Fara í innihald

Veislan á Grund/10. kafli

Úr Wikiheimild
Veislan á Grund
Höfundur: Jón Trausti
10. kafli

Það var komið fram yfir miðnættið, þegar staðið var upp frá borðum.

Nóttin var björt að vísu, en Helga lét samt kveikja á nokkrum blysum í skálanum, eins og til að gera þar allt hátíðlegra. Birtan að utan rann undarlega saman við blaktandi bjarmann frá blysunum og fyllti skálann af einhverju undarlega draumkenndu töfraljósi.

Borðin voru tekin upp og borin burtu úr skálanum og bekkirnir færðir út undir veggina, svo að gólfið var autt í miðjunni og ágætlega til þess fallið að dansa á því.

Sunnlendingar voru allmikið drukknir, er þeir stóðu upp frá borðinu, og reikuðu og skjögruðu til og frá um skálann. Margir þeirra voru líka þreyttir eftir nærri því þriggja daga reið í óbyggðum, en enginn vildi láta á því bera. Sumir þoldu illa mjöðina og mungátið og þurftu að læðast út fyrir skálavegginn til að „afferma“. - Það var sárt að sjá blessaðan matinn fara þannig forgörðum, en við því var ekkert að gera, annað en bera sig mannalega. Og inni í skálanum stóð enn þá gnægð af vínum og ölföngum, svo að hver mátti fá eins og hann vildi.

Helga stakk nú upp á því við Smið, hvort hann vildi ekki, að þeim, sem tjaldanna gættu, væri einnig send einhver ofurlítil glaðning, og féllst hann á það. Skömmu seinna lagði heil hersing á stað til tjaldanna: stúlkur, sem báru heitan mat í byrgðum ílátum, svo að hann kólnaði ekki, og nokkrir af mönnum Smiðs, sem báru rjúkandi, ilmandi vínblöndu. - Þeir í tjöldunum urðu fegnari en frá þurfi að segja.

Á meðan gekk húsfreyjan til dyngju sinnar og kom þaðan aftur að vörmu spori með eitthvað stórt í fanginu, sem fæstir af gestunum könnuðust við.

Það var harpa.

Hún var gerð til að standa á gólfi og skorin út í drekalíki með gínandi höfði. Útskurðurinn hafði eitt sinn verið gylltur og málaður fagurlega, en var nú farinn að mást. Þó sást enn skýrt, hvernig allt hafði verið litt. Tennurnar í gininu höfðu verið gylltar, en tannholdið rautt. Augun voru úr dökkrauðum blóðsteinum og hvarmarnir utan með rauðir, svo að dýrið hafði allferlegan grimmdarsvip. Hreistrið var dökkgrænt og gyllt á bakinu, en nokkuð ljósara á kviðnum. Bægslin glenntu sig út og voru um leið aðalfótur hörpunnar. Frá bægslunum hóf skrokkurinn sig dálítið bogadreginn beint upp og mjókkaði þá jafnt. Nærri því mannhæð frá gólfi beygðist stirtlan aftur fram á við og hélt uppi strengjunum. Fremst á henni breiddi sporðurinn sig.

„Þessa hörpu hefir Magnús konungur berfætti átt,“ mælti húsfreyjan brosandi við hirðstjórann. „Hingað til lands fluttist hún með Þóru dóttur hans, og síðan hefir hún jafnan verið í ætt Oddaverja. Jón Loftsson hefir átt hana og kunni að leika á hana af mikilli list. Sæmundur í Odda hefir einnig átt hana og kunnað með hana að fara, og eins Hálfdán á Keldum. Nú er hún í minni eigu, en hefir þagað helst til lengi. En hvenær skyldi hún hljóma til mannfagnaðar, ef ekki nú, er slík stórmenni eru gestir á Grund?“

Húsfreyjan snart strengina þýðlega, og mildur hreimur rann um skálann, líkt eins og þá er blær þýtur í grenitrjám.

Menn söfnuðust nú utan um hörpuna til að dást að henni. þessi gamli, virðulegi ættargripur vakti ósjálfráða lotningu. Haglegra smíði þóttist enginn hafa séð. Slíkt listaverk bar það með sér, að það var konungsgersemi.

Húsfreyjan jók strengjakliðinn, en spurði um leið, hvort enginn væri sá í hópnum, sem kynni hörpuslátt.

Enginn svaraði. - Smiður hirðstjóri stóð sem bundinn og horfði á þetta furðuverk. Það var þó ekki harpan sjálf, sem svo mjög hreif huga hans, heldur miklu fremur höndin gullbúna, sem leið eftir strengjunum.

Þegar húsfreyjan sá, að enginn ætlaði að gefa sig fram til að leika á hörpuna, og hætt var við, að öll gleði mundi þá þegar niður falla, mælti hún við hirðstjórann svo hátt, að vel mætti heyrast út í afhúsið:

„Ég kann því miður ekki hörpuslátt, herra; en hér er á heimilinu karlgarmur, sem var orðlagður fyrir hörpuslátt á yngri árum sínum. Nú er hann gamall og hrumur og ekki vel fallinn til samneytis við unga höfðingja og glæsimenni, eins og hér eru. En ef þér viljið leyfa, herra, að hann húki hér í einhverju horninu og slái hörpuna, okkur öllum til skemmtunar, mun ég reyna að fara þess á leit við hann.“

Smiður leyfði það fúslega. Hann hugsaði gott til að stíga dansinn við húsfreyjuna, því að enn hafði hann lítið getað leitað fyrir sér um hug hennar til sín. Hann sá það líka á mönnum sínum, að eitthvað svipað var þeim í huga, þó að þreyttir væru þeir.

„Skreiðar-Steinn“ var nú kallaður inn í skálann.

Munkurinn stóð upp seint og hægt, eins og hann gæti sig varla hreyft fyrir gigt og stirðleika. Hann nöldraði eitthvað geðvonskulega í barm sinn og nuddaðist síðan inn í dyrnar. Þar tóku þau á móti honum, Smiður og húsfreyjan.

„Hvað á ég að gera?“ spurði hann hálfönugur og hallaði við eyranu til að heyra svarið.

„Þú átt að slá hörpu fyrir okkur,“ kallaði húsfreyjan í eyrað á honum, „og slá hana vel, svo að okkur verði skemmtun að, annars skaltu engan mat fá á morgun.“

Smiður horfði á hann hvasst og rannsakandi, en gat ekkert tortryggilegt við hann fundið. Birtan var ekki góð, því að allur skálinn var fullur af flöktandi villuljósi, og þar, sem þau stóðu, var birtan minnst. Auk þess var hirðstjórinn fyrir löngu hættur að sjá skýrt.

Munkurinn var seinn til svara, að dæmi Skreiðar-Steins, en eftir nokkra umhugsun mælti hann:

„En fiskurinn -? Á ég að hætta að berja fiskinn?“

Þetta var svo innilega líkt Skreiðar-Steini, að húsfreyjan gat ekki varist því að hlæja hátt. Smiður skellihló líka að því, hve karlinn væri barnalegur.

„Fiskurinn,“ kallaði húsfreyjan í eyrað á honum. - „Fiskurinn má bíða. Það er nógur fiskur til barinn núna í bráðina. Og þú getur haldið áfram að berja fiskinn, þegar við erum hætt að skemmta okkur. Gerðu nú eins og húsmóðir þín segir þér.“

„Ég er nú ekki þesslegur, að vera innan um höfðingja,“ mælti munkurinn og leit niður eftir sér.

„Nei, það er hverju orði sannara,“ mælti húsfreyjan. „Það er aldrei annað en skömm að þér. En herrarnir eru náðugir og lítillátir, og fyrst þú kannt nú þetta, en aðrir ekki, verður að nota þig til þess. - Þú getur verið hérna frammi við dyrnar. Þar ber minnst á þér.“

Munkurinn iðaði af ánægju innan í dulargervinu. Þarna gat hann verið í skugganum og þó inni í sjálfum skálanum og séð allt, sem fram fór. Þetta var allt snilldarlega hugsað, þó að það væri gert á augabragði, og engri manneskju líkt nema húsfreyjunni sjálfri.

Harpan var færð til hans, og hann byrjaði að leika.

Hörpusláttur var talsvert iðkaður meðal klaustramanna á þeirri öld, og Snjólfur kanúki var engan veginn sístur í þeirri list. Fyrstu tónarnir, sem hann sló, komu þungir og strjálir, með löngum skjálfandi hreim, eins og vatnshnyklarnir í útjaðri fossins, sem draga vatnshalann eftir sér í fallinu. Svo urðu tónarnir þéttari og aflmeiri, eins og hörpunni færi að svella móður.

Fyrst var eins og allir væru feimnir við þessa nýbreytni og enginn kynni eiginlega að nota hana. Smiður hirðstjóri byrjaði. Hann var ýmsu vanur og þar á meðal einnig hirðmannahæversku. Hann laut húsfreyjunni djúpt, tók síðan í hönd henni og steig með henni hægan, nettan dans eftir fallanda hörpuhreimsins. Ormur Snorrason og Jón skráveifa voru einnig höfðingjasiðum vanir og fóru að dæmi hirðstjórans. Aðrir fóru að reyna þetta líka og tókst furðanlega. Eftir litla stund voru allir farnir að dansa.

Framan af stýrði Smiður dansinum og sagði þeim til, sem tornæmastir voru. Hann var ekki klæddur til að dansa, í hringabrynju frá hálsi ofan á hæla og með hjálm úr stálblikki, en hann bar sig hermannlega og steig dansinn hægt, en með léttum limaburði. Sama gerði Ormur, nema hvað hann var enn þá karlmannlegri og fegri á velli en hirðstjórinn. En Jón lögmaður var stirður sem staur í brynju sinni og bolaðist í dansinum, eins og hann væri að glíma.

Menn þeirra höfðu áður lagt af sér þyngstu hlífarnar, svo að þeim var léttara um allar hreyfingar, og eftir því sem þeir komust betur upp á þessa nýju skemmtun, urðu þeir sólgnari í yndi það, er hún veitti. Tónar hörpunnar gengu þeim í blóðið, fylltu þá einhverri þægilegri þrá, hærri og hlýrri en þeir höfðu nokkurn tíma fundið til áður, gerðu þá glaðari í skapi og léttari í spori. Og nú kynntust þeir í fyrsta sinni nýrri hlið á því laðandi yndi, sem hverjum ungum kvenmanni er áskapað. Stúlkurnar voru mjúkar í hreyfingum og léttstígar, roðinn í kinnum þeirra varð fegri en hann hafði áður verið, og glampinn í augum þeirra varð bjartari. Varirnar á þeim voru blóðrauðar og hálfopnar, eins og boðnar fram til kossa. - Hendurnar, sem þeir héldu um, voru hlýjar og rakar, og mittin, sem þeir gripu um, iðuðu af lífi og fjöri. Andardráttur þeirra var orðinn heitari og tíðari og glettnin í svip þeirra innilegri. Þær gáfu undir fótinn með hverri hreyfingu, hverju viðviki, hverju augnatilliti, en voru þó styggar eins og hindir. Þær drógu og löðuðu, örvuðu og eggjuðu, en voru þó gengnar þeim úr greipum áður en þeir vissu af, - horfnar, og komnar aftur. Þær gerðu þá æsta og örvita, kveiktu og kyntu logandi þrá, lofuðu öllu fögru og sviku það í sömu andránni.

Eitt sinn stóð húsfreyjan, eins og af tilviljun, svo nálægt munkinum, að hann gat skotið að henni orði, án þess að láta hlé verða á hörpuslættinum.

„Þrjú högg í röð á fiskasteininn,“ mælti hann svo lágt, að hún ein gat heyrt. - „Þrjú högg í röð á fiskasteininn og hvíld á milli, - hvíld á milli hverra þriggja högga, - taktu eftir því. - Þá eru Eyfirðingar að koma.“

Helga stóð kyrr og sneri að honum bakinu. Hún leit ekki við, en hann vissi samt, að hún heyrði. Rétt á eftir var hún aftur komin inn í hina dansandi hringiðu, með stálklæddan arm hirðstjórans utan um mittið á sér.

Dísa litla var hálfhrædd og óróleg. Rándýrsaugu Skráveifunnar hvíldu stöðugt á henni, hvar sem hún var og hver sem hélt um höndina á henni. Hvenær sem hún varð þess vör, leit hún niður fyrir sig, og augu hennar fylltust af tárum.

En hún tók ekki eftir öðrum augum, sem ekki hvíldu þó sjaldnar á henni. Það voru augu Orms Snorrasonar.

Eitt sinn, er hann bar að henni, tók hann um hönd hennar og hvíslaði lágt í eyra hennar:

„Fylgdu honum ekki til sængur í kvöld. - Fylgdu mér heldur. Ég skal ekki misbjóða sakleysi þínu í neinu.“

Áður en hún gat áttað sig á því, hvað hann hafði sagt, var hann kominn frá henni. Hún horfði stórum undrunaraugum á eftir honum. Hún vissi ekki til fulls, hvað hann átti við.

En upp frá því gat hún ekki haft augun af honum. Hún leitaði hans, hvar sem hann var í hópnum. Hann lést ekki sjá hana og nærri því fól sig fyrir augum hennar. Hún fór að efast um, að hún hefði heyrt rétt, hvað hann sagði. Hún virti hann fyrir sér hátt og lágt, vó hann og mældi með augunum og dáðist að því með sjálfri sér, hve fagur og riddaralegur hann væri. Hjá slíkum manni var ekkert, sem ekki verðskuldaði traust og virðingu. - Hún vonaði, að hún hefði heyrt það rétt, sem hann sagði.

Jón skráveifa hafði ekki tekið eftir því, er Ormur hvíslaði að henni. En hann var ekki lengi að gefa því gaum, hvert augu Dísu stefndu. Hann gaf Ormi nánar gætur, og þegar hann sá, að hann tók ekkert eftir þessum stóru, barnslegu augum, sem stöðugt hvíldu á honum, varð hann rórri.

Munkurinn sló hörpuna harðara og fastara, og dansinn varð villtari og trylldari með hverri stundinni, sem leið. Hæverskubragurinn, sem hafði verið á honum í byrjun, hvarf smátt og smátt. Sunnlendingar urðu háværir og gáfu sig gleðinni á vald. Þeir sveifluðu stúlkunum í kringum sig, lögðu undir sig gólfið í stórum stökkum og kváðu við raust, án þess að hirða um hreiminn frá hörpunni. Þeir mæddust fast og slokuðu ákaft bjórinn, sem ætíð var við höndina. Þeir voru drukknir og örir og æstir og gleymdu sér í taumlausri gleði. Fyrirmennirnir voru snortnir af þessu sama öngþveiti, allir nema Ormur. Smiður var orðinn svo drukkinn, að hann reikaði, og augun í Skráveifunni stóðu í blárauðu andlitinu eins og í frosnum froski. Skálinn skalf af glymjandi raustum og dunandi fótataki. En úti í skugganum við afhúsdyrnar brunnu augu munksins undir sporði drekahörpunnar. Tónarnir, sem hrutu af strengjum hans, voru neistar, sem kveiktu óslökkvandi bál, - bál lífsgleði og lífsnautnar, bál ástríðu og tryllds munaðarþorsta, og seiddu menn í algert algleymi.

Hann var farinn að gera sér von um, að hann mundi geta haldið þessum eldi brennandi nógu lengi, en svo varð þó ekki.

Smiður kallaði hárri röddu:

„Nú er nóg komið. Nú skulu allir ganga til sængur. Gleymið því ekki, að við eigum að leggja á stað héðan fyrir hádegi á morgun.“

Hann hafði ekki hugmynd um, að morgunninn var þegar kominn. Nóttin hafði liðið fljótar en hann sjálfan varði.

Orðum hans var hlýtt á svipstundu. Dansinn hætti.

„Þakkir fyrir skemmtunina, karltetur,“ mælti Helga glettnislega. „Farðu nú aftur að berja fiskinn, svo að nóg verði til á borðið í fyrramálið. En mundu eftir því að hafa ekki mjög hátt, svo að gestirnir geti sofið.“

Munkurinn færði hörpuna út að þilinu, svo að ekki stæði hún á gangveginum, og staulaðist síðan þegjandi fram að fiskasteininum. Þar settist hann niður og tók þar til, sem fyrr var frá horfið.

Upp fyrir þröskuldinn á útidyrunum gægðist gætilega skegglaust unglingsandlit og mælti lágt:

„Þeir koma bráðum.“

„Segðu þeim að flýta sér,“ hvíslaði munkurinn byrstur.

Unglingsandlitið hvarf úr dyrunum, en hæg högg fóru að heyrast frá fiskasteininum.

Smiður skjögraði fram að skáladyrunum, lokaði þeim vandlega og skaut sterkum slagbrandi fyrir hurðina. Hann spurði ekki um dyr að húsabaki, og húsfreyjan sagði honum ekki heldur frá þeim.

Helga stóð skammt frá öndveginu og horfði hvasst um allan skálann. Hún mætti í svip augum allra þjónustukvenna sinna, sem allar litu spyrjandi til hennar, og allar mættu sama einbeitta hörkusvipnum. Svo tóku þær hver sinn mann að sér. Á svipstundu var sem skálinn hefði ekkert annað að geyma en nýgift hjón.

Jón skráveifa hafði náð í Dísu litlu og færði hana með kattarlegri blíðu að lokrekkju sinni. Dísa þorði ekki að stritast á móti, en leit niður fyrir sig og fór að gráta. Hún leit til fóstru sinnar, en fann þar enga meðaumkun. Í einhverri örvæntingu fór hún að þreifa eftir hnífnum, sem hékk við belti hennar innanklæða.

Það var sem áfergjan logaði upp í augum þessa drukkna rándýrs við að sjá þessi tár, þennan vott barnslegs sakleysis. Því sætari var nautnin sem hún var sárari; því ógleymanlegri sem hún var dýrkeyptari. Grimmúðlegt sigurglott breiddi sig um eltiskinnsandlitið. Hægt og miskunnarlaust, hvíslandi einhverjum blíðuorðum, ýtti hann Dísu undan sér að lokrekkjudyrunum.

Þá bar þar að Orm Snorrason. Hann hafði engin orð, en þreif með heljarafli um hendur lögmannsins, reif Dísu af honum og fleygði honum eins og vettlingi upp að lokrekkjudyrunum. Síðan færði hann Dísu til sinnar lokrekkju, og þangað fór hún óneydd.

Þetta varð með svo skjótri svipan, að lögmaðurinn áttaði sig varla á því fyrst í stað. En þegar hann sá þau Orm og Dísu hverfa inn í lokrekkju hans og hurðina lokast á eftir þeim, sá hann, að Ormi var full alvara. Það lá við, að hann gréti, - öskraði, rasaði af reiði, en það varð þó ekki af því. Hann hafði líka vit á því, þótt hann drukkinn væri, að hætta sér ekki í hendurnar á Ormi. Og kæra þetta tiltæki fyrir Smið var ekki til annars en gefa honum efni til óstöðvandi hláturs og gera þessa smánarmeðferð heyrinkunna um allt liðið. Hann afréð að bíða og hefna sín heldur seinna. Hann leit allt í kringum sig til að gá að, hvort nokkur maður hefði veitt þessum atburði eftirtekt. Svo var að sjá, sem allir hefðu nóg annað að hugsa. Og þegar hann var sannfærður um, að þetta væri leyndarmál milli þeirra þriggja, fór hann að svipast um eftir einhverri annarri til að hugga sig við að þessu sinni. En nú voru allar stúlkurnar farnar. Þær voru einmitt einni færri en karlmennirnir. Og hann treysti sér ekki til að hrifsa af neinum manna sinna. Svartur á svipinn og illur til augnanna réð hann það af að snauta inn í lokrekkju sína og byrgja sig þar inni.

Helga húsfreyja stóð kyrr og fylgdi því með augunum, er stúlkur hennar leiddu og studdu þessa drukknu, munaðarsjúku víkinga og hurfu með þeim inn í lokrekkjurnar. - Ekki ein einasta dró sig í hlé.

Þegar skálinn var orðinn tómur, slökkti hún síðasta blysið, tók hlýlega um hönd hirðstjórans og leiddi hann inn í lokrekkju hans.