Veislan á Grund/5. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Veislan á Grund höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

„Komdu, - komdu!“ sagði Snjólfur kanúki við Skreiðar-Stein og ýtti fast í öxlina á honum um leið. „Komdu, komdu!“ Og munkurinn baðaði út höndunum og benti í mesta ákafa.

Steinn sat á þófum við fiskasteininn og danglaði á stóreflis þorski, alveg glerhörðum. Bareflið var stærðar steinsleggja, þannig tilbúin, að gat var höggvið gegnum blágrýtishnöllung og skaftinu stungið inn í það. Steinn gamli var mjög elliboginn, magur og kinnfiskasoginn, en hafði gríðarmikið grátt skegg, sem allt var í flókabendu utan um kinnar og kjálka.

„Komdu, - komdu!“ endurtók munkurinn og benti til dyranna. En allt kom fyrir ekki. Skreiðar-Steinn var álíka heyrnarlaus og fiskasteinninn, sem hann sat við. Munkurinn mátti ekki heldur tala nema í hálfum hljóðum, því hann vildi ekki, að til þeirra heyrðist inn í skálann, þar sem kvenfólkið var nú að verkum sínum. Hann hafði gert sér í hugarlund, að karlinn skildi sig, án þess að hann þyrfti að orga í eyrun á honum; en það var nú ekki því að heilsa. Skreiðar-Steinn glápti á hann stórum augum, sýnilega líka eins skilningslaus og fiskasteinninn.

Munkurinn leit flóttalega um opnar dyrnar inn í skálann, hvort húsfreyjan eða þernur hennar tækju nokkuð eftir því, sem þeim færi á milli úti í afhúsinu. Þegar hann sá, að svo var ekki, þreif hann handfylli sína í skeggið á Steini og togaði hann til dyranna með sér. Með hinni hendinni ógnaði hann honum og gaf honum í skyn, að ef hann hljóðaði, skyldi hann fá að kenna á öðru þaðan af verra. Steinn afmyndaðist í framan af sársauka og varð eins og píslarvottamyndirnar í skinnhandritunum, sem hljóða af alefli, þó að ekkert heyrist til þeirra. Hann þorði ekki fyrir líf sitt að hljóða.

Þannig teymdi munkurinn hann á skegginu alla leið út í kirkju.

„Hvað á þetta að þýða?“ kjökraði Skreiðar-Steinn, þegar munkurinn sleppti honum í kirkjunni. Augun í honum stóðu full af tárum eftir skeggtogunina, og hann var svo reiður, að hann langaði til að ráðast á munkinn og klóra úr honum augun.

„Það skal ég segja þér seinna,“ sagði munkurinn í eyrað á honum, um leið og hann læsti vandlega kirkjuhurðinni.

„Ha, hvað segirðu? - Seinna?“ mælti Skreiðar-Steinn og skalf af reiði. - „Hvers vegna ekki undireins? - - Hvers vegna fæ ég ekki að hafa frið við verk mitt? - ha?“

Munkurinn ýtti honum undan sér innar eftir kirkjunni.

„Ég steindrep þig, lagsmaður, og það hérna í kirkjunni, ef þú lætur mig ekki ráða. Og ég treð upp í túlann á þér, ef þú þegir ekki. - Hefirðu skilið mig?“

„Hvað á þetta að þýða?“ Steinn horfði með mestu skelfingu á munkinn og sá það á honum, að honum var full alvara og hann var til alls búinn. Hann vissi, að munkurinn hafði margfalt afl á við hann, svo að ekki mundi mikið tjá að fljúga á hann.

„Heilaga María!“ andvarpaði hann og greip höndunum - þessum mögru og löngu beinapípum - fyrir andlitið.

„Já, biddu fyrir þér. Það er aldrei nema gott, - að minnsta kosti skaðar það engan. En hafðu ekki hátt, hvað sem öðru líður. Svona, - sestu nú þarna niður. Burt með hendurnar frá glyrnunum! Vertu ekki að skæla, karlræfill. Ég er ekkert farinn að gera þér enn þá. - Svona nú, - vertu nú alveg kyrr.“

Munkurinn tók upp skæri úr pússi sínum og skellti í einni svipan skeggið af öðrum vanganum á Steini gamla.

„Hvað á þetta að þýða?“ orgaði Steinn og braust á fætur.

„Finnurðu til af þessu? - Nei, vertu nú kyrr og góður; ég á hinn vangann eftir, - og svo auðvitað hökuna og varirnar. - Svona, - sestu nú niður aftur. - Hlýddu mér!“

Steinn hlýddi og settist niður og var kyrr meðan munkurinn lauk við að klippa af honum skeggið. En hann æpti upp yfir sig af öllum kröftum og ranghvolfdi augunum af ofboði, þegar munkurinn bar hárbeittan hníf að andlitinu á honum.

„Hvað er þetta? - Þorirðu ekki að sjá hnífsegg? - - Heldurðu, að þú deyir af því, þó að hnífsegg sé strokið um vangabjórinn á þér?“ kallaði munkurinn í eyrað á honum. „Vertu kyrr og rólegur, - að minnsta kosti þangað til ég kem að tönnunum.“

„Tönnunum, - tönnunum! - - Þú ætlar þó ekki að fara að rífa úr mér tennurnar?“

Þótt Skreiðar-Steinn væri nú hátt á sjötugsaldri og margt væri farið að gefa sig í honum, hafði hann allar sínar tennur heilar.

Munkurinn benti honum á tréskurðarmynd af karlmanni, í rauðum og gylltum rómverskum búningi og með stóran, logagylltan geislakrans utan um höfuðið. Hún stóð þar á sérstöku altari.

„Meira en þetta varð hinn heilagi Laurentíus að líða fyrir syndir mannanna,“ mælti hann.

„Það varðar mig ekkert um,“ svaraði Steinn gremjulega. „Mig langar ekkert til að líða fyrir syndir annarra. Ég er enginn píslarvottur. - Hvað á annars þetta allt saman að þýða?“

„En þú hefir aldrei liðið neitt fyrir þínar eigin syndir. - Vertu nú alveg grafkyrr. Ef þú hreyfir þig minnstu vitund, getur það orðið til þess, að ég skeri þig til óbóta. Þú mátt ekki hljóða heldur, því að þá hreyfir þú varirnar - ekki kippast við heldur - ekki kveinka þér. Svona áttu að vera, - alveg grafkyrr.“

Hnífurinn sneið prýðilega, en eggmjúkur var hann eiginlega ekki, og engin sápa við höndina til þess að gera húðina hálli. Tárin runnu úr augunum á Skreiðar-Steini af sársauka, en hann beit á jaxlinn og hélt niðri í sér hljóðunum meðan hann gat. Loks benti hann þó munkinum að hætta um stund og gefa sér ofurlitla hvíld. Munkurinn gerði það. Hann var farinn að hálfkenna í brjósti um karlinn undir þessu gráa gamni.

„Ég hélt, að ég væri engin kveif,“ mælti Steinn og skyrpti út úr sér vatninu, sem sigið hafði í munninn á honum, „en þessi fjandi ætlar alveg að fara með mig. Ertu ekki bráðum búinn?“

„Jú, bráðum, - það er að segja með skeggið. - Mundu eftir hinum helga Laurentíusi, sem þessi kirkja er helguð.“ -

„Mig varðar ekkert um - -.“

„Svona. - Vertu nú kyrr!“

Það var ekkert áhlaupaverk að raka Stein gamla. Að vísu hafði munkurinn rutt því versta úr vegi með skærunum, en hitt var þó nógu illt, sem eftir var. Kinnarnar á honum voru þunnar eins og bókfell, kjálkabörðin skörp og hálsinn ekkert annað en æðar og aflsinar. Munkurinn skóf þetta allt saman einkar vandlega, skildi hvergi hár eftir, og strauk að lokum mjúkri hendinni um hvítan bjórinn.

„Þakka þér nú fyrir. Nú er þetta búið.“

Skapsmunir Steins gamla höfðu sefast allmikið við allan þennan sársauka. Hann sat kyrr sem áður, þó að munkurinn sleppti af honum hendinni.

„Nú eru tennurnar eftir,“ mælti hann.

„Tennurnar. - Já, ég held ég láti þig halda þeim í þetta skipti. Er ekki nóg komið?“

„Jú, víst er nóg komið - og það fyrir löngu. En hvað á þetta allt saman að þýða?“

„Smeygðu þér úr fatagörmunum!“

Steinn leit forviða á munkinn og hlýddi síðan umsvifalaust.

„Þarf ég að fara úr öllu?“ spurði hann.

„Nei, ekki nema ytri fötunum.“

Munkurinn tók einnig að færa sig úr fötunum. Og þegar þeir voru báðir komnir úr, færði hann Stein gamla í munkakuflinn og bretti hettunni fram yfir höfuðið á honum, svo að varla sást í andlitið.

Það af Steini gamla, sem gægðist út úr munkshamnum, líktist ekki nema einu: beinagrind upp úr kirkjugarðinum. Uppandlitið sýndist enn þá blakkara nú, er kjálkarnir voru orðnir mjallahvítir, og augnagjóturnar voru miklu dekkri og shuggalegri en áður. Munkurinn fór nú að færa sig í garma Steins og gat varla varist því að hlæja að þessari sjón, sem frammi fyrir honum stóð. - Steinn hló líka að þessum hamskiptum.

„Hvað á allt þetta að þýða?“ spurði Steinn enn þá einu sinni.

„Það á að þýða það fyrst og fremst,“ mælti munkurinn, „að nú ert þú orðinn munkur og heimilisprestur á Grund, en ég orðinn fiskibarsmíðakarl. Skilurðu nú? - Auðvitað getur enginn munkur verið með gráan skegglubba. Krúnurakaður varstu fyrir, - það er að segja sköllóttur, - svo að nú ertu alveg eins og þú átt að vera. Ég efast um, að heilagir dýrlingar gætu þekkt þig frá reglulegum kanúka.“

„En hver er tilgangurinn með þessu öllu saman?“

„Sestu nú niður hjá mér, og svo skal ég segja þér, hvernig í öllu þessu liggur.“

Hann sagði nú Skreiðar-Steini allt, sem hann vissi um komu Sunnlendinga og viðbúnaðinn á Grund. Steinn hafði komist að því, þótt hann sljór væri, að eitthvað óvanalegt var í efni. Nú skýrði munkurinn þetta allt fyrir honum og bætti síðan við:

„Húsmóðirin hefir skipað mér að hafa opna kirkjuna og vera hér sjálfur til að taka við þeim, sem hingað kunna að leita. Og hún lítur eftir því, að ég geri það. En ég vil vera henni sjálfri nálægur. Og ég get það ekki, nema ég sé ósýnilegur í minni sönnu mynd. Þú skilur það, karltetur, sem einu sinni hefir þó verið maður, að ég hefi ekki skap til að húka hér úti í kirkju, en vita menn berjast í skálanum. - Húsmóðirin gengur djarft í hættuna og ætlar sér kannske helst til mikið. Henni skal ekki verða misboðið í neinu, meðan ég má mín nokkurs. Snjólfur kanúki mundi fljótt verða hrakinn í burtu, en við Skreiðar-Steini mun enginn maður amast. Nú bind ég mér grátt skegg, fer í garma þína og sit í sæti þínu. Þá er ég ekki húsmóður minni fjarlægur -- og get kannske orðið henni að liði.“

„En hvern þremilinn á ég að gera hér?“

„Ég sagði þér það áðan. - Þú átt að vera heimilisprestur á Grund.“

Steinn ætlaði að springa af undrun:

„Ég -? - Heimilisprestur -?“

„Já, rétt til morguns. - Heldurðu ekki þú lifir það af?“

„Ég, - sem ekki kann að lesa.“

„Lesa -! Heldurðu, að allir prestar nú á dögum kunni að lesaa - Ég treysti mér til að troða í þig einhverjum latínuþulum utanbókar, ef aðeins væri tími til þess. - Líttu nú á, hérna er „breviarium“ - -.“

„Er - hvað -?“

„Bre-vi-a-ri-um“ stafaði munkurinn hægt og skýrt í eyrað á honum. „Það gerir ekkert til. Þú getur ekkert í því lesið hvort sem er. Það er allt á latínu. Þú getur stytt þér stundir við að skoða í því upphafsstafina. Líttu á. Þeir eru snilldarvel gerðir. - Þú átt að láta það liggja opið fyrir framan þig á altarinu og fletta því við og við. Svo geturðu sönglað eitthvað í hálfum hljóðum. - Eitthvað, sem þú kannt.“

„Ég kann ekkert, alls ekkert, - eitthvert hrafl úr Helga kviðu Hundingsbana - -.“

„Nei, sussu nei, - í öllum bænum. Það stoðar ekki.“

„Auðvitað of óguðlegt?“

„Nei. - En það verður að vera eitthvað, sem enginn skilur. Mundu eftir því, að það á að vera latína.“

„Latína -? Já, einmitt það.“

„Sönglaðu eitthvað, - einhverja vitleysu. Um að gera, að enginn skilji það, - enginn hafi hendur á því. Þá er það latína - handa almenningi. - Kanntu enga latínubæn?“

„O-h, blessaður vertu. - Einhverju var verið að stagla í mig, þegar ég var strákur, en - ég er búinn að steingleyma því.“

„Kanntu ekki Ave Maria?“

„Hvernig er það?“

„Ave, Maria, gratia plena, dominus tecum - -“ stafaði munkurinn aftur í eyra honum.

„Jú, eitthvað rámar mig í þetta.“

„Nú, þá er þér borgið. - Nú skal ég fríska þetta upp fyrir þér. Svo getur þú stagast á því - og fyllt svo út eyðurnar með einhverjum þvættingi úr sjálfum þér.“

Munkurinn hafði nú upp nokkrum sinnum Ave, Maria, orð fyrir orð, og lét Stein hafa hvert orð upp eftir sér, þangað til hann var farinn að liðkast talsvert í bæninni.

„Nú skal ég kenna þér meira,“ mælti munkurinn. - „Notaðu nú einhver af orðunum í þessari einu þulu, sem þú kannt, fyrir upphafsorð, syngdu þau svo hátt og skýrt, að nokkurn veginn heyrist orðaskil. Síðan geturðu dregið svo niðri í þér, að ekkert skiljist, og þá er sama, hvað þú segir. Þetta er gamalt bragð klerka, sem illa kunna. Best, auðvitað, að þessi fáu orð, sem heyrast, séu úr einhverri latínuþulu. - En mundu eftir einu. Þú þarft ekki að syngja, nema einhver heyri til þín.“

„En - ef einhver skyldi nú koma, sem þyrfti að halda á verulegri prestsþjónustu, - til dæmis einhver, sem særður væri til ólífis -?“

„Ef hann er hreint að drepast, þá geturðu sullað olíunni á ennið á honum og hellt ofan í hann vænum sopa af rauðvíni, - það er hvort tveggja hérna inni í altarinu. Þetta er olían, og þetta er rauðvínið. - Svo geturðu þulið eitthvað yfir honum, - eitthvað hjartnæmt, - sem enginn skilur, auðvitað, og verið yfir honum meðan hann gefur upp goluna. - Nei, þú mátt ekki drekka rauðvínið sjálfur - -.“

„En - allir Eyfirðingar þekkja mig - -.“

„Eyfirðingar -,“ sagði munkurinn og rak upp stór augu. - „Eyfirðingar -! - - Heldurðu, að Eyfirðingar flýi í kirkjuna! Nei, það gera ekki aðrir en Sunnlendingar að þessu sinni. Það máttu reiða þig á, að nú verður saumað að þeim kóngsmönnum svo, að þeir, sem ekki verða strádrepnir, kunna að verða kirkjugriðunum fegnir, og það er þeirra vegna, sem kirkjan er höfð opin. Og Sunnlendingar þekkja þig ekki.“

Skreiðar-Steinn þagnaði og hugsaði um þetta veglega og vandasama hlutverk, sem honum hafði verið fengið. Munkurinn hélt áfram:

„Vertu nú trúr og reyndu að gera þetta svo, að ekki verði uppvíst fyrr en seinna. Ég efast ekki um, að húsfreyjan verði þér þakklát fyrir það, og ég skal muna þér það lengi. Ef þú dugar vel í nótt, skal ég sjá þér fyrir hægari vinnu eftirleiðis en þeirri, sem þú hefir hingað til haft.“

Steinn virtist hlusta á það, sem munkurinn sagði, eins og í draumi, en þegar munkurinn minntist á vinnu hans, var sem hann vaknaði.

„En - harðfiskinn - -? Hvernig fer um hann?“

„Harðfiskinn ætla ég að berja.“

„Þú -?“ Andlitið á Steini varð allt að einu spurningarmerki.

„Já, ég -! Finnst þér það nokkur undur? - Eða heldurðu, að ég þykist of góður til þess?“

„Nei, þú kannt ekki að berja harðfisk.“

„Jæja, heldurðu það?“ mælti munkurinn hálfhissa.

Skreiðar-Steinn rétti úr sér, eins og siðameistari, sem finnur mikið til yfirburða sinna.

„Húsfreyjan er vandlát,“ mælti hann. „Það er meiri vandi en þú heldur að berja fiskinn á Grund. Þú kannt að þylja latínu betur en ég, en þú kannt ekki betur að berja harðfisk en ég.“

„Ég tek þakksamlega allri tilsögn,“ mælti munkurinn og brosti.

En Steini gamla var full alvara.

„Fyrst á að leggja fiskinn flatan á steininn,“ mælti hann, „og berja hann með þéttum, jöfnum höggum, undur hægt, svo að fiskurinn hrökkvi ekki upp úr roðinu. Hann má ekki molna, þó að hann sé alveg glerharður. Það verður að mýkja hann - ofurgætilega - gleyma ekki þunnildunum, og umfram allt ekki eyruggunum og dálkstirtlunni. Allt á að berja jafnvel. Svo þegar fiskurinn fer að mýkjast, á að leggja hann tvöfaldan saman og berja hann á roðið. - Berja hann undur hægt, en fylgja höggunum vel eftir, - sjá um það, að ekkert detti úr honum. Berja hann svo, að hann verði allur lungamjúkur. - Ef þú lætur nokkurn mola upp í þig, þá færðu ekki mat þann daginn. Og húsfreyjan vill ekki sjá neina mylsnu kringum steininn.“

„Gott og vel. - Er það meira?“

„Ef fiskurinn er ekki svo vel barinn sem húsmóðurinni líkar, þá færðu utan undir með honum, - og svo verður þér skipað að bæta um hann á hvíldartímanum þínum. - Ég þekki þetta - því miður - af eigin reynslu.“

„Jæja, - vertu nú sæll, karltetur, og hafðu engar áhyggjur af fiskinum, sem ég ber. - Mundu nú eftir því að gegna prestsembættinu trúlega.“

„Og mundu eftir að berja fiskinn vel. - Ekkert má hrökkva úr honum - og hann á að vera lungamjúkur - allur saman - lunga-lungamjúkur.“

Á þessu var Skreiðar-Steinn enn að stagast, þegar munkurinn var kominn út úr kirkjunni.

Um kvöldið, þegar Helga húsfreyja gekk um allt, úti og inni, til að líta eftir, hvort allt væri nú eins og hún hafði fyrir lagt, leit hún einnig inn í kirkjuna.

Þar hallaðist „munkurinn“ fram á Maríu-altarið, fletti messubókinni og sönglaði eitthvað í hálfum hljóðum. -

Munkakuflinn þekkti hún, en undarlega fannst henni hann fara um herðarnar, og eins kom henni það undarlega fyrir. að munkurinn hafði hettuna fram yfir höfuð, er hann stóð fyrir altarinu.

Þegar hún gekk fram hjá fiskasteininum, sat „Skreiðar-Steinn“ þar með síðan flókahatt, togaðan fram yfir andlitið, eins og hann var vanur. Hún leit skarpt á hann, um leið og hún gekk fram hjá. - Hendurnar voru nægilega blakkar og höggin nægilega lin og letileg. - En undarlega var Steinn orðinn breiðleitur.

Hún brosti við og þagði.