðra menn, sagði kaupmaður og tók með meiri alvöru undir svarið en Sigríður hafði vænt, og ég segi fyrir mig, að ekki hef ég fest svo hugann við fjársjóðuna, að ég ekki hugsi tíðara um annað; en fyrst að þér gátuð ekki undir eins í kollinn, þá ætla ég að segja yður það, hvers ég óskaði mér.

Nú, það er gaman að heyra það, sagði Sigríður og leit framan í Möller, af því hún furðaði sig á því, með hvílíkri alvörugefni hann talaði.

Þér megið ekki hlæja að ósk minni, þó yður í fyrstu virðist hún kátleg; ég óskaði mér, að melarnir þeir arna væru orðnir fjórum sinnum lengri en þeir eru.

Nei, ekki held ég, að ég geti gjört það fyrir yður að láta vera að hlæja að henni, og til þess munuð þér og hafa ætlast, því hvað gæti yður gengið til þess að óska þessarar heimsku? Væru þeir allir saman sléttur og fagur grasvöllur, þá gæti ég skilið í því, hvers vegna þér vilduð, að þeir væru stærri, en eins og þeir eru, gilti mig að minnsta kosti einu, þó þeir væru talsvert styttri.

Mér er sama, hvort heldur þeir væru langir eða skammir endrarnær, ef þeir aðeins væru núna fjórum sinnum lengri en þeir eru; því, skoðið þér til, væru þeir fjórum sinnum lengri, hefði ég fjórum sinnum lengri ánægjustund.

Það mun vera svo að skilja, að þér eruð eins og börnin, sem hafa gaman af að vasla pollana; yður þykir gaman að vaða aurinn og krapið upp í ökla, sagði Sigríður og brosti við; en kaupmaður svaraði allt að einu alvörugefinn eins sem áður:

Nei, ekki þykir mér nú það, en hitt er það, að ég væri glaður og ánægður, þótt ég ætti alla mína ævi að vaða eld og fara yfir ófærur, ef ég ætti að vinna það til þess að geta notið yðar fylgdar.

Sigríður leit enn þá einu sinni framan í Möller, eins og hún ætlaði að komast eftir, hvernig stæði á því, að hann hagaði svo kátlega orðum sínum fremur venju. Hún sá þá, að honum stökk ekki bros, en hengdi niður höfuðið, eins og honum byggi einhver mikil áhyggja í skapi; hugsaði hún þá, að ekki tjáði að taka orðum hans með gamni einu, og segir:

Ég hef aldrei heyrt yður tala svo undarlega eins og núna, herra Möller.

Ég hef heldur aldrei getað komið mér að eða fengið tækifæri til þess að tala við yður einslega, þó mig hafi oft langað til þess.

Þegar Sigríður heyrði, að kaupmaður sneri svona orðum sínum, tók hún að greiða sporið, allt eins og henni væri um og ó, að samtalið lengdist mikið, og hún yrði því fegnust að komast sem fyrst heim í bæinn; kaupmaður varð þess fljótt var og lítur ofur angurværum augum til hennar og segir:

Æ, ég hélt þér ætluðuð, jómfrú góð, að lofa mér að verða yður samferða þenna, litla spotta, sem er eftir til bæjarins, en nú eruð þér farin að ganga svo hratt, að -

Það kemur til af því, að ég held, að þér hafið hitt óskastundina áðan og melarnir þeir arna ætli aldrei að þrjóta; en hitt vitið þér, að mér þykir ætíð skemmtilegt að tala við yður.

Og því er nú miður, að ég held, að sú ætli að verða raunin á um melana, að ósk mín ekki muni rætast, því nú eigum við ekki langt að garðinum, og líkast til verð ég ekki heppnari með þá óskina, sem ég ætlaði að bera fram fyrir yður, mín e-.

Það er bágt á það að giska, hvaða orð það var, sem Möller tæpti á og ætlaði að segja, og eins óvíst er það og örðugt fyrir oss, er ekki þekkjum hugrenningar Möllers, að skera úr því, hvað til þess kom, að hann talaði ekki orðið út til fulls; hvort það var heldur, að honum í sama bili varð litið framan í Sigríði og sá, að hún var blóðrauð út undir eyru, eða hitt, að rétt um sama mund gekk fram hjá þeim maður nokkur þar úr Víkinni, sem Möller þekkti; en það vitum vér, að hann þagnaði á e-inu og þagði litla stund, en þó ekki svo lengi, að hann gæfi Sigríði ráðrúm til að svara; byrjar hann þá aftur og segir:

Ég mælist ekki til mikils. Bónin, sem ég ætlaði að bera fram fyrir yður, er sú, að ég ætla að biðja yður að fara til mín í vor eð kemur.

Sigríði hafði orðið hálfvegis hverft við, þegar Möller fór að ympra á orðinu, sem ekki varð lengra en e, og skipti mjög litum, en er hún nú heyrði, að ekki varð annað úr en þetta, hefur hún ef til vill hugsað með sér: Það fór betur, að hér fæddist mús, en ekki önnur stærri skepna. Roðinn fór aftur að þynnast á kinnunum á henni, og hún svaraði kaupmanni einarðlega:

Hvernig getur yður dottið í hug að biðja mig þess? Þér vitið, að ég er vistuð eftirleiðis hjá henni maddömu Á., og ég á þar svo gott sem ég gæti átt nokkurs staðar hér syðra; eða ætlið þér að fara að búa?

Ekki veit ég, hvort ég á að kalla það svo, en ég hef ásett mér eftirleiðis að taka mér kvenmann til að vera hjá mér í húsinu og búa til fyrir mig matinn; ég er orðinn harla leiður af því að þurfa að sækja allt til annarra, sem ég þarf með; en ekki skuluð þér, jómfrú góð, þurfa að kvíða því, að þér þyrftuð að ganga í allt; það er sjálfsagt, að ég tæki einhverja griðkonu yður til aðstoðar; og hvað kaup og atlæti snertir, vildi ég sjá svo um, að þér hefðuð hvorugt betra nokkurs staðar annars staðar.

Þó þetta kynni að vera allt saman vel boðið, þá er fyrst að segja þar um, að ég er mjög svo fákunnandi í öllum búnaðarhætti hér; ég er vönust sveitabúnaðinum, og um fram allt er á það að líta, að ég er vistuð; eða því reynið þér eigi að útvega yður aðra bústýru, sem bæði væri betur við yðar hæfi og óvistuð?

Ekki fer ég þessu á flot, sagði Möller, nema svo aðeins, að bæði maddama Á. og aðrir, sem hlut eiga að máli, séu því ekki mótfallnir; en því ber ég þetta mál fremur fyrir yður en aðrar, að ég tek yður fram yfir allar, sem ég þekki hér, og getið þér ekki láð mér, að ég helst kýs að hafa þann kvenmann mér við hönd, sem ég veit að er ráðvönd, trú og mér er þelbetra við en nokkra aðra stúlku.

Þessi seinustu orð í ræðu sinni sagði kaupmaður á þann hátt sem hann vildi, að Sigríði skyldi verða þau minnistæð; en ekki gat hann rætt fleira um þetta efni að því skipti, því nú voru þau komin inn í bæ, og skildi kaupmaður þar við Sigríði og gekk nú aftur nefsneiðing ofan að tjörn og sama veg, sem hann hafði áður farið. Sigríður íhugaði orð Möllers, og þótti henni allundarlega borin fram tilmæli hans um vistarráðin, ef ekkert byggi meira undir, og hafði þó ekki orð á um viðtal þeirra við fleiri menn. En ekki leið á löngu, áður það varð augljóst, að Möller hafði verið full alvara og gjörði þetta mál uppskátt fyrir kaupmanni Á. og konu hans og skoraði fast á þau að gefa Sigríði upp vistarráðin, en lagði jafnframt mikið að Sigríði um að fara til sín. Sigríður leitaði ráða hjá maddömu Þóru. Hún lét sér fátt um finnast, en sagði þó, að kaupmaður Möller mundi virða það svo sem þau hjón stæðu á móti, að þessi ráð tækjust, og lettu hana, ef hún neitaði að fara til hans. Leið nú svo fram eftir vetrinum, að Sigríður hvorki aftók það með öllu eða hét því og kvaðst verða að ráðgast betur um það við huga sinn og bera það undir Orm bróður sinn; en eftir því þóttist Guðrún taka, að Sigríði brygði einhvern veginn kátlegar en áður við í hvert skipti, sem Möller kom þar í húsið og heilsaði henni, og komst Guðrún svo að orði um það, að hún sagði, að Sigríður væri farin að segja eftir.

Það var eitt kvöld nokkru eftir miðjan vetur, að þær Sigríður og Guðrún sátu tvær einar í stofu. Veður var fagurt, sólin var að setjast, og kvöldroðanum kastaði á gluggana og inn um stofuna. Guðrún sat á stóli út við gluggann og var að sauma og þagði; sá, sem þá hefði séð hana og tekið eftir brosunum, sem voru að smáflögra um munnvikin á henni, og séð hvernig spékopparnir á kinnunum á henni ýmist voru að myndast eða hverfa, mundi hafa hugsað: Annaðhvort er um það, stúlka mín, að þú ert sokkin niður í einhverja skemmtilega hugsun, eða hitt, að einhver fallegur piltur er hér í nánd og gefur þér auga; þú hefur veður af honum, en Iæst ekki sjá hann, slær því augunum niður og þykist ekki gæta að öðru en saumunum, en getur þó ekki með öllu dulið það, sem dulið á að vera; hugrenningar þínar læðast á vörum þér.

Sigríður sat allskammt frá Guðrúnu í legubekk einum og hafði í fangi sér dálitla meyju, ofur fallega. Það var dóttir þeirra hjónanna, sem Sigrún hét og Sigríður unni mikið. Sigríður svæfði meyjuna í kjöltu sér og kvað þetta við hana:

Ljóshærð og litfríð
og létt undir brún,
handsmá og hýreyg
og heitir Sigrún.
Viska með vexti
æ vaxi þér hjá!
Veraldar vélráð
ei vinni þig á!
Svíkur hún seggi
og svæfir við glaum,
óvörum ýtir
í örlaga straum.
Veikur er viljinn,
og veik eru börn;
alvaldur, alvaldur
æ sé þeim vörn!
Sofðu, mín Sigrún,
og sofðu nú rótt;
guð faðir gefi
góða þér nótt!

Þessar vísur raulaði Sigríður aftur og aftur og þess á millum þessar alkenndu hendingar:

Bí bí og blaka,
álftirnar kvaka;
ég læt sem ég sofi,
en samt mun ég vaka.

En er Sigrún litla var sofnuð, lagði hún hana hægt í legubekkinn og lítinn kodda undir höfuðið og breiddi svuntuna sína ofan á hana, en settist sjálf út við gluggann allskammt frá Guðrúnu og horfði um hríð út. Allt var kyrrt á strætum bæjarins; dálítill snjófölvi var yfir jörðunni; veðrið var hreint og heiðríkt, og sólin var þegar sigin, og sló blóðrauðum geislum um allan vestursjóinn; jökulinn hillti upp; fiskibátarnir voru að koma að, sumir að lenda, en sumir voru komnir inn fyrir eyjarnar og skriðu fagurlega í logninu. Sigríður horfði stundarkorn þegjandi á blíðu og fegurð náttúrunnar, og var auðséð, að henni fannst mikið um, en síðan segir hún við Guðrúnu:

Alls staðar er guð minn mönnunum góður, og mikið er blessað veðrið að tarna fagurt, og mikið yndislegt er að horfa út núna; það er eins og ég sjái blessuð fjöllin mín fyrir austan, þegar ég lít upp til Esjunnar.

Já, segir Guðrún hálfhlæjandi; veðrið er gott, góða mín, en það hefur verið svo oft, það sem af er vetrinum, eða sér þú nokkur nýsmíði á sjónum eða fjöllunum?

Nei, en ég sé blessaða bátana, sem eru að koma hlaðnir að landi; og aldrei hef ég séð jökulinn svo tignarlegan eins og mér virðist hann vera núna.

Æ, Sigríður mín! Okkur bregður nú ekki við það hérna á Suðurnesjunum að sjá þessar slorsleifar; það er lítil fegurð í þeim, sýnist mér; og um fjöllin þín, góða mín, er það að segja, að mér virðast þau núna eins og þau eru vön.

Ó, þú skilur mig ekki, sagði Sigríður og stundi dálítið við, mér þykir svo vænt um fjöllin, ég er upp alin við fjöll, og því er það eins og það glaðni yfir mér í hvert skipti, sem ég lít hérna upp til fjallanna, og mig langi til að vera komin mitt á milli fjallanna minna aftur.

Ég held þú sért alltaf að hugsa um þau og sjóinn og bátana og grasið á jörðunni, sagði Guðrún hálfhlæjandi; ég lái þér það ekki, en maður getur hugsað um fleira; og veistu, hvað ég er að velta fyrir mér í huganum?

Nei, en ég þykist vita, að það sé ekki um fjöllin eða bátana.

Þar áttu kollgátuna, Sigríður mín! Ég er að hugsa um það, hvernig við munum skemmta okkur, ef guð lofar, á sunnudaginn, sem kemur.

Það held ég verði líkt eins og núna, ef við lifum og verðum heilbrigðar.

Þá skyldi rækallinn fara í minn stað til dansleikanna, ef maður skemmti sér ekki betur við þá en þegar maður meltist heima; nei, góða mín; þá kemur nú fyrst hátíðabragurinn á hérna í Víkurgreyinu, þegar menn geta loksins komið sér saman um að hoppa úr sér ólundina; og veistu það, á sunnudaginn, sem kemur, á að verða dansleikur? Því hefur verið skotið að mér, og þar að auki hefur mig dreymt fyrir því, að við komum þar báðar; en með hverjum atvikum það verður, er enn óljóst fyrir mér, því lítil líkindi eru um mig, sem kann að dansa, en minni um þig aumingjann, sem ekki kannt annað en þetta, sem ég hef verið að kenna þér.

Vertu ekki að aumka mig fyrir það, góða mín, sagði Sigríður, ég get ekki sagt, að mig langi svo mikið til þess og allra síst til þess að dansa, því það yrði til hneykslis; ég hefði aðeins gaman af að horfa á.

Já, þú getur farið, þó þú dansir ekki; þetta fer hún systir mín, og dansar hún ekki; og á ég ekki að skjóta því að honum kaupmanni Möller, að þig langi hálfvegis til að fara?

Nei, góða mín, það ætla ég að biðja þig fyrir alla muni að láta vera, sagði Sigríður og skipti um leið litum.

Það er þá réttast, að ég gjöri það ekki, því ef honum þykir eins vænt um þig og hann segir, þá mun ekki þurfa að minna hann á það.

Vertu nú ekki að fara með þessa heimsku allajafna; hvað ætli honum geti þótt vænt um mig? Það er engin orsök til þess.

Það veit ég, ekki önnur en sú, sem er vön að vera, þegar pilti líst á stúlku og ætlar sér að eiga hana; eða ertu svo einföld, elskan mín, að þú sjáir ekki, hvað býr undir því, að hann er að biðja þig að fara til sín í vor? Ekkert annað en að hann sér það fyrir, sem líklegast á fram að koma, að það dregur saman með ykkur, en vill gefa þér færi á að kynnast sér fyrst; svona var um hana systur mína og manninn hennar; það byrjaði svo á millum þeirra, að hún fór fyrst til hans.

Þó ég fari til hans, sem ekki er víst enn þá, skaltu sanna það, að ég verð ekki lengi hjá honum; því ef ég gjöri það, þá er það einasta þess vegna, að hjónin hérna hafa heldur mælst til þess, að ég væri þar rétt í sumar.

Og síðan?

Fer ég hingað aftur eða eitthvað; ég veit það nú ekki.

Nei, þá verður allt komið í kring og þú orðin maddama Möller; mikil gæfa er það, sem sumum mönnum fylgir, það er eins og lánið sæki eftir þeim, hvernig sem þeir reyna til að flýja undan því; og ekki hefði það verið haldið, þegar þú komst hingað, að þú ættir að sækja hingað að verða kaupmanns maddama.

Ég held við verðum það líka líkt báðar, sagði Sigríður; en það var auðséð, að Guðrúnu líkaði ekki þetta svar, því hún fann, að í því lá, að Sigríður vantreysti því, að hún gæti Iíka náð í kaupmann, og svaraði heldur þurrlega:

Það er þá ekki fyrir það, þó þeim þyki það sumum ólíklegt núna, þá getur drottinn minn á einhvern hátt séð fyrir mér; þeir eru ekki allir farnir burtu héðan, sem nú eru hérna í Víkinni.

Að svo mæltu felldu þær Guðrún talið; en svo fór, að spár Guðrúnar áttu sér ekki langan aldur, því daginn eftir að þær stallsystur ræddust þetta við, kom Möller þar og bar það upp fyrir Sigríði, að hann hefði ásett sér að bjóða henni að fara með sér, eður, sem hann komst að orði, biðja hana að gjöra sér þá ánægju að lofa sér að hafa hana fyrir fylgistúlku á dansleiknum. Sigríður svarar tilmælum hans hæversklega, en bar það þó fyrir, að hún væri harla fákunnandi í þess háttar efnum og óvön að koma á slíka gleðifundi. Möller sagði um það, að hinum fallegu stúlkunum fyrirgæfist mikið í því efni, þó þær bæri ekki ævinlega sem kunnáttulegast fótinn í dansinum. Nú þótt að Sigríði væri um og ó að fara með Möller, þótti henni það réttast að neita ekki svo siðsömum tilmælum orsakalaust, og bar hún þetta mál undir maddömu Á., og sagði hún, að raunar hefðu þau hjónin verið búin að ásetja sér að láta hana fara með sér til dansleiksins, en þar eð Möller hefði boðið henni, gæti og farið vel á því, að hún tæki því boði, og skyldi hún þó engu að síður vera þeim hjónum mest fylgisöm. Er þetta því næst afráðið, og leið nú svo fram eftir vikunni, að ekki er Guðrúnu boðið, en engu að síður hafði hún mikinn starfa alla þá viku í því að laga og snotra föt sín og kjóla, og á hverri nóttu dreymdi hana drauma nokkra, er allir hnigu að því, að þar mundi koma einhver fríður og fagur yngismaður og leiða hana í dansinn.

Þetta rættist og á laugardaginn, og er þar kominn Kristján, búðarmaður kaupmanns Möllers; en því hafði hann ekki boðið henni fyrri, að nokkur ágreiningur hafði verið millum þeirra dansstjóranna, hvort Guðrún væri nógu göfug til þess að geta komið á það mannamót, sem jafntignar konur væru fyrir sem á þessum mannfundi. Á sunnudaginn kemur Guðrún að máli við Sigríði og segir:

Ekki veit ég, hvað þú hugsar, Sigríður mín, að vera ekki farin að búa þig neitt undir með fötin, sem þú ætlar þér að hafa í kvöld.

Það er nú gott við íslenska búninginn minn, sagði Sigríður, að hann þarf ekki langs undirbúnings við; maður þarf ekki annað en taka hann upp úr kistunni og fara í hann.

Hugsar þú þér að vera á íslenska búningnum í kvöld, góða mín?

Það er hvorttveggja, að ég á ekki önnur föt að vera í, enda vil ég ekki vera öðruvísi búin.

Með hvíta strókinn þinn á höfðinu, vænti ég, er ekki svo?

Þú átt við faldinn minn? Ég á rétt að segja spánýjan fald; ég held þú hafir ekki séð hann.

Nei, og guð almáttugur forði mér frá að sjá hann nokkurn tíma á höfðinu á þér.

Því þá? Það var þó sagt fyrir austan, að mér færi hann ekki sem verst.

Fyrir austan! Því get ég trúað; en hérna, góða mín, verður þú til hneykslis og aðhláturs að hafa það á höfðinu; gjörðu mér það ekki, elskan mín, til raunar og armæðu að hafa óhræsis íslenska búninginn í kvöld; það er annað mál, þó þú skjótist með hann í kirkjuna, þar er ekki tekið svo mikið eftir því, hvernig maður er klæddur; en við dansleikinn, góða mín, verður maður þó að minnsta kosti að vera ekki svo afkáralega klæddur, að aðrir hlæi að manni og bendi á mann, undir eins og maður snýr að þeim bakinu.

Ég er nú ekki svo spéhrædd, Guðrún mín. En hitt er það, ég sé það á eftir, að ég átti aldrei að lofa því að fara, því mér verður svo hvort sem er ofaukið þar.

Segðu nú ekki að tarna, elskan mín! Ég er sannfærð um, að þú skemmtir þér vel; en gættu nú að, í því, sem í sjálfu sér er lítið í varið eins og þetta, hvernig maður er klæddur, á maður að laga sig eftir því, sem öðrum er geðþekkast, og ég efast ekki um, að honum kaupmanni Möller líki það betur, ef þú ert á dönskum fötum, og líst þá betur á þig, sagði Guðrún og kinkaði kolli að Sigríði.

Sigríður hljóðnaði við og segir: Þú veist það, að ég gjöri mér ekki svo mikið far um að láta honum lítast á mig.

Seinna koma sumir dagar og koma þó, sagði Guðrún, og áttu þær stallsystur nokkuð lengri ræðu um þetta efni; sagði Guðrún, að það væri réttast, að þær bæru þetta mál undir álit Möllers og heyrðu, hvað hann segði; ekki vildi Sigríður það, og fór svo, að Sigríður lét Guðrúnu ráða, og útvegaði Guðrún henni danskan búning hjá stúlku nokkurri þar í Víkinni, sem var veik og gat því ekki farið. Um kvöldið komu þeir Möller og Kristján að sækja stúlkur sínar, og fylgdust þau nú öll þar úr húsinu og gengu til skytnings, því þar skyldi dansleikurinn standa. En ekki ætlum vér að fylgja Sigríði lengra en þar til dyranna og tökum þar aftur til sögunnar, sem stjarnan var gengin nær miðaftansstað en nónstað og ljósin í kertahjálminum í danssalnum voru sum slokknuð og sum nær dauða en lífi og gusu við og við blágráum loga upp úr kertapípunum, en enn þá lifði á nokkrum kertisstubbum, sem innsigluðu með logandi feiti kjóla og treyjur yngismanna, er fram hjá gengu, svo að þeir gætu haft það til jarteikna daginn eftir, að þeir hefðu „komið“ í danssalinn, „séð og sigrað“. Manntötrið, er fenginn hafði verið til þess að snúa sveifinni á hljóðfærinu, sem dansinn var stiginn eftir, var genginn úr salnum, lúinn og laraður í hendinni, og dansinn var hættur. Þegar dansinum var hætt, tóku menn að ganga heim. Þeir fylgdust allir, kaupmaður Möller, kaupmaður Á. og Kristján, og leiddi hver sína stúlku. Veðri var svo varið, að tungl var í fyllingu og himinninn heiðríkur og norðurljós sem mest má verða; snjór var nokkur á jörðu og gangfæri gott, frost lítið, en logn og blíða.

Þegar þau komu út, tekur kaupmaður Á. svo til orða við þá Möller og Kristján:

Ég veit ekki, hvað ykkur líst, en hitt veit ég, hvað mér þætti best; mig langar til að rétta mig ögn upp, áður en við förum heim; veðrið er svo blessað og blítt, að ég held það væri réttast að ganga sér dálítinn kipp, til að mynda hérna suður með tjörninni; það er heldur ekki illa til fallið að fylgja skólapiltunum á veg, sem verið hafa gestir okkar í kvöld og nú eru að fara á stað; heyrið þið til, þarna byrja þeir að syngja; það er svo sjaldan, að menn heyra hér falleg hljóð og vel sungið, og látum okkur ganga í humáttina eftir þeim.

Allir féllust á það, sem kaupmaður sagði, og gengu suður með tjörn; en skólapiltar sneru út á miðja tjörnina og fóru eftir ísnum skemmstu leið og sungu siðsamlega og fagurt ýmsar vísur, er þeir kunnu, og var þetta eitt af því, sem þeir fóru með:

Ó, fögur er vor fósturjörð
um fríða sumardaga,
er laufin grænu litka börð
og leikur hjörð í haga,
en dalur lyftir blárri brún
mót blíðum sólar loga
og glitrar flötur, glóir tún
og gyllir sunna voga.
Og vegleg jörð vor áa er
með ísi þakta tinda,
um heiðrík kvöld að höfði sér
nær hnýtir gullna linda
og logagneistum stjörnur strá
um strindi, hulið svellum,
en hoppa álfar hjarni á,
svo heyrist dun í fellum.
Þú, fósturjörðin fríð og kær!
sem feðra hlúar beinum
og lífið ungu frjóvi fær
hjá fornum bautasteinum;
ó, blessuð vertu, fagra fold,
og fjöldinn þinna barna,
á meðan gróa grös í mold
og glóir nokkur stjarna.

Þessar vísur sungu þeir piltar tvisvar eða þrisvar sinnum, og var það auðséð, að þeir einkum völdu þær fremur en aðrar vísur, er skólapiltar voru vanir að syngja, af því að þeim þóttu þær helst lýsa tilfinningu sinni það skipti, en ekki fyrir því, að þær séu eins vel gjörðar og margt annað, er kveðið hefur verið um fósturjörð vora. Á meðan þeir sungu, gengu þau Möller öll hægt fram með tjörninni og hlustuðu þegjandi á, en piltar stefndu, sem áður segir, suður eftir miðri tjörn, og smám saman miðaði þeim svo áfram og fjarlægðust, að loksins heyrðu þau ekki annað en eiminn í loftinu af söngnum, og um síðir dó hann og með öllu. Snúa þau þá öll saman aftur á leið til bæjarins og gengu þannig, að kaupmaður Á. og kona hans foru kippkorn á undan, þar á eftir gengu þau Kristján og Guðrún, og Möller og Sigríður lengst á eftir og góðan spöl eftir þeim Kristjáni og Guðrúnu. Á meðan þau fylgdust öll og hlustuðu á sönginn, töluðu þau Möller og Sigríður lítið saman; en er þau nú sneru heim til bæjarins, tekur Möller þannig til orða ofurlega blíður:

Það er mér sönn ánægja og gleði, að ég þykist sjá það á yður, besta Sigríður, að þér hafið skemmt yður vel í kvöld, og ræð ég það af útliti yðar, því þér eruð eins hýr eins og rós á vordegi.

Það, sem Möller sagði, voru heldur engar ýkjur. Sigríður hafði um kvöldið skemmt sér við dansleikinn betur en hún nokkurn tíma áður hafði getað ímyndað sér; hún var óvön þess konar gleði og glaumi; en öll sú gleði og glaumur, er maður er óvanur, hrífur hvern mest. Möller hafði við hvert atvik leitast við að sýna, hversu annt honum væri um hana, svo að Sigríður gat ekki fundið annað en vild og vináttu í hverju tilviki hans. Hún hafði um kvöldið, ásamt öðrum konum, notið dálítils af víni, sem jafnan hefur þau áhrif, að tilfinningar manna verða þar af örari. Þegar hún kom út frá dansleiknum, var blíða og fegurð veðursins á þann hátt, að ekki gat hjá því farið, að það yrði að fylla hverja viðkvæma sál með undrun. Af þessu kom það, að Sigríður í þetta skipti var eins og í einhverjum gleðidvala, eða, ef vér mættum svo að orði kveða, það var eins og sál hennar hefði sökkt sér niður í eitthvað óskiljanlegt djúp ununar og gleði. Þegar Möller ávarpaði hana þessum orðum, sem vér fyrir skömmu gátum um, svaraði hún:

Hverjum á ég að þakka nema yður, herra Möller, fyrir þá ánægjustund, sem ég hef lifað í kvöld? Mér finnst á þessari stundu sem ég sé búin að gleyma öllu, sem mér hefur verið mótdrægt hingað til.

Þér getið því ekki nærri, hversu mikil gleði mér er að heyra það, að ég hef getað einu sinni verið yður að geði; en lengi ætlið þér að neita mér um þessa einu bón, sem ég hef beðið yður, eða haldið þér, að þér munuð hafa nokkra ógæfu af því að fara til mín?

Ónei, ég vona til, að þér viljið mér vel, og mér finnst, að ég nú geti ekki annað en orðið við þeim tilmælum yðar, fyrst yður þykir nokkru um það varða.

Í því bili, að Sigríður sagði þetta, bar svo við, að Kristján og Guðrún, er gengu spölkorn á undan, sveigðu fyrir húsgafl einn, svo að dálítið bar af millum þeirra og Möllers og Sigríðar, er þau gengu fram með húshliðinni; tunglið skein í heiði, en hefði það þá getað mælt, mundi það þá líkast til hafa sagt: einn, tveir, þrír, og sá seinasti ögn lengri en sá fyrsti, og ekki kalla ég það að kyssast, börn, einhvern tíma hef ég nú séð annað eins. En er þau Möller voru gengin fram með húshliðinni, stóðst það á, að kaupmaður Á. var kominn að dyrunum á húsinu sínu og staldraði þar við, þar til þeir Kristján og Möller voru komnir. Þar skildu þeir Möller og Kristján við þær stúlkur sínar. Sigríður var orðin örþreytt og úrvinda af svefni og féll undir eins í svefn, þegar hún var komin í rúmið, og svaf fast og draumlaust alla nóttina og fram á bjartan dag, fór síðan á fætur, en var mjög svo óglöð um daginn. En Guðrún lék als oddi og talaði varla svo eitt orð, að það lyti ekki eitthvað að því, er gjörst hafði á dansleiknum, og hversu vel hún hefði skemmt sér þar; og ekki gat hún ímyndað sér neina aðra orsök til ógleði Sigríðar en þá, að hún mundi hafa fengið höfuðverk af dansi og missvefni. En það var þó í rauninni ekki tilefnið, heldur hitt, að Sigríður sá það eftir á, að hún hafði verið helst til fljót á sér um það, er hún þegar hafði heitið Möller, og um leið sýnt honum þau atlot, er hún ekki mundi hafa gjört, ef hún hefði gætt sín.

Sigríður tók mikið mark á draumum, en síðan hún kom til Reykjavíkur, hafði hana sjaldan dreymt neitt, er hún þættist geta tekið mark á; en undarlega virtist henni nú bregða við eftir dansleikinn, er hún aftur fór að hafa drauma á hverri nóttu; þó voru það einkum tveir draumar, er hana dreymdi um þetta leyti, sem henni þótti mest í varið. Sá var annar draumur hennar, að henni þótti, að Björg systir sín koma til sín, og þótti henni hún vera fremur dauf og döpur í bragði og tala heldur stygglega við sig og segja: Nú ætla ég að fara norður aftur, Sigríður mín, og fáðu mér aftur silfurbeltið, sem ég gaf þér, þú hefur hvort sem er ekki að gjöra með það; það á ekki við danska búninginn. - Þessi draumur var ekki lengri, en svo mikillar ógleði aflaði hann Sigríði, að hún gat ekki tára bundist, þegar hún hugsaði um það, hversu raunalega systir sín hefði litið út; og þýddi hún svo þenna draum, að henni mundi hafa mislíkað það við sig, ef hún hefði lifað, er hún hefði látið það að orðum Guðrúnar að taka upp annan búning. - Sá var hinn annar draumur, er Sigríði dreymdi, að hún þóttist einu sinni vera komin austur og vera stödd fram á Fagradal og í sömu brekkunni, sem hún var oftast í, þegar hún var lítil og sat þar hjá fénu; henni þótti veðrið vera fagurt og hún sæi yfir allan dalinn; hún þekkti hvert örnefni, og hvert gil og hlíðargeiri blasti á móti henni, en sólin skein í heiði; þá varð henni litið þar í brekkuna, og þóttist hún koma auga á dálítinn topp af blágresi, sem hún mundi eftir, að henni hafði oft þótt gaman að horfa á á morgnana, þegar sólin skein sem glaðast og þau glóðu af dögginni. En allt í einu þótti henni, að hún sæi draga upp skýhnoðra einn norðan til í dalnum, og úr honum kom bylur mikill og þaut yfir brekkuna, og virtist henni sem hún sæi, þegar vindurinn fór yfir blágresið, svo það fölnaði, og í sama bili heyrði hún sagt: Ef ég fer hér um aftur, þá skulu þessi dalablóm deyja til fulls. Ekki vissi Sigríður að ráða þenna draum, en svo mikils angurs hafði hann aflað henni í svefninum, að ekki gat hún gleymt honum eða látið vera að hugsa um hann, og hvert skipti, sem hún íhugaði hann, rifjaðist upp fyrir henni endurminning umliðins tíma og æskuáranna, og fannst henni þá sem aldrei hefði hugur sinn verið eins fastur við það, er hún unni mest og hafði yndi af, á meðan hún var yngri, og óskaði sér að vera komin aftur austur; einnig virtist henni svo sem hún sæi fram á það, að ekki mundi hún lifa ánægjusömu lífi, þó svo færi, að saman drægi með þeim Möller. Út úr þessu var hún mjög svo hugsjúk; en aftur á hinn bóginn, þegar Möller talaði við hana og sýndi henni hýrlegt viðmót, gat hún ekki fengið af sér að segja honum það, sem henni í brjósti bjó, að hún iðraðist eftir, að hún hefði gefið honum nokkurn ádrátt; það var eins fyrir henni og mörgum, er komnir eru á villigötuna, að þeir ganga hana, þó þeir vilji það ekki og við hvert fótmál sjái, að hún færir þá nær og nær ófærunni. En nú hættum vér hér að segja frá Sigríði um stund.