Veislan á Grund/6. kafli

Úr Wikiheimild

Borðið stóð dúkað góðri stundu áður en Sunnlendingar komu. Silfurbúin dýrahorn stóðu full af svalandi miði fyrir sætum allra virðingarmanna. Knífar og forkar voru lagðir hjá hverjum diski. Mundlaugar með hreinu vatni höfðu verið bornar inn í hverja lokrekkju. Hvert, sem litið var, var allt veislubúið, allt dubbað og dýrlegt, ríkmannlegt og rausnarlegt. Þannig stóð það og beið gestanna.

Lengi hafði sést til þeirra. Frammi í Eyjafjarðardalnum þyrluðust upp feikimiklir jóreykir, sem boðuðu komu þeirra, góðri stundu áður en nokkur maður sást. Síðan sást öll sveitin ríða í þéttri þyrpingu framan sléttar grundirnar og fara allgeyst. Hjálmar og skildir blikuðu, fjaðraskúfar blöktu og spjótaoddar brunnu sem blys í skini kvöldsólarinnar, sem nú var að setjast bak við himinháar fjallabrúnir í vestrinu. Skammt suður frá bænum slógu þeir tjöldum og sprettu af hestum sínum. Þar tóku þeir á sig viðhafnarklæði sín, og þar skildu þeir eftir nokkra menn til að gæta hesta og tygja. En rúmir þrír tugir manna gengu fylktu liði heim til bæjarins, allir í litklæðum, allir alvopnaðir og allir í brynjum undir kyrtlunum.

Helga stóð úti, þegar þessi glæsilega ræningjasveit gekk í hlaðið. Hún var í kyrtli bláum og hafði yfir sér skarlatsrauða skikkju, lagða hvítum marðarskinnum um kraga og barma. Steinasörvið blikaði sem hálfkulnaðar glæður á mjallhvítum hálsinum, og silfrið skein eins og speglar á breiðum og hvelfdum barminum. Ennisspöngin reis tignarlega úr dökku hárinu, eins og blikandi jökulskör yfir úfnum hraunsjó, og guðvefjarslæðan liðaði sig fagurlega ofan um axlir og herðar utan yfir hárinu, eins og þýð sumarmóða. Kyrtilermarnar voru víðar, saumaðar allt í kring með silfurrósum. Mjallhvítir, holdugir handleggir sáust upp undir axlir, margbentir gildum baugum. Hendurnar voru vöðvaþéttar og mjúkar, fingurnir jafnt framdregnir og fingurgull á hverjum fingri. Sproti stokkabeltisins náði allt í skaut niður, og undan rósasaumuðum kyrtilfaldinum sá á nettan fót, með silfursylgju þvert yfir ristina.

Hún gekk nokkur spor á móti Smið hirðstjóra og rétti honum hönd sína. Svipur hennar var harður og göfugmannlegur, og kenndi þar engrar auðmýktar. Fas hennar og látbragð var meira en húsfreyjulegt; það var drottningarlegt, - arfurinn frá Oddaverjum.

Smiður laut henni djúpt á hermannavísu, tók um hönd hennar og bar hana upp að vörum sér. Hvorugt þeirra mælti orð frá munni fyrst í stað. Menn hans stóðu hljóðir, - gagnteknir af þessari opinberun kvenlegrar fegurðar, kvenlegrar auðlegðar, kvenlegrar kurteisi og kvenlegrar stórmennsku.

Smiður Andrésson bar af mönnum sínum, ekki svo mjög að klæðaburði, heldur að vexti og framgöngu. Hann var hvasseygður og svipmikill, ekki fríður að vísu, en vel limaður og allur vel á sig kominn. Seinn var hann til svara, og var sem hann vægi orðin. Andlitið var þreytulegt, mótað af hörku og viljamagni, ástríðum og ofnautn. Allur minnti hann meira á sjóræningja en hirðstjóra á landi og handhafa konungsvaldsins.

„Ég þykist sjá, að þér séuð Smiður hirðstjóri,“ mælti húsfreyjan hægt og hóglega. „Hér er yður fyrirbúin gisting með svo marga menn, sem þér viljið með yður hafa og hús mín geta veitt skýli. Ég vona, að þér afsakið það, sem á kann að bresta sæmilegar viðtökur, og hafið það hugfast, að hér eruð þér ekki í kóngsgarði, heldur á norðlenskum bóndabæ.“

Smiður þakkaði henni kuldalega og hæversklega fyrir boðið og mælti síðan:

„Svo er að sjá, sem yður hafi komið frétt af ferðum vorum, húsfreyja.“

„Ekki er því að neita,“ mælti húsfreyjan og brosti við. „Lögréttumenn, sem að sunnan komu, kváðu yðar von norður. Ég gat mér til, að þér munduð ríða Vatnahjallaveg, og gerði yður dagleiðir. Nú sé ég, að áfangar mínir hafa reynst nærri sanni. Sjálfsagt stendur yður nú veisla fyrirbúin í öðrum dölum Norðurlands, og kannske ríkmannlegri en hjá mér. Eigi að síður veitist mér nú sá heiður að hafa yður að gesti mínum fyrst allra Norðlendinga. - Gerið svo vel að fylgja mér í hús mín, sem nú standa yður og mönnum yðar opin.“

Hún tók Smið við hönd sér og leiddi hann inn í skálann og þegar til öndvegisins. Menn hans gengu á eftir.

„Þetta sæti er yður fyrirhugað,“ mælti hún. „Síðan bið ég yður að skipa mönnum yðar sjálfur til sætis, því að ekki er mér kunnugt um mannvirðingar þeirra.“

„Það mun ég gera að vilja yðar,“ mælti Smiður hæversklega. „En fyrst vil ég biðja yður að gera mér þann heiður að sitja hjá mér í öndveginu.“

„Þar mun einhver manna yðar verðugri til,“ mælti Helga með hæverskulegri undanfærslu. „En þér hafið húsbóndavöld meðan þér dveljið hér, og þyki yður nokkurs um vert, skal þetta látið eftir. - Mundlaugar standa mönnum yðar fyrirbúnar í öllum lokrekkjum, og þar geta þeir lagt af sér vopn sín og herklæði, ef þeir vilja, áður en þeir ganga til borðs. - Nú skal ég kalla á þernur mínar, mönnum yðar til aðstoðar.“

Við bendingu húsfreyjunnar gekk allur kvennaskari hennar inn í skálann.

Þær voru allar prýðilega búnar og báru slíkt skart og kvensilfur, að enginn hafði séð slíkt fyrr á griðkonum. Rjóðar voru þær og feimnar, er þær komu fyrst inn, og sumar virtust nokkuð óstyrkar og kvíðandi. Húsfreyjan bað þær fylgja hverjum manni til þeirrar lokrekkju, er hann vildi sér sjálfur kjósa, og hjálpa þeim til að þvo sér og greiða.

Smiður hafði litið yfir allan skálann, er hann kom inn, og sömuleiðis hið ríkmannlega búna borð, og ekki látið sér um neitt finnast. Svo var sem fyndist honum slíkur viðbúnaður skyldur og sjálfsagður, er slíkir höfðingjar voru á ferð. En þegar þjónustustúlkurnar komu inn, svo búnar sem þær voru, var sem hann sæi meira en hann hefði búist við. Hann starði undrandi á þennan fríða hóp þjónustusamra anda, sem nú dreifði sér um salinn á meðal manna hans. Einhverju óvæntu skaut upp í huga hans, sem lýsti í augum hans og setti blæ á svip hans. Hann þagði um stund, en það var sem nýtt líf færðist um hann allan.

Húsfreyjan stóð við hlið hans og las svipbrigði hans.

„Þér eruð kvenmargar heima fyrir, húsfreyja,“ mælti hann.

„Það er ég venjulega,“ mælti Helga. „En nú ber meira á því en vanalega, þar sem engir karlmenn eru heima. Bóndi minn er ekki heima og engir karlmenn, sem teljandi séu.“

„Einar bóndi mun þurfa manna sinna við til fylgdar sér, er hann ríður milli búa sinna,“ mælti Smiður og glotti við.

„Einar bóndi minn er stórættaður og vill halda við höfðingsskap feðra sinna,“ mælti Helga skarpt og fast. „Þess vegna verðið þér nú að una þeirri gestrisni, sem við konur einar getum veitt.“

„Ekki mun ég sakna þess, þótt bóndi þinn og húskarlar hans séu ekki heima,“ mælti Smiður og glotti við sem áður. „Ef til vill hitti ég hann síðar og næ þá að kynnast honum - á Alþingi, ef ekki annars staðar. Og síst mundi mér auðnast svo náið samneyti við yður, sem ég geri mér von um að verða aðnjótandi, ef hann væri heima.“

Helga beit á vörina og brosti íbyggilega:

„Þegar bóndinn er ekki heima, ber húsfreyjunni að gegna gestrisnisskyldu hans, - að svo miklu leyti sem hún er fær um. Og ekki skal ég láta mitt eftir liggja.“ Síðan leit hún fast á hirðstjórann og bætti við: „En þess vænti ég fastlega, að engum yfirgangi beitið þér eða líðið mönnum yðar að beita við oss varnarlausar konur. Vitið það, að Norðlendingar eru menn stórgeðja og vandir að sóma sínum, og svo eru konur þeirra líka og engu síður. Þeir mundu hefna þess grimmilega, ef oss konum væri ofbeldi sýnt, hverjir sem í hlut ættu og hverjar sem afleiðingarnar yrðu. Og við konur mundum ekki letja þá.“

Smiður hlustaði á orð hennar með köldum þóttasvip og íbyggilegu glotti og mælti síðan:

„Ekkert er oss slíkt í hug, og ekkert er oss fjær skapi, kóngsmönnum, en ef það skyldi af ferðum okkar spyrjast, að við níddumst á konum. - Hitt er annað mál, að kvenhylli hefir föruneyti mínu aldrei brugðist, hvar sem við höfum komið. Og heldur mundi mér þykja bresta á gestrisnina á Grund, ef húsfreyjan meinaði þernum sínum að umgangast menn mína til almenns mannfagnaðar, - þótt hætt kynni að vera við, að einhver þeirra yrði fyrir örvum hins blinda ástarguðs. - Þar sem vér höfum áður gist, hafa konur jafnan þjónað oss til sængur, og það eins, þótt gnægð karlmanna hafi verið heima.“

„Svo skal einnig verða hér,“ mælti Helga. „Griðkonur mínar eiga sig sjálfar, eftir að dagsverkum þeirra er lokið, og ábyrgjast sig sjálfar. Hvernig þær haga sér gagnvart mönnum yðar, get ég ekki fremur ráðið við en þér getið við það ráðið, hvernig þeir koma fram, hver í sínu lagi. Aðeins vil ég, að við beitum myndugleik okkar, hvort í sínu lagi, til að viðhalda almennu velsæmi. Þess get ég krafist að launum fyrir gestrisni mína.“

„Menn mínir eru velsæmi vanir,“ mælti Smiður, með sömu hægð og áður. „Enginn mun ræna hér eða stela, og enginn mun beita hér ofríki eða ójöfnuði. En hvað menn mínir kunna að hvísla í eyru griðkvenna yðar, læt ég mig litlu skipta. Það fer ekki fleiri á milli en það, sem ég kann að hvísla í eyru yðar, er þér fylgið mér til sængur. - Því að þá sæmd vona ég, að þér gerið mér sjálf.“

„Þeirrar sæmdar ann ég ekki neinni af þjónustustúlkum mínum,“ mælti Helga og glotti við. „En þér hafið enn ekki notað mundlaug, herra minn. Lokrekkja bónda míns stendur yður til reiðu. Má ég ekki fylgja yður þangað?“