Tómas frændi/I

Úr Wikiheimild

TÓMAS FRÆNDI.


I. Heimsókn þrælakaupmannsins.

Það var að áliðnum degi í febrúarmánuði að tveir menn sátu á tali saman í skrautbúinni borðstofu á lystigarði einum í Kentucky fylki. Annar þeirra var íburðarmikið klæddur og drjúgur og raupsamur í máli. Það var þrælakaupmaður og hét Haley. Hinn maðurinn, herra Shelby (les Sjelby), var eigandi lystigarðsins og prúðmenni í allri framkomu sinni. Hann skuldaði þrælakaupmanninum stórfé, og voru þeir nú að gjöra upp reikninga sína.

„Tómas er fullkomlega þess virði, sem eg fer fram á að fá fyrir hann“, sagði Shelby. Hann er duglegur, ráðvandur, áreiðanlegur. Mér væri óhætt að trúa honum fyrir öllum eigum mínum; hann er kristinn“.

„Að svo miklu leyti, sem svertingi getur verið það,“ sagði Haley; „eg seldi einn garm nýlega, sem einnig var kristinn. Hann gat beðizt fyrir eins og prestur. Eg keypti hann fyrir lágt verð, og hafði tvö þúsund króna ábata á honum.“

„Tómas er sannkristinn,“ sagði Shelby. „Í fyrra haust sendi eg hann til Cincinnati í verzlunar erindum. Tómas, sagði eg við hann, eg reiði mig á þig, af því eg veit að þú ert kristinn. Eg treysti því, að þú bregðist mér ekki. Hann kom heim aptur með tvö þúsund krónur í vasanum. Einn af félögum hans spurði hann: því straukstu ekki til Kanada? Hvernig hefði eg átt að geta það, sagði Tómas, húsbóndinn bar svo gott traust til mín. — Mér þykir mikið fyrir að þurfa að láta hann; þér ættuð sannarlega að vera ánægðir með að fá svo góðan dreng fyrir þetta verð.“

„Það get eg ekki,“ sagði Haley, og dreypti á vínglasi sínu, „bætið þér við smádreng eða stúlkubarni, og þá getur það jafnað sig.“

Hurðinni var lokið bægt upp, og inn kom lítill, fjögra vetra gamall drengur. Það var framúrskarandi fallegur piltur með tinnusvart, silkimjúkt hár, eldsnör en þó blíðleg augu, og spékoppa í kinnum. Hann var laglega búinn í ljósleitum fötum, sem áttu vel við andlitsfall hans.

„Hó, hó, gaukur,“ kallaði Shelby og fleygði rúsínugrein til hans. „Gríptu þetta!“ Drengurinn greip rúsínurnar, en Shelby hló og brá fingrinum undir höku hans.

„Lofaðu manninum að heyra, hvernig þú syngur,“ sagði hann.

Drengurinn söng þegar í stað vísu þessa með skærri rödd og fagurri við angurblítt svertingja lag:

Eins og stormurinn hvín svo hátt,
harmarnir dynja á.
Sýngur negra drengur dátt,
dansar á hæl og tá.

„Ágætt,“ hrópaði Haley, og fleygði sin epli til hans.

„Sýndu nú líka, að þú kannt að dansa,“ sagði Shelby.

Drengurinn dansaði fram og aptur um gólfið, með rúsínugreinina í hendinni.

„Hann er kátur sá litli,“ hrópaði Haley ánægður, „látið mig fá hann með, þá erum við kvittir.“

Í þessu var hurðinni lokið upp, og ung kvarteron[1] stúlka kom inn í herbergið.

Það var fljótséð, að hún var móðir barnsins, þau voru svo lík. Hana grunaði, í hvaða erindum Haley mundi vera, og hún fyltist dauðans angist sakir barns síns. Hún var hraustleg og blómleg í útliti, og þrælakaupmaðurinn var ekki lengi að sjá, að hún mundi vera hin ákjósanlegasta verzlunarvara.

„Hvað viltu, Elísa?“

Fyrirgefið, herra; eg var að leita eptir Harry. „Og hún flýtti sér út aptur með drenginn á handleggnum.

„Þessi mundi ganga út,“ sagði Haley, „hún er minnst fjögur þúsund króna virði.“

„Hún er ekki til sölu,“ sagði Shelby þurlega, „konan mín vill ekki sleppa henni.“

„Látið mig þá fá drenginn.“

„Mér er ekki um að taka drenginn frá móður sinni.“

„En eg er góður við þræla mína, sjáið þér til, það verður maður að vera. Þeir verða að fá nógan mat, annars missa þeir holdin og lækka í verði. Eg er álitinn að vera einhver bezti svertingja salinn á markaðinum, þó skömm sé frá að segja,“ sagði Haley hróðugur mjög. „Eg slæ þá aldrei fyrir það, þótt þeir hríni og barmi sér,“ bætti hann við, „eg get ekki séð neitt illt í því, þó þeir hríni, það er náttúra þeirra, og hún verður að hafa sinn gang, og eg leyfi það.“ Eptir þessa mannúðar tölu tæmdi Haley glas sitt, auðsjáanlega mjög ánægður með sjálfan sig.

Shelby sat þegjandi.

„Nú, nú, hvernig eigum við svo að ljúka málunum? Fæ eg Tómas og drenginn? Já eða nei?“

„Eg ætla að tala við konuna mína,“ sagði Shelby og stundi þungan. „Komið þér aptur seinna í kveld.“

„En það vildi eg að eins sagt hafa, herra Shelby,“ sagði þrælakaupmaðurinn og stóð á fætur úr sæti sínu, „að þessum málum verður að ljúka fljótt, ef þeim annars á að ljúka í — góðu.“

Með þessari hálfgjörðu hótun tók Haley yfirhöfn sína og fór.

„Það hefði verið gaman að sparka honum út úr dyrunum,“ mælti Shelby fyrir munni sér.

Hann vissi að hann var skuldum vafinn, og þótt hann losnaði við Haley, þá voru skuldheimtumennirnir í öllum áttum. En Haley var verstur þeirra allra; hann gatsteypt honum á hverju augnabliki, og vægðar var ekki að vænta af honum.

„Kæri Tómas minn, trúlyndi þjónninn minn, hve hart er að þurfa að selja þig“: sagði Shelby í lágum hljóðum, hnugginn í bragði. „Og drengurinn, hinn glaðlyndi, litli Harry! Hvemig skyldi Elísa bera þann harm?

En hvernig sem hann velti þessu fyrir sér, sá harm enga leið til að bjarga þeim.

„Og konan mín?“ Hann tók að ganga fram og aptur um gólfið.

„Það er bezt að segja henni ekkert fyr en allt er afgjört, hugsaði hann, og leit á klukkuna, tók hattinn sinn og gekk út, til að svala hinu brennheita höfði sínu, og leita hægðar hinum órólegu tilfinningum sínum. Shelby var góður maður og vingjarnlegur við þræla sína, og honum hefði ekki dottið í hug að selja neinn af þeim, ef hann hefði eigi verið neyddur til þess, vegna skuldarinnar við þrælakaupmanninn.

Þegar Elísa gekk burt úr herberginu með drenginn sinn, hafði hún heyrt nokkuð af því, er Shelby og Haley töluðu saman, og af því réði hún, að Haley væri að fala einhvern til kaups af húsbóndanum. Var hann að bjóða í drenginn hennar? Hún fékk ákafan hjartslátt, og þrýsti drengnum svo fast upp að sér, að harm leit á hana öldungis hissa.

„En Elísa, stúlka mín, hvað gengur að þér í dag?“ spurði frú Shelby, hún hafði veitt því eptirtekt, að hún var öðruvísi í framkomu sinni en hún var vön.

„Ó, frú“, sagði Elísa og fór að gráata, „það er þrælakaupmaður í borðstofunni; ég bæði sá hann og heyrði til hans.“

„Já, já, barn, þó svo væri nú?“

„Ó, frú, haldið þér, að húsbóndinn vilji selja hann Harry minn?“

„Alls ekki flónið þitt. Húsbónda þínum kemur ekki til hugar að selja nokkurn þræla sinna, á meðan þeir hegða sér vel. Par að auki kærir enginn sig um annan eins smásnáða og hann Harry þinn. Vertu róleg fyrir því. Fáðu mér nú fötin mín.“

„En þér, frú, þér munduð aldrei gefa samþykki yðar til þess að — að — “

„Nei, það máttu reiða þig á. Ég mundi eins vel vilja selja eitthvert ’barnanna minna, vertu nú ekki að tala um þessa vitleysu, Elísa. Það þarf ekki annað til, en að einhver ókunnugur maður stingi höfðinu inn fyrir dyrnar hérna, hana þá, strax heldur þú að hann sé kominn til að taka Harry frá þér.“

Frú Shelby hafði enga hugmynd um peninga þröng manns síns. Hún var guðhrædd og göfuglynd kona, sem áleit það skyldu sína, að vera hinum mörgu þjónum sínum sem móðir. Sérstaklega þótti henni vænt um Elísu. Shelby hafði keypt. hana, þegar hún var kornungt barn, og gefið konu sinni, með því hann hugði, að hið litla, fagra stúlkubarn væri henni kærkomin gjöf. Það var einnig farið vel með hana, eins og alla þræla Shelbys, og með framferði sínu ávann hún sér fljótt hylli og velvild húsmóður sinnar. Þegar hún var barn, var henni leyft að leika sér um herbergin, rétt eins og væri hún dóttir húsbændanna, og þegar hún óx upp og varð falleg og elskuverð stúlka, gjörði húsmóðir hennar hana að herbergismey sinni.



  1. Kvarteron er kynblendingur af hvítum og múlöttum, og eru litlu dekkri á hörund en Spánverjar og Ítalir. Múlattar eru kynblendingar af hvítum mönnum og svertingjum.