Veislan á Grund/13. kafli

Úr Wikiheimild

Skreiðar-Steinn hafði gert sínar sakir prýðilega.

Hann hafði ekki sofnað fram á altarið, - heldur aðeins geispað og nuddað augun. Hann vissi það, að þó að hann gæti barið fisk sofandi, - því að það hafði hann oft gert -, þá var ekki víst, að hann gæti sungið latínumessur sofandi, svo að nokkurt lag væri á, því að það var sitt hvað. Hann streittist við af öllum kröftum að halda sér vakandi og vera alltaf sönglandi eitthvað, sem gæti líkst messu, ef nokkur hlustaði á það. En það var meira en meðalraun að halda þessu áfram alla liðlanga nóttina. - Til „óttusöngsins“ hjá honum kom enginn maður.

Til allrar hamingju rifjaðist nú upp fyrir honum töluvert hrafl af einhverjum latínuþulum, sem honum hafði verið kennt, þegar hann var drengur, og hann hafði aldrei á ævi sinni skilið nokkurt orð í. Í 50-60 ár hafði þessi latína legið einhvers staðar niðri á botni í huga hans, sjálfsagt þar, sem dýpst var. Nú gruggaðist þetta dót upp á yfirborðið, einmitt þegar honum lá mest á, og bauð sig til þjónustu. Og hann hirti það og kastaði því með karlmannlegri öldungsrödd út í auða og tóma kirkjuna. Honum stóð á sama, hvort það átti við eða ekki, hvort hann hafði það rétt yfir eða ekki. Það var að minnsta kosti latína, og öll latína var honum eins. Þar flaut hvað innan um annað: Hendingar úr „Te deum laudamus“, „Ave, regina coelorum“, „Defensor noster“ og „Alma redemptoris“, - sem sé sitt hvað af þessu, sem biskuparnir í hans ungdæmi höfðu heimtað og gengið ríkt eftir að mönnum væri kennt.

En um morguninn, þegar Sunnanmenn flýðu úr bardaganum og leituðu í helgi kirkjunnar, var sem öldurnar af því, sem gekk á inni í skálanum, skoluðust alla leið inn til Steins gamla.

Sunnanmenn tóku sér stöð frammi við dyrnar og gáðu út, hvort þeim væri veitt eftirför. Allur hugur þeirra var utan dyra, hjá félögum þeirra, sem ekki höfðu enn náð kirkjugriðunum, og á bardaganum, sem þeir vissu, að enn var í algleymingi inni í skálanum. Enginn þeirra kom innar eftir kirkjunni, og enginn þeirra sinnti „prestinum“ eða söngli hans fyrst í stað.

En Steinn gamli varð komu þeirra var og vissi þá, að til einhverra stórtíðinda hafði dregið inni í bænum. Hann heyrði ekki, hvað þeir töluðu sín á milli, en hann sá þá binda um sár hvern á öðrum og sá læki af blóði renna eftir kirkjugólfinu. Til allrar hamingju var þó enginn þeirra svo sár, að veita þyrfti honum hina síðustu þjónustu, en Steinn stóð þó á glóðum af angist fyrir því, að slíkt kynni að koma fyrir. Hann sá það, að allir, sem inn í kirkjuna höfðu komið, voru ókunnugir menn; hann þekkti engan þeirra. - Allt hafði einnig að þessu leyti farið eins og munkurinn hafði fyrir sagt: Sunnlendingar einir þurftu á kirkjugriðunum að halda. Af því mátti ráða, að Norðlendingar höfðu yfirhöndina í bardaganum.

Steinn gamli lifnaði í öllum æðum við þessi tíðindi, sem Sunnlendingar færðu honum með komu sinni einni. Gamalt manndómsskap vaknaði í honum. Feginn hefði hann nú viljað vera nokkrum árum yngri og hafa mátt vera þar, sem meiri var mannraun. En þar sem hann var nú gamall og örvasa, fann hann til þess með stolti og gleði, að hafa þó getað gert eitthvert gagn, stuðlað að sigrinum á einhvern hátt, og geta eignað sér sína hlutdeild í honum, þótt lítil væri. Og nú varð honum „embætti“ sitt kærara og kærara með hverju augnabliki. Nú lá við, að hann blessaði munkinn á hvert reipi fyrir að hafa rifið af honum skeggið og sett hann í þessa heilögu stöðu, sem einu mátti gilda hver gegndi, eins og nú stóð á. Hann efaðist ekki um, að munkurinn hefði einhvers staðar orðið að liði, - og sú liðsemd var nú honum að þakka.

Við þessar hugsanir greip Stein slíkur guðmóður, að hann fór að syngja með meiri ákafa og innileik en áður. Það var ekki laust við glímuskjálfta í röddinni, en það átti einmitt prýðilega við sönginn; því meira líktist hann prestslegu bænakvaki. Jafnframt fylgdi nú söngnum meira og meira af prestslegum tilburðum: knéfalli, handauppréttingum, krossunum og beygingum, sem Steinn minntist nú að hafa oft séð til presta, þegar þeim þótti mikils við þurfa. Og þótt mestallur söngurinn væri gersamlega óskiljanlegt þvogl, heyrðust þar innan um skýr latínuorð, sem gerðu hann að gildri vöru. - Sunnlendingar voru fastlega sannfærðir um, að presturinn bæði fyrir þeim og öllum öðrum, sem nú áttu bágt, - bæði með þeim mætti og innileik, sem einkenndi dyggustu þjóna orðsins á stund hinna miklu hörmunga, - glímdi í bæninni við helga menn, skoraði fast á þá að stíga nú niður og stöðva bardagann, og bæði jafnframt heitt um miskunn til handa sálum þeirra, sem fallnir voru. Slíkan prest höfðu þeir aldrei fyrir hitt fyrri. Slíka bænarákefð og andagift höfðu þeir aldrei heyrt. Þeir fylltust helgum bænarhug og fóru að taka undir bænirnar með honum í hljóði, jafnframt því, sem þeir voru á verði gegn óvinunum.

Og þar lauk, að öll kirkjan var orðin hrifin af einum bænaranda, sem Steinn gamli söng fyrir. Þar var ein hjörð og einn hirðir.

En þá kom ofurlítið babb í bátinn.

Tveir menn af Norðlendingum ruddust með fasi miklu inn í kirkjuna. Þeir gengu rakleiðis inn í kórinn til prestsins og lögðu hendur á axlir honum.

„Deyjandi maður þarfnast prestsþjónustu,“ mælti annar þeirra. „Komdu fljótt!“

Steinn heyrði að vísu ekki, hvað þeir sögðu, en vissi þó, hvað þeir vildu. „Þar kom að því,“ hugsaði hann.

„Komdu fljótt, - fljótt!“ endurtóku mennirnir.

Steinn reyndi að láta þá skilja, að ekki mætti trufla hann svo í miðri bæninni. En það varð árangurslaust; það var ekkert undanfæri. Mennirnir tóku sinn undir hvorn handlegg á honum og toguðu hann út úr kirkjunni.

En ekki fóru þeir að athuga, hvað þeir voru með á milli sín, fyrr en þeir komu út fyrir kirkjuvegginn. Þá vaknaði hjá þeim einhver grunur um, að hér væri ekki allt með felldu, svo að þeir fóru að gægjast framan í „munkinn“, og loks sviptu þeir munkahettunni aftur af höfðinu á honum.

Það höfuð, sem þá kom í ljós, var svo nauðaljótt, að þeir gátu ekki varist hlátri. Steinn skotraði til þeirra illum augum og var hvort tveggja í senn, reiður og sneyptur.

„Hver ert þú?“ spurði annar maðurinn. Steinn hváði og lagði við eyrað. - „Hver ert þú?“ endurtók maðurinn, sýnu byrstari en fyrr, og færði sig nær eyranu á honum.

„Ég er, - - ég er, - -,“ stamaði Steinn og vissi ekki, hvað hann átti af sér að gera. - „Sjáið þið ekki, hver ég er?“

„Svaraðu umsvifalaust, þrjóturinn þinn,“ mælti maðurinn og hristi Stein óþyrmilega til. „Hver ert þú? - Ert þú heimilisprestur á Grund?“

„Ég -? Heimilisprestur -? Já, - það er að segja -.“

„Það er að segja - hvað? Hvað ertu? - Hvað varstu að gera þarna inni í kirkjunni?“

„Ég -? -. Ekki neitt.“

„Hvað eiga þessar vöflur að þýða? - Við vitum, hver þú ert. Þú ert einn af Sunnlendingum. Þú ætlar að villa okkur sýn með því að látast vera prestur og heilagur maður. - En nú ertu genginn í gildruna, lagsmaður. Nú skaltu ekki sleppa.“

Nú vandaðist málið. Steinn skildi svo mikið, að hans auma líf var í mestu hættu, því að svo var nú hatrið gegn mönnum Smiðs magnað, og svo voru nú hugir manna æstir, að þeim var dauðinn vís, sem í alvöru var grunaður um að hafa fyllt þann flokk.

„Ég - Sunnlendingur?“ stamaði hann og ranghvolfdi augunum af skelfingu. Ég, - sem er fæddur og uppalinn hérna í Eyjafirði og hefi verið hér allan minn aldur.“

„Þú lýgur þessu öllu saman,“ mælti Norðlendingurinn og reiddi upp hárbeittan hníf fyrir framan andlitið á Steini. Jafnframt leit hann glettnislega til félaga síns.

Steinn seig niður á knén af örvæntingu og skalf eins og laufblað.

„Drepið mig ekki, - drepið mig ekki!“ hrópaði hann. „Ég hefi þetta allt af fjandanum honum Snjólfi. Hvers vegna var ég líka að láta hafa mig út í þetta? Hvern þremilinn hafði ég með það að gera að látast vera prestur? - Mér hefði verið skammar nær að sitja á mínum stað og berja fiskinn.“

Í þessu kom Snjólfur að. Hann hafði komist að því, að búið var að senda eftir prestinum, og vissi, að nú var komið í hin mestu óefni, svo að hann flýtti sér allt hvað af tók til að bjarga þessu máli.

„Ég fékk Skreiðar-Stein fyrir mig til að gegna prestsembættinu,“ mælti hann, „til þess að geta verið í bardaganum með ykkur. Ég reytti af honum skeggið, til þess að gera hann dálítið prestslegri, og - þetta hefir allt saman tekist ágætlega. En þetta má enginn maður vita. Ég vona, að þið launið mér liðveisluna með því að þegja yfir þessu.“

Mennirnir könnuðust nú við Snjólf kanúka, er þeir sáu hann í sinni réttu mynd, þótt enn þá væri hann í tötrum Steins. Skeggið, sem hann hafði bundið sér, var hann búinn að rífa af sér. Þeir minntust þess líka að hafa séð hann í skálanum, og nú skildu þeir, hvernig í þessu öllu lá.

„Skreiðar-Steinn prestur!“ sögðu þeir og hlógu. „Annað eins skrípi hefir víst aldrei staðið fyrir altari!“

„Steinn gamli er síst meira skrípi en biskupinn, sem við Norðlendingar höfum nú á Hólum,“ (Jón skalli) mælti munkurinn alvarlegur og togaði Stein úr höndum þeirra. - „Komdu nú, Steinn minn. Þú ert búinn vel að gera. Nú skulum við flýta okkur að hafa hamaskipti aftur.“

Að svo mæltu teymdi hann Stein með sér í skyndi inn í afhúsið, þar sem fiskasteinninn stóð.

„Ég vildi, að ég hefði aldrei látið þig hafa mig út í þennan fjanda,“ nöldraði Steinn og var í illu skapi. - „Hvað skyldi húsmóðirin segja?“

„Húsmóðurina þarftu ekki að óttast. Hún veit vel um, hvað við höfum hafst að. - Svona, vertu nú fljótur!“

„En fiskasteinninn -! Allur löðrandi í blóði. - Og fiskurinn! - Sér er nú hver sóðaskapurinn! Ég hefði betur verið hér sjálfur.“

„Hér hafa þeir þorskar verið barðir í nótt, sem ekki voru þitt meðfæri, Steinn minn. - En tefðu mig nú ekki með þvættingi.“

Steinn var svo hneykslaður yfir útlitinu á öllu inni hjá sér, að hann gat engu öðru sinnt. En munkurinn hafði hraðar hendur. Hann smeygði sér á augabragði úr görmum Steins, fletti síðan af honum munkakápunni og fór í hana sjálfur. Steinn stóð enn á nærklæðunum og litaðist um, þegar munkurinn var horfinn.

„En sá endemis sóðaskapur,“ nöldraði Steinn við sjálfan sig, á meðan hann var að færa sig í garmana sína. „Að sjá fiskasteininn! - Og gólfið, - gólfið líka! - Eins og ekki megi drepa menn án þess að svína allt út, - svona líka greinilega. - Og fiskurinn - nýbarinn - á gólfinu, traðkaður ofan í blóðforina. - Er ekki von, að gangi fram af mér? - Að trúa svona manni fyrir því að berja fisk! - Og fletið mitt -! Eins og það sé ekki eins og allt annað? - Hvar á ég nú eiginlega að setja mig niður? - Og garmarnir mínir - allir blóðstokknir. Nú, munkurinn var þó hvergi sár. Skyldu þeir hafa velt honum upp úr blóðugu gólfinu? - Víst hefði honum verið það meira en mátulegt. - En sleggjan -? Hvar er nú sleggjan? - Sleggjan sést hvergi nokkurs staðar. Ó, þessi bannsettur munkur ! - Sleggjuna hefir hann líklega étið - - - -.“