Piltur og stúlka/8

Úr Wikiheimild

Nú víkur sögunni aftur þangað, sem B. situr með gesti sína á skytningi; þeir drekka þar fast um kvöldið; þó voru þar enn allir vel sjáandi, enda voru aðeins þrjár drykkjarskálir að öllu tæmdar, og hin fjórða var á ferðinni, en enginn mundi þar sá vera inni, að ekki mætti þurrum augum þora að sjá þær sex. Þar var heitt nokkuð inni um kvöldið, og gjörðist kaupmanni L. nokkuð ómótt, og gekk hann út að fá sér svölun, og verður honum reikað niður eftir bænum; dettur honum þá í hug, að hann hefði ekki séð kaupmann Möller meðal annarra gesta um daginn, og þótti það undarlegt, því Möller var ekki vanur að sneiða sig hjá þess háttar samkvæmum; hugsar hann nú að grennslast eftir, hvort hann væri heima, og gengur þangað og ber að dyrum, en enginn kom út, og snýr þá aftur sama veg; en í því hann fer fram hjá húshliðinni, verður honum litið til glugganna, og sér hann þá, að gluggatjöldunum er niður hleypt, en ljósi brá fyrir í stofunni, og sýnist honum sem tveimur eða þremur skuggum bregði þar fyrir, en allt í einu hverfur ljósið, eins og það annaðhvort hefði verið slökkt eða borið í annað herbergi. Kaupmanni L. var kunnugt þar um húsakynni og vissi, að svefnherbergi Möllers sneri út til kálgarðsins og annars staðar en þangað hefði ekki getað verið farið með ljósið, og var honum forvitni á að vita, hvort ekki hefði svo verið; hann gengur því fram fyrir húsgaflinn og þar um, sem sund nokkuð skildi hús Möllers frá næsta húsi; og er hann kemur fyrir hornið, sér hann undir eins ljósið í þeim gluggunum, sem sneru út að garðinum; en á glugganum öðrum utanverðum sýnist honum einhver svört flygsa, eins og þar væru hengd föt til þerris. Kaupmaður stígur þá yfir rimagarðinn og læðist að glugganum; verður hann þess nú var, að honum hafði missýnst og að þar voru ekki föt, er hann sá sortann, heldur að þar var maður, sem lá þétt upp að glugganum og hafði læst hvorritveggja hendinni utan að tréveggnum og límdi sig svo fast upp við hann og lagði eyrað vendilega við glerið og hlustaði eftir, hvort hann mætti heyra það, sem talað væri inni í húsinu, og varð ekki var við kaupmann, fyrr en hann stingur hendinni við honum, þá hrekkur hann við og lítur upp og bendir kaupmanni að hafa ei hátt um sig. Það var Indriði, sem fyrir var. Kaupmaður verður fyrri til máls, en talar þó hljóðlega:

Hvernig stendur á því, að þú ert hér, Indriði minn?

Minnist þér ekki á það, sagði Indriði, ég fór hingað niður í bæinn í rökkrinu, og þá sá ég álengdar, hvar Möller leiddi tvær stúlkur hingað inn, og var önnur þeirra Sigríður; ég ætlaði að ganga til þeirra og hafa tal af þeim, en áður en ég náði þeim, voru þau öll komin inn og lokuðu á eftir sér; síðan gekk ég hingað, og er ég þess nú vís orðinn, að þau sitja í þessu herbergi við glaum og gleði mikla; en ekki get ég nein orðaskil heyrt, þó ég hafi verið að bera mig að hlusta, og er það í fyrsta sinni, sem ég hef haft þá iðju að standa á hleri.

Og hversu lengi ætlar þú hér að standa?

Þangað til Sigríður fer héðan úr húsinu aftur, þó það verði ekki fyrr en á morgun.

Jæja, bíddu hérna fyrst; nú ætla ég að vita, hvort ég get ekki fundið Möller, því ég sé, að hann er þó heima; mér þykir líklegt, að hann ljúki upp.

Að svo mæltu gekk kaupmaður sama veg, sem hann hafði komið, og er hann gekk aftur fram hjá veggnum á húsinu, varð hann var við, að þar stóð maður við húsvegginn og fálmaði fyrir sér með höndunum, og sýndist honum hann líta svo út sem hann væri ekki með öllu létt gáður. Kaupmaður gekk til hans, en undir eins og maðurinn kom auga á kaupmann, tekur hann þannig til orða:

Hver ert þú, rýjan mín?

Kaupmaður sagði til sín. Hann þekkti þegar manninn og sagði:

Nú, það ert þú, Jón minn! Hvernig stendur á ferðum þínum?

Ég skal segja yður, sagði Jón hálfdrafandi, af því þér eruð dánumaður og vænn maður, ég skal segja yður, ég er ofurlítið kenndur, ég skal segja þér, eða réttara sagt yður, hvernig var, ég fékk nokkur staup hjá garminum honum Gvendi, og því er ég ögn hýr, en ekki er ég drukkinn, fari það bölvað.

Já, ögn hýr, mátulega hýr, hélt Jón áfram.

Ég sé það, að þú ert kenndur; en ég spurði að því, hvert þú værir að fara.

Já, nú skil ég, nú, ég skal segja þér það, greyið mitt, yður, ætlaði ég að segja, þér fyrirgefið mér það, kaupmaður góður! Ég skal segja yður eins og var, ég ætlaði að gefa honum Möller hérna á hann; þetta er fantur, en þér eruð dánumaður, og það hef ég alltaf sagt; skoðið þér nú til, hann hefur skrifað, skrattinn sá arni, fjóra potta af estras í reikninginn minn, en fari ég í sjóðbullandi, ef ég hef tekið nema þrjá og einn kvart; já, það er nú það.

Rétt í því Jón sagði þetta, var stofudyrum Möllers lokið upp, og kom þar út kvenmaður, það var Guðrún; en er hún verður vör við mennina þar fyrir utan, verður henni hverft við og tekur til fótanna og skýst fram hjá þeim. Jón kom auga á hana, en með því að hann var nokkuð voteygður af brennivíni og sá ekki nema í þoku, gat hann ekki greint, hvort það var karl eða kona, sem skrapp fram hjá honum, og líkast til hugsaði hann það vera Möller, sem út kom, og þýtur sem elding á eftir Guðrúnu út í myrkrið, blótandi og ragnandi.

Kaupmaður L. skipti sér ekki af Jóni, en gekk til stofudyra og fann, að þær voru ólæstar, því Guðrún hafði verið svo flumusa, að hún gætti ekki að loka á eftir sér. Kaupmaður gjörir sig heimakominn og gengur inn og allt innar að svefnhúsdyrunum; hann ber hægt á dyrnar og lýkur þeim síðan upp, áður en honum væri gegnt; sér hann þá í herberginu, að staup standa þar á borði, en Sigríður situr náföl í legubekknum, og kaupmaður Möller stendur þar ekki alllangt frá á gólfinu með hönd á brjósti sér og á öðru hné álíkt því, þá er heiðnir menn forðum féllu fram fyrir blótstöllum sínum og lutu goðum sínum. Möller varð, sem nærri má geta hverft við er inn var komið en kaupmaður L. lét sér ekki bilt við verða og kastar kveðju á Möller og segir síðan hálfhlæjandi á danska tungu:

Nú furðar mig ekki á því, að þú hefur ekki fyllt flokk okkar á skytningi í kvöld; en varaðu þig á því, að ég segi ekki konunni þinni eftir þér, þegar ég finn hana.

Möller áttaði sig fljótt, en brást reiður við orð L. kaupmanns og kvað það fjarri góðum siðum að læðast inn í hús manna sem þjófur og koma flatt upp á menn.

Ekki grunaði mig það, sagði kaupmaður L., að þú mundir taka svo illa gamanyrðum mínum; en fyrir því, að þú hefur snúist þannig undir þetta mál, þá skaltu og vita, að ekki þykir mér það sóma sér vel fyrir þig, sem ert maður kvongaður, að draga á tálar einfalda og saklausa stúlku, sem er óvitandi um hagi þína; en að öðru leyti virðist mér réttast að láta þetta mál niður falla. En yður, jómfrú Sigríður, sýnist mér sæmra að ganga út héðan og tala við Indriða fornvin yðar, sem hér er kominn og stendur hér fyrir utan, en að taka ástarhjali kvongaðra manna.

Sigríður stóð upp þegjandi og gekk út í skyndi, en kaupmenn urðu þar eftir og kýttu um þetta. Þegar Sigríður kom út fyrir anddyrið á stofunni, kemur Indriði þar hlaupandi í flasið á henni, og verður þeim báðum í fyrstu svo bilt við, er þau þekktu hvort annað, að hvorugt gat um stund komið upp nokkru orði; en þegar Sigríður loks mátti mæla nokkuð, segir hún:

Hvernig stendur á, að ég sé þig hérna, Indriði minn? Guði sé lof, að ég fékk núna að sjá þig; ég held hann hafi sent þig til að hjálpa mér, hann hefur ætíð veitt mér lið, þegar mér hefur legið mest á; en segðu mér, hvaðan ertu kominn?

Ég hef verið hérna fyrir sunnan í vetur, síðan ég fékk frá þér bréfið í haust.

Hvaða bréf? Ég hef aldrei sent þér neitt bréf; og hvernig átti ég að þora það að skrifa þér til? En ekki ber ég á móti því, að einu sinni var það, að mig langaði til þess, að þú hefðir viljað tala við mig; en þá hafa líkast til þeir, sem þér voru næst skyldir, ekki hvatt þig til þess.

Þú segist aldrei hafa skrifað mér til? sagði Indriði. Segðu mér þá, Sigríður mín, hvernig stendur á þessu bréfi? - Hann rétti þá að henni bréfið.

Það veit ég ekki, svaraði Sigríður, en þú mátt trúa mér til þess, Indriði að ég hef aldrei skrifað þér eina línu eða séð neinn bókstaf frá þér.

Þegar Indriði heyrði þetta, datt í fyrstu ofan yfir hann og þagnaði við, eins og hann gæti ekki komið því fyrir sig, hvernig á þessu stæði; en síðan greip hann höndina á Sigríði og segir:

Ég er sannfærður um, Sigríður mín góð, að þú getur ekki skrökvað að mér; og þó að ég ekki að þessu sinni geti áttað mig á því, hvernig á því getur staðið, að forlögin alltaf hafa verið að flytja okkur hvort frá öðru og skilja okkur meir og meir, hef ég þó aldrei getað trúað því, að þú vildir ekki oftar sjá mig, eins og þarna stendur í bréfinu.

Sigríður greip þá þegjandi um hönd Indriða og starði á hann, og sá hann, að tárin komu fram í augun á henni; en ekki gat hún komið upp neinu orði; og enginn, sem þá hefði séð Sigríði, mundi hafa getað misskilið Sigríði og séð, hvað hana langaði til að segja. Indriði tók þá aftur til orða, um leið og hann leit framan í hana:

Sigríður mín góð! Ég sé nú, hvað þú hugsar; guði sé lof fyrir það, að ég er hér á þessari stundu; ég sé, að þú lítur mig með hinum sömu ástaraugum sem fyrri; og sé það svo, að hér hafi verið lagðar fyrir þig þær snörur af vondum mönnum, er þú skyldir í falla, þá er ég nú sannfærður um, að guð hefur opnað augu þín svo, að þú sér hættu þá, er þér var búin.

Það getur þú verið sannfærður um, sagði Sigríður, að á þessu kvöldi hef ég séð, hver ráð voru lögð af þeim, sem voru mér illviljaðir, og er það ekki mín forsjá, heldur þess, sem styður veikan vilja, að ég hef hjá þeim komist; en látum okkur ekki eyða fleiri orðum um það. Vegur sá, sem liggur frá freistingum heimsins og glaumsins til hrösunarinnar og lastanna, er skammur; guði sé lof fyrir það, að ég bar gæfu til þess að sjá, hvar ég var stödd, þegar ég var komin á hann; en þá er það og best að rífa sig frá glaumnum og sollinum, er máttinn vantar að standa fyrir strauminum; ég fer burt héðan; ég vona til þess, að þú hjálpir mér til að komast austur og skiljir ekki fyrr við mig.

Nei, sagði Indriði, guð gefi, að ég þurfi aldrei að skilja við þig, fyrr en dauðinn aðskilur okkur.

Ó, guð gefi það, sagði Sigríður; og þessi orð staðfestu þau Sigríður og Indriði með heitum kossi.

Eftir það gekk Sigríður heim og ræddi ekki um, hvað gjörst hafði; en Indriði fann kaupmann L. að máli um kvöldið, og sagði þá hvor öðrum frá öllum atburðum, er gjörst höfðu; en daginn eftir kom kaupmaður L. að máli við þau húsbændur Sigríðar og sagði þeim á laun frá, hvernig á stæði, og bað þau leyfa, að Sigríður færi þegar til hans, og brugðust þau vel undir; en ekki kom Möller að máli við Sigríði eftir þetta, og fór Sigríður svo úr Víkinni, að kveðjur þeirra Guðrúnar og Sigríðar urðu fáar.

Þau Indriði og Sigríður voru í Hafnarfirði, það sem eftir var vetrarins; en um vorið, þegar vegir voru orðnir færir, bjuggust þau til austurferðar. Þeir Indriði og kaupmaður L. skildu með vináttu. Fylgdust þau nú öll austur, Indriði, Sigríður og Ormur; og segir ekki af ferðum þeirra, fyrr en þau komu einn dag síðla að Indriðahóli, og var þar tekið á móti þeim með mesta fögnuði. Það fréttu þau á Hóli, er gjörst hafði í héraðinu og mestum tíðindum þótti sæta og fjölræddast manna á milli, og var það eitt, að Búrfells Guðmundur var kvongaður og hafði fengið ríkt kvonfang og gott, að því sem flestir menn sögðu þar um sveitir. Þetta hafði atvikast svo, að hið sama sumar, er Indriði fór að leita unnustu sinnar Sigríðar, fór Guðmundur að ráði Bárðar fóstra síns í kaupstað á Vopnafjörð með smjör, ull og tólg, er skyldi seljast fyrir skildinga. Guðmundi farnaðist vel ferðin, uns hann kom að kauptúninu. Hann reið hesti meinfælnum, og þá er hann átti skammt til bæjarins, lá leiðin yfir trébrú eina litla; en er hesturinn kom á brúna, ærðist hann undir Guðmundi, svo hann féll af baki og fótbrotnaði. Fylgdarmenn hans fluttu hann til kaupstaðar og komu honum þar fyrir hjá verslunarstjóra einum, sem Egill hét. Greri fóturinn seint, og lá Guðmundur lengi í sárum. Egill var maður álnaður vel. Hann átti dætur tvær, og hét hin eldri Rósa; hún var þá gjafvaxta og þótti vera svarri mikill. Hún hafði getið barn við manni einum þar í sveitinni, þó lítils háttar. Faðir hennar undi því allilla og vildi fyrir hvern mun gefa hana góðum búhöld. Egill lét Rósu stunda Guðmund í legunni, og fórst henni það vel. Réðist það þá með þeim Agli, Rósu og Guðmundi, að Guðmundur skyldi fá Rósu, og hét Egill að gjöra dóttur sína vel úr garði. Hvataði hann nú svo mjög að þessu ráði, að þegar voru lýsingar úti, áður Guðmundur var algróinn sára sinna. Brúðkaup þeirra Guðmundar og Rósu var haldið á Vopnafirði í góðu gengi, en síðan riðu þau heim til Búrfells, og tókust ástir þeirra eigi ólíklega í fyrstu. Bárður lét sér fátt um finnast; þótti honum sem var, að ekki hefði hans ráða verið leitað, þar til Guðmundur sagði Bárði, að Rósa ætti í vændum þrjú eða fjögur kot og mál manna væri það, að Egill ætti skildinga og hefði heitið dóttur sinni heiðarlegum heimanmundi.

A Hóli fréttu þau systkin einnig, að Ingveldur móðir þeirra hafði fyrir þrem vikum tekið sótt og var mjög þungt haldin. Ormur reið þegar um kvöldið yfir að Sigríðartungu, en Sigríður var orðin svo þreytt af ferðinni, að hún treystist ekki að fara með honum um kvöldið, en bað hann að segja, að hennar væri þangað von snemma morguninn eftir. Þegar Ormur kom að Tungu, var móðir hans mjög svo máttfarin, en hafði alla rænu, og glaðnaði mikið yfir henni við komu Orms sonar hennar. Ormur sagði henni frá, hvað tíðinda hafði orðið um þau Indriða og Sigríði um veturinn og að þau væru austur komin. Ingveldur spurði undir eins að, hvort hún mundi ekki eiga von að sjá þau, og sagði þá Ormur sem var, að þau hefðu gjört ráð fyrir að koma þar næsta dag. Líður svo nóttin, en um morguninn, skömmu fyrir dagmál, sást til þeirra Indriða og Sigríðar; og er Ingveldi var sagt það, skipar hún stúlku þeirri, sem hjá henni var og veitti henni þjónustu, að taka tvo kistla, er þar voru í sængurherberginu, og setja fyrir framan rúmstokkinn hjá sér; síðan lét hún hana hjálpa sér til að færast ofar í rúminu og reis svo upp við höfðalagið og beið þeirra svo. Þegar þau Indriði komu, gengu þau að sænginni og heilsuðu Ingveldi með kossi, en hún benti þeim að setjast á kistlana, og gjörðu þau það. Það var eins og þeim yrði öllum orðfall dálitla stund; Sigríður sá, að veikindin höfðu gengið svo hart að móður hennar, að hún var orðin harla torkennileg í andliti og nærri því ekkert nema beinin, augun döpur og hendurnar magrar og æðaberar. Sigríður starði um hríð á móður sína, en klappar síðan með hendinni á höndina á henni, sem hún hafði lagt fram á stokkinn út undan fötunum, og segir:

Ósköp er að sjá, hvað þér eruð orðnar óþekkjanlegar, móðir mín góð!

Ójá, elskan mín, það má nú nærri geta eftir allt, sem ég hef tekið út, og guð veit, hvað ég á nú eftir ólifað; en hamingjunni sé lof, að ég fékk að sjá þig; ég segi þér það satt, Sigríður mín, ég átti ekki aðra ósk eftir óuppfyllta í þessum heimi en þá að tala við þig, áður en ég dæi, og þá aðra, að guð vildi bæta úr því, sem ég hafði gjört þér rangt. Maður trúir því ekki, meðan maður er heilbrigður; en sá tími kemur, þegar maður veit, að maður á ekki annað eftir en að stíga ofan í gröfina, að maður getur ekki látið vera að líta á það, sem maður hefur gjört, og það er vel, þegar guð gefur manni rænu til þess; og þá vildi maður, að margt væri ógjört, sem gjört var, en að maður mætti skilja hér við sáttur við alla menn. Guð hefur nú upfyllt báðar óskir mínar, og ég skammast mín ekki að biðja þig fyrirgefningar á því, að ég var þér ekki, eins og ég skyldi vera, góð móðir.

Sigríður gat ekki svarað neinu fyrir tárum, en hallaði sér þegjandi ofan að hendi móður sinnar og kyssti hana; en Ingveldur tók aftur til orða og sagði:

Þreifaðu hérna undir koddann minn að framanverðu, þar finnur þú lyklana mína; ljúktu síðan upp skorna kistlinum mínum, þú þekkir hann.

Sigríður gjörði eins og móðir hennar bauð henni.

Þarna í handraðanum eiga að vera nokkur bréf, bundin saman með rauðum borðaspotta; þar er bréfið, sem þú sendir með henni Gróu, og láttu hana ekki gjalda þess, sem er að kenna henni móður þinni.

Ef ég get, móðir mín, skal ég heldur gjöra henni gott en illt; guð hefur snúið þessu öllu okkur til hins besta, og er ekki vert að minnast á það framar, sagði Sigríður og kyssti aftur móður sína.

Já, sagði Ingveldur, það verður að koma fram, sem hann hefur ákvarðað, en við mennirnir sjáum skammt, og okkar ráð mega sín lítils.

Af samtali þessu, er var nokkuð lengra en hér er ritað, má það sjá, hvaða breytingu hugarfar Ingveldar hafði tekið. Hún var nú þess hvað mest fýsandi, er hún áður hafði með öllum brögðum reynt að sporna á móti, og ekki lét hún sér annað líka en að þau Indriði og Sigríður færu undir eins að láta lýsa með sér, og var nú ákveðið, að fyrsta lýsing skyldi fram fara hinn næsta sunnudag eftir; en ekki auðnaðist Ingveldi að lifa þangað til, því hún andaðist einum eða tveimur dögum síðar en samtal þetta varð; var þá frestað lýsingunum og Ingveldur jörðuð, og gjörði Indriði útför hennar virðulega.

Eftir andlát Ingveldar tók Sigríður við búsforráðum í Tungu, og var Ormur bróðir hennar þar um sumarið. Indriði var þar og löngum og gætti til með þeim systkinum um utanbæjarstörf, en stundum var hann og að Hóli með föður sínum og þiljaði þar stofu allmikla. En er stofusmíðinu var lokið og slætti hallaði, fóru fram lýsingar með þeim Indriða og Sigríði, og var svo til ætlað, að brúðkaupið stæði að Hóli, og vildu þau hvata brúðkaupinu, áður Ormur færi til skóla, svo hann gæti setið veisluna. Fám dögum eftir að lýsingar voru úti var það einhverju sinni, að Indriði söðlar hest sinn snemma morguns og reið til Tungu. Taka þau Sigríður þá tal saman, og segir Indriði, að hann muni ríða í hérað þann dag og bjóða mönnum til brúðkaups - eða hversu mörgum viltu bjóða?

Því skaltu ráða, sagði Sigríður, en þó mundi ég svo á kjósa, að þetta boð yrði eigi óvirðulegra eða fámennara en veisla okkar Guðmundar míns heitins var um árið; eða hversu margir menn geta setið í hinni nýsmíðuðu stofu á Hóli?

Því nær 50 manns, sagði Indriði, og svo er skemma til á hlaði, og þar vil ég, að hinn óæðri lýðurinn og minni manna börn séu, en fyrirmenn í stofunni.

Þú og foreldrar þínir munu þegar hafa ráðið, hverjum bjóða skal af hvorumtveggja, vorum frændum og vinum og heldri bændum hér úr sveitum, og þarf ég ekki þar um að hlutast, sagði Sigríður, en þó eru þeir nokkrir menn, er ég vildi boðið hafa; en ekki veit ég, hvort þú hefur því við búist.

Indriði spurði, hverjir þeir væru, og svaraði þá Sigríður og brosti við:

Það er þá fyrst til að greina, að Gróu minni á Leiti vil ég láta bjóða; þó langt sé á að minnast, hygg ég, að ég hafi einhvern tíma heitið henni því, að hún skyldi vera í brúðkaupi mínu; og svo eru þeir Búrfellsfeðgar þess verðir, að ég bjóði þeim, þó eigi væri til annars en að þeir reyndu, hvort mjöðin væri svikin eða ekki.

Indriði hló og segir: Gróa vor er oss velkomin; en óvíst er, hvort þeir Búrfellsfeðgar þiggja boðið, og þau ein hafa viðskipti ykkar verið, að ég efast um, að þeir vilji sitja brullaup þitt.

Á það mál er sætst og bætt að fullu, svo að þeir mega vel við una, sagði Sigríður; þeir fengu 6 ær loðnar og lembdar, og eru það full manngjöld að fornu lagi, enda hygg ég, að það baksárið, er hann héðan fékk, sé nú fullgróið, þar sem hann nú er kvongaður og það hæfilega; ekki hef ég séð konu Guðmundar, en það mæla margir, að hún sé skörungur mikill og gersemi á mannfundum, og grunar mig, að henni muni fýsilegt að sækja boðið, og mun þá Guðmundur ekki mega heima sitja, og kemur þá að því, sem mælt er, að leppurinn verður að fylgja goðinu.

Indriði kvað sér það vel líka að hafa Búrfellsfeðga í boði sínu, ef þeir vildu þekkjast það.

Indriði dvaldi skamma stund í Tungu; ríður hann síðan um héraðið, sem ráð var fyrir gjört, og býður hann nú mönnum, og heita allir förinni. Hann kemur að Leiti og býður Gróu og Halli bónda hennar, og kvaðst Gróa ekki mundi láta þá för undir höfuð leggjast, en vart mundi Hallur bóndi hennar geta komið því við að sækja veisluna, enda væri þá enginn heima að gæta krakkanna, ef hún færi, annar en hann, og yrði þá annaðhvort þeirra heima að sitja. Þaðan ríður Indriði til Búrfells, og kemur hann þar á áliðnum degi; ekki sá hann þar manna úti; stígur Indriði þá af baki og bindur hest sinn á hlaði við hestasteininn og drepur síðan á dyr, og kom enginn til dyra. Grunar Indriða, að annaðhvort muni fátt manna heima eður að menn sitji í baðstofu og heyri ekki, þótt hann knýi á dyrnar, og vissi hann, að göng voru löng til baðstofu. Hann tekur nú það ráð, að hann gengur í bæinn allt að baðstofudyrum og guðar þar. Í miðjum göngum gengu á hægri hönd, þegar inn var komið, dyr að búri, og kom þar út kona ein ung, hvatleg og allmannvænleg; hún var svo búin, að hún var á klæðistreyju blárri, flauelsbryddri á börmum og ermum, og voru bryddingarnar svo breiðar, að nema mundi kvartili; hún var og í dökku klæðispilsi dragsíðu og hafði nýja léreftssvuntu röndótta, og voru á tvö göt ekki alllítil, er auðsjáanlega voru brunnin á af óhöppum; pilsið var að ofan óslitið, en faldurinn að neðan var því líkastur sem sæi í egg á langviðarsög. Treyjan var ógölluð og klæðið með slikjunni, eins og það hafði komið úr kaupstaðnum. Á öðrum handleggnum sá í hvíta skyrtuna, og stóð olboginn ber út úr henni, og hefur þar líklega sprottið saumur, en ekki hafði verið að gjört. Á hægri hendi bar konan hring og gull í eyrum, það voru nistishringir, og vantaði þó nistið í annan hringinn. Þessi kona var Rósa Egilsdóttir. Indriði hafði áður verið að smíðum í Vopnafjarðarkaupstað, og þekkti hann Rósu og var henni málkunnugur; kennir hann hana og heilsar henni, og tekur hún blíðlega kveðju hans og biður hann að ganga til stofu; gjörir Indriði það; sér hann þá, að nokkur vegsummerki höfðu orðið þar á Búrfelli um húsaskipan, síðan hann kom þar síðast, þó ekki væri alllangt síðan; áður hafði þar verið baðstofa hrörleg í 2 stafgólfum, en nú var hún 12 álna löng og undir súð og stofuhús lítið undir lofti, sem ekkert var áður. Rósa leiddi Indriða þangað og biður hann að taka sér sæti; en síðan tekur húsfreyja til máls og segir allskrafhreifingslega:

Það er langt síðan við höfum sést, Indriði minn! Þykir yður ekki furða að sjá mig hér í þessum paufum og í þessu greni? Kallið þér það ekki forlög að vera komin hingað upp í afdali?

Ójú, sagði Indriði, ekki ber ég á móti því, að ég hélt það ekki síðast, þegar ég sá yður á Vopnafirði, að ég mundi hitta yður hér. En hvernig kunnið þér við yður?

Æ, minnist þér ekki á það. Hafið þér litið hérna á grenið, og þá getið þér heldur ímyndað yður, hvernig ég, sem er borin og barnfædd í timburhúsum, muni kunna við mig niðri í jörðunni. Hafið þér nokkurn tíma á yðar lífsfæddri ævi séð aðra eins lundaholu?

Ég hef nú lengi vitað það, sagði Indriði, að hér á Búrfelli hefur peningum verið varið til annars heldur en húsabygginga; en þó sýnist mér nú orðin ærið mikil stakkaskipti á baðstofunni, síðan ég kom hér, og það er ekki út af eins óhræsislegt.

Hvað kom til þess, Indriði minn, sagði Rósa, nema að þegar ég kom hér og sá béað bælið, þá afsagði ég manninum mínum að skríða inn í það, ef ekki væri gjört að því. Mér sýndist líka, að Búrfellsmaurunum væri ekki betur varið til annars en að klöngra upp einhverri baðstofukofamynd, og þó hún sé ekki burðug, þá er hún þó skárri en háðungin hin, því það segi ég yður satt, að það var hér hætta að fara inn í hana. Þarna héngu raftarnir inn úr þekjunni ofan yfir rúmin fólksins, og moldarstykkin voru að hrynja ofan í bólið hans gamla Bárðar; lyktina og ódauninn tala ég ekki um, því það segi ég yður satt, það leið yfir mig hvað eftir annað, þegar ég kom upp á loftið og fann fýluna; en frambærinn er eins og hann var enn þá. Ég get ekki sagt yður frá því, hvað ég hef tekið út af því að snúast innan um þá hansvítis ranghala, en nú hef ég loksins nuddað manninum mínum af stað að útvega sér menn til þess að rífa niður þessa óhræsis kofa; ég vona, að enginn lái mér það. Ég sagði honum, að hann yrði að skaffa mér forsvaranlegt kokkhús og spísskammers, og það verður hann að gjöra.

Ég finn hann þá ekki heima, vænti ég, sagði Indriði.

Nei, sagði Rósa, honum dugði ekki annað en fara í morgun, því ég sagði honum það skýrt og skorinort, að ég yrði hér ekki einni nóttu lengur nema hann bætti úr brestunum. Þér hafið eitthvað, vænti ég, ætlað að finna manninn minn?

Lítið var nú erindið, sagði Indriði, það var einasta það, að ég ætlaði að biðja ykkur hjónin að sýna mér þá ánægju að koma fram að Hóli á laugardaginn kemur, því það er ásett, að þá verði þar brúðkaup okkar Sigríðar Bjarnadóttur frá Tungu.

Já, ég hef heyrt þess getið, að það sé búið að lýsa með ykkur, og ég fyrir mitt leyti þakka fyrir boðið og skal geta þess við hann, þegar hann kemur heim. Ég segi yður það, þér megið búast við mér, hvort sem hann eða aðrir koma hér af heimilinu. Þér gjörið svo vel og þiggið hjá mér kaffibolla, Indriði minn!

Indriði þakkaði fyrir gott boð. Gekk þá húsfreyja fram og kom aftur að stundu liðinni og færði Indriða kaffibolla, og drekkur Indriði, og fæst húsfreyja mest um það, að hvorki sé staðurinn svo ríkur, að það sé til „bakki“ að bera bolla á fyrir mann auk heldur tvíbökur til að bjóða með.

Síðan spyr Indriði húsfreyju, hvort Bárður gamli sé heima. Segir hún, að svo muni vera og muni hann að venju sitja í skemmu sinni. Kveður hann Rósu og gengur til skemmu og hyggst að hitta þar Bárð Búrfellsás. Skemman var opin, og sat Bárður á þrepskildi og fléttaði linda eður bandspotta einn, er hann hafði bundið í dyrustafskenginn.

Indriði heilsar Bárði, og tekur hann kveðju hans og þó heldur seinlega, og finnur Indriði það, að Bárður er ekki í sem bestu skapi. Tekur hann þá til máls og segir:

Svona eru iðjumennirnir, þeir eru ætíð eitthvað að starfa. Hvað eruð þér að flétta núna, Bárður minn?

Það er nú svona þarfaband fyrir mig, Indriði minn; ég held manni veiti ekki af, þó maður ætti það, þó ekki væri til annars en að hengja sig í. En hvað ertu nú að ferðast, Indriði sæll?

Ég er nú kominn áfram, sagði Indriði. Ég ætlaði að tala nokkur orð við þig, Bárður minn.

Já, já, settu þig þá hérna inn, ef þú vilt, á meðan; tylltu þér þarna á kistuna, ef þú ert svo lítillátur; ég hef ekki marga stólana að bjóða eins og þessi nýkomna frú, ég hef aldrei átt þá í búskapnum; ellegar ef þú vilt heldur, þá settu þig þarna á fletið mitt, það er ekki lús í því. Þú ert ef til vill ekki eins hræddur við lúsina eins og frúin hérna inni. Margt hefur nú skipst um, síðan þú komst hér síðast. Slíkt og þvílíkt ástand - sýnist þér það ekki? Sérðu ekki, að ég er kominn hingað með bólið mitt?

Jú, sagði Indriði. Sefur þú hérna úti, Bárður minn?

Ójá, ég flutti hingað rúmfataleppana mína í vor; mér leist að hrökklast hingað, þegar mér var ekki vært lengur í bæjarkofunum. Þær eru heldur ekki fyrir mig, þessar nýmóðins baðstofur; ég hef lengst ævinnar verið í moldarkofum; ég kann ekki að haga mér í þessum súðhúsum, þar sem ekki má hrækja frá sér, þó líf liggi við. Þú hefur víst komið hér inn og séð, að hér er allt orðið spánýtt, síðan þessi fallega kona kom hingað, sem þeir nörruðu hann Gvend minn til að glæpast á til þess að eyða og spenna þessum fáu álnum, sem hérna voru til. Komstu ekki í stássstofuna?

Jú, sagði Indriði, hún bauð mér inn í húsið.

Húsið! Já, það er nú meir en hús! sagði Bárður og hristi höfuðið, fjögra álna löng stofa með stólum og borði og sex rúðna glugga, ekki nægðu fjórar. Já, guð hjálpi mér, nú er sem sé komin stofa á Búrfelli. Hver mundi hafa trúað því? Nýir siðir koma með nýjum herrum. Ekki veit ég til, að hér hafi verið stofa áður á Búrfelli, en flestir hafa átt eitthvað ofan í sig, sem hérna hafa hokrað á undan mér; og nýtt er það, Indriði minn, að eiga enga sköfu undan sumri og enga lúsarögn af skyri nema lapþunna ólekju í einu keraldskríli; en hvað er um að tala, það er eldur, eilífur eldur í öllu, sem hún fer með, þessi Rósa; það sór hann Gvendur sig um við mig hérna um daginn - ég segi þér það svo sem til dæmis - að ekki gat hann eignast einn skilding úr kaupstað í sumar út á þetta litla, sem hann hafði meðferðis; það var sjálfsagt ekki annað en það, sem gjörist, reyturnar af gemlingunum og nokkrir tólgarmolar; þá var ekki tekið annað út en tómur béaður óþarfi, klútaskræpur og léreftsbætur. Ekki man ég, hvað ég heyrði um það, hvað margir klútarnir voru; það voru býsn. Síðan er þessu bruðlað sínu í hvern, sem er í vinfenginu hjá henni, en sumt liggur í kökum hingað og þangað um bæinn; og þó er einna sárgrætilegast að vita, hvernig fer um feitmetisögnina. Þarna ganga allir í, boðnir og óboðnir, hundar og menn, og gott, hafi ekki einhver séð, að hnefastórum tólgarstykkjunum væri stungið undir pottinn, þegar gerseminu hans Gvendar hefur ekki þótt nógu vel loga í hlóðunum. Já, svona er það, Indriði minn, hvað skal hér um tala? Það er eins um smjörmeðferðina þessarar nýju konu eins og hann meistari Jón segir um ólán barnanna, að það er stærra en það taki nokkrum tárum.

Það sá Indriði, að Bárður karl glúpnaði mjög, þá er hann minntist á smjörið, og þagnaði við. Varð þá hvíld á samtalinu um stund, þar til Indriði ávarpar Bárð og segir:

Ég ætla þetta lagist, Bárður minn; þér hafið hönd í bagga með þeim; það orð hefur farið af fóstursyni yðar Guðmundi, að hann kunni að fara með efni sín eins og þér, og held ég, að þetta jafnist smátt og smátt.

Aldrei, aldrei, Indriði minn, sagði Bárður og hristi höfuðið. Það er komin hingað að Búrfelli sú kaupstaðarrotta, sem aldrei seðst og öllu eyðir, og ég hef sleppt fram af því beislinu öllu saman. Ég hélt það þó, að hann Guðmundur yrði samhaldssamur ekki síður en ég, en hann er satt að segja orðinn rétt forblindaður maður, auminginn, og sér það ekki; hann trúir á þetta goð og þorir ekki að draga andann öðruvísi en hún vill; enda er honum ekki annað fært, því annars rífur hún hann og tætir, svo honum er ekki við vært. Já, svona er það. Flestir kjósa firðar líf, og friðurinn er fyrir öllu, segir gamalt máltæki. Ég vildi helst vera frá því öllu saman, því hrökklaðist ég hérna út í skemmuskriflið með rúmbólið mitt og reyturnar mínar, sem eru orðnar litlar, því skepnurnar og hin fáu búsáhöld, sem til voru, fékk ég honum Gvendi mínum í vor, þegar hann byrjaði þenna merkilega búskap; og hér held ég láti fyrirberast, meðan ég tóri, og vildi deyja hérna, ef ég hefði frið til þess.

Þegar Bárður karl hafði flutt þessa tölu, stendur hann upp, tekur lyklakippu úr vasa sínum og gengur síðan að kúfforti einu, er stóð gagnvart rúmi hans og ekki langt frá sánum mikla, lýkur því upp og baukar í því um stund, dregur síðan upp úr því gamalt kjallaraglas og tinstaup; sýpur hann sjálfur á glasinu, og skenkir hann síðan á staupið og býður Indriða að bergja á. Indriði tekur við staupinu og sýpur á; tekur Bárður við því aftur og lætur niður í koffortið og sest á, en segir:

Svona er nú það, og svona er nú það. Ætlaðir þú nokkuð að finna mig, Indriði sæll?

Já, lítilfjörlega, sagði Indriði, en þó fór ég hingað til þess að bjóða þér, Bárður minn, að koma á laugardaginn, sem kemur, fram að Hóli, því þá er svo til ætlað, að við Sigríður Bjarnadóttir höldum brúðkaup okkar.

Já, það var gæfumunurinn. Ég hef frétt, að búið sé að lýsa með ykkur. Fara þau hjónin héðan?

Svo er til ætlað, sagði Indriði.

Nei, sagði Bárður, ekki fer ég þangað. Ég hírist heima í kofahróinu mínu, ef ég verð ekki dauður. Ég þakka þér samt fyrir tilboðið; ég er ekki fyrir útreiðarnar; en hún Rósa þiggur það, vona ég.

Eftir það stendur Bárður upp, tekur aftur hrosshársfléttuna, er áður var um getið, bregður henni aftur í kenginn og sönglar og tekur að flétta og hnykkir fast á við hvert bragð og tautar: Ég held ég fari ekki héðan af í veislurnar.

Indriði sér, að ekki muni verða meira af erindunum, og kveður hann Bárð.

Svo gefur hverjum sem hann er góður til, sögðu boðsmenn Indriða og Sigríðar, er þeir léttu blundi og litu út um gluggana laugardagsmorguninn í 21. viku sumars og sáu sól roða á fjöllum og heiðskíran himininn tjalda bláum dúki yfir héraðið, grösin og hin nývöknuðu haustblóm, en árdags andvarann leika sér að því að vefja hverja fjallahyrnuna eftir aðra með léttum þokulindum og sveifla þeim burt aftur. Allt var á tjá og tundri; konur klæddust, þvoðu sér og greiddu; reiðhestar voru heim reknir og tygjaðir, þá var stigið á bak, síðan þeyst sem klárarnir dugðu til að Hvoli; þar átti að pússa þau Indriða og Sigríði um daginn. Allan morguninn til dagmála var bærinn og kirkjan á Hvoli hulin í jóreyk og rykmekki, sem lagði upp úr bæjartröðunum. Skilaði smátt og smátt jóreykurinn öllum, sem komu, aftur: prestinum, brúðhjónunum og boðsfólkinu, en reiðskjótarnir stóðu sveittir og másandi, sumir bundnir á hlaði, en sumir í hestarétt. Þegar allt liðið var komið, það er að segja brúðkaupsskarinn, urðu menn þess vísari, að ekki vantaði aðra boðsmenn en þau Gróu á Leiti og þau Búrfellshjón, og fóru sumir að tala um það, að ekki mundi þurfa að bíða eftir þeim, sem enn væru ókomnir; en er menn töluðu þetta með sér, varð einhverjum litið út á melana fyrir neðan túnið og sagði, að þar væri eitthvað kvikt á ferð; sáu nú fleiri til og urðu í fyrstu ekki ásáttir um, hvað vera mundi, er þeir sáu eigi annað en hrúgald eitt, sem hægt og hægt mjakaðist eftir melunum og fór eigi harðara en skip undir skreiðarfarmi, er sígur í árartogum í andviðrisblábarningi. Gátu sumir þess, að 3 eða 4 menn riðu saman í þyrpingu og létu lötra; þeir, er skarpskyggnastir voru, sögðu, að ekki þyrfti á að líta, það væri gangandi maður, hefði hest í togi og reiddi 2 súrmjólkurkvartil eða annað skran, er hrúgaldaðist á hestinum. Ræddu boðsmenn þetta um hríð; en bráðum urðu þeir vísari hins sanna, er hrúgaldið færðist nær og leið heim að túninu. Sást þá, að þetta var Gróa og reið brúnum; gekk Hallur bóndi hennar fyrir og teymdi undir henni og bar barn á handlegg sér, en Gróa sat á hestbaki og þrímennti. Reiddi hún annað barnið í kjöltu sér, en annað reið að baki hennar, og var það þung byrði fyrir Brún gamla. Gróa steig af baki við túngarð og leiddi krakka sína til bæjar, og var henni þar vel fagnað. En Hallur bóndi hennar tjóðraði hestinn hjá túnhala.

Ekki komu þau Guðmundur og Rósa, og leið svo fram til jafnt báðum hádegis og miðmunda, að ekki sást neitt til þeirra; en um þetta leyti kom að Hvoli ferðamaður einn, er átti heima á næsta bæ við Búrfell. Kvaðst hann hafa riðið þar um og haft tal af griðkonum; höfðu þær getið þess, að maddama Rósa og Guðmundur ætluðu að ríða til brúðkaupsins, en vart mundu þau fyrr ferðbúin en um nónbil; hafði margt orðið tafsamt um morguninn; það fyrst, að hestarnir voru ójárnaðir; það annað, að þegar farið var að gæta að söðli Rósu, var hann móttakalaus og svo lamaður, að allir, sem á litu, sögðu hann að öllu óhafandi fyrir slíka konu. Sagði þá Rósa: Þú ræður því, Guðmundur, hvort þú lætur mig ríða á þófa sem aðra herkerlingu. - Var þá skotið hesti undir einn af heimamönnum, er snarfarastur var, og skyldi hann leita um byggðina, hvort ekki fengist söðull; en sá vandi var á, að söðullinn átti að vera með enska laginu, því Rósa fortók, að hún gæti látið það spyrjast um sig, að hún riði á mannfundi í íslenskum söðli. Guðmundi þótti í fyrstu sem það nægði, að það væri einhver laglegur kvensöðull, en ekki tjáði Guðmundi að klifa á því; svo varð að vera sem húsfreyja lagði fyrir. Þar var yngisstúlka á næsta bæ við Búrfell, er Sólrún hét; hún var skrautkona mikil og samdi sig mest í búningi eftir kaupstaðarbúum. Hún átti utanhafnarklút einn fagran. Hann var djásn mikið og dýru verði keyptur. Rósa hafði frétt, að þar um sveitir væri ekki til önnur meiri gersemi, og með því að fyrirtaksklútar maddömu Rósu fundust eigi allir, þó leitað væri um morguninn með logandi ljósi, tekur hún það ráð, að hún biður bónda sinn Guðmund að finna Sólrúnu og freista, hvort klúturinn hinn góði fáist eigi að láni til brúðkaupsferðarinnar. Guðmundur tók fátt á því í fyrstu, og vissu menn þau lok málanna, að þau hjón áttu tal um það einslega; en það heyrðu menn síðast, að Rósa sagði: Jæja, þú ræður því þá, Guðmundur, hvort ég sest aftur í dag. Þér mun þykja ég eiga svo skemmtilegt hérna á Búrfelli, að ég þurfi aldrei að fá að sjá almennilegan mann. - Við þetta labbaði Guðmundur þegjandi úr búrinu og gengur á hlað út, settist berhöfðaður á klár einn beislaðan, er þar stóð, og reið af stað og var ekki kominn aftur, þá er ferðamaður reið um á Búrfelli, og ekki heldur sá, sem sækja átti söðulinn.

Þegar það nú kvisaðist, að ekki mundi svo bráðlega að vænta þeirra Búrfellshjóna, tóku boðsmenn að knurra og kváðu, að best mundi að ganga til kirkju, því dagurinn liði, en það dragi í tímann að ríða fram að Hóli, og áður en allir verði setstir, verði komið undir miðaftan. Prestur varð var við knurr þenna; hann skrýddi sig í skyndi og skipaði djáknanum að kalla fólkið til kirkju og svo brúðhjónin.

Hann talaði, og það varð.

Á svipstundu þusti allt boðsfólkið inn í bæinn á Hvoli, og frammistöðumennirnir, er sögðu öllum fyrir siðum, skipuðu fyrir um brúðarganginn. Prestur stóð skrýddur fyrir altari með handbókina í annarri hendi og blöðin í hempuvasanum, en djákninn gekk aftur og fram í kórnum, spennti greipar og vissi, hvað hann var og hvað hann átti að gjöra, skara ljósin og hafa alla lögreglustjórn, þegar í kirkjuna var komið.

Þá hófst brúðargangurinn; var honum svo skipað, að fyrst gengu sex meyjar, og leiddust tvær og tvær saman; þá kom brúður, og leiddi prestskonan hana; þá brúðguminn, og leiddi hreppstjóri hann. Þar eftir leiddust yngismenn og yngismeyjar, tvö og tvö, eftir því sem kosningar höfðu orðið. Þá leiddu bændur konur sínar, en úlfshalinn varð á eftir, og í honum voru allir einstaklingar. Frá bæjardyrum að kirkju voru á að giska 30 faðmar, en brúðargangurinn - og því heitir hann brúðargangur - fer jafnan hægt og stillt, og eins var í þetta skipti. Meðan boðsfólkið var að komast út í kirkjuna á Hvoli, mundi herlið hafa farið 2 rastir vegar. Þegar komið var í kirkjuna, settist hver í sitt sæti. Þjónustugjörðin fór vel fram; síra Tómas og djákninn, sem báðir voru bogavarir, eftir það Sigríður síðast sást á brúðarbekknum, gættu að öllu sem best; en ekkert varð nú að fundið. Úr kirkjunni gengu menn aftur brúðargang sem áður til kirkju, nema að nú leiddi Indriði konu sína.

Þá er vígslunni og brúðarganginum var lokið, tvístraðist boðsfólkið; fóru boðsmenn að leggja á hesta sína, því nú skyldi ríða fram að Hóli til brúðkaupsins. Brúður settist á pall hjá öðrum konum og beið þar þess, er hestur hennar var söðlaður, og tók sér sæti á rúmi einu, og var fátt manna inni, er allir voru í burtbúnaði. Gróa á Leiti kom þar til hennar og var nú með alla ungana að baki sér. Kveður hún Sigríði blíðlega, og tók Sigríður vel kveðju hennar. Síðan tekur Gróa til máls og lætur hvað reka annað:

Heilsaðu konunni, Gunna, þú Sigga, og þú líka, komdu Jónsi, heilsaðu konunni, þú ert alltaf svoddan heimótt! Þetta er hún Tigga þín, sem þú hefur verið allajafna að stagast á og gaf þér sykur. Hann mundi það, púttinn sá arni, Sigríður mín, að þú tróðst upp í hann stóreflis sykurmola einhvern tíma hérna við kirkjuna. Já, þarna sérðu nú, Sigríður mín, öll króaskinnin. Það verður örðugt að klekja þeim upp, ormunum þeim arna. Einn anginn varð að vera eftir heima, og gekk þó ekki á góðu, en þessa angana ætla ég ekki að tala um; þeir héngu á mér í allan morgun, þegar þeir vissu ég ætlaði að fara. Þeir eru svo hornvítis skynugir, greyskammirnar þær arna, að ég gat með engu mögulegu móti slitið þá frá mér. Þeir eltu mig, hvað sem ég fór, og varð ég svo að hnosa þeim með mér hingað fram eftir.

Þau eru alls staðar velkomin, blessuð börnin, sagði Sigríður.

Ég vissi það nú ætíð, sagði Gróa, að þú mundir ekki amast við, þó ég tæki þau með mér. Æ, ég held ég verði að setja mig hérna á kistilinn hjá þér. Já, nú hefur margt drifið á dagana, síðan við sáumst seinast. Ég held það hafi verið hérna við kirkju; en ekki kom ég hérna í hitt hið fyrra, þegar tilstandið sællrar minningar var, og sagði hún Ingveldur mín heitin mér þó að koma. Það gilti líka einu; ekki var það þar fyrir, en það lagðist einhvern veginn í hömina á mér, að það ætti ekki að fara svo, sem betur fór, að hann Gvendur á Búrfelli yrði maðurinn þinn, elskan mín; en nú er hann kominn í sessinn. Ég skal segja þér frá því síðar, Sigríður mín. Þú hefur, vænti ég, ekki heyrt mikið af því? Já, slíkt og þvílíkt! Fátt er best um flest. Ég tala ekki neitt og læt ekki hafa neitt eftir mér, en þar fékk hann hnapphelduna, sem heldur. Ég skal segja þér það allt saman, þegar við höfum tóm til. Guði sé lof, að þú fórst aldrei að Búrfelli, elskan mín. Það réðist eins og það réðist og ég einhvern tíma sagði henni Ingveldi minni heitinni; guð hvíldi hana skepnuna; margur má þess sakna og ekki síst ég.

Við þessi orð kom kjökurhljóð í Gróu, og mátti hún þá varla vatni halda heldur en hirðmenn Magnúsar konungs góða, er hann var jarðaður.

Það held ég hana hefði gilt einu, þó hún hefði lifað núna og verið hérna í dag, sagði Gróa, en hvað skulum við hér um tala, segir hann meistari Jón, allrar veraldar vegur víkur að sama punkt.

Við skulum ekki tala meira um þetta, sagði Sigríður, þú kemur einhvern tíma eftir helgina fram að Tungu. Hún móðir mín ætlaðist svo til, að ég greiddi eitthvað fyrir þér. Það var seinasta bónin hennar, og hana ætti ég að gjöra.

Gróa blóðroðnaði og þagnaði um hríð, en roðinn hvarf smátt og smátt, og er það haft í mæli, að hún hafi síðar sagt vinum sínum, að svarið hefði verið til, en þá hefði hún ekki þurft á því að halda. Í því bili kom Indriði að pallinum, þar sem konurnar sátu, og segir konu sinni, að nú séu hestar þeirra söðlaðir og mál sé að ríða. Sigríður stendur þá upp og segir um leið brosandi:

Ég ætla að biðja þig, Indriði minn, að segja svo fyrir, að vel fari um hana Gróu okkar og krakkana hennar; þú lætur hann Hall vera hjá henni.

Frá Hvoli og að Hóli er góð bæjarleið og sléttir melar. Þangað skyldi nú boðsfólkið sækja veisluna, og var hún búin eftir bestu föngum. Reið nú hver, sem búinn var, til boðsins að Hóli. Sprettu menn drjúgum úr spori og reyndu gæðingana, og var það hin mesta skemmtun. Þegar að Hóli kom, var allt tilbúið, grauturinn kraumdi í pottinum, steikarefnið var soðið, og lummurnar lágu á diskum á búrhillunum og margt annað sælgæti. Bekkir og borð voru reist í veislustofunni og skemma tjölduð. Matreiðslukonurnar önnuðust um allt innanbæjar, en Ormur Bjarnason hafði séð um tilreiðsluna í veislusölunum, og var hann því ekki við hjónavígsluna á Hvoli, enda kvað hann sér enga nauðsyn til bera að hlusta á hana; hann vissi textann fyrir fram; hann mundi vera, eins og vant væri, eitthvað um kærleikann, trúfestina og hjúskaparhaldið, og kvaðst hann vita fullt svo vel skyn á því öllu sem síra Tómas, sem alltaf efaðist um allt, en engu treysti, eftir 6. kapítulanum, Fogtmanni og sálarparagraffinum.

Þá er menn höfðu sprett af hestum sínum og tekið sér hressingu, fóru frammistöðumenn að stinga saman nefjum um það, hvernig þeir skyldu skipa til sæta, og var það eigi alllítið vandaverk. Brúðhjónum var þegar vísað til sætis og svo presti og prestskonu. og svo nokkrum öðrum, er náskyldastir voru brúðhjónum. Í þessu berst sú fregn, að þau Búrfellshjón riði í hlaðið. Varð þá allmikil umræða meðal frammistöðumanna um það, hvar þeim skyldi til sætis vísa. Sögðu nokkrir, að þeim væri boðlegt að sitja innst og efst fyrir miðju borði í skemmunni, en í stofuna kæmist ekki fleiri en þar hefði verið til ætlað. Aftur sögðu nokkrir, að það væri ekki sæmandi að láta konu úr kaupstað og ekki uppalda í sveit, á léreftskjól, sitja innan um ruslaralýðinn í skemmunni. Enda þekktu þeir svo skaplyndi Rósu, að hún mundi eiga sammerkt við Hallgerði, að hún vildi engin hornreka vera. Um þetta efni greindi þá mjög á, frammistöðumennina, og urðu ekki á eitt sáttir. Orm Bjarnason bar þar að, er þeir áttu talið. Spurði hann þá að, hvað þá greindi á um. Sögðu þeir honum það, og mælti þá Ormur:

Hér skal ég skjótt úr skera. Signor Guðmundur og maddama Rósa skulu sitja í stofunni. Það er ekki orðavert. Ég skal sjá þeim fyrir sæti, líklega nálægt mér; hugsið þið ekki um það.

Þriðji maður hafði verið í förinni með þeim Búrfellshjónum, og kenndu hann allir og sögðu: Þar er þá Þorsteinn matgoggur kominn; sá er þó lengi seigur í sóknum.

Ormur var staddur á hlaðinu og hleypur til og tekur Rósu af baki, og var það allt um garð gengið, áður Guðmundur bóndi hennar hafði litið við og komið gömlu stígvélunum úr ístöðunum. Ormur heilsaði Guðmundi virðulega, en glotti þó við; það sá Guðmundur ekki. Leiðir hann síðan hjónin til stofu, og er Rósa hin kátasta.

Nú eru menn til sætis leiddir, og hlaut Gróa frá Leiti sæti í stofu, yst á hinum óæðra bekk, og líkaði henni það allvel, og hafa ólygnir menn síðan frá því sagt eftir Gróu, að það hafi hún séð mest vinskapsbragð Sigríðar sinnar, að hún var sett í stofuna. Þegar búið var að koma öllu boðsfólkinu fyrir, bæði í stofu og skemmu, sáu frammistöðumennirnir, að eitt sæti var þar í skemmunni afgangs næst dyrum. Var þá talað um, að Þorsteinn matgoggur gæti tyllt sér þar, þó ekki væri honum boðið.

Þorsteinn þáði sætið með þökkum, og kvaðst hann ekki vera betra vanur. En með því ekki voru fleiri borðfæri til en boðsmenn þurftu á að halda, sögðu frammistöðumenn, að hann yrði að reyna að nota sér hornspón og sjálfskeiðing, en ekki skyldi hann þurfa að deila vistum við aðra menn, því einn skyldi hann hafa fat og disk fyrir sig. Þorsteinn kvað sér það allvel líka, og sætið sagðist hann hafa hið besta, er þar væri gott aðdrátta; kvaðst hann mundi leggja toll á allan vistaflutning innar í skemmu. Voru nú vistir á borð bornar, og var fyrst grjónagrautur. Settu frammistöðumenn grautarskál eina mikla fyrir Þorstein; hún mundi hafa tekið vel mældar 10 merkur. Leist honum harla vel á og hreyfði því þegar, að best mundi fara að segja fyrir siðum og syngja borðsálminn. En frammistöðumenn sögðu, að svo mætti ekki vera, fyrr en búið væri að koma öllu í lag í hinni æðri stofunni, og féllust skemmubúar á það. Það stóðst líka á endum. Í því menn mæltu þetta, hóf síra Tómas sönginn í stofunni, og er forsöngvarinn í skemmunni heyrði það, stóð hann upp í sæti sínu, setti í skyndi gleraugun á nefið og kyrjaði borðsálminn.

Söngurinn fór vel fram og siðsamlega, og eftir það tóku menn til matar og ekki síst Þorsteinn matgoggur. Hann var ávallt einn um hituna og réðst á grautarskálina hina miklu; segir ekki af viðskiptum þeirra, en svo fóru leikar þeirra um síðir, að þeir sögðu, að hún hefði farið halloka fyrir Þorsteini. Því næst var steik fram reidd. Þorsteini var borið trog eigi alllítið, fullt af kjöti, og flæddi feitin yfir barmana eins og stórstraumsflóð á fjöru. Allir, sem sáu aðfarir Þorsteins, mæltu, að honum tækist aðsóknin allkarlmannlega. Fékkst hann við kjöttrogið alllíkt sem víkingar Norðmanna, er þeir réðu til uppgöngu á dreka blámanna, hjuggu á báðar hendur og hruðu skipið.

Matgoggur vo alla kjötbitana, fyrst hina feitustu, svo hina mögru, uns trogið var hroðið og hnútur og leggir voru gengnir fyrir borð sem Búaliðar forðum. Það fór samt líkt fyrir Þorsteini og Þorkeli þunna, sem kvæðið er um gjört. Þorsteinn sprakk á útgönguversinu, sem sé lummunum.

Eins og áður er greint, hafði Þorsteinn matgoggur áskilið sér rétt til að taka toll af öllum matarbirgðum, er fluttar væru til skemmunnar, og ekki síst af kornvörunni. Á lummurnar lagði hann mest. Hver lummudiskur, sagði hann, er fram hjá fer og inn í skemmuna, skal gjalda 6 bleðla með sírópi og sykri á. Það er lagaleiga hjá kaupmönnum.

Allir skemmubúar gjörðu góðan róm að máli Þorsteins. Matgoggur tók og tollana greinilega, og varð það svo mikill forði, að hann nauðugur gekk frá leifðu.

Þegar borðsálmurinn var sunginn, hné hetjan og hallaðist að skemmugaflinum, þar sem hann hafði setið um daginn, lét augun aftur og sofnaði; en þess hafa greindir menn getið, er við voru, að kvöldbæn hans hafi verið þannig: Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta. - Það höfum vér frétt með sönnu, að Þorsteinn komst til hvílu með góðra manna tilstyrk í makindum og allvel saddur, en hvort hann hefur fengið ósk sína uppfyllta næsta morgun, vitum vér eigi, og er hann úr sögunni eins og aðrir skemmubúar.

Nú víkur því frásögninni til stofunnar, þar sem heldra fólkið og brúðhjónin sátu. Þar fór allt vel fram og lystilega. Síra Tómas stýrði söngnum og öllum siðum vel og vandlega. Þar var fyrst grautur á borð borinn, eigi almennur grautur, heldur hrísingrjónagrautur. Meðan menn skeiðuðu grautinn, var alþjóðleg þögn í stofunni; svo var grauturinn góður og spakmáll. Nú varð nokkuð vopnahlé, og fóru menn að taka sér neðan í því, því nóg var fram reitt af öllum ölföngum. Gjörðist þá glaumur mikill í veislusalnum, og getum vér ekki talið allt, sem talað var, meðan staupin og steikin og pönnukökurnar - því þar voru engar lummur sem í skemmunni - fóru í kringum borðið. - Brúðhjónin, sátu á brúðarbekki með alvörusvip, eins og vera ber, er menn koma í þann sess, er í skal sitja alla ævi, þar til dauðinn skilur; en auðséð var af augum beggja brúðhjónanna og ekki síst Sigríðar, að hún og Indriði höfðu ekki verið brösuð saman af höndum Völundar veraldarinnar.

Hinn góði og guðhræddi postuli síra Tómas, er sat næstur brúðhjónunum, sá það án alls efa og vantrausts og svo, að hann ekki þurfti að þreifa fyrir sér, að ást og ánægja höfðu fyrir löngu 'byggt sér sterkan stað` í brjóstum nývígðu hjónanna.

Nú eru þau Indriði og Sigríður þetta kvöld því nær úr sögunni; aðeins glöddu þau sig af því að veita boðsmönnum sínum vel og ríkmannlega og horfa á gleði þeirra og siðsama skemmtun, síðan af því að fara að sofa og láta frammistöðumenn ráða öllum eftirdrykkjum, eftir því sem hverjum geðjaðist að. Síra Tómas söng sálminn og sagði fyrir brúðhjónabollanum.

Indriði vék honum afsíðis einhverju sinni og velti í vasa sínum einhverju af því, sem meistari Jón kallar hinn þétta leir, og rétti að síra Tómasi. Vér vitum ekki, hvað það var mikið. Prestur tók við fénu, en mælti um leið: Þetta eru ósköpin öll, Indriði minn! Það er gjöf, en ekki gjald.

Nú mun flestum fýsilegt að heyra, hvernig Guðmundur Hölluson sat brúðkaup Sigríðar, sem eitt sinn var á árunum konuefni hans. Guðmundur og maddama Rósa hlutu einhver hin fremstu sæti í veislusalnum, eins og áður er á drepið. Ormur hélt öll heit sín vel og drengilega, eins og þegar Ásgrímur Elliðagrímsson tók við Njáli; lét hann tvo menn styðja Guðmund til sætis í stofu, fyrir því að Guðmundur hafði fengið riðu af reiðinni eins og Njáll af elli. Ormur leiddi Rósu til bekkjar í stofu, og féll viðtal þeirra létt og liðugt; sat Rósa þar mitt á milli lærifeðranna, Guðmundar bónda síns og Orms, og voru þeir að flestu ólíkir. Það er áður greint, að borðsálmurinn og grauturinn gjörðu þögn á þingi og að sálmurinn var góður og grauturinn spakur við alla, og var þar ekkert þóf, nema skeiðarnar glömruðu dálítið við bræður sína djúpu diskana. Í þann tíma varð fátt til tíðinda með þeim sessunautunum, maddömu Rósu, Guðmundi og Ormi, utan það Guðmundur gjörði grautnum góð skil og sagði sem Halli, að hann væri góður matur; og er hann gjörðist heldur heitur, tók Guðmundur bakföll mikil og spyrndi fast í borðstólpana sem bestu ræðarar, og var eigi örgrannt um, að hann kæmi óþægilega við klæðafald konu sinnar; orsakaðist hún til að segja, eins og venjulegt lagamál er til:

Hvað hugsarðu, maður? Ætlarðu, Guðmundur, að eyðileggja kjólinn minn með þessu béuðu fótasparki? Kanntu ekki að sitja í samkvæmi? Veistu ekki, að hér eru siðaðir menn og það aðrir eins og hann Ormur, sem hefur séð allt svo pent á Suðurlandi og er þar að auki stúdent?

Hún hnippar þá í sama bili í bónda sinn, og var það varúðarregla. Bóndinn hét bót og betrun og mælti fátt, er í frásögur sé færandi, en hætti að éta grautinn, þó sárnauðugur, af því sem varð séð af svip hans og öllu útliti.

Fyrir glaumnum í veislusalnum heyrðist ekki manns mál og því síður Búrfellshjónanna; en Ormur Bjarnason, sem var sessunautur þeirra, hlustaði og íhugaði allt það, er hann varð áskynja um hjónabandslífið, með svo mikilli athygli sem hinn goðumlíki Odysseifur, þá er hann kom úr leiðangri frá Trójuborg, settist á þrepskjöldinn og leit hóp biðla Penelópu konu sinnar, er sátu í salnum og átu mat hans og drukku af hans dýrasta víni, en hann ætlaði að vega þá næstu nótt.

Nú kom steikin í brúðarsalinn. Það er annar þáttur borðsögunnar. Hinn sami leikur gjörðist hjá systrum, bræðrum og svo öllum sessunautum. Frammistöðumenn gengu um kring og framreiddu fæðuna.

Guðmundur frá Búrfelli gleymdi því ekki að taka álitlegustu kjötbitana; en samt var eftir að vinna þá, svo hann fengi fullan sigur yfir þeim. Hann var vopnaður vel, því hann hafði sverð gott, spjót og skjöld steindan. En vopnin voru hnífur, matkvísl og diskur. Guðmundur var ekki nærri því eins fimur sem Gunnar á Hlíðarenda, að hann gæti kastað vopnum í loft upp og gripið þau síðan, áður en niður kæmi. Guðmundur vill þá reyna íþrótt sína; tekur hann þá matkvíslina tveim höndum og hóf hana mjög hátt; kom hún á diskinn og klauf hann að endilöngu; mörgum þótti það ekki rétt, að Guðmundur skífði svo hlífar sínar, en Rósu varð ekki annað að orðum en að gefa Guðmundi bónda sínum ílagsgott olbogaskot og segir um leið:

Hvað hugsarðu, Guðmundur? Hvaða rustíkus eða dónsi ertu? Gjörðu mér þetta ekki aftur, svo menn sjái.

Hvað þá! sagði Guðmundur. Mér varð þetta óvart; en þetta eru allt einber svik úr kaupmanninum.

Er það kaupmanninum að kenna, þó þú sért aulabárður? sagði Rósa.

Guðmundur ætlaði að svara einhverju, en kona hans hnippaði í hann og mælti svo: Berðu þig að þegja, góðasti, ef þú getur.

Ormur heyrði viðtalið. Gat hann þá ekki orða bundist og sagði hálfbrosandi: Með leyfi, maddama Rósa, má ég ekki leggja orð í tveggja manna tal?

Með mestu ánægju, herra stúdent Ormur.

Mér virðist þá, að þér séuð nokkuð ströng við manninn yðar. Signor Guðmundur segir það satt, þetta er allt sprunginn og fúinn fjandi, leirruslið, sem blessaður kaupmaðurinn flytur oss að framan. Þetta þolir ekkert. Mundi það ekki betra að afla sér trédiska úr Trékyllisvík eða Hornströndum, vel rennda úr rekavið? Þér sjáið, maddama Rósa, að ég get orðið prestur og prédikað nokkurn veginn, þó ekki sé ég stúdent enn.

Rósa þagnar um stund, en segir síðan: Ég er nú svo ===dönnuð===, að ég skil, fyrri en skellur í tönnunum.

Ormur ansaði engu, en bað frammistöðumenn hljóðlega að færa Guðmundi annan disk, fullan vistum, úr tini eða tré; hlýddu þeir því, og gjörðist nú ekki neitt sögulegt, þar til borð voru upp tekin.

Pönnukökum og öðru sælgæti gjörði Guðmundur bestu þegnskyldu, og var það ráðið með þeim Rósu og Ormi, að hann þyrfti eigi annarra vopna við en þeirra, sem eru á hvers manns hægri hendi, og tókst honum vel að beita þeim. Nú stóðu menn upp frá borðum, en þá var eftirdrykkjan eftir. Þá er síra Tómas hafði vel og guðrækilega sagt fyrir brúðhjónabollanum og brúðhjónin voru farin til hvílu, eins og áður er á drepið, skemmti hver sér og sínum vinum, og enginn varð vínskortur. Rósa reis nú úr sæti sínu og sagði hljóðlega:

Ósköp er það leiðinlegt, að menn skuli ekki geta dálítið lyft sér upp og dansað.

Þá sagði Ormur: Þér kunnið, maddama góð, að dansa, það veit ég fyrir víst, þar sem þér eruð upp alin í kaupstað. Á Bessastöðum lærum við ekki þess háttar, en ég hef við og við skotist til Reykjavíkur, og þar hef ég numið fyrstu aðferðina, og væri yður, maddama Rósa, skemmtun í því, að við færum að reyna einn snúning, þá skulum við koma á gólfið.

Maddama Rósa neitaði ekki góðu tilboði, og dönsuðu þau Ormur og Rósa saman um hríð, en aðrir gláptu á það sem tröll á heiðríkju, því slíkt hafði ekki sést áður í héruðum Austurlands. Þau Ormur og Rósa dönsuðu lengi, og fór þá yngra fólkið einnig að hoppa að dæmi þeirra, og varð þar af hin mesta skemmtun. Loks leiddi Ormur Rósu aftur til sætis, og þakkaði hún Ormi innvirðulega, en um leið og hún settist, sagði hún og stundi við:

Hvaða kvalræði haldið þér, Ormur, að mér sé ekki í því, að maðurinn minn kann enga agnarögn að dansa? Það hefur verið hugsað oftar um annað hjá honum Bárði gamla en að kenna dansleiki eða eitthvað, sem maður getur haft gaman af.

Hér er mikil bót í máli, maddama góð, svaraði Ormur; þér kunnið sjálf ágætlega að dansa, og þá getið þér smátt og smátt kennt honum það í heimahúsum.

Haldið þér virkilega, að það sé mögulegt, Ormur?

Sem ég er lifandi er það mögulegt fyrir yður, því ætli ekki það! Ég hef þekkt marga, sem lært hafa ýmsar listir, þó þeir væru eldri en signor Guðmundur, hvað sem máltækið gamla segir um þau efni.

Heyrðu nú, Guðmundur! sagði Rósa; hann Ormur, sem er útlærður að sunnan, segir, að ég geti kennt þér að dansa.

Guðmundur hafði setið grafkyrr, á meðan á dansinum stóð, og eins og aðrir gestir furðast feikilega og tekið ótal bakföll og bikara af víni. Hann gjörðist ölvaður, og er það ekki tiltökumál í samkvæmi. Hann svaraði spursmáli konu sinnar svo: Æ, ég held, að ég geti aldrei lært.

Vissulega, sagði Ormur, ég skal nú kenna yður, signor Guðmundur, fyrstu sporin, sem allir byrja á, það er ===galoppade=== á dönsku; konan yðar kennir yður hitt heima, það er að segja ===sagtevalsinn===.

Í þessu bili grípur Ormur Guðmund og dregur hann fram á stofugólfið og hringsnýr honum, þar til hann sundlaði og féll. Ormur reisti hann upp frá dauðum og færði hann að skauti Rósu og gat þess með mörgum fögrum orðum, að Guðmundur bóndi hennar væri efnilegur til dansleika; að sönnu hefði hann sundlað nokkuð á gólfinu, en þetta kvað hann ekki vera neinar nýjungar, því svo færi jafnan um þá menn, er fátt hefðu numið í æskunni, en síðan kæmust til hárra valda eða í góðan skóla. Rósa gat ekki hrundið ástæðum Orms og sór þann eið, að annaðhvort mundi hún segja skilið við Guðmund ellegar hann skyldi læra að dansa. Guðmundur hlýddi á eiðspjall konu sinnar og þagði, en sagði í hálfum hljóðum:

Hvað ætli hann Bárður fóstri minn segi, þegar ég fer að dansa á Búrfelli, en engin er til smjörskafan og allt er farið úr sánum?

Menn skemmtu sér vel og lengi fram á reginnótt við samtal og samdrykkju, og fór allt vel fram; en af því tunglsljós var, riðu flestir boðsgestir heim um nóttina. Einstöku maður, sem hafði tekið sér nóg eða næsta mikið ===neðan í því===, hallaðist á hestinum eða féll í arma móður sinnar; samt var það allt slysalaust.

Gróa varð kyrr með angana sína á Hóli og svo Þorsteinn, sem sálaðist um sinn í skemmunni af saðningu, eins og áður er um getið. Þau Búrfellshjón riðu einnig heim. Ormur leiddi þau til hesta, greiddi Guðmundi góða leið til ístaðanna og setti maddömu Rósu í söðulinn og minntist við hana, og var síðasta viðtal þeirra svo:

Rósa segir: Haldið þér, að ég geti kennt manninum mínum að dansa?

Já, sannarlega segi ég yður það, svaraði Ormur.

Þér verðið þó ekki svo ===óartugur=== að koma ekki við hjá mér, áður en þér farið suður?

Það er sjálfsagt, að ég kem við á Búrfelli; það er í leiðinni; ég fer ekki svo um.

Morguninn eftir reis Gróa úr rúmi, fyrr en Sigríður var komin á fætur, því Sigríður var í þetta skipti mjög morgunsvæf, venju fremur. En er þær höfðu tekið tali, sagði Sigríður:

Þú manst eftir því, sem ég sagði þér í gær, Gróa mín, að þú ættir að koma til mín einhvern tíma bráðum, og afsagði ég ekki að greiða eitthvað fyrir þér.

Já, það er nú eins og allt annað, elskan mín, tryggðin og trúfestin við mig; en ég veit ekki, hvenær ég get staulast fram eftir með krakkana, því ekki er búið á Leiti betra en svo, að við eigum eina meri fylfulla, sem varla getur gengið bæjarleið; svona er nú búskapurinn; það þekkir enginn, sem ekki hefur reynt það að vera fátækur.

Ég veit það, sagði Sigríður; þú getur ætíð fengið málsverð hjá okkur Indriða mínum, þegar þér liggur á, en hann annast núna svo sem vikuforða fyrir ykkur; hann Indriði minn afhendir það; en svo er hérna skildingur, Gróa mín - það var spesía - sem ég skulda þér, síðan þú barst fyrir mig bréfið forðum. Taktu við honum, og svo erum við sáttar.

Gróa tók við peningnum og kyssti Sigríði um leið. - Æ, ég skammast mín að taka á móti þessu öllu saman. - Hún strauk síðan dúki um augun - engir vita, hvort hann var drifhvítur eða flekkóttur - kvaddi síðan Sigríði sína og hét því að hitta hana og segja henni margt fornt og nýtt, er enginn skyldi hafa eftir sér, en ólygnir menn hefðu sagt henni.

Nú var brúðkaupi þeirra Indriða og Sigríðar lokið.

Um veturinn eftir voru þau Indriði og Sigríður að Hóli í góðum fagnaði, og tókust þeirra ástir góðar. Einu sinni, er á leið veturinn, kemur Indriði að máli við konu sína:

Það er ætlun mín, segir hann, að best muni vera fyrir okkur að fara að reyna búskapinn. Víst er um það, að hér erum við í góðra foreldra húsum; en réttast álít ég þó fyrir hvern ungan mann, sem hefur nokkur efni, að ráðast í eitthvað það, sem megi verða honum til gagns og sæmdar og fósturjörð hans til nota; og hver er þá vegurinn fegri og skemmtilegri en að reisa bú? `Því vænt er að kunna vel að búa, vel að fara með herrans gjöf`, og það eigum við að nema, og getum við þá treyst því, að jörð gefur arð eftir atburðum.

Ég fellst á það, sem þú segir, elskan mín! sagði Sigríður og klappaði með hendinni á vangann á manni sínum; en hvar ætlar þú okkur að fara að búa?

Margur mundi mæla það, að við þyrftum ekki að vera jarðnæðislaus, þar sem við eigum fjórar jarðir og allar vænar, sagði Indriði.

Ekki eru þær lausar sem stendur, og þó svo væri, mundi ég ekki hvetja þig til að taka nokkra af þeim, og lengi hefur mig langað til að vera hérna í sveitinni; en nú er hér ekkert jarðnæði laust.

Þá förum við að Fagrahvammi, sagði Indriði og brosti við.

Hvar er hann, heillin mín? sagði Sigríður. Þá jörð, man ég ekki til, að ég hafi heyrt nefnda.

Þú skalt fá að sjá hana einhvern tíma bráðum; við ríðum þangað einhvern tíma eftir sumarmálin.

Meira vildi Indriði ekki segja henni að því skipti; en einu sinni um vorið, þá er snjór var úr hlíðum leystur, en geirar grænir, lætur Indriði söðla tvo hesta og biður konu sína að búast til ferðar. Skulum við nú fara að sjá Fagrahvamminn, segir hann. Sigríður bjó sig sem hún ætlaði í kirkju, og brosti bóndi hennar að því, en segir henni þó ekki meira um áfangastaðinn. Stíga þau nú á bak, hjónin. En er komið var út úr túninu, þar sem gatan beygist ofan með túngarðinum og liggur ofan í héraðið, snýr Indriði hestinum á fjárgötur og fram í dal. Kátlegt þótti Sigríði þetta, en hugsaði, að þetta væri leikur einn af Indriða og til þess gjörður að fá hana með sér á skemmtireið, er veður var fagurt. Þau ríða nú fram dalinn, og var hann þá orðinn algrænn og næsta fagur um að líta. Loksins komu þau í hvamm einn fagran; það var fremst í landareign Indriðahóls; ekki hafði Sigríður þar fyrr komið, en þó kannaðist hún glöggt við sig, er henni varð litið yfir ána; blasti þar við Álfhóll og hlíðin, sem hún hafði setið hjá í forðum. Í miðjum hvamminum sté Indriði af baki og tók konu sína úr söðlinum. Landslaginu er svo varið, að hvammur þessi myndast af tveimur lágum grasbörðum, er girða hann á þrjár hliðar og skýla fyrir öllum vindum nema landsuðri. Fyrir neðan hvamminn liggja sléttar grundir, er í við hallar ofan að ánni. Áin rennur þar um sléttan farveg og er lygn, en nokkuð breið. Á þessa hliðina blasti við iðgræn hlíð, en tvö gil steypast þar hvítfossandi ofan af brúninni og falla saman lítið eitt fyrir neðan miðja hlíðina og mynda dálitla tungu. Eftir miðjum hvamminum rennur lækur, er sprettur upp undan stórum steini þar í hlíðinni fyrir ofan, en upp með læknum og upp úr sjálfum hvammsbotninum ganga smádældir, sem eru vaxnar aðalbláberjalyngi, eini og víðirunnum. Hvammurinn millum barðanna er rennisléttur, nema ofurlítill ávalur bali eður hóll í honum miðjum, fremra megin við lækinn. Hvammurinn er svo víður, að vel mætti búa þar til tíu kúa tún eða meira. Grasið í hvamminum var eins og á öllu harðvelli, sem vantar rækt og áburð, harla lágvaxið en kringum steinana og þar, sem kindurnar hingað og þangað voru vanar að bæla sig, stóðu upp fagrir og þéttir grastoppar, grænir sem smaragð. Þar af mátti sjá, hvílíkur frjóvgunarkraftur lá þar dulinn í jörðunni.

Veðrið var blítt og hvammurinn ofur hýr, og því var ekki að furða, að blíða og fegurð náttúrunnar yrði að fá á hvern þann, er guð hafði gefið athugasöm augu og viðkvæmt brjóst til að skoða og dást að hans handaverkum. Indriði víkur sér þá að konu sinni og segir:

Elskan mín! Ég sé, að þér líst hér vel á þig. Þenna hvamm hefur guð ætlað til þess, að einhver skyldi búa í honum og gjöra grundina þá arna að túni, eða heldurðu ekki það? Þetta er nú Fagrihvammur, sem ég hef talað um við þig, og hvergi vil ég búa annars staðar en hér; skoðaðu, hérna á balanum sést enn fyrir tóftinni af húsinu mínu; nú verður að reisa það við og stækka það, svo við getum bæði verið í því, því nú skilur áin okkur ekki lengur.

Ónei, hjartað mitt, sagði Sigríður og hljóp í fangið á manni sínum og lagði báðar hendur um hálsinn á honum; þökkum við guði fyrir, að hann hefur látið æskuóskir okkar rætast.

Þau hjónin skemmtu sér um hríð og skoðuðu landið í og umhverfis hvamminn og riðu síðan heim, og sagði nú Indriði konu sinni greinilegar frá fyrirætlun sinni, að reisa þar bæ í hvamminum, og að faðir hans hefði gefið honum land þar fram um dalinn, og hefði þó Indriðahóll ærið landrými eftir. Sigríður féllst á þessa ráðagjörð; og þegar um vorið lét Indriði efna til bæjargjörðar og hafði að þeim starfa marga menn, og sjálfur telgdi hann viðu alla; en til þess að koma sem fyrst rækt í túnstæðið og afla sér áburðar til næsta vors, fékk hann af föður sínum að hafa selstöðu í Fagrahvammi um sumarið og hafði þar færikvíar á vellinum, en lét kýrnar liggja inni um nætur.

Um haustið var Indriði búinn að koma upp flestöllum bæjarhúsum, en ekki fluttu þau hjón þangað það haust, en höfðu þar um veturinn nokkra menn og allan þann pening, er þau áttu; og næsta vor eftir fór Indriði frá Tungu alfarinn, og var þá bæjarsmíðinni að öllu lokið.

Fyrstu tvö árin, sem þau Indriði og Sigríður bjuggu í Fagrahvammi, gátu þau ekki haft þar nema tvær kýr, en sauðfé höfðu þau þar margt. Indriði lagði mesta stund á að koma góðri rækt í túnið, og tókst honum það smátt og smátt; segja þeir svo frá, er komið hafa að Fagrahvammi, að þar sé einhver hinn snotrasti töðuvöllur, enda sé það auðséð á öllu utan og innan bæjar í Fagrahvammi, að þar búi góður efnamaður og þrifnaðarbóndi. En óskandi væri, að margur vildi gjöra það að dæmi Indriða og forfeðra vorra að nema þar land og reisa þar bú, sem enn er óbyggt á Íslandi; og víst er um það, að enn þá er þar margur fagur blettur óræktaður, sem drottinn hefur ætlað mönnum til blessunar og nota. Og ljúkum vér hér að segja frá þeim Indriða og Sigríði.