Veislan á Grund/11. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Veislan á Grund höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

Ömurlegur hljóðleiki ríkti nú í skálanum, - ömurlegur hljóðleiki, sem stakk mjög í stúf við glauminn og ærslin, sem þar höfðu verið fyrir lítilli stundu.

Enn glórði í eld í bröndum blysanna, og skarþefurinn hafði jafnað sig um allan skálann. Hin flöktandi skíma var horfin, en stöðugt hálfrökkur komið í staðinn. Sólin var að vísu komin langt upp á loft, en hún var hulin á bak við blikurnar í austrinu, og ljósið úr gluggunum svo hátt uppi nægði aldrei til að gera verulega bjart í skálanum.

Það helsta, sem heyrðist, voru höggin frá fiskasteininum úti í afhúsinu. Þau gerðu ekki mikinn hávaða. Það voru jöfn, þung dump, líkust hveradunum langt í burtu.

En þessi hljóðleiki var ekki nema á yfirborðinu. Skálinn var fullur af lágu hljóðskrafi, - kossum og kjassi, einhverri ískrandi suðu, sem barst frá öllum veggjum og minnti á, að menn væru nálægir, þó að þeir sæjust ekki.

Æsandi, ástríðuþrungið hljóðskraf, sem smaug gegnum merg og bein, þungt eins og fossaniður djúpt í jörðu, - heitt eins og eldhafið undir rótum Íslands, sem ógnar með að sprengja jörðina og rífa hana sundur í tætlur, - þeyta fjöllunum í loft upp eins og hismi.

Í lokrekkju hirðstjórans og húsmóðurinnar stóð höfuðorustan, - orustan um hina, óvinnandi borg“, sem hirðstjórinn hafði talað svo karlmannlega um að vinna þessa nótt.

„ - - Uss-s, ekki þetta! - - Seinna. - Haldið þér, herra, að nokkur kona faðmi að sér hringabrynju! - Hérna er snagi fyrir sverðið - - hjálminn líka. - - Nú skal ég hjálpa yður. - Hérna hanga herklæðin rétt hjá yður, - þér getið gripið til þeirra á augabragði. - - Verið þér nú góður og látið mig ráða. - - Minnist þess, að ég hefi ráðið á Grund síðan ég var barn að aldri, hvort sem bóndi minn hefir verið heima eða ekki. - - Uss-s, nei, - enga vanstillingu. Við erum engin börn. - Hníf og belti! - Hvað ætlið þér, herra, að gera með hníf og belti ofan í rúmið? - Haldið þér, að nokkur kona leggist út af hjá beittum rýtingi, sem hæglega getur runnið úr slíðrunum? - Ég skal spenna það af yður. - - Nei - nei - nei! - Enga kossa, - ekki strax. Ég þoli ekki víndauninn fram úr yður. - Verið þér nú góður og hlýðinn og leggist þér út af. - Ég verð hérna hjá yður, - ég fer ekki fet. - Minnist þess, að fólkið er enn þá vakandi í skálanum. - Það heyrist til okkar. - Ég skal breiða ofan á yður. - Brjóstin á mér megið þér kyssa, - hendurnar, - handleggina. - Svo eigið þér að sofna, - sofna ofurlítinn dúr, svo að ölvíman renni af yður og vínþefurinn minnki. - Ég sit hjá yður. - Ég fer ekki fet. - Bráðum - bráðum hátta ég líka - -.“

Það hafði ekki gengið stríðlaust að koma hirðstjóranum í rúmið. Hann hafði beðið, grátbeðið, ógnað og jafnvel reynt að beita aflsmunum. Hann hafði faðmað hana að sér með ástríðuákefð, eins og hann ætlaði að kreista hana í sundur, og kysst hana hvar sem hann gat komið á hana kossum, kysst hana eins og hann ætlaði að éta hana. - Hún fann, að hún hafði ekki afl til móts við hann, en samt var hún örugg og óhrædd um sjálfa sig. Hún fann, að hún hafði vald yfir honum. Hann þorði ekki að misbjóða henni. Hann var hræddur um, að ef hún kallaði, mundu margir af hans eigin mönnum koma henni til hjálpar, að minnsta kosti Ormur. Hann vildi vinna hana, en ekki ræna henni. - Hún vék sér með lagi undan kossum hans og faðmlögum, losaði sig mjúklega úr hinum æstu, föstu tökum, dró tímann á langinn og fékk hirðstjórann að lokum til að hlýða sér. Fet fyrir fet hafði hún megnað að þoka honum og loks komið honum þangað, sem hún ætlaði sér: - ofan í rúmið. En þá fannst henni líka kraftar sínir vera alveg að þrotum komnir. Hún sat fyrir framan hann og hálfhélt honum niðri í hvílunni. Hún leyfði honum að toga sig ofan að sér, spenna handleggina um herðar sér af öllu afli og kyssa sig, kyssa sig, hvar sem hann gat fundið hana bera fyrir. Hún heyrði blóðið fossa um æðar hans og fann, hvernig hann þrútnaði og svitnaði af geðshræringu. Faðmlög hans voru eins og dauðahald drukknandi manns, kossarnir logandi heitir, eins og þeir væru gefnir í óráðsórum megnasta hitasjúkdóms.

Þessu drukkna dýri varð hún nú að halda í skefjum, - hver vissi hve lengi. - Öllum þessum ódaun, sem lagði upp af honum, varð hún að anda að sér. Í þessu skrúfstykki varð hún að láta klemma sig, hver vissi hve lengi. - Maðurinn frammi við fiskasteininn var búinn að gefa merkið einu sinni eða tvisvar. Norðlingar voru að koma. - En þeir komu þó ekki. Henni fannst þessi augnablik vera eilífð, sem aldrei ætlaði að líða. Hún hlustaði, - hlustaði, - hlustaði með hverri taug í líkamanum, - hlustaði um leið og hún var að þagga niðri í hirðstjóranum og reyna að svæfa hann við barm sinn. Einu sinni eða tvisvar heyrðist henni hringla í beislum einhvers staðar í nánd. Síðan heyrðist ekkert. Það hlaut að hafa verið vitleysa. Henni heyrðist líka hún heyra óm af mannamáli einhvers staðar langt burtu. - Ofheyrnir, - ímyndun. - Það var blóðið í æðum hennar sjálfrar, sem hún heyrði til. Það var hjartað í brjósti hennar sjálfrar, sem barðist svo ákaft.

Úr hinum lokrekkjunum heyrðust stunur og stimpingar, suða af hvísli og hálfkæfðum hljóðum, hlátrar eða grátur. - Það var varla þekkt sundur af hljóðinu. Þar háðu nú griðkonur hennar sama hildarleikinn og hún sjálf. Hún fann kjör þeirra liggja sér á hjarta eins og bjarg. Var það ekki glæpsamlegt að hafa leitt þær út í slíka raun sem þetta? - Hvernig sem um þær færi, bar hún ábyrgðina, hún einsömul. Hún hafði brýnt það fyrir þeim eftir megni að standast hverja raun og gefast aldrei upp. Hún hafði slegið á með því, sem hún vissi, að var þeim sárast, að þær ættu að skrifta á morgun fyrir henni sjálfri. En hún þekkti, hvað kvenhjörtun eru viðkvæm og veik á freistingastundinni, hve inngróið það er kveneðlinu að fórna sinni eigin heill, láta undan kröfum annarra, án þess að hugsa um afleiðingarnar. Henni lá við að gráta, er hún hugsaði um þessar veslings stúlkur, fátækar og umkomulausar, sem nú börðust með henni fyrir heill og velferð héraðs síns, lögðu sóma sinn, velferð sína og kannske líf sitt í sölurnar og - biðu ef til vill ósigur. Hvers vegna komu Norðlendingar ekki? - Hvers vegna voru mennirnir svona lengi?

En frá fiskasteininum heyrðust höggin, alltaf þrjú og þrjú í röð, með hvíldum á milli, - eins og slög lífæðar, sem ætlar að springa.

- - Högg á karldyrahurðina, svo máttugt, að skálinn gnötraði. Annað til, rétt á eftir, engu minna en hið fyrra.

Helga sleit sig lausa úr faðmlögum hirðstjórans og hljóp fram úr lokrekkjunni. Þar nam hún staðar og hrópaði:

„Takið þið nú mannslega á móti, piltar! Nú eru Norðlendingar komnir til veislunnar.“

Að svo mæltu ætlaði hún að flýta sér til dyngju sinnar.

Í sömu svipan hentist hirðstjórinn hálfnakinn fram úr lokrekkjudyrunum, með brugðið sverðið í hendinni.

„Helvítis norn!“ öskraði hann. „Þetta bjó undir blíðu þinni og kvenna þinna!“

Augnablik leit svo út, sem húsfreyjunni yrði engrar undankomu auðið. Hurðin, sem hún þurfti að opna, gekk inn í skálann og var þannig í vegi fyrir henni, og nakið sverðið stefndi á hana milli herðanna.

En þá kom fiskasleggja í hendingskasti úr dyrum afhússins og stefndi beint í fang hirðstjórans. Hann vék sér undan þessum voðalega vígahnetti, en sleggjan kom í sverðið, svo að það hraut úr hendi hans. Síðan hélt hún áfram yfir þveran skálann og skall í einu lokrekkjuþilinu hinum megin með slíku afli, að það brotnaði.

Hirðstjórinn varð ókvæða við þessa óvæntu kveðju, og ekki minnkaði undrun hans við að sjá „fiskibarsmíða-karlinn“ standa keikan í dyrunum, logandi af vígahug.

Meðan þessu fór fram, slapp Helga inn fyrir hurðina. Þar stóð hún í gættinni, horfði fram eftir skálanum og hafði hurðina fyrir sér eins og skjöld.

Smiður stóð sem höggdofa dálitla stund. Hann var að ráða við sig, hvað næst lægi að gera: taka sverðið upp og reka það í gegnum munkinn - eða húsfreyjuna - eða fara að klæða sig og búast til varnar.

Hið síðasta réð hann af. Hann tók upp sverðið, kallaði hátt til manna sinna, kvað ófrið vera kominn og hét á þá að verjast. „Við erum sviknir í tryggðum,“ hrópaði hann. „En verjum okkur hraustlega.“ Síðan snaraðist hann inn í lokrekkjuna og tók að klæða sig.

Högg Norðlendinga dundu á hurðinni jafnt og þétt, og nú var farið að heyrast brothljóð í henni.

Nú varð allt með skjótum atburðum.

Nokkrir menn stukku alklæddir fram úr lokrekkjunum með það af vopnum, sem fyrir þeim hafði orðið í fátinu, og hlupu til dyranna til varnar.

Hinum tafðist eitthvað við að klæða sig.

Stúlkurnar hlupu eins og byssubrenndar út úr lokrekkjunum og stefndu til dyngjunnar. Sumar héldu saman að sér fötunum, sem höfðu verið rifin og slitin utan af þeim. Húsfreyjan leit hvasst á þær, hverja fyrir sig, um leið og hún hleypti þeim inn hjá sér. Langflestar gátu mætt augum hennar með sigurdrjúgu brosi, jafnvel þótt það skini gegnum tárin.

Mitt í þessu kom Ormur Snorrason frá lokrekkju sinni og leiddi Dísu við hönd sér eins og brúði. Hann fylgdi henni hægt og prúðmannlega að dyngjudyrunum, eins og það, sem var að gerast í skálanum, kæmi honum ekkert við. Hann var albrynjaður, eins og hann hafði verið um kvöldið, og með sverðið við hlið sér. Þegar hann hafði komið Dísu á óhultan stað, gekk hann fram til dyranna til að stýra þar vörninni.

„Það er Oddaverja-blóð í þessum manni,“ hugsaði húsfreyjan, er hún horfði á eftir honum fram eftir skálanum.

Jón skráveifa kom einnig albrynjaður fram úr lokrekkju sinni. Við dyrnar snerist hann um stund á hæl og hnakka, eins og hann væri að hugsa um, hvort ekki mundi nú vera réttast að fela sig í lokrekkjunni eða verjast þaðan.

Karldyrahurðin lét undan höggum Norðlendinga. En um leið og hún brast, ruddust nokkrir menn inn í skálann frá bakdyrunum, og komu þeim, er vörðust, í opna skjöldu.