Tómas frændi/XIV
XIV. Topsý.
Hinn nýi húsbóndi Tómasar, Ágústínus St. Clare, var sonur auðugs plantekrueiganda í Louisiana. Þegar skipið lagði að bryggjunni, kom vagn, er sendur var eptir þeim ; þau stigu öll upp í hann og óku brott án tafar.
Þegar vagninn nálgaðist bústað St. Clare, varð Eva sem frá sér numin af gleði; það leit helzt út fyrir, að hún ætlaði að fljúga út úr vagninum, eins og fugl úr búri. „Ó, er það ekki fallegt, er það ekki elskulegt!“ sagði hún, „heimilið mitt, ástkæra, góða heimilið mitt.“
Hópur af þjónum þyrptist út í fordyrið, til að fagna húsbónda sínum heimkomnum. Eva þaut í fangið á móður sinni og kyssti hana aptur og aptur. Svo flaug hún frá einum til annars og heilsaði ýmist með kossi eða handabandi; hún réð sér naumast fyrir gleði, að vera nú komin heim aptur.
St. Clare hafði í för með sér Opheliu frændkonu sína, og átti hún að ílengjast hjá þeim, með því að kona hans þóttist vera svo heilsutæp, að sér væri nauðsynlegt að hafa hana sér til aðstoðar við hússtjórnina.
Ophelía var hörð, einbeitt og kjarkmikil kona; hún var framúrskarandi reglusöm, kostgæfin og siðvönd. St. Clare var maður drenglundaður og örlátur; honum þótti vænt um allt og alla, og öllum, sem þekktu hann, þótti vænt um hann; en hann var latur og lét mikið eptir sjálfum sér; hann var mjög glaðvær og hafði jafnan spaugsyrði á reiðum höndum. Þau frændsystkynin greindi á um ýmislegt; sérstaklega voru þau mjög ósammála um eitt atriði — uppeldi barna.
Einn morgun, er Ophelía sat að verki sínu, heyrði hún að St. Clare kallaði: „Komdu ofan, frænka; eg ætla að sýna þér dálítið.“
„Hvað er það?“ sagði Ophelía og kom ofan af loptinu með sauma sína í hendinni.
„Eg hef fest kaup á nokkru, sem eg ætla þér að fást við. Sjáðu til“, sagði St. Clare og ýtti fram lítilli svertingjastúlku, hér um bil átta eða níu ára að aldri.
Hún hafði hinn allra dekksta hörundslit, sem til er á meðal svertingja; hún hafði afar-stór kringlótt augu, sem glitruðu líkt og glerperlur, og gaut hún þeira hratt og eyrðarlaust um allt herbergið. Hún var klædd í rifna tötra; og stóð hún þar grafkyr og hélt höndunum siðlátlega að sér.
Að öllu samtöldu var þessi litla stúlka mjög svo einkennilega skrítin og álfsleg, hún var eitthvað svo „heiðingjaleg“, eins og Ophelía komst einhverju sinni að orði um hana, að hina góðu konu hrylti við því. Hún sneri sér að St. Clare og sagði:
„Ágústínus, hvað kemur til, að þú ert að koma með þessa skepnu hingað?“
„Auðvitað handa þér? til að ala upp; mérþótti hún nokkuð skrítin og ætla að hún muni vera vel til þess fallin, að þú reynir á henni uppeldisreglur þínu. — Nú, nú, Topsy“, sagði hann og blístraði, eins og hann væri að kalla á hund; „syngdu lag fyrir okkur, og láttu okkur sjá einhvern al dönsunum þínum.“
Það kom einhvers konar galsa- og ertnisglampi í svörtu augun, og með hvellri og skerandi rödd byrjaði hún að syngja hlægilegan svertingjasöng, um leið og hún barði saman fótunum, klappaði saman höndum og snerist í hring eins og snarkringla; loksins steypti hún sér kollhnís einum tvisvar eða þrisvar sinnum, og rak um leið upp ámátlegt gaul, líkast því er eimskip blæs; það átti að vera endanótan í svertingjalaginu, sem hún var að syngja; síðan nam hún staðar á gólfinu frammi fyrir St. Clare með samanlögðum höndum og auðmýktar- og hátíðarsvip á andlitinu, en augunum gaut hún í allar áttir út undan sér.
Ophelía stóð þegjandi. Hún var gjörsamlega steini lostin af undrun.
St. Clare virtist hafa mjög mikið gaman af undrun hennar. Hana sneri sér aptur að barninu og sagði: „Topsý, þetta er nú nýja húsmóðirin þín. Eg ætla að fá þig henni í hendur. Nú áttu að haga þér vel, heyrirðu það!“
„Já, massa[1]“, sagði Topsý hátíðlega, en svörtu augun glömpuðu ógeðslega.
„Mundu, að nú áttu aðfara að verða góð stúlka, Topsý; mundu það nú“, sagði St. Clare.
„Já, massa“, sagði Topsý, og drap titlinga með augunum; hún stóð enn með siðlætis bragði og samanlögðum höndum.
„Ágústínus, en hvað á þá þetta að þýða?“ tók Ophelía loks til máls; hús þitt er svo troðfullt af þessum kveljandi yrmlingum, að maður má gæta sín við hvert fótmál að stíga ekki ofan á þá; og heldurðu að eg haft ekki nóg að starfa hér í húsinu, þó þú færir nú ekki að bæta þessu við mig?“
„Sagði eg þér það ekki? Þú átt að ala hana upp og kenna henni manna siði. Þú ert sí og æ að prédika um barnauppeldi. Eg hugsaði mér að gefa þér stúlku, sem þú gætir reynt þig á. Hún lítur út fyrir að vera kát, og lagleg er hún líka, svo eg hugði, að það mætti gera mann úr henni, og eg keypti hana og ætla nú að gefa þér hana. Reyndu nú, hvað þér tekst. Þú veizt, að eg get ekkert í þá átt, en mér þætti gaman að þú reyndir.“
Þegar búið var að klæða Topsý úr tötrunum í betri föt og skera hár hennar, þá sagði Ophelía, að hún væri eitthvað „kristilegri“ í útliti, en hún hefði áður verið, og nú fór hún að hugsa fyrir uppfræðslu hennar.
Hún tók sér sæti frammi fyrir henni og tók að spyrja hana:
„Hvað ertu gömul, Topsý?“
„Veit ekki, missus“, sagði Topsý og glotti við, svo skein í tanngarðinn.
„Veiztu ekki, hvað þú ert gömul? Hefur enginn sagt þér það? Hver var móðir þín?“
„Aldrei átt móður“ sagði barnið og glotti aptur.
„Aldrei átt móður! Hvað áttu við? Hvar ertu fædd?“
„Aldrei fædd!“ sagði Topsý og glotti enn á ný.
„Þú átt ekki að svara mér svona, barn; eg er ekki að spauga við þig. Segðu mér nú, hvar þú ert fædd og hverjir foreldrar þínir voru.“
„Aldrei fædd“, sagði Topsý aptur með meiri áherzlu, „aldrei átt foreldra og aldrei átt neinn; gamla Súa passaði mig“.
Það var auðséð að barninu var alvara.
„Hvað varstu lengi hjá húsbændum þínum?"
„Veit ekki, missus.“
„Varstu þar eitt ár, lengur eða skemur?
„Veit ekki, missus.“
„Ó“, sagði Jana, „þessir óupplýstu svertingjar kunna ekki að telja; þeir hafa enga hugmynd um tímatal, og vita ekkert um ár né aldur.“
„Veiztu, hver hefur skapað þig?“ spurði Ophelía nú og sneri samræðunni á annan veg.
„Enginn, sem eg veit um“, sagði Topsý. „Eg hugsa eg hafi vaxið sjálf; eg held enginn hafi skapað mig.“
Ophelía sleit nú þessari miður uppörfandi samræðu og reis úr sæti sínu forviða og gröm.
Topsý var nú upp frá þessu skoðuð sem eign Ophelíu, og með því að hún var ekki vel séð í eldhúsinu, réði Ophelía það við sig að nota að mestu leyti eigið herbergi sitt fyrir starfs- og skólastofu. Það leið ekki á löngu, áður en Topsý var alþekkt á staðnum og í grenndinni. Hún virtist hafasérstaka hæfileika til að dansa, velta sér, klifra, syngja, blístra og herma eptir sérhvert hljóð, er hún heyrði. Þegar hún var að leika sér, þyrptust öll börn á staðnum utan um hana, og horfðu á hana — með undrun og aðdáun. Ekki megum vér gleyma ungfrú Evu, það var svo að sjá sem hinir tryllingslegu leikir Topsýar töfruðu hana, eins og þegar saklaus dúfa seyðist að glitrandi höggormi.
Topsý var fljót að læra allt, sem henni var sett fyrir, þegar hún vildi sjálf; og ekki leið á löngu, áður en Topsý gat gjört svo vel hreint og búið um rúmið í svefnherbergi Ophelíu, að hún hafði ekkert út á það að setja; það gjörði Topsý raunar ekki nema þegar hún vildi það sjálf, en þá gat heldur enginn jafnast á við snilli hennar í því að breiða ábreiðuna á rúmið, eða hagræða mununum í herberginu. Þegar Ophelía var búin að segja henni til með stakri nákvæmni og vandvirkni í marga daga, og var nú loks farin að hugsa, að Topsý væri farin að sjá að sér, svo óhætt mundi að láta hana eina um verkið, og ef hún vék þá frá og tók að sinna hússtörfum sínum, þá var Topsý vís til að hafa það að leik í fleiri eða færri klukkustundir, að klæða sig í allavega skrípabúninga. Í stað þess að búa um rúmið, tók hún þá til að taka koddaverin af koddunum, stakk höfðinu svo ofan á milli koddanna, svo það varð alþakið fjöðrum, klifraði upp eptir rúmstólpunum líkt og köttur, breiddi rúmábreiðuna hingað og þangað um gólfið á herberginu, færði koddana í nátttreyjur Ophelíu, stóð á höfði, söng, dansaði og lét alls konar ólátum frammi fyrir speglinum.
Einhverju sinni kom Ophelía að henni, er hún var búin að vefja dýrindis indversku sjali, er Ophelía átti, um höfuðið á sér, og gekk þannig búin fram og aptur um herbergið með ýmsum fettum og brettum. Ophelía hafði gleymt lyklinum í skránni á dragkistu sinni; það kom ekki opt fyrir, að henni yrði það á, en Topsý hagnýtti sér það vel.
„Topsý“, sagði hún, — þolinmæði hennar var nú á förum — „því læturðu svona, barn?“
„Veit ekki missus, víst af því eg er svo vond.“
„Eg veit ekki, hvaða ráð eg á að hafa við þig, Topsý.“
„Ó, missus, þér verðið að lemja mig; gamla missus hýddi mig allt af. Eg er ekkert vön að vinna, nema eg sé hýdd.“
„Mig langar ekki til að berja þig, Topsý. Þú getur verið þæg, ef þú vilt, og gjört það sem þú átt að gera; hvers vegna viltu það ekki?“
„Ó, missus, eg er vön að vera hýdd, eg held eg hafi gott af því.“
Ophelía fór þá að reyna þetta ráð, en Topsý hljóðaði þá og bað um vægð, og lofaði bót og betrun; en þegar hún stundu síðar fékk að fara út og börnin hópuðust í kring um hana að venju, þá lét hún í ljósi mikla reiði og óánægju yfir meðferðinni.
- ↑ Venjulegt ávarp svertingja í staðinn fyrir „master“ (herra). Þeir segja og opt „missus“ fyrir mistress (frú).