Veislan á Grund/12. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Veislan á Grund höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

Nú tókst bardagi um allan skálann.

Fleiri og fleiri af mönnum Smiðs hlupu fram úr lokrekkjunum og höfðu náð vopnum sínum og hertygjum að mestu eða öllu leyti. Meðal þeirra var Smiður sjálfur.

Jafnframt höfðu Norðlendingar hrundið vörninni frá dyrunum og sóttu nú sem ákafast inn í skálann. Þar var fremstur í flokki aldraður maður, axlabreiður og karlmannlegur, vel búinn að vopnum og klæðum. Það var Benedikt Kolbeinsson, einn af mestu höfðingjum Norðlendinga. Annar maður var þar einnig, sem mikið bar á. Hann var nokkru yngri en Benedikt, skrautlega búinn og vel vopnaður, og gekk svo fram, að ekkert stóð fyrir honum. Það var Þorsteinn Eyjólfsson frá Urðum í Svarfaðardal, fyrrum einn af hinum fjórum hirðstjórum og nú nýkosinn lögmaður.

Báða þessa menn höfðu þeir Smiður og Jón skráveifa ætlað sér að heimsækja, en nú urðu þeir fyrri til að veita þeim heimsókn. Menn höfðu verið látnir verða á vegi þeirra Smiðs langt frammi í Eyjafjarðardalnum og segja þeim, að Þorsteinn Eyjólfsson byggi nú skip sitt í skyndi úti á Eyrum og ætlaði sér að verða lagður frá landi áður en Smiður kæmi í byggðina; svo væri hann og aðrir Norðlendingar hræddir við Smið og lið hans. Þessu höfðu þeir Smiður trúað og fundist það eðlilegt. En nú stóðu þeir þar, hver gagnvart öðrum á skálagólfinu, félagarnir frá fyrri árum, Jón skráveifa og Þorsteinn, báðir vopnaðir og við því búnir að gera upp sín á milli, og þótti Jóni það verra en ekki.

Lið Norðlendinga var rösklegt og ágætlega búið. Voru þar margir ungir menn, vaskir og vopnfimir og ótrauðir til sóknar. Þó voru þeir ekki bardögum eins vanir og sumir af mönnum Smiðs. Varð því viðtakan snarpari en þeir höfðu búist við, og sóttist þeim seint inn eftir skálanum, enda var örðugt aðstöðu að koma við liðinu þar frammi við dyrnar.

Menn féllu þegar af hvorum tveggja, og margir særðust. Hróp voru mikil og vopnagnýr, því að hver eggjaði annan fast, en í orustukliðinn blandaðist vein helsærðra manna, sem engdust á gólfinu í blóði sínu og þvældust fyrir fótunum á þeim, sem uppi stóðu og börðust.

Þrátt fyrir illvíga vörn Sunnanmanna þokuðust þeir jafnt og þétt innar eftir skálanum, og komu þá hinir meira bolmagni við að framan. Jafnframt hlupu menn við og við inn úr bakdyrum skálans, komu Sunnanmönnum á óvart og gerðu þeim hinn mesta óleik.

Helga húsfreyja stóð enn í gættinni og horfði á leikinn, því að engan veginn var enn útséð um forlög hennar. Það var sem augu hennar, sem stöðugt hvíldu á bardaganum, ykju Norðlendingum, er sneru andlitunum við henni, þrótt og djörfung og gæfu þeim vopnagengi. Bak við hana sáust við og við gægjast fram andlit, afmynduð af skelfingu. Það voru griðkonur hennar. Þær gátu varla stillt sig um að sjá þá nú berjast, sem svo fast höfðu leitað eftir blíðu þeirra um morguninn. Nokkrar þeirra sáu nú „fylgimönnum“ sínum blæða til ólífis, og aðrar fengu varla borið kennsl á sína fyrir sárum og blóði.

Þegar Ormur sá, að ekki varð viðnám veitt, kallaði hann hátt til manna sinna og bað þá fylgja sér. Stefndi hann þá til dyranna, sem lágu út í afhúsið, því að þaðan hafði hann séð þá menn koma, sem komu að baki þeim, og vissi, að þar mundu dyr vera. Smiður kallaði jafnhátt og bað menn standa fast og hopa hvergi. Menn þeirra voru tvíhuga um, hvorum þeir skyldu heldur hlýða. Þó varð það úr, að allur fjöldinn fylgdi Ormi, einkum þó þeir, sem orðnir voru sárir eða búnir að fá nóg af leiknum. Í þessum hóp var Jón skráveifa.

Norðlendingar æptu að þeim, að þar brysti flóttinn.

Ormur lét engin hróp á sig fá, en fór til bakdyranna.

Munkurinn stóð í dyrum afhússins, og vék hann úr dyrunum fyrir Ormi og nokkrum mönnum hans, sem honum fylgdu fastast eftir. En þegar hann sá Jón skráveifu í hópnum, óð hann fram og laust hann svo fast, að Jón hrasaði á fiskasteininn og féll um hann, svo að fótum kastaði fram yfir höfuð. Varð af falli hans skarkali mikill og líkastur því sem járnskriða hryndi, því að hátt lét í hlífum og hertygjum Skráveifunnar.

Í sömu svipan fékk munkurinn högg mikið við eyrað, svo að hann svimaði og féll upp að veggnum.

Menn þeir, sem settir höfðu verið til að gæta útidyranna, hrukku fyrir þeim Ormi. Komst Ormur út og allmargir menn með honum, og stefndu þeir þegar til kirkjunnar. Mátti rekja blóðferil þeirra alla leið frá dyrunum og út í kirkju, því að margir voru mjög sárir í hópnum.

En áður en allir væru komnir út, sem Ormi höfðu fylgt, kom Norðlendingum liðstyrkur, svo að þeir hlupu aftur fyrir dyrnar og stöðvuðu útrás Sunnanmanna.

Þegar munkurinn kom að fullu til sjálfs sín, var barist af mikilli grimmd í afhúsinu hjá honum, og veitti Norðlendingum það betur, að leikurinn þokaðist inn eftir gólfinu.

En hvernig sem hann litaðist um meðal þeirra, sem börðust, sá hann nú hvergi Jón skráveifu. Hann var viss um það, að út hafði hann ekki komist með þeim Ormi. En þótt jörðin hefði gleypt hann lifandi, gat hann ekki verið ósýnilegri. -

Norðlendingar hrundu Sunnanmönnum alla leið inn í skálann. Þar var bardaginn enn þá í algleymingi.

Smiður hafði lesið sig upp á skálabitana og varðist þaðan. Stökk hann bita af bita og hjó og lagði niður fyrir sig með einstakri vopnfimi. Var illt að fá færi á honum neðan af gólfinu, nema með spjótum einum, sem ekki hrinu á herklæðum hans.

Smiður kom auga á húsfreyjuna, hvar hún stóð í gættinni, og hafði hann enn fullan hug á að launa henni næturgreiðann. Skaut hann þá að henni spjóti. Spjótið hitti ekki. Kom það í þilið utan við dyrnar og gekk af falnum.

„Svo geigar spjótum yðar, herra, sem öðrum fyrirætlunum,“ kallaði húsfreyjan storkandi.

Norðlendingar kölluðu þá til hennar og báðu hana standa ekki í slíkri hættu og gera sig að skotspæni. Kváðu nú útséð um leikslokin.

Helga kvaðst standa þar, sem henni sjálfri sýndist, og fór hvergi.

Í þessu var lagt spjóti upp til Smiðs. Rann lagið upp eftir brynjunni á brjósti hans og kom síðan í beran hálsinn. Skar fjöðrin allmikið sár upp með eyranu, og nam spjótsoddurinn af honum hjálminn.

Sárið blæddi mjög, og linaðist vörn hirðstjórans nokkuð við þetta.

Ungur, vaskur Norðlendingur, vopnaður með blikandi breiðexi, hafði nú lesið sig upp á skálabitann og sótti að Smiði.

Smiður hopaði fyrir honum og stökk inn á innsta bitann í skálanum, þann er þiljað var upp undir. Missti hann þá fótanna og greip báðum höndum um bitann; varð honum þá laust sverðið, og féll það niður. Fljótt sem leiftur bar Norðlendinginn að honum, og hjó hann af hirðstjóranum höfuðið við bitabrúnina. Höfuðið féll inn fyrir skilrúmið, en búkurinn, með blóðstraumana fram úr strjúpanum, féll ofan á skálagólfið, skammt þar frá, sem húsfreyjan stóð.

Norðlendingar lustu upp sigurópi miklu.

Þeir, sem nú voru eftir af mönnum Smiðs í skálanum, gáfu þegar upp vörnina og báðu sér griða. Voru þeir sviptir vopnum og teknir til fanga.

En þegar lítið eitt kyrrðist um vopnagnýinn inni í skálanum, hrópaði maður nokkur utan úr afhúsinu og bað menn koma þangað sem snarast.

Menn þyrptust þangað. Benti þá maðurinn á mannsfætur með gullnum sporum, sem stóðu út úr rennu þeirri, er nefnd var „kamaraugað“. Innar í rennunni sá á fald á rauðum skarlatskyrtli.

Þessi sýn vakti hlátur mikinn. Nokkrir ýttu við þessum mannlega neðri hluta með spjótum sínum og fundu, að þar var járn fyrir, en fæturnir tóku kippi við hvern sting, og ámátlegt gaul heyrðist utan úr hinum enda rennunnar. Maðurinn virtist ekki hafa varast það, að rennan var þrengri að utan en innan.

Þetta var mönnum um stund hin mesta skemmtun. En loks réðu menn þó af að fá að vita eitthvað meira um manninn en þessir fætur gátu frá skýrt. Var þá tekið fast um fæturna og maðurinn togaður allómjúklega út úr rennunni.

Það var Jón skráveifa.